Úrskurður yfirskattanefndar
- Sjómannaafsláttur
- Sjómannsstörf
Úrskurður nr. 344/2006
Gjaldár 2005
Lög nr. 90/2003, 67. gr. B-liður
Í málinu var deilt um rétt manns til sjómannaafsláttar vegna eftirlitsstarfa hans á vegum Fiskistofu um borð í fiskiskipum. Yfirskattanefnd taldi starf mannsins ekki verða fellt undir sjómannsstörf og vísaði í því sambandi til úrskurðaframkvæmdar.
I.
Málavextir eru þeir að í reit 317 í skattframtali sínu árið 2005 tilgreindi kærandi laun vegna sjómennsku að fjárhæð 808.611 kr. og í reit 291 í framtalinu færði kærandi 77 sjómannadaga. Í greinargerð um sjómannaafslátt (RSK 3.13), sem fylgdi skattframtalinu, tilgreindi kærandi 69 lögskráningardaga vegna sjómennsku á skipinu X og 77 ráðningardaga. Sjómannadagar voru í greinargerðinni tilgreindir 103, þ.e. greindir lögskráningardagar 69 talsins margfaldaðir með 1,49. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005 var kæranda ákvarðaður sjómannaafsláttur vegna 77 daga.
Með bréfi, dags. 7. október 2005, stíluðu á skattstjóra, sem barst ríkisskattstjóra þann 4. janúar 2006, óskaði kærandi eftir leiðréttingu á sjómannaafslætti gjaldárið 2005. Fór kærandi fram á að honum yrði ákvarðaður sjómannaafsláttur vegna starfa sinna sem eftirlitsmanns á vegum Fiskistofu á togaranum Z á tímabilinu 15. október til 15. desember 2004. Gat kærandi þess að skipið hefði verið gert út af Y hf. til karfaveiða í íslenskri landhelgi á umræddu tímabili. Bréfinu fylgdi staðfesting skipstjóra Z, dags. 27. september 2005, þar sem fram kom m.a. að kærandi hefði verið um borð í skipinu sem eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu á greindum tíma.
Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til afgreiðslu sem skatterindi samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og með bréfi, dags. 13. febrúar 2006, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um sjómannaafslátt vegna starfa kæranda á skipinu Z á árinu 2004. Í bréfinu tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt B-lið 67. gr. laga nr. 90/2003 væri réttur til sjómannaafsláttar bundinn við áhafnir tiltekinna skipa. Yfirskattanefnd hefði staðfest þá túlkun ríkisskattstjóra að menn sem störfuðu um borð í fiskiskipum, t.d. við vísindarannsóknir eða eftirlit, teldust ekki stunda sjómannsstörf í skilningi framangreinds ákvæðis B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 74/1997. Þar af leiðandi yrði ekki séð að störf kæranda sem eftirlitsmanns á vegum Fiskistofu um borð í fiskiskipum veittu honum rétt til sjómannaafsláttar. Að framangreindu virtu væri erindi kæranda hafnað. Þá boðaði ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 3. mgr. 101. gr., sbr. 2. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2005 þar sem fyrirhugað væri að fella niður tilfærð laun 808.611 kr. vegna sjómennsku í reit 317 og tilfærða sjómannadaga 77 talsins í reit 291 í skattframtali kæranda árið 2005. Veitti ríkisskattstjóri kæranda frest til 24. febrúar 2006 til þess að koma á framfæri athugasemdum vegna fyrirhugaðrar endurákvörðunar.
Með bréfi, dags. 16. mars 2006, mótmælti kærandi hinum boðuðu breytingum ríkisskattstjóra. Kvaðst kærandi ekki una fyrirhuguðum breytingum og tók fram að hann hygðist leita úrskurðar yfirskattanefndar um ágreiningsefnið og rökstyðja mál sitt þar að lútandi með tilvísun til dóms Hæstaréttar Íslands frá 20. desember 1994.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 31. mars 2006, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtali kæranda árið 2005 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2005 til samræmis. Ítrekaði ríkisskattstjóri þann rökstuðning sem fram kom í boðunarbréfi, dags. 13. febrúar 2006, og tók fram að mótmæli kæranda í bréfi hans frá 16. mars 2006 hefðu ekki áhrif á mat ríkisskattstjóra þess efnis að kærandi ætti ekki rétt á sjómannaafslætti vegna starfa sem eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu um borð í fiskiskipum. Sá dómur Hæstaréttar Íslands sem kærandi hefði vísað til í bréfi sínu hefði varðað rétt hafnsögumanna til sjómannaafsláttar og hefði ekkert fordæmisgildi fyrir mál kæranda, enda væru málsatvik öll önnur og um annað starf að ræða. Gat ríkisskattstjóri þess að orðalag í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar, þar sem vísað væri til réttar eftirlitsmanna hins opinbera til sjómannaafsláttar, ætti ekki lengur við, „enda byggt á reglugerðarákvæði sem ekki er í gildi lengur“, eins og sagði í úrskurðinum.
II.
Með kæru, dags. 2. apríl 2006, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 31. mars 2006, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að skattstjóri hafi fallist á rétt kæranda til sjómannaafsláttar vegna starfa kæranda sem eftirlitsmanns um borð í skipinu X frá 15. janúar til 25. mars 2004. Kærandi hafi síðan sótt um sjómannafslátt hjá ríkisskattstjóra vegna starfa um borð í fiskiskipinu Z á tímabilinu 15. október til 15. desember 2004. Ríkisskattstjóri hafi hafnað þeirri beiðni, auk þess sem embættið hafi fellt niður fyrri ákvörðun skattstjóra varðandi sjómannafslátt. Kærandi hafi verið við sjómannsstörf á vegum Fiskistofu allt árið 2004, þ.e. á togurunum X frá 15. janúar til 25. mars og Z frá 15. október til 15. desember, auk sjómennsku á vegum erlendra útgerða 30. júní til 10. september. Eftirlitsmaður Fiskistofu þurfi að vera lærður skipstjórnarmaður og sé hlutverk hans að fylgjast með veiðum, staðsetningu skips vegna leyfilegra veiðisvæða og því að afli sé rétt skráður í veiðidagbók. Eftirlitsmaður þurfi að hafa þekkingu á fiskveiðum, veiðarfærum og möskvamælingum og reglum þar að lútandi. Sé starf eftirlitsmanns Fiskistofu því sambærilegt eftirlitsstörfum stýrimanna hjá Landhelgisgæslunni. Útgerðir fiskiskipa þurfi að óska eftir eftirlitsmanni frá Fiskistofu og greiða fyrir, en eftirlitsmenn séu síðan á launum hjá Fiskistofu. Sjómannaafsláttur hafi upphaflega verið hugsaður sem bætur til sjómanna vegna tíðra fjarvista frá heimili og fjölskyldu og þar af leiðandi minni þjónustu af hendi hins opinbera. Hafi svipað fyrirkomulag tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að sjómannsstörf hafi breyst í gegnum tíðina frá því að sjómannaafsláttur var tekinn upp, sum störf tapast og önnur orðið til. Til stuðnings málstað sínum vísi kærandi til dóms Bæjarþings Reykjavíkur í máli nr. 4835/1991 og til dóms Hæstaréttar Íslands frá 20. desember 1994 í sama máli.
III.
Með bréfi, dags. 7. júlí 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
IV.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til sjómannaafsláttar samkvæmt B-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna eftirlitsstarfa kæranda á vegum Fiskistofu um borð í fiskiskipum á árinu 2004.
Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003 skal maður, sem stundar sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, njóta sérstaks afsláttar, sjómannaafsláttar, sem koma skal til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem hann hafði fyrir sjómannsstörf. Í 2. mgr. stafliðarins kemur fram að rétt til sjómannaafsláttar hafi þeir sem stunda sjómennsku, sbr. 4. mgr. stafliðarins, og lögskráðir eru í skipsrúm á fiskiskipi. Sama rétt skuli þeir menn eiga sem ráðnir séu sem fiskimenn eða stundi fiskveiðar á eigin fari þó ekki sé skylt að lögskrá þá, enda uppfylli þeir skilyrði 4. mgr. Í 3. mgr. stafliðarins segir síðan að enn fremur eigi rétt til sjómannaafsláttar lögskráðir sjómenn sem starfa, sbr. 4. mgr., á varðskipi, rannsóknaskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er í förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands. Í 4. mgr. stafliðarins er kveðið á um fjárhæð sjómannaafsláttar og ákvörðun dagafjölda sem veitir rétt til sjómannaafsláttar.
Ekki verður talið að eftirlitsstörf kæranda á vegum Fiskistofu verði felld undir sjómannsstörf í skilningi 1., sbr. 2. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003. Í því sambandi má jafnframt vísa til úrskurðaframkvæmdar, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 74/1997 sem birtur er á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Þá liggur fyrir að kærandi fellur ekki undir ákvæði 3. mgr. umrædds stafliðar. Sakarefni í dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. desember 1994 í máli nr. 489/1991 (H 1994:2912), sem kærandi hefur m.a. vísað til, laut að rétti manns til sjómannaafsláttar vegna starfa hans sem hafnsögumanns. Verður því að taka undir með ríkisskattstjóra að niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar í máli þessu hafi ekki fordæmisgildi fyrir mál kæranda, enda er ekki um sömu störf að ræða. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.