Úrskurður yfirskattanefndar
- Takmörkuð skattskylda
- Tvísköttunarsamningur
Úrskurður nr. 268/2006
Gjaldár 2005
Lög nr. 90/2003, 3. gr. 1. tölul. Auglýsing nr. 22/1975, um samning milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir, 4. gr., 6. gr., 19. gr.
Kærandi, sem var búsettur í Bandaríkjunum, var talinn bera takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna starfa sinna um borð í flugvél sem skráð var hér á landi. Þar sem launatekjur kæranda fyrir störfin voru talin upprunnin hér á landi í skilningi tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna var skattlagningarréttur teknanna hér á landi.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi, sem er búsettur í Bandaríkjunum, taldi sér til tekna í skattframtali sínu árið 2005 laun og dagpeninga frá X hf. að fjárhæð samtals 2.332.799 kr. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005 var miðað við að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og var álagningunni hagað í samræmi við 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. tölul. 70. gr. sömu laga.
Með kæru til skattstjóra, dags. 17. ágúst 2005, gerði kærandi athugasemdir við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005 og kvaðst mótmæla skattlagningu á launum frá X hf. vegna starfa frá og með 1. september 2004. Í kærunni benti kærandi á að hann hefði hvorki búið né starfað hér á landi frá árinu 1971 og einungis komið í stuttar heimsóknir hingað til lands frá þeim tíma. Kom fram að kærandi starfaði fyrir X hf. utan Íslands og uppfyllti engin skilyrði til að njóta félagslegra réttinda hér á landi, svo sem vegna sjúkratrygginga, á sama hátt og aðrir skattaðilar hér á landi. Þrátt fyrir það væri kærandi skattlagður með sama hætti. Kvaðst kærandi hafa greitt skatta í Bandaríkjunum um langt árabil og óskaði eftir því að fá að greiða skatta þar áfram þar sem kærandi væri búsettur í Bandaríkjunum.
Með kæruúrskurði, dags. 13. desember 2005, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda að því undanskildu að skattstjóri felldi niður álagningu gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra á kæranda að fjárhæð 5.738 kr. Í úrskurðinum benti skattstjóri á að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2005 vegna launatekna sem hann hefði aflað hér á landi, sbr. 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, og tók fram að álagning á kæranda færi eftir 1. tölul. 70. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 69. gr. þeirra. Tók skattstjóri fram að samkvæmt staðgreiðsluskilum vegna kæranda hefði hann starfað á vegum X hf. frá september 2004 til ársloka það ár og verið skattlagður hlutfallslega miðað við þann tíma, þ.e. persónuafsláttur verið reiknaður í 122 daga og þannig verið ákvarðaður 109.983 kr. Næmi „útsvars- og óuppreiknaður tekjuskattsstofn“ við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2005 1.589.060 kr. Þá vísaði skattstjóri til ákvæðis um uppruna tekna í 6. tölul. 6. gr. tvísköttunarsamnings milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku, sbr. auglýsingu nr. 22 frá 1975 sem birt hefði verið í C-deild Stjórnartíðinda, og tók fram að launagreiðandi kæranda, X hf., væri skráð með heimilisfang hér á landi. Kærandi starfaði því um borð í loftfari í eigu félags sem skráð væri á Íslandi og bæri þar af leiðandi takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2005, sbr. 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 og fyrrgreint ákvæði í tvísköttunarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Í því sambandi hefði heimilisfesti kæranda ekki áhrif. Að teknu tilliti til framanritaðs yrði að hafna kröfu kæranda um að álagning opinberra gjalda hans gjaldárið 2005 yrði felld niður. Þá væri ekki á valdsviði skattstjóra að fjalla um réttmæti skattlagningar umræddra tekna kæranda. Í niðurlagi úrskurðarins gat skattstjóri þess að gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra 5.738 kr. hefði ranglega verið lagt á kæranda og væri því fellt niður.
II.
Með kæru, dags. 3. janúar 2006 (misritað 2005), er barst yfirskattanefnd 10. s. m., hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 13. desember 2005, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði endurskoðaður. Þá kemur fram að tilefni kærunnar sé sú að ástæða sé til að ætla „að mismunur sé gerður á íslenskum og erlendum ríkisborgurum sem starfa um borð í loftfari eða skipi sem skráð er hér á landi án tillits til raunverulegrar búsetu, sem og að þeir Íslendingar sem búsettir eru erlendis en greiða opinber gjöld á Íslandi njóta ekki sjálfsagðrar verndar og réttinda af hálfu íslenska ríkisins í samræmi við þær greiðslur sem þeir inna af hendi“, og megi þar t.d. nefna bætur almannatrygginga. Einnig sé minnt á að frá liðnum árum séu mörg dæmi þess að íslenskir starfsmenn íslenskra flugfélaga hafi búið og starfað erlendis og greitt þar skatta og skyldur.
III.
Með bréfi, dags. 10. mars 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
IV.
Kærandi í máli þessu er búsettur í Bandaríkjunum og var við störf á vegum flugfélagsins X hf. á árinu 2004. Í skattframtali sínu árið 2005 tilgreindi kærandi laun og dagpeninga frá X hf. að fjárhæð samtals 2.332.799 kr. vegna þessara starfa. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005 var miðað við að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og var álagningunni hagað í samræmi við 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. tölul. 70. gr. sömu laga.
Samkvæmt 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 skulu allir menn, sem dvelja hér á landi og njóta launa fyrir störf sín hér, greiða tekjuskatt af þeim launum. Er tekið fram að hér með teljist þeir menn sem atvinnu stunda hér á landi, eða um borð í loftfari eða skipi sem skráð er hér á landi, þar með talið á grundvelli samninga um útleigu á vinnuafli, þótt dvöl þeirra eða starf vari 183 daga samtals eða skemur á sérhverju 12 mánaða tímabili. Eftir því sem ráðið verður af gögnum málsins starfaði kærandi á árinu 2004 um borð í loftfari sem skráð var hér á landi og koma m.a. engar athugasemdir varðandi það atriði fram í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, sem barst 10. janúar 2006. Er því ljóst að kærandi bar takmarkaða skattskyldu hér á landi á grundvelli framangreinds ákvæðis 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 gjaldárið 2005 vegna umræddra starfa á vegum X hf. á árinu 2004. Við álagningu á kæranda bar hins vegar að gæta ákvæða samnings milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 22/1975 í C-deild Stjórnartíðinda.
Í 4. gr. fyrrnefnds tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna er að finna almennar reglur um skattlagningu samkvæmt samningnum. Í 1. tölul. greinarinnar kemur fram að aðila, heimilisfastan í öðru aðildarríkinu, megi skattleggja í hinu aðildarríkinu af sérhverjum tekjum, sem eiga uppruna sinn í síðarnefnda aðildarríkinu, og aðeins af slíkum tekjum, þó með þeim takmörkunum sem í samningnum greinir. Skuli beita reglum 6. gr. samningsins (uppruni tekna) við ákvörðun á uppruna teknanna.
Samkvæmt 1. tölul. 19. gr. tvísköttunarsamningsins má skattleggja vinnulaun, starfslaun og svipaðar greiðslur sem maður, heimilisfastur í öðru aðildarríkinu, fær fyrir vinnu sína eða starfa, sem hann innir af hendi sem launþegi, í því aðildarríki. Með undantekningum, sem raktar eru í 2. tölul. 19. gr. samningsins, má einnig skattleggja slíkar greiðslur, er eiga uppruna sinn innan hins aðildarríkisins, í því aðildarríki. Þá er svohljóðandi ákvæði í 3. tölul. 19. gr. samningsins:
„Þrátt fyrir ákvæði 2) tl., skulu greiðslur, sem maður fær fyrir vinnu sína eða starfa sem launþegi um borð í skipum eða loftförum, sem rekin eru af aðila, heimilisföstum í öðru aðildarríkinu, í alþjóðlegum flutningum eða við fiskveiðar á úthöfunum, vera undanþegnar skatti í hinu aðildarríkinu, ef maðurinn tilheyrir fastri áhöfn skipsins eða loftfarsins.“
Um uppruna tekna er sem fyrr greinir fjallað í 6. gr. tvísköttunarsamningsins. Í 1. og 2. málsl. 6. tölul. greinarinnar er svohljóðandi ákvæði:
„Tekjur, sem maður fær vegna vinnu sinnar eða starfa, hvort heldur sem launþegi eða vegna sjálfstæðs starfs, skal með fara sem tekjur, er eigi uppruna sinn í aðildarríki, aðeins að því marki, sem starfið er leyst af hendi í því aðildarríki. Tekjur af starfi, sem innt er af hendi um borð í skipi eða loftfari, sem er rekið af aðila, heimilisföstum í öðru aðildarríkinu, í alþjóðlegum flutningum eða við fiskiveiðar á úthöfunum, skal með fara sem tekjur, er eigi uppruna sinn í því aðildarríki, ef starfið er innt af hendi af manni, sem tilheyrir hinni föstu áhöfn skips eða loftfars.“
Samkvæmt því sem fyrir liggur um störf kæranda í þágu X hf. á árinu 2004 verður að leggja til grundvallar að uppruni launatekna kæranda fyrir umrædd störf sé hér á landi í skilningi tvísköttunarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, sbr. fyrrgreint ákvæði 2. málsl. 6. tölul. 6. gr. samningsins. Er skattlagningarréttur teknanna því hér á landi, sbr. 1. og 3. tölul. 19. gr. samningsins. Vegna athugasemda umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar varðandi ætlaða mismunun með tilliti til búsetu starfsmanna íslenskra flugfélaga er rétt að taka fram að ólík skattaleg meðferð tekna af störfum um borð í flugförum getur helgast af mismunandi ákvæðum í tvísköttunarsamningum Íslands við önnur ríki að því er varðar tekjur af slíkum störfum, sbr. t.d. ákvæði 15. gr. í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Þýskalands, sbr. auglýsingu nr. 13/1971 í C-deild Stjórnartíðinda, og 15. gr. í tvísköttunarsamningi milli Norðurlandanna, sbr. auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda.
Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.