Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Fyrirframgreiddur arfur

Úrskurður nr. 269/2007

Lög nr. 14/2004, 4. gr. 2. mgr., 14. gr. 3. mgr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar var talið að sýslumanni hefði borið að reikna erfðafjárskatt kæranda vegna fyrirframgreidds arfs á árinu 2006 miðað við verðmæti arfsins, þ.e. stofnfjárhluta í sparisjóði, á þeim degi þegar sýslumaður áritaði erfðafjárskýrslu. Var kröfum kæranda, sem lutu að því að miðað yrði við verðmæti stofnfjárhlutanna á fyrra tímamarki, þ.e. aðallega á þeim degi sem eignayfirfærsla hlutanna fór fram en til vara á þeim degi þegar erfðafjárskýrslu var skilað til sýslumanns, hafnað.

I.

Með kæru, dags. 5. júní 2007, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns á erfðafjárskatti vegna fyrirframgreidds arfs á árinu 2006, sbr. tilkynningu sýslumanns, dags. 8. maí 2007, um álagningu erfðafjárskatts, og erfðafjárskýrslu (RSK 1.12), dags. 22. mars 2007, vegna fyrirframgreidds arfs frá A og B. Fyrirframgreiðsla arfsins fólst nánar tiltekið í afhendingu stofnfjárhluta í sparisjóði X að nafnverði 261.150 kr. til kæranda og tveggja bræðra hans, D og E. Í erfðafjárskýrslunni voru stofnfjárhlutarnir færðir á markaðsverði 15.669.000 kr., þ.e. miðað við gengið 60. Kom fram í skýringum með skýrslunni að um væri að ræða gengi í viðskiptum með stofnfjárhluti í X í ágúst 2006, en nafnabreyting hefði verið samþykkt af stjórn X hinn 10. ágúst 2006 og farið fram degi síðar hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Kæruefni málsins er sú ákvörðun sýslumanns að reikna erfðafjárskatt kæranda miðað við verðmæti hins fyrirframgreidda arfs þann dag sem sýslumaður áritaði erfðafjárskýrsluna hinn 8. maí 2007, þ.e. miðað við gengið 110 á stofnfjárhlutum í X, sbr. bréf sýslumanns til kæranda, dags. 27. mars 2007, og tilkynningu um álagningu erfðafjárskatts, dags. 8. maí 2007. Til stuðnings þeirri ákvörðun sinni vísaði sýslumaður til ákvæðis 3. mgr. 14. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, þar sem fram kæmi að reikna bæri erfðafjárskatt miðað við verðmæti arfs þann dag sem sýslumaður áritaði erfðafjárskýrslu ef um fyrirframgreiddan arf væri að ræða eða óskipt bú sem skipt væri fyrir andlát eftirlifandi maka.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að eignayfirfærsla stofnfjárhluta í X vegna fyrirframgreidds arfs frá foreldrum kæranda hafi farið fram hinn 10. ágúst 2006 og upplýsingar frá X um millifærslu borist kæranda snemma á árinu 2007. Kærandi hafi því miðað við gengi stofnfjárhlutanna hinn 10. ágúst 2006 í framlagðri erfðafjárskýrslu, en þegar fulltrúi sýslumanns hafi bent honum á að ekki yrði stuðst við umrætt gengi við álagningu erfðafjárskatts heldur gengi á þeim degi þegar skýrslan yrði árituð hafi kærandi vakið athygli sýslumanns á því að máli skipti hvort miðað yrði við skráð gengi fyrir eða eftir hádegi þann dag, enda hefði gengi dagsins verið á bilinu 91-95 samkvæmt upplýsingum frá MP Fjárfestingabanka hf. Kærandi hafi því gert ráð fyrir því að sýslumaður myndi styðjast við gengi á þessu bili. Við ákvörðun sína hafi sýslumaður hins vegar byggt á genginu 110, sem svari nokkurn veginn til skráðs gengis 6. maí 2007. Sé því um að ræða verulega hærra gengi og þar með hærri álagningu erfðafjárskatts en kærandi hafi reiknað með þegar gengið var frá erfðafjárskýrslu vegna hins fyrirframgreidda arfs. Þá bendir kærandi á að hann hafi selt stofnfjárhlutinn hinn 7. febrúar 2007 fyrir 6.517.550 kr., þ.e. á genginu 74, sbr. meðfylgjandi kvittun MP Fjárfestingabanka hf., dags. 7. febrúar 2007. Sé því aðallega farið fram á að við ákvörðun erfðafjárskatts verði miðað við gengið 74 og söluverð bréfanna 6.517.550 kr., enda sé það sú fjárhæð sem kærandi hafi fengið í hendur við sölu bréfanna. Til vara sé þess krafist að miðað verði við gengið 95 sem sé hæsta gengi þess dags þegar erfðafjárskýrslu var skilað til sýslumanns, þ.e. hinn 22. mars 2007.

II.

Með bréfi, dags. 13. júlí 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður sýslumanns verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun sýslumanns.“

III.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Með heildarverðmæti samkvæmt 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Kemur fram í 2. mgr. að þetta gildi um öll verðmæti sem metin verði til fjár, svo sem nánar er tilgreint. Er m.a. tekið fram að séu verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli telja þau til eignar á kaupgengi eins og það er skráð við síðustu lokun markaðar fyrir andlát arfleifanda. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 er að finna sérreglur um skattstofn vegna tiltekinna eigna.

Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 14/2004 skal erfðafjárskattur hvers erfingja reiknaður út miðað við verðmæti arfs á dánardegi arfleifanda en miðað við þann dag sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu ef um fyrirframgreiddan arf er að ræða eða óskipt bú sem skipt er fyrir andlát eftirlifandi maka. Samkvæmt þessu bar sýslumanni að reikna erfðafjárskatt kæranda miðað við verðmæti hins fyrirframgreidda arfs, þ.e. stofnfjárhluta í sparisjóði X, á þeim degi þegar sýslumaður áritaði erfðafjárskýrslu eða hinn 8. maí 2007. Ekki er neinn ágreiningur um að miða beri skattstofn erfðafjárskattsins við skráð gengi umræddra stofnfjárhluta, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, og af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við uppreiknað nafnverð hlutanna 280.035 kr. samkvæmt ákvörðun sýslumanns. Eins og bent er á í kærunni til yfirskattanefndar virðist sýslumaður hins vegar í raun hafa miðað við gengi stofnfjárhluta í X hinn 2. maí 2007, þ.e. gengið 110, í stað gengis hinn 8. sama mánaðar sem var hærra eða 117, sbr. yfirlit yfir „þróun gengis stofnfjárbréfa í X“ frá 19. mars 2007 sem er meðal gagna málsins. Þess er að geta að hvorki í bréfi sýslumanns til kæranda, dags. 27. mars 2007, né í tilkynningu hans um álagningu erfðafjárskatts, dags. 8. maí 2007, er tilgreint það gengi sem sýslumaður miðaði við eða greint frá upplýsingum sem sýslumaður byggði á í því sambandi. Þar sem ákvörðun sýslumanns að þessu leyti er kæranda til hagsbóta verður ekki við henni hróflað með úrskurði þessum. Samkvæmt framansögðu er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja