Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur á móti ökutækjastyrk
- Föst afskrift
- Skattframkvæmd
Úrskurður nr. 122/2007
Gjaldár 2006
Lög nr. 90/2003, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 32. gr., 39. gr. Reglugerð nr. 483/1994, 7. gr. 3. mgr. Reglur fjármálaráðherra nr. 32/2005 um skattmat tekjuárið 2005.
Skattstjóri féllst ekki á þá tilhögun kæranda, sem notaði tvær bifreiðar til aksturs í þágu launagreiðanda, að reikna fasta afskrift vegna beggja bifreiðanna með fullri ársfjárhæð við útreikning á frádrætti á móti ökutækjastyrk í skattframtali sínu. Í úrskurði yfirskattanefndar í málinu kom fram að frekast yrði að líta á árlega afskrift ökutækis sem lið í heildarrekstrarkostnaði þess samkvæmt matsreglum fjármálaráðherra sem ígildi almennrar fyrningar, enda yrði að telja að slíkri afskrift væri fyrst og fremst ætlað að endurspegla verðmætarýrnun ökutækis samfara eðlilegri notkun þess og aldri. Með vísan til þess fortakslausa ákvæðis í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna viðkomandi tekjuárs, að einungis væri heimil árleg afskrift vegna mest einnar bifreiðar, var kröfu kæranda hafnað. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að matsreglur fjármálaráðherra hefðu að þessu leyti breyst milli ára, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 362/2006 í máli kæranda vegna gjaldáranna 2004 og 2005.
I.
Kæruefnið í máli þessu, sbr. kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2007, er sú ákvörðun skattstjóra að lækka tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2006 úr 1.362.832 kr. í 1.095.522 kr. eða um 267.310 kr., sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 5. mars 2007. Skattstjóri taldi að frádráttur á móti ökutækjastyrk væri ekki réttur þar sem föst afskrift bifreiða væri ofreiknuð af hendi kæranda, enda bæri að miða við afskrift vegna einnar bifreiðar og skipta henni miðað við hlutfall aksturs viðkomandi bifreiða væri um fleiri en eina bifreið að ræða. Í kæru til yfirskattanefndar krefst kærandi þess að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.
II.
Málavextir eru þeir að í reit 22 í skattframtali sínu árið 2006 taldi kærandi sér til tekna ökutækjastyrk að fjárhæð 2.119.471 kr. og færði til frádráttar styrknum í reit 32 1.362.832 kr. Skattframtali kæranda fylgdu tvær ökutækjaskýrslur (RSK 3.04), annars vegar vegna bifreiðarinnar X og hins vegar vegna bifreiðarinnar Y, þar sem heildarakstur beggja bifreiðanna var tilgreindur 51.671 km og þar af var 35.806 km akstur talinn í þágu launagreiðanda. Í skýrslunum var m.a. færð árleg afskrift 370.000 kr. vegna hvorrar bifreiðar fyrir sig, þ.e. samtals 740.000 kr.
Með bréfi, dags. 16. janúar 2007, óskaði skattstjóri eftir því, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að kærandi skipti árlegri afskrift bifreiðanna X og Y hlutfallslega miðað við notkunartíma þeirra á árinu 2005 í ökutækjaskýrslum með skattframtali árið 2006 þar sem óheimilt væri að miða við tvöfalda afskrift, þ.e. vegna fleiri en einnar bifreiðar, svo sem miðað væri við í skattskilum kæranda. Vísaði skattstjóri í því sambandi til reglna fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2005, sbr. auglýsingu nr. 32, 6. janúar 2005, sem birst hefði í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem fram kæmi í lið 3.1 að árleg afskrift mest einnar bifreiðar mætti vera 370.000 kr. Í svarbréfi sínu, dags. 29. janúar 2007, kvaðst kærandi hafa fylgt leiðbeiningum ráðgjafa við útfyllingu ökutækjaskýrslna með skattframtali sínu umrætt ár. Yfirskattanefnd hefði tvívegis úrskurðað kæranda í vil í hliðstæðum ágreiningsmálum vegna fyrri gjaldára. Hygðist kærandi því ekki verða við ósk skattstjóra um hlutfallslega skiptingu á árlegri afskrift bifreiða. Þá kom fram í bréfi kæranda að akstur í þágu Z á árinu 2005 hefði í raun numið 9.249 km en ekki 10.482 km svo sem tilfært hefði verið í ökutækjaskýrslu með skattframtali árið 2006. Fylgdi bréfinu endurgerð ökutækjaskýrsla vegna bifreiðarinnar Y þar sem akstur í þágu launagreiðanda á árinu 2005 var lækkaður úr 12.335 km í 11.102 km.
Með bréfi, dags. 13. febrúar 2007, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2006 með vísan til 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í bréfinu vísaði skattstjóri til ákvæðis 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að í matsreglum fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2005, sbr. auglýsingu nr. 32/2005 í B-deild Stjórnartíðinda, væri skýrt tekið fram að færa mætti með heildarrekstrarkostnaði ökutækis árlega afskrift mest einnar bifreiðar sem reiknaðist 370.000 kr. Þá kom fram í bréfi skattstjóra að niðurstaða í úrskurði yfirskattanefndar nr. 362/2006 í máli kæranda vegna gjaldáranna 2004 og 2005 hefði verið byggð á því að í matsreglum fjármálaráðherra vegna tekjuáranna 2003 og 2004 kæmi hvergi fram að einungis væri heimil afskrift einnar bifreiðar. Þar sem slík regla kæmi hins vegar skýrt fram í matsreglum ráðherra fyrir tekjuárið 2005 væri ljóst að forsendur væru nú allt aðrar en legið hefðu til grundvallar úrskurði yfirskattanefndar. Væri því fyrirhugað að skipta árlegri afskrift bifreiða 370.000 kr. í hlutfalli við akstur bifreiða kæranda á árinu 2005. Myndi því afskrift bifreiðarinnar Y lækka úr 370.000 kr. í 118.792 kr. og afskrift bifreiðarinnar X lækka úr 370.000 kr. í 251.208 kr. Samkvæmt því og að teknu tilliti til leiðréttingar á akstri bifreiðarinnar Y í þágu Z, sbr. bréf kæranda, dags. 29. janúar 2007, myndi frádráttur vegna þeirrar bifreiðar lækka úr 506.845 kr. í 341.164 kr. og frádráttur vegna bifreiðarinnar X lækka úr 855.987 kr. í 754.358 kr. Væri því fyrirhugað að lækka tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2006 úr 1.362.832 kr. í 1.095.522 kr. eða um 267.310 kr.
Með bréfi, dags. 14. febrúar 2007, gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar skattstjóra. Kvaðst kærandi vera ósammála túlkun skattstjóra á matsreglum fjármálaráðherra og ítrekaði að yfirskattanefnd hefði kveðið upp úrskurð um ágreining þann sem um ræðir.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. mars 2007, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, lækkaði frádrátt á móti fengnum ökutækjastyrk í reit 32 í skattframtali 2006 úr 1.362.832 kr. í 1.095.522 kr. og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2006 til samræmis. Í úrskurðinum rakti skattstjóri gang málsins og ítrekaði að í matsreglum fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2005, sbr. auglýsingu nr. 32/2005 í B-deild Stjórnartíðinda, kæmi fram að einungis væri heimilt að færa árlega afskrift vegna mest einnar bifreiðar. Þá ítrekaði skattstjóri að forsendur hefðu verið aðrar að þessu leyti tekjuárin 2004 og 2005 þar sem ekki hefði þá verið kveðið skýrt á um þetta í reglum fjármálaráðherra, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 362/2006 í máli kæranda vegna þeirra tekjuára. Samkvæmt framansögðu væri hinni boðuðu lækkun tilfærðs frádráttar á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2006 hrundið í framkvæmd.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2007, kemur fram að kærandi eigi tvær bifreiðar sem hann hafi notað í starfi sínu hjá Z og fleirum. Akstur í þágu launagreiðenda kæranda hafi numið alls 34.573 km á árinu 2005 og sé kærandi með aksturssamning við Z. Þá sé um lítilsháttar akstur að ræða vegna funda fyrir aðra aðila. Kveðst kærandi gera athugasemdir við þá afstöðu skattstjóra að einungis verði viðurkennd árleg afskrift sem svari til einnar bifreiðar þrátt fyrir að kærandi hafi notað báðar bifreiðarnar til aksturs í þágu launagreiðenda. Kærandi hafi samviskusamlega fylgt öllum leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu ökutækjaskýrslna með skattframtölum sínum og vonist hann því eftir leiðréttingu á hinum kærða úrskurði skattstjóra.
IV.
Með bréfi, dags. 20. apríl 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
V.
Eins og að framan greinir gerði skattstjóri þá breytingu á skattframtali kæranda árið 2006 með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. mars 2007, að lækka tilfærðan frádrátt á móti fengnum ökutækjastyrk í reit 32 úr 1.362.832 kr. í 1.095.522 kr. eða um 267.310 kr. Forsendur þessarar breytingar voru fyrst og fremst þær að skattstjóri lækkaði tilgreindan rekstrarkostnað tveggja bifreiða kæranda í ökutækjaskýrslum (RSK 3.04) með skattframtali kæranda umrætt ár þar sem skattstjóri hafnaði að taka tillit til fastrar afskriftar vegna tveggja bifreiða, en hlutfallaði afskrift ársins eftir akstri hvorrar bifreiðar um sig í þágu launagreiðanda. Miðaði skattstjóri hlutfallslega skiptingu hinnar föstu afskriftar við akstur bifreiðanna í þágu launagreiðanda. Af hálfu kæranda er því mótmælt að einungis sé heimiluð föst afskrift vegna einnar bifreiðar en ekki vegna beggja bifreiða kæranda sem notaðar voru til aksturs í þágu launagreiðanda á árinu 2005. Ekki eru gerðar athugasemdir við breytingu skattstjóra að öðru leyti.
Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra. Samkvæmt lið 3.1 í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2005, sbr. auglýsingu nr. 32, 6. janúar 2005 í B-deild Stjórnartíðinda, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð sé hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að m.a. sé gerð grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins og notkun ökutækis sundurliðuð með nánar tilgreindum hætti. Kemur eftirfarandi m.a. fram í því sambandi í matsreglum fjármálaráðherra:
„Á eyðublaði RSK 3.04, ökutækjastyrkur og ökutækjarekstur, eða á annan jafn fullnægjandi hátt, sé gerð sundurliðun á heildarrekstrarkostnaði ökutækisins, þ.m.t. árlegri afskrift mest einnar bifreiðar, sem reiknast 370.000 kr. Afskrift ökutækis sem notað er hluta úr ári reiknast hlutfallslega.“
Óumdeilt er að kærandi notaði tvær bifreiðar til aksturs í þágu launagreiðanda á árinu 2005, þ.e. bifreiðarnar X og Y. Í ökutækjaskýrslum (RSK 3.04) með skattframtali sínu árið 2006 færði kærandi fasta afskrift 370.000 kr. vegna beggja bifreiðanna, þ.e. samtals 740.000 kr. Líta verður svo á að árlegri afskrift ökutækis sem lið í heildarrekstrarkostnaði þess samkvæmt fyrrgreindum matsreglum fjármálaráðherra sé fyrst og fremst ætlað að endurspegla verðmætarýrnun ökutækis samfara eðlilegri notkun þess og aldri. Sé þannig frekast um að ræða ígildi almennrar fyrningar samkvæmt reglum laga nr. 90/2003, sbr. m.a. ákvæði 32. og 39. gr. þeirra laga og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, með áorðnum breytingum. Eins og hér að framan greinir er nú tekið fram í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2005 að einungis sé heimil árleg afskrift vegna mest einnar bifreiðar, sbr. hins vegar matsreglur fjármálaráðherra vegna tekjuáranna 2003 og 2004 þar sem enga slíka reglu var að finna, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 362/2006 í máli kæranda vegna þeirra gjaldára. Er þannig um að ræða breytingu á matsreglunum að þessu leyti. Samkvæmt þessu og með vísan til hins fortakslausa ákvæðis í matsreglum fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2005 verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.