Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eignfærsla fasteignar
  • Húsaleigutekjur

Úrskurður nr. 225/2007

Gjaldár 2004 og 2005

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 2. tölul., 72. gr., 73. gr. 1. tölul.   Lög nr. 39/1978, 25. gr. 1. mgr.  

Kæruefni í máli þessu voru þær breytingar skattstjóra á skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005 að færa kæranda til eignar að öllu leyti tilgreint íbúðarhúsnæði og færa honum til tekna húsaleigutekjur af umræddu húsnæði, en kærandi var þinglýstur eigandi íbúðarinnar og skráður eigandi hennar samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins. Kærandi hélt því hins vegar fram að íbúðin væri að helmingi í eign dóttur sinnar og að greindar húsaleigutekjur af eigninni tilheyrðu henni alfarið. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að kærandi hefði ekki lagt fram gildan afsalsgerning til staðfestingar á ráðstöfun umrædds eignarhluta í íbúðinni til dóttur sinnar þrátt fyrir ítrekað tilefni. Var því ekki hróflað við hinum kærðu eignfærslum skattstjóra. Af því þótti og leiða að húsaleigutekjur af íbúðinni bæri að telja til skattskyldra tekna kæranda, en samkvæmt greiðslumiða leigjanda og þinglýstum húsaleigusamningi var kærandi talinn leigusali. Var kröfum kæranda hafnað.

I.

Kæruefnið í máli þessu eru þær breytingar skattstjóra á skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005, sem hann gerði með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. janúar 2007, að færa kæranda til eignar 50% eignarhluta í íbúðarhúsnæði við X, Reykjavík, að fjárhæð 4.784.500 kr. í skattframtali árið 2004 og 5.377.500 kr. í skattframtali árið 2005, hvorutveggja samkvæmt fasteignamati, auk þess að færa kæranda til tekna húsaleigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. í reit 521 í skattframtali árið 2005. Í skattframtölum sínum greind ár hafði kærandi tilfært til eignar 50% eignarhluta í umræddri íbúð. Byggði skattstjóri á því að kærandi og eiginkona hans hefðu verið skráðir eigendur íbúðarinnar að öllu leyti frá árinu 2001 þar til eigendaskipti hefðu orðið á árinu 2005. Fyrr hefði formleg sala ekki átt sér stað og af hálfu kæranda hefði ekki verið sýnt fram á ráðstöfun eignarhlutans til dóttur hans. Þá yrði að telja kæranda leigusala íbúðarinnar, sbr. greiðslumiða og húsaleigusamning, þannig að húsaleigutekjur af íbúðinni bæri að færa honum til tekna.

Af hálfu kæranda er þess krafist samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 2007, að greindar breytingar skattstjóra á skattframtölum árin 2004 og 2005 verði felldar niður, enda hafi verið um að ræða aðstoð við dóttur kæranda til að eignast íbúð og leigutekjurnar hafi tilheyrt henni.

II.

Samkvæmt lið 4.1 í skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005 var meðal fasteigna færður 50% eignarhluti í íbúð að X, Reykjavík, með 4.784.500 kr. fyrra árið og 5.377.500 kr. hið síðara. Ekki voru neinar leigutekjur tilfærðar af eignarhlutanum í reit 521 í skattframtölunum. Með bréfi, dags. 3. mars 2006, lagði skattstjóri fyrir kæranda, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að láta í té skýringar á því hvers vegna engar leigutekjur væru taldar fram í skattframtali árið 2005. Tók skattstjóri fram að samkvæmt fyrirliggjandi greiðslumiða (RSK 2.02) vegna húsaleigu hefði kærandi fengið greidda húsaleigu á árinu 2004 að fjárhæð 560.000 kr. frá D vegna leigu á X í Reykjavík. Leigutekjur teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í 2. mgr. 2. tölul. stafliðarins kæmi fram að ef heildarleigutekjur af einstökum íbúðum næðu ekki hlunnindamati samkvæmt reglum fjármálaráðherra um mat á hlunnindum, sbr. 118. gr. laga nr. 90/2003, bæri að reikna leiguna til tekna með hlunnindamatinu. Skattstjóri ítrekaði fyrirspurn sína með bréfi, dags. 19. apríl 2006, með því að engin svör hefðu borist frá kæranda.

Með bréfi, dags. 30. apríl 2006, barst svar frá kæranda við fyrirspurn skattstjóra. Þar kom fram að leigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. hefðu runnið til meðeigandans, B, sem væri dóttir kæranda, en kærandi og eiginkona hans hefðu stutt B „til íbúðarkaupa“. Í lok ágúst 2004 hefði B haldið til Bretlands í nám og hefðu tekjur hennar af húsaleigu gengið á móti húsaleigukostnaði í Bretlandi. Húsaleigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. hefðu myndast á tímabilinu 1. maí til 31. desember 2004. Samkvæmt því kæmu einungis húsaleigutekjur fyrir tímabilið 1. maí til 15. ágúst 2004 eða 245.000 kr. til skattlagningar. Af þessum tekjum bæri B að greiða 10% í skatt eða 24.500 kr. Væri óskað eftir leiðréttingu á þessu, en um mistök væri að ræða sem stafað hefðu af kunnáttuleysi. Á árinu 2005 væri ekki um skattskyldu að ræða, enda hefði íbúðin verið seld í júní 2005, en leigukostnaður B í Bretlandi gengi á móti leigutekjum til 1. maí 2005.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2006, óskaði skattstjóri eftir skýringum kæranda á eignarhaldi B á umræddri íbúð að X, Reykjavík, en samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins væri íbúðin skráð eign kæranda og eiginkonu hans. Hefði B aldrei verið skráður eigandi að íbúðinni samkvæmt þeim skrám. Þá væri óskað eftir því að kærandi legði fram leigusamning við D.

Kærandi svaraði fyrirspurn skattstjóra með bréfi, dags. 4. ágúst 2006, og fylgdi bréfinu ljósrit húsaleigusamnings, dags. 20. apríl 2004, um umrædda íbúð þar sem kærandi var tilgreindur leigusali f.h. B og D leigjandi. Fram kom í bréfinu „að öllum vangaveltum varðandi hver er þinglýstur eigandi að íbúðinni X er vísað á bug“, eins og þar sagði, þar sem kærandi hefði verið að hjálpa dóttur sinni að eignast íbúð. Ætlunin hefði einungis verið að spara þinglýsingar- og stimpilgjöld, auk þess sem dóttirin hefði á þessum tíma verið í sambúð sem hefði lokið síðar þannig að óráðlegt hefði verið á þeim tíma að hafa hana skráða fyrir íbúð, en hún sæti uppi með ábyrgðir úr þeirri sambúð. Íbúðin hefði síðan verið seld á árinu 2005. Meðfylgjandi væri leigusamningur.

Með bréfi, dags. 16. ágúst 2006, boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugaðar væru breytingar á skattframtölum hans árin 2004 og 2005, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Rakti skattstjóri málavexti og bréfaskipti í málinu. Tók skattstjóri fram að leiga af fasteignum og fasteignaréttindum teldist til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Af svari kæranda mætti ráða að hann teldi að skattleggja bæri húsaleigutekjurnar hjá dóttur sinni, þar sem tekjurnar hefðu runnið til hennar, en hún hefði verið meðeigandi að húsnæðinu og hefði kærandi verið að aðstoða hana við að eignast íbúð. Samkvæmt greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), sem fylgt hefði skattframtali kæranda árið 2002, hefði kærandi keypt íbúð að X í Reykjavík fyrir 10.000.000 kr. Með skattframtali kæranda árið 2003 hefði síðan fylgt greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), þar sem fram hefði komið að kærandi hefði á árinu 2002 selt B íbúðina að X fyrir 4.000.000 kr. Með bréfi, dags. 29. júlí 2003, hefði skattstjóri tilkynnt kæranda og eiginkonu hans um þá breytingu á skattframtali þeirra árið 2003 að greind íbúð að X hefði verið færð að öllu leyti sem eign þeirra, enda væru þau skráðir eigendur hennar samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins. Þessi breyting á skattframtali kæranda og eiginkonu hans árið 2003 hefði ekki sætt kæru. Í skattframtali árið 2004 hefði kærandi síðan eignfært 50% eignarhluta í íbúðinni að X og sami háttur hefði verið hafður á í skattframtali árið 2005. Samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins hefðu kærandi og eiginkona hans keypt íbúðina á árinu 2001 og selt hana á árinu 2005. Dóttir kæranda, B, hefði aldrei á þessum tíma verið skráður eigandi að íbúðinni. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2006, hefði kærandi lagt fram umbeðinn húsaleigusamning um X, en kærandi hefði undirritað hann fyrir hönd B. Svo virtist sem B hefði átt að teljast leigusali samkvæmt samningnum. Af hálfu kæranda hefðu ekki verið lögð fram nein gögn sem sýndu að B hefði orðið eigandi að íbúðinni að X og virtist á því byggt að munnlegt samkomulag hefði verið gert við B til þess að spara þinglýsingar- og stimpilgjöld, auk þess sem sambúðaraðstæður hefðu skipt máli. Tók skattstjóri fram að skattyfirvöld teldust hafa sjálfstæða heimild til að meta skattalega þýðingu samninga aðila og væru skattyfirvöld ekki bundin af því hvaða álit samningsaðilar hefðu á réttaráhrifum þeirra. Að áliti skattstjóra bæri að líta til þess hver færi með formlegar eignarheimildir að viðkomandi fasteign þegar ákvarða skyldi hver teldist leigusali. Eins og áður hefði komið fram hefðu kærandi og eiginkona hans verið skráðir eigendur íbúðarinnar. Með vísan til framangreinds hygðist skattstjóri færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2005 húsaleigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. Til samræmis við þessa niðurstöðu væri og fyrirhugað að færa íbúðina að X í Reykjavík kæranda til eignar að öllu leyti í skattframtölum árin 2004 og 2005, en það þýddi hækkun á eignfærslu vegna íbúðarinnar í samræmi við fasteignamat um 4.784.500 kr. í skattframtali árið 2004 og 5.377.500 kr. í skattframtali árið 2005.

Kærandi mótmælti hinum boðuðu breytingum skattstjóra með bréfi, dags. 22. ágúst 2006. Tók kærandi fram að skattstjóri ætti að vita að ekki væri nauðsynlegt að þinglýsa eigendaskiptum innan fjölskyldna og því væri ekki heldur nauðsynlegt að skrá slík eigendaskipti hjá Fasteignamati ríkisins. Hefðu skattyfirvöld hingað til verið hliðholl ungu fólki sem hefði verið að eignast sína fyrstu íbúð. Ef samningi um kaup dóttur kæranda á X hefði verið þinglýst hefði dóttirin lent í miklum vandræðum vegna ábyrgðarskuldbindinga sem hún hefði gengist undir fyrir pilt sem hún hefði verið með. Þá ætti skattstjóri að vita að oft væri nauðsynlegt að þinglýsa kaupsamningum til að vernda hagsmuni kaupenda, en í umræddu tilviki hefði það verið hagur kaupanda að þinglýsa ekki kaupsamningi. Framlagður húsaleigusamningur tæki af allan vafa í málinu um að leigutekjur hefðu runnið til B, eins og skattstjóri hefði viðurkennt í bréfi sínu. Væri þess krafist að skattstjóri léti af fyrirhuguðum breytingum, enda væru þær ekki í samræmi við túlkun skattyfirvalda á skattalögum.

Með bréfi, dags. 21. september 2006, óskaði skattstjóri eftir nánari skýringum frá kæranda. Tók skattstjóri fram að með bréfi kæranda, dags. 4. ágúst 2006, hefði fylgt afrit af húsaleigusamningi um íbúð að X, þar sem leigutaki hefði verið tilgreindur D, og leigutími frá 1. maí 2004 til 30. apríl 2005. Samkvæmt afritinu væri leigusali tilgreindur kærandi „F.H. B“ og hefði kærandi ritað undir samninginn „e.u. f.h. B“. Skattstjóri hefði nú aflað afrits af þinglýstu eintaki samningsins, en þar væri kærandi tilgreindur leigusali og hefði hann ritað undir samninginn sem leigusali. Hvergi væri þar getið um B sem aðila að samningnum. Því væri misræmi á milli þinglýsta eintaksins af samningnum og þess afrits sem kærandi hefði lagt fram hjá skattstjóra. Væri kæranda gefinn kostur á að gefa skýringar á þessu misræmi.

Kærandi svaraði fyrirspurnarbréfi skattstjóra með bréfi, dags. 4. nóvember 2006. Kom þar fram að dóttir kæranda, B, hefði verið erlendis þegar leigusamningurinn hefði verið gerður og því hefði leigutaki fengið „mitt eintak“, eins og þar stóð, en ætlunin hefði verið að skipta síðar „á leigusamningum“. Þar sem B hefði verið lengur erlendis í námi en fyrirhugað hefði verið hefði það hins vegar ekki gengið eftir. Leigutaki hefði ekki getað þinglýst „réttu eintaki“ þar sem B hefði ekki verið skráður eigandi eignarinnar í þinglýsingabókum. Þessu hefði kærandi gert grein fyrir áður og fært fyrir því rök. Kærandi hefði síðan ætlað að „skrifa uppá leigusamninginn milli B og D“, eins og þar sagði. Eins og áður hefði verið gerð grein fyrir hefðu leigutekjurnar runnið til B í raun, en hitt hefði verið formsatriði hvort hún hefði verið skráð fyrir viðkomandi íbúð eða ekki. Þetta fyrirkomulag hefði allt miðað við að aðstoða B við að eignast íbúð. Væri þess krafist að skattstjóri léti af fyrirhuguðum breytingum. Á bréf kæranda var ennfremur rituð yfirlýsing, undirrituð af B, um að leigutekjur vegna X hefðu runnið til hennar. Foreldrar hennar hefðu verið að aðstoða hana við að eignast íbúð.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. janúar 2007, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, færði umrædda íbúð að X, Reykjavík, til eignar að öllu leyti í skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005, er leiddi til hækkunar í lið 4.1 um 4.784.500 kr. í skattframtali árið 2004 og um 5.377.500 kr. í skattframtali árið 2005, tekjufærði húsaleigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. í reit 521 í skattframtali árið 2005 og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld gjaldárin 2004 og 2005 til samræmis. Rakti skattstjóri ítarlega gang málsins og bréfaskipti í því og tók fram að leiga af fasteignum og fasteignaréttindum teldist til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í 3. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að allir sem hefðu á leigu eða hefðu afnot af fasteign gegn gjaldi skyldu ótilkvaddir afhenda skattstjóra skýrslu um greiðslu vegna leigunnar á því formi sem ríkisskattstjóri ákvæði. Samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 teldust fasteignir til skattskyldra eigna og skyldi fasteign teljast til eignar á gildandi fasteignamatsverði, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 73. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 skyldi í skattframtali gerð grein fyrir tekjum á síðastliðnu ári og eignum í árslok.

Skattstjóri tók fram að með skattframtali D árið 2005 hefði fylgt greiðslumiði (RSK 2.02) um að hún hefði greitt húsaleigu á árinu 2004 að fjárhæð 560.000 kr. fyrir íbúð að X, Reykjavík. Hefði kærandi verið tilgreindur sem viðtakandi greiðslunnar. Kærandi hefði ekki gert grein fyrir leigugreiðslunni í skattframtali sínu árið 2005. Þær skýringar hefðu komið fram af hálfu kæranda að leigutekjurnar hefðu runnið til dóttur hans, en hún hefði verið meðeigandi að íbúðinni, og hefði ætlunin verið að aðstoða hana við að eignast íbúð. Kærandi hefði talið að leigutekjurnar ættu að skattleggjast hjá dótturinni. Dóttir kæranda hefði ekki verið skráður eigandi íbúðarinnar í skrám Fasteignamats ríkisins og kaupsamningi og/eða afsali til hennar hefði ekki verið þinglýst. Kærandi hefði skýrt svo frá að það hefði ekki þjónað hagsmunum dótturinnar að þinglýsa kaupsamningi. Kærandi hefði ekki lagt fram nein skrifleg gögn sem staðfestu kaup dótturinnar á íbúðinni eða eignarhluta í henni. Þá hefði dóttir kæranda ekki talið fram húsaleigutekjur vegna íbúðarinnar. Tók skattstjóri fram að skattyfirvöld hefðu heimild til að meta hvaða þýðingu samningar aðila hefðu og væru þau ekki bundin af áliti málsaðila um réttarhrif samninganna í skattalegu tilliti. Samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins hefðu kærandi og eiginkona hans verið skráðir eigendur umræddrar íbúðar að X frá 2001 og þar til eigendaskipti hefðu orðið á árinu 2005. Þau hefðu þannig farið með formleg eignarumráð yfir íbúðinni og hefðu haft heimild til að ráðstafa henni svo að bindandi væri, t.d. með leigu. Af því leiddi að kærandi hefði verið bær um að gera bindandi leigusamning um íbúðina og yrði því að telja hann leigusala íbúðarinnar, eins og reyndar mætti glöggt sjá í þinglýstum leigusamningi. Ekki yrði framhjá því litið hver hefði formlega eignarheimild þegar ákveða skyldi hjá hverjum bæri að tekjufæra húsaleigutekjur. Yrðu húsaleigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. því tekjufærðar í skattframtali kæranda árið 2005, sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Með skattframtali kæranda árið 2003 hefði fylgt greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), þar sem fram hefði komið að kærandi hefði selt dóttur sinni, B, íbúð að X, Reykjavík, á 4.000.000 kr. Þar sem þetta hefði ekki samrýmst skrám Fasteignamats ríkisins hefði skattstjóri leiðrétt skattframtalið að þessu leyti á grundvelli 95. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði ekki mátt ráða að formleg sala hefði átt sér stað. Sú breyting hefði ekki sætt kæru af hálfu kæranda. Í skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005 hefði kærandi síðan gert grein fyrir 50% eignarhluta í íbúð að X, en þær upplýsingar hefðu ekki samræmst skrám Fasteignamats ríkisins. Yrði enda ekki séð að formleg sala á íbúðinni hefði átt sér stað og bæri kæranda að telja íbúðina sér til eignar í skattframtali, sbr. 1. mgr. 92. gr. (sic) laga nr. 90/2003. Í samræmi við framangreint væru fasteignir í lið 4.1 í skattframtali kæranda árið 2004 hækkaðar um 4.784.500 kr. og í skattframtali árið 2005 um 5.377.500 kr., en fjárhæðir þessar svöruðu til 50% af fasteignamati íbúðarinnar um viðkomandi áramót.

III.

Með kæru, dags. 15. janúar 2007, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 4. janúar 2007, til yfirskattanefndar. Þess er krafist að úrskurði skattstjóra „verði breytt í heild“, eins og það er orðað, og verður að skilja kröfugerðina svo, sbr. nánari útfærslu hennar, að þær breytingar, sem skattstjóri gerði á skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005, verði með öllu felldar niður.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verið að aðstoða dóttur sína, B, við að eignast íbúð að X í Reykjavík. Kaupunum hafi ekki verið þinglýst, en þannig hefðu þinglýsingar- og stimpilgjöld sparast. Þá hafi dóttirin verið í vanda vegna sambúðar. Væri öllum vangaveltum skattstjóra varðandi þinglýsingar vísað á bug. Tekjufærslu húsaleigutekna í skattframtali árið 2005 sé mótmælt, en um sé að ræða leigutekjur tilheyrandi B sem hafi komið á móti leigugjöldum í Bretlandi, sbr. námsdvöl B þar í landi. Þá sé eignfærslu í skattframtölum árin 2004 og 2005 einnig mótmælt. Kærandi tekur fram að skattyfirvöld hafi hingað til „hjálpað ungu fólki við fyrstu íbúðakaup“, eins og þar segir. Svo verði vonandi áfram, en greindur úrskurður skattstjóra sé hins vegar ekki í anda skattalaga og stefnu skattyfirvalda.

IV.

Með bréfi, dags. 16. mars 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Í máli þessu er deilt um breytingar er skattstjóri gerði á skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005. Í fyrsta lagi er ágreiningur um þær breytingar skattstjóra að færa til eignar undir lið 4.1 í skattframtölunum 50% eignarhluta í íbúð að X í Reykjavík með 4.784.500 kr. í skattframtali árið 2004 og með 5.377.500 kr. í skattframtali árið 2005 er svaraði til helmings gildandi fasteignamats íbúðarinnar. Eins og fram er komið var 50% eignarhluti í greindri íbúð færður til eignar í skattframtölum kæranda umrædd ár og fólu breytingar skattstjóra því í sér að íbúðin var að öllu leyti talin til eignar hjá kæranda. Í öðru lagi er ágreiningur um þá ákvörðun skattstjóra að færa til tekna í reit 521 í skattframtali árið 2005 húsaleigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. af umræddri íbúð sem skattskyldar tekjur kæranda. Þykir rétt að leysa fyrst úr fyrra álitaefninu, þ.e. eignarhaldi að greindum eignarhluta í íbúðinni, enda þykir frekast leiða af niðurstöðu um það efni hverjum leigutekjurnar tilheyra. Samkvæmt því, sem upplýst er í málinu, voru húsaleigutekjur þessar vegna tímabilsins frá 1. maí til 31. desember 2004. Kærandi heldur því fram að húsaleigutekjur þessar tilheyri í heild sinni dóttur sinni, B, enda þótt því sé ekki borið við að hún hafi verið eigandi að allri íbúðinni, heldur einungis 50% eignarhluta. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að auk tilheyrslu leiguteknanna hjá dóttur hans, B, í krafti eignarhalds (50%), sé að öðru leyti byggt á ráðstöfun leiguteknanna til B samkvæmt örlætisgerningi sem aðstoð við íbúðarkaup.

Óumdeilt er að kærandi og eiginkona hans, voru þinglýstir eigendur umræddrar íbúðar að X, Reykjavík, frá því að þau keyptu íbúðina á árinu 2001 og þar til hún var seld á árinu 2005. Þá var íbúðin skráð eign þeirra samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins, sbr. 10. og 22. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Í skattframtali kæranda árið 2002 var íbúðin talin að fullu til eignar. Með skattframtali kæranda árið 2003 fylgdi greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) þar sem gerð var grein fyrir sölu kæranda á íbúðinni að X, Reykjavík, á árinu 2002 til B fyrir 4.000.000 kr. Ekki kemur fram í greinargerðinni hvort um var að ræða sölu allrar eignarinnar eða eignarhluta í henni. Í skattframtali árið 2003 tilgreindi kærandi hins vegar í lið 4.1 50% eignarhluta í íbúðinni og sama var uppi á teningnum í skattframtali B árið 2003. Verður því að álíta að þarna hafi verið á ferðinni ráðstöfun á 50% eignarhluta í íbúðinni. Eins og fram er komið féllst skattstjóri ekki á þessa eignayfirfærslu, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 29. júlí 2003, og færði íbúðina að öllu leyti til eignar í skattframtali kæranda árið 2003. Breyting þessi sætti ekki kæru af hálfu kæranda. Þrátt fyrir þetta sat kærandi við sinn keip í skattframtölum árin 2004 og 2005 og eignfærði aðeins 50% eignarhluta í íbúðinni. Verður ekki annað ráðið en að í þeim efnum hafi kærandi byggt á ráðstöfuninni á árinu 2002, sem skattstjóri hafði hafnað samkvæmt framansögðu, enda er ekki getið um neina nýja ráðstöfun á eignarhluta í íbúðinni til dóttur kæranda í skattframtali árið 2004. Ákvörðun sína varðandi eignfærslu íbúðarinnar byggði skattstjóri á skráðum upplýsingum um eignarhald, þar á meðal samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins. Vísaði skattstjóri til þess að kærandi hefði ekki lagt fram nein skrifleg gögn um kaup dóttur sinnar á umræddum eignarhluta í íbúðinni, sbr. hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 4. janúar 2007. Með bréfi, dags. 20. júlí 2006, fór skattstjóri fram á skýringar kæranda á eignarhaldi á íbúðinni. Varðandi umræddar húsaleigutekjur þá vísaði skattstjóri til upplýsinga samkvæmt greiðslumiða leigjanda og þinglýsts húsaleigusamnings, auk þess sem hann taldi leiða af eignarhaldi á íbúðinni að kærandi væri bær til að ráðstafa íbúðinni til útleigu. Samkvæmt gögnum þessum var kærandi talinn leigusali og viðtakandi leigugreiðslna, eins og fram er komið. Þá er fram komið að B gerði ekki grein fyrir hinum umþrættu húsaleigutekjum í skattframtali sínu árið 2005. Af hálfu kæranda hefur því einkum verið borið við að tilgangurinn með því að þinglýsa ekki þeim eigendaskiptum að eignarhluta í íbúðinni, sem í málinu greinir, hafi verið að spara þinglýsingar- og stimpilgjöld, auk þess sem vandkvæði vegna sambúðar dóttur hans hafi staðið því í vegi að hún fengi þinglýsta eignarheimild. Þá er því almennt teflt fram að um hafi verið að ræða aðstoð við dótturina til öflunar íbúðarhúsnæðis og af þeim ástæðum hafi húsaleigutekjurnar að öllu leyti runnið til hennar.

Rétt er að taka fram að reglur þinglýsingalaga, sbr. lög nr. 39/1978, kveða ekki á um eignarrétt að fasteignum að öðru leyti en leiðir af áhrifum þeirrar réttarverndar og réttaráhrifa sem þinglýsing veitir. Samkvæmt þessu ber ekki fortakslaust að færa fasteign til skattskyldrar eignar hjá þinglýstum eiganda, enda liggi þá fyrir gildur afsalsgerningur um ráðstöfun viðkomandi eignar. Þá verður naumast talið að eigendaskráning Fasteignamats ríkisins sé einhlítur grundvöllur að eignarheimildum yfir fasteignum. Í máli þessu hefur kærandi vísað alfarið á bug þýðingu þess hver sé þinglýstur eigandi að umræddri fasteign. Af málatilbúnaði kæranda verður hins vegar ráðið, sbr. m.a. andmælabréf, dags. 22. ágúst 2006, að fyrir liggi skriflegur kaupsamningur um ráðstöfun greinds eignarhluta í íbúðinni. Þann samning hefur kærandi ekki lagt fram þrátt fyrir ítrekað tilefni, sbr. m.a. bréf skattstjóra, dags. 20. júlí 2006. Svo sem atvikum er farið samkvæmt framansögðu og þar sem kærandi hefur ekki lagt fram gildan afsalsgerning til staðfestingar á þeirri ráðstöfun umrædds eignarhluta í íbúð að X, Reykjavík, sem hann byggir á, verður ekki hróflað við hinum kærðu eignfærslum skattstjóra í skattframtölum kæranda árin 2004 og 2005, sbr. 72. gr. og 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Af því þykir og leiða, sbr. ennfremur fyrirliggjandi greiðslumiða og þinglýstan húsaleigusamning, að umræddar húsaleigutekjur að fjárhæð 560.000 kr. ber að telja til skattskyldra tekna kæranda í reit 521 í skattframtali árið 2005, sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Getur engu breytt um þetta þótt andvirði leigunnar hafi verið ráðstafað til dóttur kæranda samkvæmt örlætisgerningi. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja