Úrskurður yfirskattanefndar

  • Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af arði
  • Tekjutímabil
  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 295/2006

Staðgreiðsla 2003

Lög nr. 94/1996, 1. gr., 5. gr. 4. mgr., 7. gr., 17. gr.   Lög nr. 90/2003, 59. gr. 2. mgr.   Lög nr. 2/1995, 101. gr.   Lög nr. 138/1994, 76. gr.  

Í máli þessu var ágreiningur um hvort kæranda, sem var einkahlutafélag, hefði borið að standa skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði, sem ákvörðun var tekin um að úthluta hluthöfum félagsins á hluthafafundi á árinu 2003, ellegar hvort kæranda hefði einungis borið að standa skil á staðgreiðslu af þeim hluta arðsfjárhæðar sem kom til greiðslu á árinu 2003. Yfirskattanefnd benti á að í skattframkvæmd hefði verið litið svo á að arðgreiðslur frá hlutafélögum og einkahlutafélögum bæri að telja til tekna á því ári þegar ákvörðun um arðsúthlutun væri tekin, enda væri ljóst að með lögmætri ákvörðun hluthafafundar þess efnis myndaðist krafa hluthafa á hendur félaginu um greiðslu hins úthlutaða arðs. Samkvæmt samræmisskýringu yrði að telja að afdráttur staðgreiðslu af arði skyldi fara fram á því greiðslutímabili skatts samkvæmt lögum nr. 94/1996 þegar ákvörðun um úthlutun arðs samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög væri tekin. Í þeim tilvikum þegar greiðsla arðsfjárhæðar til hluthafa færi fram á síðara greiðslutímabili skatts en því greiðslutímabili þegar ákvörðun um arðsúthlutun væri tekin bæri því að halda eftir staðgreiðslu á hinu fyrra tímabili. Var kröfum kæranda hafnað að öðru leyti en því að varakrafa félagsins um niðurfellingu álags var tekin til greina.

I.

Með kæru, dags. 6. október 2005, hefur umboðsmaður kæranda, sem er einkahlutafélag, skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 29. júlí 2005, um endurákvörðun skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda vegna fjármagnstekna árið 2003. Er deilt um það hvort kæranda hafi borið að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu fjármagntekjuskatts af arði að fjárhæð 8.900.000 kr., sem ákvörðun var tekin um að úthluta hluthöfum félagsins á hluthafafundi á árinu 2003, ellegar hvort kæranda hafi einungis borið að standa skil á staðgreiðslu af þeim hluta arðsfjárhæðar sem kom til greiðslu á árinu 2003 eða 3.433.333 kr. Skattstjóri taldi að kæranda bæri að standa skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af heildarfjárhæð hins úthlutaða arðs, þ.e. 8.900.000 kr., og með hinum kærða úrskurði hækkaði skattstjóri fjárhæð skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda vegna tekjuársins 2003 úr 343.333 kr. í 890.000 kr. að viðbættu álagi á vanskilafé samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að álag verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er einkahlutafélag, er á skrá yfir skilaskylda aðila samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, vegna arðgreiðslna, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 11. gr. laga þessara.

Í ársreikningi kæranda fyrir árið 2003, sem fylgdi skattframtali félagsins árið 2004, var gerð grein fyrir lækkun á óráðstöfuðu eigin fé vegna úthlutunar arðs að fjárhæð 8.900.000 kr. Í skýrslu stjórnar með ársreikningnum kom fram að um áramótin 2003/2004 hefðu enn verið ógreiddar 5.466.667 kr. af arði sem úthlutað hefði verið á aðalfundi félagsins árið 2003.

Með bréfi til kæranda, dags. 30. desember 2004, óskaði skattstjóri eftir skýringum kæranda á því að félagið hefði ekki staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði til hluthafa sem úthlutað hefði verið á árinu 2003. Kom fram í bréfi skattstjóra að af arðsfjárhæð 8.900.000 kr. bæri að standa skil á staðgreiðslu 10% fjármagnstekjuskatts eða 890.000 kr., sbr. 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996. Benti skattstjóri á að í innsendri skilagrein félagsins vegna staðgreiðslu af fjármagnstekjum fyrir árið 2003 væri einungis tilgreind afdregin staðgreiðsla af arði að fjárhæð 343.333 kr. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. janúar 2005, var greint frá því að gengið hefði verið frá ársuppgjöri kæranda vegna ársins 2002 í september 2003 og að á grundvelli uppgjörsins hefði verið ákveðið að úthluta hluthöfum arði að fjárhæð 8.900.000 kr. Um áramótin 2003/2004 hefðu hins vegar einungis verið greiddar 3.433.333 kr. og afgangur arðsfjárhæðar hefði verið greiddur síðar, enda væri mælt fyrir um sex mánaða greiðslufrest á arði í lögum um einkahlutafélög. Eftirstöðvar arðsfjárhæðarinnar hefðu verið færðar sem ógreiddur arður í ársuppgjöri fyrir árið 2003 og færðar með skammtímaskuldum. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996 skyldi afdráttur staðgreiðslu af arði fara fram þegar hlutafélag greiddi eða úthlutaði arði til hluthafa og væri það eindregin skoðun kæranda að á grundvelli þessa ákvæðis hefði félaginu verið heimilt að miða staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts við greiddan hluta hins úthlutaða arðs.

Með bréfi, dags. 31. maí 2005, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun skilaskyldrar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur vegna tekjuársins 2003. Í bréfinu vísaði skattstjóri til ákvæða 1. mgr. 1. gr., 1. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 5. gr. og 7. gr. laga nr. 94/1996. Þá tók skattstjóri fram að í skýrslu stjórnar kæranda, dags. 11. september 2003, með ársreikningi kæranda fyrir árið 2002, hefði stjórn félagsins lagt fram tillögu um að greiddur yrði 1.780% arður til hluthafa á árinu 2003 vegna rekstrarársins 2002. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2003 og skattframtali árið 2004 væri framangreind arðsúthlutun að fjárhæð 8.900.000 kr. færð til lækkunar á óráðstöfuðu eigin fé félagsins og öðru eigin fé og þar með til lækkunar á eignarskattsstofni félagsins gjaldárið 2004. Í sjóðstreymi fyrir árið 2003 kæmi fram að greiddur arður til hluthafa á árinu 2003 hefði numið 3.090.000 kr. og einnig kæmi fram í skýrslu stjórnar félagsins, dags. 8. september 2004, með ársreikningi fyrir árið 2003 að um áramótin 2003/2004 hefðu enn verið ógreiddar 5.466.667 kr. af úthlutuðum arði árið 2003. Þá kæmi fram í skattframtali eigenda kæranda, A og B, árið 2004 að þau hefðu á árinu 2003 fengið greiddan arð að fjárhæð 8.900.000 kr. frá kæranda og að staðgreiðslu 890.000 kr. hefði verið haldið eftir af arðgreiðslunni. Rakti skattstjóri síðan ákvæði 1. og 3. mgr. 76. gr. og 1. mgr. 59. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem m.a. kæmi fram í 3. mgr. að gjalddagi arðs skyldi ekki vera síðar en sex mánuðum eftir að ákvörðun um úthlutun hans hefði verið tekin. Í áliti reikningsskilanefndar Félags löggiltra endurskoðenda frá 5. janúar 2000 um færslu arðsúthlutunar kæmi fram að úthlutun arðs skyldi ekki færð til skuldar í reikningsskilum fyrr en aðalfundur hefði samþykkt úthlutunina. Væri sú niðurstaða í samræmi við það álit ríkisskattstjóra, „sbr. skattstjórabréf nr. 14/2000 dags. 9. febrúar 2000“, að óheimilt væri að færa ógreiddan arð hlutafélaga til skuldar við álagningu eignarskatts nema þá fjárhæð sem enn væri ógreidd við áramót af arðsúthlutun sem aðalfundur félags hefði samþykkt greiðslu á. Telja yrði að skilaskylda félags vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði stofnaðist á því ári þegar tekin væri ákvörðun um úthlutun arðsins. Við ákvörðun hluthafafundar um arðsúthlutun yrði til krafa á hendur félaginu og tekjur í hendi hluthafa. Í því sambandi mætti vísa til 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmi að tekjur skyldi að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær yrðu til, þ.e. þegar myndast hefði krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur væri að ræða. Virtist það einnig vera skilningur eigenda kæranda að um tekjur ársins 2003 væri að ræða, sbr. skattframtal þeirra árið 2004. Að öllu framangreindu virtu yrði ekki annað ráðið en að ákvörðun um arðgreiðslu að fjárhæð 8.900.000 kr. hefði verið tekin á árinu 2003 og að við þá ákvörðun hefði úthlutaður arður orðið að tekjum í hendi hluthafa félagsins. Á grundvelli 2. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1996 hefði kæranda því borið á árinu 2003 að halda eftir 10% staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðsúthlutuninni og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslunni þann 15. janúar 2004, sbr. 7. gr. laga nr. 94/1996. Væri sú skilaskylda óháð því hvenær arðsúthlutunin hefði komið til greiðslu. Með vísan til framanritaðs væri fyrirhugað að hækka fjárhæð skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda tekjuárið 2003 úr 343.333 kr. í 890.000 kr. að viðbættu álagi á vanskilafé samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996.

Með bréfi, dags. 15. júní 2005, mótmælti umboðsmaður kæranda hinum boðuðu breytingum skattstjóra. Í bréfinu tók umboðsmaður kæranda fram að færsla hins umdeilda arðs í bókum og skattskilum kæranda væri í samræmi við álit reikningsskilanefndar Félags löggiltra endurskoðenda frá 5. janúar 2000 og skattstjórabréf nr. 14/2000, enda væri ógreiddur hluti arðs sem samþykkt hefði verið að úthluta á aðalfundi kæranda færður meðal skulda í ársuppgjöri kæranda sem og í skattframtali vegna viðkomandi árs. Hins vegar snerist ágreiningur málsins eingöngu um túlkun ákvæðis 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996. Mótmælt væri tilvísun skattstjóra til 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 þar sem í 2. mgr. 8. gr. sömu laga kæmi fram hvenær telja skyldi vexti, afföll og gengishagnað til tekna og í 11. gr. laganna kæmi fram hvenær arður væri skattskyldur hjá viðtakanda. Almenna reglan varðandi fjármagnstekjur einstaklinga væri þannig sú að þær bæri að telja til tekna og halda eftir staðgreiðslu skatts þegar greiðsla þeirra ætti sér stað eða fjármunir væru lausir viðtakanda til ráðstöfunar. Samkvæmt lögum um einkahlutafélög gæti greiðsla arðs ekki átt sér stað fyrr en lögmæt ákvörðun um arðsúthlutun hefði verið tekin. Því væri álitaefni hvort unnt væri að skilja ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996 öðru vísi en svo en að sá sem halda bæri eftir staðgreiðslu af arði hefði val um það hvort afdráttur yrði miðaður við tímamark greiðslu ellegar tímamark úthlutunar, enda færi úthlutun að öllu jöfnu fram áður en til greiðslu kæmi. Í þessu sambandi mætti benda á að í 11. gr. laga nr. 90/2003 væri einungis rætt um arðgreiðslu en ekki arðsúthlutun og því ekki um tvo kosti að ræða samkvæmt því ákvæði. Væri hæpið að halda því fram að krafa, sem kærandi hefði viðurkennt með því að færa ógreiddan arð til skuldar, jafngilti greiðslu eða afhendingu verðmæta samkvæmt 11. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði hluthafinn þá ekki fengið neina fjármuni afhenta sem honum hefði verið unnt að ráðstafa að vild. Ekkert samkomulag hefði legið fyrir um að greiða arðinn í öðru formi en í peningum, enda hefðu eftirstöðvar arðsfjárhæðar sannanlega verið greiddar með peningum á árinu 2004 og skatti þá haldið eftir og skilað í janúar 2005. Um áramótin 2003/2004 hefði kærandi enn verið innan tímamarka samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laga nr. 138/1994 varðandi greiðslu arðsins og hefði því m.a. ekki verið unnt að krefjast efnda á þeim tíma. Rétt væri hins vegar hjá skattstjóra að misræmis gætti í skattskilum kæranda annars vegar og eigenda félagsins hins vegar með tilliti til hinnar umdeildu arðsúthlutunar sem ætti sér eðlilegar skýringar. Liti kærandi svo á að eðlilegra væri að leiðrétta skattframtal hluthafanna ef skattstjóri teldi á annað borð tilefni til leiðréttingar. Væri þess því krafist að skattstjóri félli frá hinum boðuðu breytingum á staðgreiðsluskilum kæranda.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. júlí 2005, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og hækkaði fjárhæð skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda vegna tekjuársins 2003 úr 343.333 kr. í 890.000 kr. að viðbættu álagi á vanskilafé samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Í úrskurðinum rakti skattstjóri gang málsins og fyrri bréfaskipti og ítrekaði rökstuðning sem fram kom í boðunarbréfi hans, dags. 31. maí 2005. Kvaðst skattstjóri telja að skylda til að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði stofnaðist á því ári þegar ákvörðun um úthlutun arðsins væri tekin. Við ákvörðun hluthafafundar um úthlutun yrði til krafa á hendur félaginu sem félaginu bæri að færa til skuldar. Af úthlutuðum arði bæri að færa 90% af fjárhæðinni sem skuld við hluthafa, þ.e. ógreiddan arð, og 10% af fjárhæðinni sem skuld við ríkissjóð, þ.e. ógreidda afdregna staðgreiðslu af úthlutuðum arði. Þá yrðu til tekjur í hendi hluthafa sem þeim bæri að færa til tekna á því ári, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003. Vegna tilvísunar umboðsmanns kæranda til ákvæðis 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 tók skattstjóri fram að ákvæðið tæki til vaxta og að í 11. gr. laganna væri ekki að finna sambærilegt ákvæði varðandi arðgreiðslur. Afdráttur staðgreiðslu af arði skyldi fara fram þegar hlutafélag greiddi eða úthlutaði arði til hluthafa, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996. Að mati skattstjóra stofnaðist skilaskylda og afdráttarskylda vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði þegar ákvörðun um úthlutun arðsins væri tekin, sbr. 76. gr. laga nr. 138/1994. Útborgun eða greiðsla arðsins ætti að öllu jöfnu að fara fram í framhaldi af ákvörðun um arðsúthlutun og væri arðurinn greiðslukræfur um leið og hluthafafundur hefði tekið ákvörðun um úthlutun. Þótt félagið og hluthafarnir kæmust að samkomulagi um að fresta greiðslu á hluta arðsins hefði slík ákvörðun ekki í för með sér að skylda til að halda eftir og skila staðgreiðslu af arðinum frestaðist. Greiðslutímabil skatts skyldi vera það ár sem ákvörðun um úthlutun arðs væri tekin og skyldi gjalddagi vera 15. janúar árið á eftir og eindagi 15 dögum síðar. Þá hefðu eigendur kæranda fært arðsfjárhæð 8.900.000 kr. til tekna í skattframtali sínu árið 2004 og leiddu samræmisrök því til þess að kæranda bæri að standa skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðinum á því greiðslutímabili sem tekjurnar yrðu til. Með vísan til framangreinds væri ekki fallist á andmæli kæranda og kæmu boðaðar breytingar því til framkvæmda.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 6. október 2005, er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. júlí 2005, verði felldur úr gildi. Kemur fram í kærunni að skattstjóri hafi byggt hina kærðu ákvörðun sína að meginstefnu til á því að sögnin „að úthluta“ þýði að tekin hafi verið ákvörðun um úthlutun, án þess þó að skattstjóri hafi rökstutt það frekar. Í því sambandi megi benda á að samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs þýði sögnin „að úthluta“ það að „útbýta, útdeila, skammta, láta hvern fá sinn skammt“ eða að „borga út“. Samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laga nr. 138/1994 sé ljóst að það sé viðkomandi einkahlutafélag sem ákveði hvenær greiðsla arðs fari fram en ekki hluthafar félagsins. Jafnframt þyki mega túlka ákvæði 1. mgr. sömu lagagreinar þannig að hluthafar geti á öðrum hluthafafundi, þ.e. eftir aðalfund, tekið nýja ákvörðun um að lækka greiðslu arðs, a.m.k. ef um sömu hluthafa sé að ræða. Slíka ákvörðun hljóti þó hluthafafundur að þurfa að taka áður en greiðslufrestur til að greiða arð renni út samkvæmt 3. mgr. 76. gr. nefndra laga. Þannig sé sá möguleiki fyrir hendi að ákvörðun aðalfundar í lok ágúst um arðsúthlutun sé afturkölluð með nýrri ákvörðun um úthlutun arðs í janúar eða febrúar á næsta ári. Slíkt sé alþekkt í rekstri, svo sem þegar lausafjárstaða félags sé þannig að nauðsynlegt sé að taka lán til þess að geta greitt út arð. Ákvæði 3. mgr. 76. gr. laga nr. 138/1994 styðji því þá túlkun að um ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996 gildi greiðsluregla. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði laga nr. 94/1996 sé stofn til staðgreiðslu sú fjárhæð sem félag greiði eða úthluti í arð. Meginspurningin sé því sú hvort orðið „úthlutar“ vísi til greiðslu eða ákvörðunar um úthlutun og/eða hvort um sé að ræða valkvætt ákvæði þannig að skilaskyldur aðili ráði því sjálfur við hvort tímamarkið sé miðað, þ.e. greiðslu eða ákvörðun um úthlutun. Vegna tilvísunar skattstjóra til ákvæðis 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 tekur umboðsmaður kæranda fram að í fyrsta lagi verði að hafa í huga að um sé að ræða mun eldra ákvæði en viðkomandi ákvæði í lögum nr. 94/1996, í öðru lagi séu ákvæði laga nr. 94/1996 sérákvæði sem taki einungis til vaxta- og arðstekna og í þriðja lagi sé gjalddagi arðs ekki síðar en sex mánuðum eftir að ákvörðun hluthafafundar um úhlutun arðsins hefur verið tekin, sbr. 3. mgr. 76. gr. laga nr. 138/1994. Þá sé til þess að líta að í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 sé notað orðalagið „að jafnaði“ auk þess sem gerður sé fyrirvari varðandi óvissar tekjur. Telja verði að ákvörðun um úthlutun arðs, sem heimilt sé að breyta innan sex mánaða frá fyrstu ákvörðun, sé a.m.k. það óviss að arðstekjur beri að telja til tekna á því ári sem þær séu greiddar. Samræmist sú skýring orðalagi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996. Þá megi benda á að á hlutafjármiða (RSK 2.045) sé óskað eftir upplýsingum um „greiddan arð á árinu“ en ekki arð samkvæmt ákvörðun hluthafafundar. Til viðbótar verði að telja ólíklegt að móttakandi arðs geri ranglega grein fyrir staðgreiðslu arðs í skattframtali í þeim tilvikum þegar hann hafi ekki fengið greitt nema hluta þess arðs sem hluthafafundur hefur tekið ákvörðun um.

Til stuðnings varakröfu kæranda um niðurfellingu álags kemur fram í kærunni að kærandi hafi staðið skil á fullnægjandi skattframtali á tilskildum tíma og veitt skattstjóra allar upplýsingar sem óskað hafi verið eftir vegna málsins. Efnislegur ágreiningur í málinu varði tímaviðmiðun staðgreiðslu af arði og ekki sé því um að ræða vantaldar tekjur eða offærðan kostnað. Þá hafi sambærilegt deilumál ekki komið fyrr til kasta yfirskattanefndar og því ekki um nein fordæmi að ræða.

IV.

Með bréfi, dags. 12. desember 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. desember 2005, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum, skal innheimta í staðgreiðslu 10% tekjuskatt til ríkissjóðs af vöxtum og arði eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Er staðgreiðsla samkvæmt lögunum bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts nema annað sé tekið fram. Um afdrátt staðgreiðslu af vöxtum og arði er fjallað í 5. gr. laga nr. 94/1996. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna skal afdráttur staðgreiðslu af arði fara fram þegar hlutafélag greiðir eða úthlutar arði til hluthafa. Er tekið fram að með greiðslu sé átt við greiðslu í hvaða formi sem er, hvort heldur í peningum, kröfu eða öðru því sem hefur peningalegt verðgildi og látið er af hendi í stað peninga. Í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 94/1996, kemur fram að staðgreiðsluskatti af arði skuli skilað „á sama gjalddaga og af vöxtum, þ.e. 15. janúar næsta árs á eftir því þegar hann fellur til“. Er tekið fram að afdráttur skattsins fari fram þegar arður sé greiddur eða úthlutað til hluthafa (þskj. 751 á 120. löggjafarþingi 1995-1996).

Meginregla laga nr. 90/2003 um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum kemur fram í 2. mgr. 59. gr. laganna, sbr. áður 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“ Meginregla þessi, kröfustofnunarregla, var upphaflega lögfest með 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/1935, um tekjuskatt og eignarskatt, og hefur æ síðan verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um nýmæli þetta sagði svo í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 6/1935, en grein þessi varð 7. gr. laganna: „Að lokum er bætt við greinina því nýmæli, að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefir myndast krafa á hendur öðrum, þótt ógreitt sé. Er það í samræmi við framtalsvenju manna almennt, en auðveldara er til samanburðar og yfirlits fyrir skattanefndir, að sem flestir fylgi sömu framtalsreglu að þessu leyti.“

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 1. mgr. 76. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, tekur hluthafafundur ákvörðun um úthlutun arðs eftir að félagsstjórn hefur lagt fram tillögur um það efni. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að arðgreiðslur frá hlutafélögum og einkahlutafélögum beri að telja til tekna á því ári þegar ákvörðun um arðsúthlutun er tekin, enda er ljóst að með lögmætri ákvörðun hluthafafundar þess efnis myndast krafa hluthafa á hendur félaginu um greiðslu hins úthlutaða arðs. Breytir engu í þeim efnum þótt gjalddagi arðsins geti að lögum verið allt að sex mánuðum eftir að ákvörðun um úthlutun hans hefur verið tekin, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 2/1995 og 3. mgr. 76. gr. laga nr. 138/1994. Þá verður ekki fallist á með umboðsmanni kæranda að í slíkum tilvikum sé um óvissar tekjur að ræða í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 þar til greiðsla arðsfjárhæðar hefur verið innt af hendi til hluthafa. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996 þykir bera að skýra til samræmis við meginreglu 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 þannig að afdráttur staðgreiðslu af arði skuli fara fram á því greiðslutímabili skatts samkvæmt lögum nr. 94/1996, sbr. 7. gr. þeirra laga, þegar ákvörðun um úthlutun arðs samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög er tekin. Í þeim tilvikum þegar greiðsla arðsfjárhæðar til hluthafa fer fram á síðara greiðslutímabili skatts en því greiðslutímabili þegar ákvörðun um arðsúthlutun er tekin, svo sem raunin er í tilviki kæranda að því er varðar hluta hins úthlutaða arðs á árinu 2003, ber því að halda eftir staðgreiðslu á hinu fyrra tímabili. Þá þykir þessi skilningur frekast samþýðanlegur orðalagi hins umdeilda ákvæðis í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996 með tilliti til þess að samkvæmt lagareglum um arðsúthlutanir í lögum nr. 2/1995 og lögum nr. 138/1994 er formleg ákvörðun hluthafafundar um arðsúthlutun óhjákvæmilega undanfari greiðslu til hluthafa, sbr. XII. kafla laga þessara. Loks er til þess að líta að í lögskýringargögnum kemur ekkert fram sem bendir til þess að ætlun löggjafans hafi verið sú að við slíkar aðstæður sem í málinu greinir bæri að miða við tímamark greiðslu til hluthafa en ekki úthlutun.

Með vísan til framanritaðs verður að hafna aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Víkur þá að varakröfu kæranda um niðurfellingu álags. Í 17. gr. laga nr. 94/1996 er fjallað um álag á vanskilafé og beitingu þess. Í 1. mgr. 17. gr. laganna er tekið fram að séu greiðslur samkvæmt lögunum eigi inntar af hendi á tilskildum tíma skuli skattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildi ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og skattur því verið áætlaður, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, nema skilaskyldur aðili hafi greitt fyrir eindaga fjárhæð er svarar til áætlunar. Í 2. mgr. 17. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé. Samkvæmt 6. mgr. greinarinnar má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur skattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Að virtum öllum atvikum málsins og efnislegum ágreiningi þess þykir mega fallast á varakröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað félagsins vegna meðferðar málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 20.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda er hafnað. Varakrafa kæranda um niðurfellingu álags er tekin til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 20.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja