Úrskurður yfirskattanefndar
- Barnabætur
- Hjúskaparslit
Úrskurður nr. 265/2007
Gjaldár 2006
Lög nr. 90/2003, 68. gr. A-liður 1. mgr.
A og B, sem áttu saman tvö börn, slitu samvistir á árinu 2005 og voru skattlögð sem einhleypingar við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006. Í málinu krafðist A þess að honum yrðu ákvarðaðar barnabætur með börnum sínum gjaldárið 2006 þar sem hann væri framfærandi barnanna ásamt B. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri kröfu á þeim forsendum að börnin hefðu búið hjá B í árslok 2005.
I.
Málavextir eru þeir að hinn 19. ágúst 2006 barst skattstjóra beiðni umboðsmanns kæranda um að álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006 yrði tekin til endurskoðunar. Fram kom að kærandi hefði skilið að borði að sæng við eiginkonu sína, B, á fyrri hluta ársins 2005. Hefðu þau gert með sér samkomulag um fjárskipti, dags. 13. júlí 2005, er vísað var til. Við skilnaðinn hefðu kærandi og fyrrverandi eiginkona hans selt íbúð sem þau áttu í óskiptri sameign að X í Reykjavík. B hefði síðan fest kaup á íbúð við N-götu en kærandi við S-götu. Fram kom að kærandi og B ættu saman tvo drengi, tvíbura, sem fæddir væru árið 2002 og væri uppi ágreiningur um forsjá drengjanna hjá héraðsdómi Reykjavíkur sem ekki væri búið að leysa úr. Kærandi og fyrrverandi eiginkona hans byggju nú sitt í hvoru lagi. Af hálfu kæranda væru gerðar athugasemdir við að hann væri skattlagður líkt og um barnlausan einstakling væri að ræða. Þetta væri rangt þar sem hann færi með forsjá tvíburanna til jafns á við B. Kæranda hefðu ekki verið reiknaðar barnabætur og enn fremur hefði honum verið gert að endurgreiða „ofgreiddar“ barnabætur. Teldi kærandi að á meðan ekki hefði verið skorið úr ágreiningi um forsjá sona hans bæri honum sami réttur til barnabóta og móðurinni ásamt öðrum atriðum er vörðuðu einstæða foreldra.
Skattstjóri tók erindi kæranda til meðferðar sem kæru og kvað upp kæruúrskurð í málinu, dags. 19. desember 2006. Vísaði skattstjóri til ákvæðis A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem fram kæmi að sá er greiddi meðlag með barni teldist ekki framfærandi þess. Framfærandi teldist einungis sá aðili sem hefði barnið hjá sér í lok tekjuársins. Hjón sem skattlögð væru samkvæmt 62. gr. skyldu bæði teljast framfærendur barns. Skattstjóri tók fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum byggju drengirnir hjá móður sinni og hefði svo verið frá því að skilnaður að borði og sæng hefði farið fram. Þá væru foreldrar barnanna, þ.e. kærandi og B, ekki skattlögð samkvæmt 62. gr. laga nr. 90/2003. Benti skattstjóri á að ekki væri að finna sérstakt lagaákvæði í skattalögum er tæki til þeirra aðstæðna þegar um sameiginlegt forræði foreldra með börnum væri að ræða. Af þessu leiddi að ekki væru fyrir hendi lagaákvæði er mæltu fyrir um „annan útreikning en þegar hefur verið viðhafður“ við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006. Ætti beiðni kæranda um leiðréttingu opinberra gjalda þar af leiðandi ekki rétt á sér.
II.
Með ódagsettri kæru, sem barst yfirskattanefnd hinn 12. febrúar 2007, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 19. desember 2006, til yfirskattanefndar. Í kærunni er ítrekað að kærandi og B séu skilin að borði og sæng en hafi ekki orðið ásátt um forræði tveggja barna sinna. Deila þeirra um forræði yfir börnunum sé til úrlausnar hjá opinberum aðilum, en drengirnir hafi búið hjá móður sinni í árslok 2005. Kærandi telji sig hins vegar eiga rétt til barnabóta líkt og móðir drengjanna þar sem ekki hafi enn verið kveðinn upp úrskurður um forræði yfir drengjunum.
III.
Með bréfi, dags. 4. apríl 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
IV.
Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru reglur um skattskil á því ári þegar hjúskapur er stofnaður eða honum lýkur. Um er að ræða þau tilvik þegar skilyrði hjónasköttunar, sbr. 62. gr. laganna, eru aðeins uppfyllt hluta úr ári. Tekur 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003 til stofnunar eða slita hjúskapar, slita á samvistum og andláts maka. Meginreglan er sú samkvæmt þessu lagaákvæði að skattaðilum ber að telja fram tekjur sínar í samræmi við reglur 62. gr. laganna fyrir þann tíma ársins sem skilyrði þessarar lagagreinar voru uppfyllt, þ.e.a.s. telja fram sem hjón þann tíma. Tekjur á öðrum tíma ársins skal telja fram hjá þeim, sem þær hafði, sem einstaklingi og skattleggja þær samkvæmt því. Um útreikning tekjuskatts og ónýtts persónuafsláttar fer eftir ákvæðum 2. mgr. 69. gr. Settar eru reglur um tímamörk og skal miða við þann dag sem til hjúskapar var stofnað eða skilnaður eða samvistarslit urðu eða andlátsdag maka. Í 4.–6. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003 eru heimildir til að víkja frá framangreindum meginreglum. Samkvæmt ákvæðunum er það lagt á vald skattaðila hvort þeir nýta sér frávik frá meginreglunum sem felast í þessum heimildarákvæðum. Efnislega eru þessi frávik þrenns konar: a) Þeim sem gengið hafa í hjúskap á árinu eða uppfyllt hafa skilyrði 3. mgr. 62. gr. er jafnan heimilt að telja fram allar tekjur sínar á árinu sem hjón í samræmi við ákvæði 62. gr. og fer þá um álagningu tekjuskatts og ákvörðun ónýtts persónuafsláttar samkvæmt því. b) Ljúki hjúskap vegna andláts maka er með hliðstæðum hætti og greinir í a-lið veitt heimild fyrir eftirlifandi maka að telja fram allar tekjur sínar og hins látna sem hjón væru í samræmi við ákvæði 62. gr. í allt að níu mánuði frá og með andlátsmánuði makans. c) Hjónum, sem slíta hjúskap eða samvistum á árinu, er heimilt að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi.
Fram er komið í málinu að kærandi og B slitu samvistir á árinu 2005 og skildu að borði og sæng hinn 13. janúar 2006 samkvæmt því sem skráð er í Þjóðskrá. Töldu kærandi og fyrrverandi eiginkona hans fram til skatts hvort í sínu lagi gjaldárið 2006 vegna tekjuársins 2005 og í skattframtölum þeirra var greint frá samvistarslitum og að skilnaðar að borði og sæng hefði verið leitað á árinu 2005. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006 voru kærandi og B skattlögð sem einhleypingar í samræmi við fyrrgreinda heimild í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003, sbr. lið c) hér að framan. Þá lagði skattstjóri til grundvallar að B væri framfærandi barna hennar og kæranda í árslok 2005 sem leiddi til þess að áður ákvarðaðar barnabætur kæranda féllu niður, sbr. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003.
Af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við framangreinda tilhögun skattlagningar gjaldárið 2006, sbr. og fyrrgreindan framtalshátt kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans umrætt ár. Hins vegar eru gerðar athugasemdir við að álögð gjöld séu miðuð við að kærandi sé barnlaus einstaklingur og verður að skilja kæruna svo að af hálfu kæranda sé gerð krafa um að honum verði ákvarðaðar barnabætur með börnum sínum gjaldárið 2006 þar sem hann sé framfærandi barnanna ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni. Af því tilefni skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 skal ríkissjóður greiða barnabætur með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Bæturnar skal greiða til framfæranda barnsins en framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Tekið er fram að sá er greiðir meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að synir kæranda hafi búið hjá móður sinni í árslok 2005. Samkvæmt þessu er ekki unnt að taka kröfu kæranda varðandi barnabætur til greina.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.