Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Vantaldar tekjur
  • Málsmeðferð skattstjóra

Úrskurður nr. 289/2006

Gjaldár 2005

Lög nr. 90/2003, 96. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.  

Skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda vegna tekjufærslu á vanframtalinni verktakagreiðslu. Kæruefni málsins var álagsbeiting skattstjóra af þessu tilefni. Vegna annmarka sem yfirskattanefnd taldi að hefðu verið á málsmeðferð skattstjóra var hin kærða álagsbeiting ómerkt.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 9. janúar 2006, lagði skattstjóri fyrir kæranda með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, að skýra hvers vegna verktakagreiðsla frá X-skóla að fjárhæð 110.000 kr. á árinu 2004, sbr. launauppgjöf, hefði ekki verið talin fram í skattframtali kæranda árið 2005. Varðandi skattskyldu vísaði skattstjóri til 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt kom fram að ef kærandi teldi að umrædd greiðsla væri vegna eigin atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi færi um skattskyldu samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 og þá kynni kærandi að eiga rétt til frádráttar á grundvelli ákvæða 31. gr. laganna, en ef svo væri þyrfti jafnframt að leggja fram ársreikning, sbr. 1. mgr. 90. gr. sömu laga. Skattstjóri tók fram að ef því yrði ekki mótmælt skriflega að um vantaldar tekjur væri að ræða yrðu greindar fjárhæðir færðar kæranda til tekna auk 25% álags, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 18. janúar 2006, var greint frá því að kærandi hefði á árinu 2004 tekið að sér smáverk með vinnuheitinu „Z“. Kærandi hefði talið að hún fengi styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna vegna verkefnisins, en í framkvæmd hefði X-skóli fengið styrkinn og ráðstafað honum síðan að hluta til sem verktakagreiðslum. Kærandi hefði ekki munað eftir þessu verkefni við framtalsgerð 2005. Hún hefði haft nokkurn kostnað af verkefninu og væri meðfylgjandi rekstrar- og efnahagsreikningur vegna starfsemi hennar árið 2004. Færi kærandi fram á leiðréttingu á framtali sínu með tillliti til þessara gagna. Það hefði ekki verið ásetningur kæranda að skjóta tekjum undan skatti. Einnig mætti benda á að þetta væri í fyrsta og eina skiptið sem kærandi hefði orðið uppvís að því að tíunda ekki tekjur sínar. Samkvæmt rekstrarreikningi, sem fylgdi svarbréfi umboðsmanns kæranda, voru tekjur tilgreindar 110.000 kr. vegna seldrar ráðgjafar, en gjöld 103.795 kr., þar á meðal reiknað endurgjald 48.000 kr.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. febrúar 2006, tilkynnti skattstjóri kæranda að innsendur rekstrarreikningur hennar væri tekinn til greina. Samkvæmt því og með heimild í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 væru 48.000 kr. færðar til tekna í reit 24 í skattframtali kæranda árið 2005, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003, og 6.205 kr. færðar til tekna í reit 62 sem hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, auk 25% álags að fjárhæð 13.551 kr., sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, og opinber gjöld kæranda gjaldárið 2004 endurákvörðuð til samræmis við þessar breytingar á skattframtalinu. Ekkert lægi fyrir að um væri að ræða óviðráðanleg atvik eða atvik sem kæranda yrði ekki kennt um og því ætti 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 ekki við.

II.

Með kæru, dags. 13. mars 2006, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 28. febrúar 2006, til yfirskattanefndar. Af hálfu kæranda er þess krafist að álagsbeiting skattstjóra verði felld niður. Er áréttað að um mistök kæranda hafi verið að ræða en hvorki ásetning til undandráttar tekna né stórkostlegt gáleysi.

III.

Með bréfi, dags. 12. maí 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

IV.

Með bréfi sínu, dags. 9. janúar 2006, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á vanfærslu greiðslu frá X-skóla að fjárhæð 110.000 kr. til tekna í skattframtali árið 2005. Vísaði skattstjóri til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 18. janúar 2006, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2005 vegna tekjufærslu umræddrar greiðslu sem verktakagreiðslu að teknu tilliti til frádráttar rekstrarkostnaðar samkvæmt innsendum rekstrarreikningi, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 28. febrúar 2006.

Í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið svo á um að sé gerð breyting á framtali eða sköttum eftir álagningu eða fari fram ný skattákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr. greinarinnar, skuli skattstjóri gera skattaðila eða þeim sem framtalsskyldan hvílir á viðvart um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar og senda tilkynningu um það skriflega. Skal skattstjóri veita skattaðila a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar, til að tjá sig um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður er kveðinn upp. Skattstjóri skal innan tveggja mánaða að jafnaði kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar og senda hann í ábyrgðarbréfi til skattaðila eða þess sem framtalsskyldan hvílir á, sbr. 5. mgr. 96. gr. laganna. Tekið skal fram að í úrskurðaframkvæmd hefur verið talið að breytingar þær, sem gerðar voru á 96. og 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með 16. og 17. gr. laga nr. 145/1995, um breyting á þeim lögum, sbr. nú samsvarandi ákvæði laga nr. 90/2003, hafi leitt til hertra krafna til undirbúnings máls og boðunar fyrirhugaðra breytinga og því beri að túlka 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995, sbr. nú 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, í því ljósi.

Í bréfi skattstjóra, dags. 9. janúar 2006, er farið fram á skýringar kæranda á meintum vanfærðum tekjum, eins og fyrr greinir, og tilgreint hvernig skattstjóri hyggist fara með þær tekjur. Í bréfinu vísar skattstjóri til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Þá er í úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 28. febrúar 2006, til þess vísað að greint bréf hafi lotið að öflun upplýsinga frá kæranda.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er ljóst að efni sínu samkvæmt er bréf skattstjóra, dags. 9. janúar 2006, naumast boðunarbréf í skilningi 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 heldur fremur fyrirspurnarbréf samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar, enda liggur fyrir að málið var í veigamiklum atriðum óupplýst, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þannig að ekki var gerlegt og andstætt ákvæðum 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 að boða kæranda á því stigi endurákvörðun opinberra gjalda. Með þessari málsmeðferð var og andmælaréttur kæranda borinn fyrir borð, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til framansgreindra annmarka á meðferð skattstjóra á málinu verður að ómerkja hina kærðu álagsbeitingu skattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða álagsbeiting skattstjóra er ómerkt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja