Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Styrkur
  • Skattverð

Úrskurður nr. 9/2008

Virðisaukaskattur 2000

Lög nr. 50/1988, 2. gr. 2. mgr., 7. gr., 26. gr.   Lög nr. 37/1993, 9. gr.  

Í máli þessu var ágreiningur um skyldu kæranda, sem var einkahlutafélag, til að standa skil á virðisaukaskatti af greiðslum frá tilgreindum aðilum, m.a. frá M2000 sem var stofnun í eigu Reykjavíkurborgar, vegna þátttöku kæranda í hátíð á dagskrá verkefnisins Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000. Yfirskattanefnd taldi að leggja yrði til grundvallar samkvæmt samningum kæranda og M2000 vegna hátíðarinnar að kærandi hefði staðið fyrir þeim verkefnum sem um ræðir en ekki M2000, þótt um hefði verið að ræða hluta af dagskrá menningarborgar. Að því athuguðu var ekki talið að sérstakar skuldbindingar kæranda vegna framkvæmdar verkefnanna og skyldur til samráðs við M2000 vegna þeirra fælu í sér endurgjald fyrir veittan fjárstuðning M2000. Þá var fallist á með kæranda að tilgreining á merki menningarborgar á kynningarefni vegna hátíðarinnar gæti ekki talist auglýsing með hliðstæðum hætti og þegar um væri að ræða tilgreiningu á merki atvinnufyrirtækja. Var fallist á að framlag M2000 væri að öllu leyti undanþegið virðisaukaskatti. Þá var fallist á með kæranda að greiðslur frá tilgreindum öðrum aðilum hefðu ekki að öllu leyti falið í sér endurgjald fyrir skattskylda vöru eða þjónustu, svo sem skattstjóri taldi. Var miðað við að helmingur umræddra framlaga teldist undanþeginn virðisaukaskattsskyldu og skattskyld velta kæranda lækkuð til samræmis.

I.

Kærandi er einkahlutafélag sem stofnað var í nóvember 1996. Skráður tilgangur félagsins er samkvæmt gögnum málsins rekstur rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtækis á sviði skipulags og hönnunar, ... sbr. m.a. fyrirliggjandi ársreikning félagsins fyrir árið 2000. Kærandi var skráður í grunnskrá virðisaukaskatts frá og með 1. nóvember 1996, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og var miðað við að kærandi hefði með höndum starfsemi sem félli undir atvinnugrein nr. 74.20.3 samkvæmt íslenskri atvinnugreinaflokkun – ÍSAT 95 („starfsemi arkitekta og tækniráðgjöf tengd byggingum“). Skattframtali kæranda árið 2001 fylgdi m.a. leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts (RSK 10.26) þar sem skattskyld velta ársins 2000 var tilgreind 683.851 kr., útskattur 167.543 kr. og innskattur 683.952 kr.

Í kjölfar athugunar á bókhaldsgögnum kæranda fyrir rekstrarárið 2000, sbr. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 12. mars og 17. maí 2001, óskaði skattstjóri eftir því með bréfi til félagsins, dags. 1. nóvember 2001, að nánari grein yrði gerð fyrir skattskyldri veltu rekstrarárin 1999 og 2000 og fengnum styrkjum á greindum árum. Í bréfi skattstjóra kom m.a. fram að kærandi hefði fengið greidda styrki frá X bæði árin vegna tilgreinds skipulagsverkefnis og greiðslur frá Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000 (M2000) að fjárhæð samtals 1.700.000 kr. árið 1999 og 3.775.162 kr. árið 2000 vegna verkefna á dagskrá menningarhátíðar Reykjavíkurborgar á árinu 2000, þ.e. verkefnanna V-hátíðar og „W“, sbr. fyrirliggjandi samninga milli kæranda og M2000, dags. 12. apríl 1999 og 26. júlí 2000. Lagði skattstjóri fyrir kæranda að sýna fram á að umræddar greiðslur væru undanþegnar virðisaukaskatti.

Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra svarað með bréfi, dags. 8. janúar 2002. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði verið stofnaður á árinu 1996 utan um tiltekið rannsóknarverkefni ... og þegið styrki á árunum 1996-2000 vegna þess verkefnis frá X, Y, Z og Þ. Umræddu rannsóknarverkefni væri nú lokið og þar með tilgangi kæranda og væri því fyrirhugað að leggja starfsemi kæranda niður. Þá kom fram að kærandi hefði þegið styrki frá ýmsum aðilum vegna þátttöku í verkefninu V-hátíð á menningarhátíð Reykjavíkurborgar á árinu 2000. Stærsti styrkurinn hefði komið frá menningarborginni sjálfri og hefði fjármálastjóri hennar staðfest að virðisaukaskattur kæmi ekki við sögu vegna slíkra styrkja, enda hefði verið gengið frá slíkum málum í samráði við embætti ríkisskattstjóra. Samkvæmt sundurliðun í bréfi kæranda var um að ræða styrki frá M2000, X, B, D, E, Norðurlandahúsinu Færeyjum, G og R að fjárhæð samtals 5.358.357 kr. á árinu 2000 og verktakagreiðslu frá S ehf. að fjárhæð 683.851 kr. án virðisaukaskatts á sama ári.

Með bréfi, dags. 10. mars 2003, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts árin 1999 og 2000. Í bréfinu kvaðst skattstjóri fallast á með kæranda að styrkir til félagsins frá X hefðu verið veittir án endurgjalds og væru þar af leiðandi undanþegnir virðisaukaskatti. Hins vegar liti skattstjóri svo á að greiða bæri virðisaukaskatt af greiðslum til kæranda samkvæmt samningum félagsins við M2000 þar sem ekki yrði talið að um væri að ræða styrki án endurgjalds, sbr. sjónarmið í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 892/1998, enda kæmi fram í samningum um V-hátíð árið 2000 að menningarborg yrði auglýst á hátíðinni og í öllu útgefnu efni og að um væri að ræða skattskylda þjónustu, þ.e. ýmsa þjónustu og aðstoð við erlenda listamenn á hátíðinni. Sama máli gegndi um styrki frá öðrum aðilum vegna umræddrar hátíðar. Væri því fyrirhugað að gera kæranda að standa skil á virðisaukaskatti af styrk frá M2000 að fjárhæð 1.700.000 kr. árið 1999 og styrkjum frá M2000, B, E, G, D, Norðurlandahúsinu Færeyjum og R að fjárhæð samtals 4.058.357 kr. árið 2000 og hækka skattskylda veltu kæranda umrædd ár til samræmis.

Næst gerðist það í málinu að með bréfi, dags. 29. júní 2006, boðaði skattstjóri kæranda að nýju endurákvörðun virðisaukaskatts árin 1999 og 2000 vegna greiðslna frá M2000 o.fl. á greindum árum. Var bréfið sama efnis og hið fyrra boðunarbréf að því undanskildu að fram kom að hækkun skattskyldrar veltu kæranda yrði 1.365.440 kr. árið 1999 og 3.259.673 kr. árið 2000 þar sem tekið yrði tillit til afreiknaðs virðisaukaskatts af hinum umdeildu styrkjum að fjárhæð 1.700.000 kr. fyrra árið og 4.058.357 kr. síðara árið, þ.e. afreiknaðs virðisaukaskatts að fjárhæð 334.560 kr. fyrra árið og 798.684 kr. það síðara. Þá boðaði skattstjóri beitingu 10% álags á virðisaukaskatt samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 vegna umræddra breytinga.

Af hálfu kæranda var fyrirhuguðum breytingum skattstjóra mótmælt með bréfi, dags. 12. júlí 2006. Í bréfinu kom fram að styrkir sem kæranda hefðu verið veittir af M2000 hefðu verið vegna opnunaratriðis á V-hátíð 2000, en ekki vegna verkefnis sem að einhverju leyti gæti nýst kæranda eftir hátíðina eða orðið eign félagsins. Ekkert endurgjald hefði komið fyrir að því undanskildu að „logo“ M2000 hefði birst á boðskorti á opnunarhátíðina. Þá hefðu styrkir vegna „W“ verið nýttir til þess að greiða listamönnum fyrir þeirra framlag og í bókhaldi kæranda væru reikningar frá listamönnum án virðisaukaskatts. Ekki væri því um að tefla neitt endurgjald til M2000 fyrir utan atriði á hátíðinni sjálfri og fjármunir runnið beint til viðkomandi listamanna sem væru undanþegnir virðisaukaskatti. Að því er varðaði styrki frá öðrum styrktaraðilum þá hefðu ekki verið gerðir neinir skriflegir samningar vegna þeirra og engu endurgjaldi verið lofað fyrir veitta styrki. Hins vegar hefðu styrktaraðilar verið tilgreindir á sérstökum boðsmiðum sem gerðir hefðu verið til að kynna hátíðina, nánar tiltekið með prentstöfum undir fyrirsögninni „styrktaraðilar“ á boðskortinu. Ekki hefðu þannig verið birt nein „logo“ vegna þeirra eða aðrar upplýsingar um þá og því yrði naumast litið svo á að um endurgjald væri að tefla.

Skattstjóri hratt hinum boðuðu breytingum á virðisaukaskattsskilum kæranda árið 2000 í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 22. nóvember 2006, og hækkaði skattskylda veltu félagsins umrætt ár um 3.259.673 kr. vegna greiðslna frá M2000, B, E, G, D, Norðurlandahúsinu Færeyjum og R, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988, sem skattstjóri vísaði til í þessu sambandi. Hins vegar féll skattstjóri frá boðaðri endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda árið 1999 sem og beitingu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Til stuðnings greindum breytingum ítrekaði skattstjóri þau sjónarmið sem fram komu í bréfi hans, dags. 29. júní 2006, og tók fram að móttaka á fjárframlagi hefði ekki í för með sér virðisaukaskattsskyldu, heldur réðist skattskylda í slíkum tilvikum af því endurgjaldi sem innt væri af hendi fyrir fjárframlagið, hvort heldur sem væri í formi vöru eða þjónustu. Auglýsingar og kynningar, svo sem í formi kynningar á fyrirtæki, firmamerki eða söluvöru, teldust til skattskyldrar þjónustu. Að virtum samningi kæranda við M2000 vegna svonefndrar V-hátíðar árið 2000 og gögnum málsins að öðru leyti væri ljóst að kærandi hefði skuldbundið sig til þess að birta „logo“ M2000 á öllu kynningarefni vegna umrædds verkefnis. Auk þess hefði kærandi verið skuldbundinn til þess að taka þátt í opnunarhátíð M2000 og láta M2000 í té boðsmiða vegna opnunar verkefnisins. Að mati skattstjóra fæli framangreint, þ.e. birting „logos“ á kynningarefni, þátttaka í opnunarhátíð og afhending boðsmiða, í sér endurgjald fyrir veitt fjárframlag og því væri um virðisaukaskattsskyldu að ræða vegna styrkja frá M2000 í tengslum við V-hátíð að fjárhæð samtals 2.000.000 kr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Að því er snerti greiðslur frá M2000 að fjárhæð samtals 1.453.651 kr. vegna „W“ tók skattstjóri fram að samkvæmt fyrirliggjandi samningi félaganna vegna þess þáttar verkefnisins hefði kærandi skuldbundið sig til þess að hafa milligöngu um samningsgerð við erlenda listamenn á hátíðinni og greiðslur til þeirra, auk þess sem félagið hefði skuldbundið sig til þess að birta „logo“ M2000 á öllu kynningarefni, taka þátt í opnunarhátíð og láta M2000 í té boðsmiða á hátíðarhöld. Um væri því að ræða endurgjald með hliðstæðum hætti og að því er snerti greiðslur vegna V-hátíðar og yrði ekki annað séð en að þjónusta kæranda við milligöngu og aðstoð við listamenn félli undir skattskyldusvið 2. gr. laga nr. 50/1988. Að því er snertir greiðslur frá öðrum aðilum en M2000, þ.e. B, E, G, D, Norðurlandahúsinu Færeyjum og R að fjárhæð samtals 425.000 kr., benti skattstjóri á að umræddir styrktaraðilar hefðu verið tilgreindir á boðsmiða í tengslum við kynningu hátíðarinnar. Birting á nafni greiðanda fjárframlags eða firmamerki hans fæli almennt í sér auglýsingu eða kynningu, þ.e. virðisaukaskattsskylda þjónustu. Yrði því að telja að kæranda hefði borið að standa skil á virðisaukaskatti af greiðslum frá umræddum aðilum, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

II.

Með kæru, dags. 22. febrúar 2007, hafa umboðsmenn kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 22. nóvember 2006, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur niður „þar sem hvorki verður ótvírætt séð að ákvæði laga nr. 50/1988 styðji niðurstöðu skattstjóra né skattframkvæmd“, eins og segir í kærunni, en til vara að úrskurður skattstjóra verði ómerktur þar sem skattstjóri hafi brotið gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins, enda hafi málið lent í „alvarlegri útideyfu“ hjá skattstjóra, eins og þar stendur. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í kæru umboðsmanna kæranda er varðandi efnishlið málsins vísað til ákvæða 2. og 7. gr. laga nr. 50/1988 og tekið fram að í skattframkvæmd hafi við mat á því, hvort fjárframlag feli í sér endurgjald fyrir skattskylda þjónustu, einkum verið litið til þess hvort styrkveitandi hafi haft raunverulegan fjárhagslegan ávinning af endurgjaldi því sem komið hafi fyrir styrkveitingu. Í því sambandi gildi ekki sömu sjónarmið um opinbera aðila annars vegar og einkaaðila hins vegar. Að því er snertir styrkveitingar til kæranda frá M2000 vegna opnunaratriðis V-hátíðar og verkefnisins „W“, sem verið hafi hluti hátíðarinnar, árétta umboðsmenn kæranda þau sjónarmið og rök sem fram komu í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 12. júlí 2006. Er bent á að þótt túlka megi samninga milli kæranda og M2000 um verkefni þessi þannig að kærandi hafi tekist á hendur ýmsar skuldbindingar verði að hafa í huga að styrkveitandi sé í raun Reykjavíkurborg. Þrátt fyrir að fallast megi á með skattstjóra að birting á nafni styrkveitanda eða firmamerki hans feli almennt í sér auglýsingu eða kynningu sé ljóst í tilviki kæranda að Reykjavíkurborg hafi ekki haft neinna fjárhagslegra hagmuna að gæta af birtingunni sem jafnað verði til kynningar eða auglýsingar á nafni fyrirtækis. Þar sem sveitarfélagið hafi þannig ekki haft eiginlegan fjárhagslegan ávinning af umræddu endurgjaldi verði ekki litið svo á að um afhendingu á skattskyldri þjónustu hafi verið að ræða í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Verði fremur að líta svo á að í styrkveitingum sveitarfélagsins hafi verið fólginn fjárstuðningur til kæranda með það fyrir augum að efla menningarstarf í sveitarfélaginu, borgarbúum og öðrum til ánægju og yndisauka.

Þá kemur fram í kærunni að ekki verði fallist á með skattstjóra að styrkir annarra aðila til kæranda, þ.e. B o.fl., samtals að fjárhæð 425.000 kr., vegna umræddra hátíðarhalda á árinu 2000 séu virðisaukaskattsskyldir. Í hópi styrkveitenda séu þannig aðilar eins og Norðurlandahúsið í Færeyjum og R sem ekki hafi haft beinan fjárhagslegan ávinning af þátttöku sinni, en nafn viðkomandi aðila hafi birst á lista yfir styrktaraðila á boðsmiða vegna hátíðarinnar. Ekki hafi verið gerðir skriflegir samningar vegna umræddra styrkveitinga og verði því ekki séð að styrktaraðilar hafi áskilið sér neitt endurgjald fyrir veittan styrk sem geti talist hafa falið í sér afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Hvorki „logo“ né neinar upplýsingar um styrktaraðila hafi komið fram á boðskortinu heldur einungis nafn þeirra. Sé þess því krafist að umrædd ákvörðun skattstjóra verði felld niður.

Í niðurlagi kærunnar kemur fram til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda að kostnaður félagsins vegna meðferðar málsins nemi samtals 150.000 kr. að viðbættum virðisaukaskatti vegna 10 klukkustunda vinnu umboðsmanna kæranda við málið.

III.

Með bréfi, dags. 22. júní 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í úrskurði skattstjóra kemur fram, að samkvæmt samningi kæranda við Reykjavík menningarborg Evrópu, frá 12. apríl 1999, hafi kærandi skuldbundið sig til þátttöku í opnunarhátíð M2000. Í samningnum er tekið fram að skilyrði fyrir fjárveitingu sé að verkefni verði unnið í samræmi við lýsingu sem send hafði verið með umsókn. Jafnframt kemur fram að ef ekkert verði af verkefninu eða að verulegar breytingar verði á því, án samráðs við M2000, þá sé styrkurinn afturkræfur að hluta eða öllu leyti. Því er ekki hægt að fallast á að um óskilyrtan styrk sé að ræða og af þeim sökum undanþeginn virðisaukaskatti heldur er þvert á móti um að ræða sölu ákveðins verks og þátttöku í opnunarhátíð, þ.e. afhendingu á virðisaukaskattsskyldri þjónustu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í skattframkvæmd hefur verið litið til þess að þegar birting á nafni greiðanda fjárframlags felur ekki í sér auglýsingu eða kynningu, heldur eingöngu gerð í þakklætis- eða virðingarskyni við þann er reiðir fram fé, er ekki um endurgjald fyrir framlagt fé að ræða og því er ekki um að ræða virðisaukaskattsskylda afhendingu vöru eða þjónustu í skilningi 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Svo kann að vera háttað um birtingu á nafni eða merki sveitarfélags, ríkisstofnunar, einstaklings eða félags sem hvorki stundar atvinnustarfsemi né hefur hag af því að koma sér á framfæri. Verður að telja að birting lógós M2000 uppfylli ekki framangreind skilyrði þess að vera undanþegin virðisaukaskatti. Í tilviki kæranda var ekki um birtingu nafns sveitarfélags að ræða heldur kynningu á ákveðnu verkefni sveitarfélags og telja verður að styrkveitandi Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000 (M2000) hafi haft hag af þeirri kynningu. Ekki er hægt að fallast á það með umboðsmanni kæranda að styrkveitandi þurfi að hafa raunverulegan fjárhagslegan ávinning af því endurgjaldi sem hann áskilur sér fyrir það fjárframlag sem innt er af hendi. Nægjanlegt er að hann hafi hag af því að koma sér á framfæri. Það hefur ekki áhrif á virðisaukaskattsskyldu þótt kærandi telji sig ekki hafa eignast verkefnið eftir hátíðina eða haft af því einhver not.

Sömu sjónarmið eiga við um styrki sem kærandi þáði frá öðrum aðilum, til að mynda Norðurlandahúsinu í Færeyjum og R.. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort samningar um kynningu voru gerðir munnlega eða skriflega. Ríkisskattstjóri telur að tilgreining styrkveitenda á boðsmiða feli í sér virðisaukaskattsskylda kynningu eða auglýsingu. Því bar kæranda að telja þessar fjárhæðir til virðisaukaskattsskyldrar veltu sinnar, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og framangreindra athugasemda, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. júní 2007, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Í máli þessu er ágreiningur um skyldu kæranda til að standa skil á virðisaukaskatti af greiðslum frá Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000 (M2000), og fleiri aðilum að fjárhæð samtals 3.878.651 kr. vegna þátttöku kæranda í svonefndri V-hátíð haustið 2000, en sú hátíð var hluti af dagskrá verkefnisins Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000. Eins og fram er komið er kærandi einkahlutafélag og var félagið tekið á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila (grunnskrá virðisaukaskatts) frá og með 1. nóvember 1996 vegna starfsemi arkitekta og tækniráðgjafar, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Er komið fram af hálfu kæranda að félagið hafi verið stofnað um þátttöku í tilgreindu rannsóknarverkefni tengdu skipulagi sem nú sé lokið og liggur raunar fyrir í málinu ljósrit af tilkynningu til skattstjóra, dags. 30. apríl 2006, um afskráningu kæranda af virðisaukaskattsskrá (RSK 5.04) vegna rekstrarloka félagsins. Skattstjóri taldi að umræddar greiðslur til kæranda vegna V-hátíðar árið 2000 fælu að öllu leyti í sér endurgjald fyrir sölu á skattskyldri þjónustu og væru þar af leiðandi að öllu leyti virðisaukaskattsskyldar samkvæmt meginreglu 2. gr. laga nr. 50/1988 og hækkaði af þeim sökum skattskylda veltu kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2000 um andvirði greiðslna þessara. Af hálfu kæranda er því hins vegar haldið fram að greiðslurnar feli að engu leyti í sér endurgjald fyrir skattskylda þjónustu þar sem um styrkveitingar til kæranda sé að ræða, sbr. rökstuðning í kæru umboðsmanna kæranda til yfirskattanefndar, dags. 22. febrúar 2007.

Í kæru umboðsmanna kæranda til yfirskattanefndar eru gerðar athugasemdir við að tafir hafi orðið á málsmeðferð skattstjóra sem brjóti í bága við almenna málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og talið að um slíkan drátt sé að ræða að leiða eigi til ógildingar hins kærða úrskurðar skattstjóra um endurákvörðun, sbr. varakröfu í kærunni. Eins og rakið er í kafla I í úrskurði þessum krafði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 12. mars 2001, um afhendingu allra bókhaldsgagna sem lægju til grundvallar virðisaukaskattsskilum félagsins fyrir árið 2000. Að svo búnu bar skattstjóra að halda málinu áfram í samræmi við almenna málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kjölfar frekari bréfaskrifta, sbr. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 17. maí 2001, og að fengnum umbeðnum gögnum sem munu hafa borist skattstjóra hinn 28. maí 2001, leið nokkur tími þar til skattstjóri krafði kæranda um frekari upplýsingar og skýringar með bréfi, dags. 1. nóvember 2001. Kærandi lét umbeðnar skýringar í té með bréfi, dags. 8. janúar 2002. Ekki verður séð að neitt hafi þá gerst í málinu fyrr en skattstjóri boðaði kæranda með bréfi, dags. 10. mars 2003, endurákvörðun virðisaukaskatts félagsins árin 1999 og 2000, þ.e. rúmlega einu ári eftir að umbeðnar skýringar höfðu borist skattstjóra. Ekki urðu viðbrögð af hálfu kæranda við boðunarbréfi skattstjóra, að því er séð verður, og virðist málið í kjölfar þessa hafa legið í láginni í rúmlega þrjú ár eða allt þar til skattstjóri boðaði kæranda að nýju endurákvörðun virðisaukaskatts árið 2000 með bréfi sínu, dags. 29. júní 2006. Andsvör kæranda bárust skattstjóra með bréfi umboðsmanns félagsins, dags. 12. júlí 2006, og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 22. nóvember 2006, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum á virðisaukaskatti kæranda árið 2000 í framkvæmd.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að verulegar tafir urðu á meðferð málsins af hendi skattstjóra frá því að hann hófst handa í mars 2001 og þar til skattstjóri boðaði kæranda hinar kærðu breytingar á virðisaukaskatti félagsins árið 2000 með bréfi, dags. 29. júní 2006. Þá er ljóst að skattstjóri fór fram úr lögmæltum fresti til að kveða upp úrskurð um endurákvörðun við meðferð sína á málinu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 149/1996. Á þessum töfum hafa ekki komið fram neinar skýringar af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra og ekki tilkynnti skattstjóri kæranda um tafir á afgreiðslu málsins á neinu stigi að því er séð verður. Að framangreindu virtu verður að taka undir með kæranda að ónauðsynlegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins af hendi skattstjóra, sem brotið hafi í bága við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tekið skal fram að samkvæmt dóma- og úrskurðaframkvæmd hafa brot stjórnvalda gegn almennum málshraðareglum og ákvæðum um lögmælta fresti til að ljúka málum almennt ekki verið talin leiða til þess ein sér að ómerkja beri viðkomandi ákvarðanir, sbr. m.a. H 1948:179, H 1997:385, H 1998:1094, H 1998:3781. Má í þessu sambandi og sérstaklega vísa til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. september 2004 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 424/2004 sem kveðinn var upp 19. nóvember 2004 (H 2004:4482). Að þessu athuguðu getur framangreindur dráttur á meðferð málsins af hendi skattstjóra ekki leitt til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun hans. Víkur þá að efnishlið málsins.

Styrkir falla almennt ekki undir skattskyldu samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. gr. þeirra laga, enda er að jafnaði um að ræða fjárframlag án endurgjalds eða gagngjalds af neinu tagi af hendi viðtakanda þess. Sé hins vegar um að ræða greiðslu gegn gagngjaldi, t.d. í formi beinnar eða óbeinnar kynningar á greiðanda, söluvöru hans eða firma- eða vörumerki, verður að telja að um virðisaukaskattsskylda afhendingu sé að ræða samkvæmt meginreglu 2. gr. laga nr. 50/1988, enda verður ekki séð að neitt ákvæði laganna eða reglugerða á grundvelli þeirra hafi undanþegið slík viðskipti virðisaukaskattsskyldu. Skiptir þá út af fyrir sig ekki máli þótt greiðsla sé kölluð styrkur eða styrkveiting. Má í þessu sambandi vísa til sjónarmiða í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. mars 1998 í máli nr. E-5852/1996, sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum 1998 (ST 1998:16), og í úrskurði yfirskattanefndar nr. 781/1998, sem einnig er birtur í Skatta- og tollatíðindum 1998 (ST 1998:156) og á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is).

Víkur fyrst að greiðslum til kæranda frá M2000 að fjárhæð samtals 3.453.651 kr. vegna svonefndrar V-hátíðar, sem var á dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000, og verkefnisins „W“ sem var hluti umræddrar V-hátíðar. Fram er komið að til grundvallar greiðslum þessum lágu tveir samningar kæranda og M2000, þ.e. annars vegar samningur, dags. 12. apríl 1999, vegna verkefnisins V-hátíðar og hins vegar samningur, dags. 26. júlí 2000, vegna verkefnisins „W“, en afrit samninganna eru meðal gagna málsins. Í hinum fyrrnefnda samningi kemur fram að hann taki til verkefnisins V-hátíðar á dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000 og að stuðningur M2000 við verkefnið og val þess inn á dagskrá menningarborgar sé bundinn þeirri forsendu að verkefnið og framvinda þess sé í samræmi við lýsingu og áætlanir. Kemur fram undir lið 4 í samningnum („markmið“) að samningnum sé ætlað að tryggja að af verkefninu verði með fjárstuðningi og öðrum stuðningi sem nánar sé lýst í samningnum. Í lið 5 í samningnum er nánar mælt fyrir um fjárstuðning M2000 til kæranda vegna verkefnisins, þ.e. greiðslur að fjárhæð 3.700.000 kr. og afhendingu flugmiða með afslætti að verðmæti 354.000 kr., svo sem nánar greinir. Er tekið fram að styrkur M2000 sé afturkræfur ef ekkert verði af verkefninu og verði breytingar á áætlun verkefnisins og lýsingu á því beri að tilkynna um þær til framkvæmdastjóra innlendra verkefna hjá M2000, sem sé tengiliður við verkefnið. Verulegar breytingar án samráðs við M2000 geti haft í för með sér að styrkur sé afturkræfur að hluta eða öllu leyti. Þá kemur fram að undirbúningur og framkvæmd verkefnisins sé alfarið á ábyrgð kæranda, þar með talin fjárhagsleg ábyrgð og bókhalds- og framtalsskylda.

Undir lið 6 í samningnum er fjallað um kynningu á verkefninu. Kemur þar fram að M2000 heimili að notað sé merki M2000, stjarna og titill, til að auðkenna verkefnið og skuli það gert í samráði við kynningarstjóra M2000, svo sem nánar greinir. Muni M2000 skipuleggja kynningu á verkefninu sem hluta af heildardagskrá sinni í formi upplýsinga á vef, í prentuðum dagskrárritum, með einstökum kynningarviðburðum og sameiginlegum blaðamannafundum sem M2000 hafi milligöngu um. Fyrirsvarsmaður kæranda skuli sjá til þess að í hvers konar kynningarefni og umfjöllun um verkefnið sé M2000 getið með áberandi hætti. Í útgefnum dagskrám og öðru sambærilegu efni sem sé meira en fjórar síður eigi M2000 rétt á einni síðu til umráða fyrir kynningu. Þá er mælt fyrir um að kynningarefni og aðrar upplýsingar um verkefnið skuli vera til reiðu vegna útgáfu dagskrárrita og annars kynningarefnis M2000, svo sem nánar er tíundað. Kemur fram að eigi síðar en 1. september 1999 skuli senda kynningarstjóra upplýsingar um verð/ aðgöngumiðaverð, sölu/miðasölu, endanlegan tímaramma verkefnis og nákvæma tímasetningu viðburða. Í lið 9 er tekið fram að kærandi haldi rétti til að semja um flutningsrétt í útvarpi og sjónvarpi.

Samningur kæranda og M2000 frá 26. júlí 2000 vegna verkefnisins „W“ er að mestu leyti samhljóða framangreindum samningi aðila frá 12. apríl 1999. Í hinum fyrrnefnda samningi kemur þó jafnframt fram að kærandi taki að sér „að aðstoða listamennina frá Brussel við framkvæmdina á þeirra þætti í V-hátíðinni og gerir samninga við þá um hann“, eins og þar segir. Er tekið fram að kærandi hafi milligöngu um að greiða styrk M2000 til þátttakenda frá Brussel. Í lið 5 kemur fram að fjárstuðningur M2000 vegna verkefnisins „W“ sé fólginn í styrk að fjárhæð 20.000 evrur.

Í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu kemur m.a. fram að samkvæmt samningi kæranda og M2000 vegna V-hátíðar sé ekki um að ræða óskilyrtan styrk heldur þvert á móti „sölu ákveðins verks og þátttöku í opnunarhátíð“, svo sem nánar er rakið. Af því tilefni er ástæða til að taka fram að leggja verður til grundvallar í málinu að kærandi hafi staðið fyrir þeim verkefnum sem um ræðir en ekki M2000, þótt um hafi verið að ræða hluta af dagskrá menningarborgar, enda kemur skýrt fram í samningum aðila að undirbúningur og framkvæmd verkefnanna séu alfarið á ábyrgð kæranda, þ.m.t. fjárhagsleg ábyrgð, sbr. lið 5 í samningunum. Verður og að telja að skattstjóri hafi byggt á þessu, enda leit hann svo á að endurgjald fyrir greiðslur M2000 hefði m.a. verið fólgið í birtingu á merki („logo“) menningarborgar á kynningarefni vegna hátíðahaldanna og afhendingu boðsmiða á hátíðina til M2000. Að þessu athuguðu verður ekki talið að sérstakar skuldbindingar kæranda vegna framkvæmdar verkefnanna, svo sem til þess að taka þátt í hátíðarhöldum samkvæmt nánara samkomulagi við M2000 og til þess að koma fram gagnvart erlendum listamönnum, og skyldur til samráðs við M2000 vegna þeirra, feli í sér endurgjald fyrir veittan fjárstuðning stofnunarinnar. Fyrir liggur í málinu að M2000 var stofnun í eigu sveitarfélags, þ.e. Reykjavíkurborgar. Verður að taka undir með umboðsmönnum kæranda að tilgreining á merki menningarborgar á kynningarefni vegna V-hátíðar geti ekki talist auglýsing eða kynning með hliðstæðum hætti og þegar um er að ræða tilgreiningu á firmamerki atvinnufyrirtækja. Hér má jafnframt vísa til niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/1996 varðandi framlag sveitarfélags til skákmóts, sbr. og fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. mars 1998 í máli nr. E-5852/1996 (ST 1998:16). Með vísan til framanritaðs þykir mega fallast á kröfu kæranda varðandi greiðslur frá M2000 að fjárhæð 3.453.651 kr.

Víkur þá sögunni að framlögum frá öðrum aðilum að fjárhæð samtals 425.000 kr. vegna V-hátíðar, nánar tiltekið frá B hf., D hf., E hf., G hf., Norðurlandahúsinu Færeyjum og R að fjárhæð (í sömu röð) 100.000 kr., 100.000 kr., 75.000 kr., 50.000 kr., 50.000 kr. og 50.000 kr. Af hálfu kæranda er komið fram að engir skriflegir samningar hafi verið gerðir um þær styrkveitingar. Hafi styrktaraðilar verið tilgreindir á boðsmiðum vegna hátíðarinnar, en hvorki firmamerki né aðrar upplýsingar um þá hafi þar komið fram. Allt að einu verður að telja að vegna tilgreiningar fyrirtækjanna sem styrktaraðila hátíðarinnar hafi framlag þeirra haft nokkurt auglýsingagildi fyrir þau. Með hliðsjón af því og gögnum málsins að öðru leyti þykir ekki unnt að byggja á því að framlög B hf., D hf., E hf., G hf. og R til kæranda hafi ekki að neinu leyti falið í sér endurgjald fyrir afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu, eins og kærandi heldur fram. Á hinn bóginn þykir ekki fá staðist í ljósi fram kominna skýringa kæranda að telja hin umdeildu framlög fela að öllu leyti í sér endurgjald fyrir skattskylda vöru eða þjónustu, svo sem skattstjóri hefur gengið út frá. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu er ekki önnur leið tæk en að ákvarða virðisaukaskattsskyldan hluta þessara framlaga að álitum. Með hliðsjón af atvikum málsins og niðurstöðu í margnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. mars 1998 verður miðað við helming framlags í því sambandi, þ.e. 50.000 kr. í tilviki B hf. og D hf., 37.500 kr. í tilviki E hf. og 25.000 kr. í tilviki G hf. og R. Hins vegar þykir mega taka kröfu kæranda varðandi framlag frá Norðurlandahúsinu í Færeyjum að fjárhæð 50.000 kr. til greina að fullu að virtu eðli starfsemi þeirrar stofnunar samkvæmt því sem fyrir liggur í gögnum málsins.

Það leiðir af framansögðu að skattskyld velta kæranda á uppgjörstímabilinu nóvember-desember 2000 ákvarðast 834.451 kr. og lækkar því um 3.109.073 kr. frá því sem skattstjóri ákvað.

Umboðsmenn kæranda hafa gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að mestu leyti, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað félagsins vegna meðferðar málsins, en gert grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 80.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Virðisaukaskattsskyld velta kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2000 verður 834.451 kr. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 80.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja