Úrskurður yfirskattanefndar
- Dagpeningar
- Skattmat fjármálaráðherra
- Álag
Úrskurður nr. 43/2008
Gjaldár 2003-2005
Lög nr. 90/2003, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 108. gr. 2. mgr., 118. gr. Skattmat fyrir tekjuárin 2002, 2003 og 2004.
Kærandi var framkvæmdastjóri X ehf., sem hafði með höndum smábátaútgerð, og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Skattstjóri felldi niður frádrátt á móti dagpeningagreiðslum frá X ehf. í skattframtölum kæranda. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að dagpeningar hefðu fyrst og fremst verið greiddir kæranda vegna reglubundinna ferða hans í tengslum við sjóferðir og undirbúning veiða á bát X ehf. Þegar tilhögun á starfi kæranda var virt og sérstaklega haft í huga að starf hans hefði beinlínis verið fólgið í útgerð og sjósókn á bát launagreiðanda var ekki fallist á að um tilfallandi ferðir utan venjulegs vinnustaðar væri að ræða í skilningi skattmatsreglna fjármálaráðherra þannig að frádráttur eftir reglum um dagpeninga kæmi til álita. Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.
I.
Með kæru, dags. 6. mars 2007, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 9. janúar 2007, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2003, 2004 og 2005. Með úrskurðinum lækkaði skattstjóri eða felldi niður frádrátt á móti dagpeningum í skattframtölum kæranda umrædd ár úr 842.000 kr. í 0 kr. tekjuárið 2002, úr 945.400 kr. í 38.700 kr. tekjuárið 2003 og úr 1.032.950 kr. í 81.300 kr. tekjuárið 2004 og bætti 25% álagi við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2003, 2004 og 2005 sem leiddi af þeim breytingum, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingum skattstjóra verði hnekkt.
II.
Málavextir eru þeir að kærandi er framkvæmdastjóri X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Hefur félagið með höndum smábátaútgerð, þ.e. útgerð bátsins Z. Í skattframtölum sínum árin 2003, 2004 og 2005 tilgreindi kærandi í reitum 291 og 292 samtals 356 sjómannadaga vegna sjómennsku hvert umræddra ára. Þá taldi kærandi sér til tekna í reit 23 í skattframtölunum dagpeninga frá X ehf. að fjárhæð 842.000 kr. fyrsta árið, 946.000 kr. það næsta og 1.032.950 kr. það síðasta. Til frádráttar dagpeningum í reit 33 færði kærandi 842.000 kr. fyrsta árið, 945.400 kr. það næsta og 1.032.950 kr. það síðasta. Skattframtölunum fylgdu greinargerðir um dagpeninga (RSK 3.11) þar sem gerð var grein fyrir frádrætti vegna dagpeninga innanlands, einkum vegna gistingar og fæðis en jafnframt vegna gistingar eingöngu, heilsdagsfæðis og hálfsdagsfæðis, svo sem nánar var sundurliðað.
Með bréfi til X ehf., dags. 9. maí 2006, skoraði skattstjóri á félagið að leggja fram „dagpeningaskýrslur“ vegna dagpeningagreiðslna til kæranda árin 2002, 2003 og 2004 þar sem fram kæmu upplýsingar um tilefni ferða og fjölda ferðadaga umrædd ár. Umbeðin gögn bárust skattstjóra með bréfi umboðsmanns X ehf., dags. 1. júní 2006.
Með bréfi til kæranda, dags. 25. júlí 2006, sendi skattstjóri kæranda ljósrit af þeim gögnum sem fylgdu framangreindu bréfi umboðsmanns X ehf. og fór fram á að kærandi staðfesti að um réttar skýrslur væri að ræða. Þá gaf skattstjóri kæranda kost á að koma á framfæri frekari skýringum á tilefni ferða ef hann teldi ástæðu til. Í svarbréfi kæranda, dags. 8. ágúst 2006, kom fram að ekki væri ástæða til frekari skýringa í þessu sambandi.
Með bréfi, dags. 29. september 2006, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2003, 2004 og 2005 þar sem fyrirhugað væri að lækka frádrátt á móti dagpeningum um 842.000 kr. í skattframtali árið 2003, um 907.300 kr. í skattframtali árið 2004 og um 951.650 kr. í skattframtali árið 2005 að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bréfinu rakti skattstjóri gang málsins og fyrri bréfaskipti í því. Kom fram í bréfinu að það væri skilyrði fyrir frádrætti vegna dagpeninga samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 að um væri að ræða greiðslu dagpeninga vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda utan venjulegs vinnustaðar og að launþegi hefði greitt gistingu og fæði og annan ferðatengdan kostnað, sbr. matsreglur fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2003 sem birtar hefðu verið sem auglýsing nr. 6/2003 í B-deild Stjórnartíðinda. Þá kom fram að kærandi væri stofnandi X ehf. og framkvæmdastjóri félagsins. Hefði félagið gert út einn bát, Z, á árunum 2002, 2003 og 2004. Samkvæmt skýringum á tilefni ferða í innsendum yfirlitum vegna dagpeningagreiðslna til kæranda yrði ekki betur séð en að flestar greiðslur væru vegna „brælu, veiða, viðgerða á bátnum eða vegna ferða til og frá veiðistað“ auk þess sem dagpeningar hefðu verið greiddir vegna ferða á Bíldudal og til Reykjavíkur og ferða „vestur“ vegna útréttinga. Þá kæmu ekki fram í skýrslunum nákvæmar skýringar á því hvernig ferðir þessar tengdust rekstri félagsins þannig að ráðið yrði með ótvíræðum hætti að um tilfallandi ferðir í þágu launagreiðanda hefði verið að ræða. Í tilviki kæranda, sem væri eigandi og framkvæmdastjóri X ehf., þætti mega gera ríkari kröfur um frágang dagpeningaskýrslna en ella, þ.e. ef um óskyldan aðila væri að ræða. Almennt yrði að telja að starfsvettvangur sjómanna væri um borð í bátnum, þ.e. báturinn væri hinn venjubundni vinnustaður sjómanns, enda næði sjómannaafsláttur einungis til launa sem greidd væru vegna sjómennsku. Á útgefnum launamiðum X ehf. kæmi fram að öll laun kæranda væru vegna sjómennsku. Þætti mega líta svo á að starf kæranda væri að mestu leyti innt af hendi um borð í bátnum, enda aflaði kærandi teknanna þar. Báturinn væri því hinn venjubundni vinnustaður kæranda, hvort sem um væri að ræða viðhald, ferðir til og frá veiðistað eða sjómennsku, þótt einhver störf í þágu rekstrarins féllu einnig til. Þannig gæti dvöl kæranda um borð í bátnum þegar hann sinnti venjubundnum störfum sínum vart talist tilfallandi ferðir utan venjulegs vinnustaðar í skilningi skattmatsreglna. Væri því fyrirhugað að hafna öllum frádrætti á móti fengnum dagpeningum kæranda tekjuárin 2002, 2003 og 2004 þar sem skilyrði slíks frádráttar væru ekki fyrir hendi. Þá væri fyrirhugað að beita 25% álagi á hækkun skattstofna samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Með bréfi, dags. 22. október 2006, mótmælti kærandi hinum boðuðu breytingum skattstjóra. Kvaðst kærandi mótmæla þeirri túlkun skattstjóra að bátur launagreiðanda væri hinn venjubundni vinnustaður kæranda, enda væri báturinn farartæki og vinnutæki sem kærandi notaði til að komast á veiðisvæði þar sem von væri á fiski. Vinnustaður kæranda væri sá staður þar sem kærandi væri hverju sinni vegna útgerðarinnar, á landi eða sjó. Venjubundinn vinnustaður kæranda væri í Y-bæ og á þeim fiskimiðum sem kærandi gæti sótt í dagróðri frá Y-bæ. Báturinn væri skráður með heimahöfn í Y-bæ þar sem kærandi væri sjálfur búsettur og X ehf. væri með skráða starfsstöð. Fram kæmi á vefsíðu ríkisskattstjóraembættisins að dagpeningum væri ætlað að standa undir kostnaði launþega vegna fjarveru frá heimili sínu og væri óskiljanlegt að skattstjóri skyldi halda fram annarri túlkun í máli kæranda. Þá benti kærandi á að í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. janúar 1999, varðandi dagpeninga flugmanna í innanlandsflugi væri byggt á því að venjulegur vinnustaður flugliða væri heimahöfn þess flugfélags sem þeir ynnu hjá, þ.e. á Reykjavíkurflugvelli í tilviki flugliða hjá Flugleiðum hf. Kærandi hefði nær eingöngu gert út á handfæri og væri ekki á vísan að róða við slíkar veiðar, enda yrði að elta göngur þorsks til þess að ná árangri. Hefði kærandi yfirleitt hafið róðra fyrir Suðurlandi og róið frá Grindavík eða Þorlákshöfn, fært sig vestur á Snæfellsnes og síðan á Vestfirði og endað við Skagaströnd eða Siglufjörð. Þannig væri afla jafnan landað á mörgum stöðum og oft væri ekki ljóst að morgni hvar veiðiferð myndi ljúka að kvöldi. Gerði kærandi nánari grein fyrir þessu og kvaðst samkvæmt því telja að við fiskveiðar á handfærum væri jafnan um tilfallandi ferðir að ræða. Þá tók kærandi fram að þingmenn, ráðherrar og eftirlitsmenn Fiskistofu fengju dagpeninga og yrði ekki séð að jafnræðis væri gætt ef dagpeningafrádráttur kæranda yrði felldur niður á þeim grundvelli sem skattstjóri boðaði.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. janúar 2007, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, felldi niður frádrátt á móti dagpeningum 842.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2003 og lækkaði frádrátt á móti dagpeningum um 906.700 kr. í skattframtali árið 2004 og um 951.650 kr. í skattframtali árið 2005 og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 2003, 2004 og 2005 til samræmis að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum áréttaði skattstjóri tilvísun til réttarreglna í boðunarbréfi, dags. 29. september 2006, og tók m.a. fram að matsreglur ríkisskattstjóra og fjármálaráðherra fyrir tekjuárin 2002, 2003 og 2004 hefðu birst sem auglýsingar nr. 33/2002, 6/2003 og 16/2004 í B-deild Stjórnartíðinda. Í reglum þessum væri gert að skilyrði fyrir frádrætti á móti dagpeningum að um væri að ræða tilfallandi ferðir á vegum launagreiðanda utan venjulegs vinnustaðar. Í reglunum væri þó ekki að finna skilgreiningu á því hvað teldist „venjulegur vinnustaður“, en skattstjóri liti svo á að við ákvörðun þess þyrfti að líta til þess hvar launþegi innti venjulega starf sitt af hendi í þágu launagreiðanda síns. Þá væri eðlilegt að líta til þess hvort um reglubundinn og ríkan þátt væri að ræða í starfi launþegans. Venjulegur vinnustaður launamanns þyrfti því ekki endilega að vera á lögheimili eða skráðri starfsstöð launagreiðanda. Starf kæranda væri fólgið í sjósókn á bátnum Z og færi vinna hans og tekjuöflun því fram í og við bátinn. Teldi skattstjóri því að báturinn væri fastur, samningsbundinn vinnustaður kæranda og af því leiddi að frádráttur vegna dagpeninga gæti ekki komið til álita á móti greiðslum vegna róðra og landana þrátt fyrir að um væri að ræða landanir utan heimahafnar. Vegna tilvísunar kæranda til ákvarðandi bréfs ríkisskattstjóra frá 15. janúar 1999 varðandi dagpeningafrádrátt flugliða og jafnræðisreglu vísaði skattstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 42/2005 þar sem slíkum sjónarmiðum hefði verið veitt úrlausn og tók skattstjóri forsendur þess úrskurðar að hluta orðrétt upp í úrskurði sínum. Þá ítrekaði skattstjóri að miðað við skýringar á tilefni ferða í innsendum dagpeningaskýrslum virtist mega ráða að dagpeningar hefðu verið greiddir vegna ferða þar sem kærandi væri „að sigla bátnum frá einum stað til annars eða fara til eða frá þeim stað þar sem báturinn er staðsettur“, sbr. t.d. tilgreind ferðatilefni „farið suður“, „siglt vestur Ólafsvík“, „farið vestur á Tálkna“, „farið norður“, „báturinn sóttur“ ... . Þá virtist um að ræða greiðslur vegna róðra á bátnum („róður Þorlákshöfn“, „veiðiferð“) og vegna tímabila þegar báturinn lægi í höfn vegna brælu („bræla“, „veiðif. bræla“). Þá kæmu fyrir skýringar á borð við „Rvík-útréttingar-Y-bær“, „v/dýptarmæli o.fl.“, „viðgerðir farið vestur“ og „útrétta farið vestur“ og yrði ekki ráðið af þeim skýringum hvernig umræddar ferðir tengdust rekstri X ehf. Ítrekaði skattstjóri að gera yrði ríkar kröfur til kæranda um skýringar á ferðum þar sem ekki væri um ótengda aðila að ræða. Af hálfu kæranda hefðu þó engar frekari skýringar komið fram. Með vísan til framanritaðs væri niðurstaða skattstjóra sú að kæranda hefði ekki verið heimilt að færa frádrátt á móti dagpeningum í skattframtölum sínum árin 2003, 2004 og 2005 og væri tilfærður frádráttur því felldur niður. Til stuðnings álagsbeitingu samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 vísaði skattstjóri til þess að kærandi hefði fært óheimilan frádrátt vegna dagpeninga í skattframtölum vegna þriggja tekjuára og yrði ekki talið að ástæður væru fyrir hendi til þess að fella niður álag samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 6. mars 2007, er þess krafist að hin kærða ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 9. janúar 2007, verði felld niður. Ítrekar kærandi að hann mótmæli þeirri afstöðu skattstjóra að trillan Z sé venjulegur vinnustaður kæranda og áréttar í því sambandi sjónarmið sem fram komu í bréfi hans til skattstjóra, dags. 22. október 2006, þess efnis að venjulegur vinnustaður hans sé í heimahöfn bátsins í Y-bæ þar sem launagreiðandi kæranda sé með skráða starfsstöð og húsnæði. Þá bendir kærandi á að í bátnum Z sé hvorki eldunaraðstaða né svefnaðstaða og hafi kærandi því þurft að verða sér úti um gistingu og fæði í landi í þeim tilvikum þegar róið hafi verið utan heimahafnar. Ekki sé kunnugt um nokkurn launþega sem myndi láta bjóða sér að vera sendur landshorna á milli á vegum vinnuveitanda án þess að vinnuveitandinn greiddi kostnað af fæði og gistingu. Kærandi hafi bent skattstjóra á að við veiðar á handfærum sé óvíst hvort afla sé landað í sömu höfn að kvöldi og lagt hafi verið af stað frá að morgni. Þá tekur kærandi fram, vegna athugasemda í úrskurði skattstjóra um að kærandi hafi ekki látið í té frekari skýringar en fram komi í innsendum dagpeningaskýrslum, að skattstjóri hafi aldrei óskað eftir frekari skýringum á skýrslunum, enda sé óljóst hvað það sé í skýrslum kæranda sem skattstjóri fái ekki skilið. Telji kærandi tilgangslaust að endurrita dagpeningaskýrslurnar á grundvelli upplýsinga úr dagbókum, enda hafi skattstjóri byggt á því að fastur, samningsbundinn vinnustaður kæranda sé um borð í bátnum og að kærandi eigi þar af leiðandi ekki rétt á neinum frádrætti vegna fæðis og gistikostnaðar. Þá sé því mótmælt að slíkir annmarkar hafi verið á skattframtölum kæranda umrædd ár að beiting 25% álags sé lögmæt, enda hafi kærandi verið í góðri trú um réttmæti hins umdeilda dagpeningafrádráttar.
IV.
Með bréfi, dags. 27. apríl 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
V.
Kærandi í máli þessu er framkvæmdastjóri X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Er starfsemi einkahlutafélagsins fólgin í smábátaútgerð, þ.e. útgerð bátsins Z, og í skattframtölum sínum árin 2003, 2004 og 2005 tilgreindi kærandi 365 sjómannadaga vegna sjómennsku á árunum 2002, 2003 og 2004. Fram er komið af hálfu kæranda að róið var á bátnum frá ýmsum höfnum á sunnan- og vestanverðu landinu, auk heimahafnar í Y-bæ, og samkvæmt upplýsingum um landanir bátsins á vef Fiskistofu var einkum um að ræða landanir í Þorlákshöfn, Ólafsvík og Stykkishólmi og á Rifi, Skagaströnd og Tálknafirði á greindum árum. Eins og fram er komið færði kærandi sér til tekna í skattframtölum sínum árin 2003, 2004 og 2005 dagpeninga frá X ehf. að fjárhæð 842.000 kr. fyrsta árið, 906.700 kr. það næsta og 951.650 kr. það síðasta og færði sömu fjárhæðir til frádráttar á móti dagpeningunum. Auk þess fékk kærandi greidda dagpeninga frá Landssambandi smábátaeigenda og Y-bæ að fjárhæð samtals 38.700 kr. tekjuárið 2003 og 81.300 kr. tekjuárið 2004 og er ekki ágreiningur um frádrátt á móti þeim. Skattframtölum kæranda fylgdu greinargerðir um dagpeninga (RSK 3.11) þar sem gerð var grein fyrir frádrætti vegna dagpeninga innanlands, einkum vegna gistingar og fæðis en einnig vegna gistingar, heilsdagsfæðis og hálfsdagsfæðis, svo sem nánar kom fram. Var færður frádráttur vegna gistingar og fæðis í 54 sólarhringa tekjuárið 2002, 60 sólarhringa tekjuárið 2003 og 67 sólarhringa tekjuárið 2004. Í yfirliti yfir dagpeninga, sem fylgdi bréfi umboðsmanns X ehf. til skattstjóra, dags. 1. júní 2006, var tilefni einstakra ferða tilgreint með ýmsum hætti, svo sem „farið suður“, „siglt í Hólminn“, „farið norður“, „báturinn sóttur“, „veiðiferð“, „bræla“, „viðgerð Þorlákshöfn“, „heim“, „róður Tálkna“, „farið suður með bátinn“, „útrétta farið vestur“ o.s.frv., svo sem skattstjóri tíundaði í boðunarbréfi sínu til kæranda, dags. 29. september 2006.
Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, má draga frá tekjum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra. Í 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 116. gr. laga nr. 75/1981, segir að í upphafi hvers árs skuli fjármálaráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2004 (framtalsárið 2005), sbr. auglýsingu nr. 16, 9. janúar 2004 í B-deild Stjórnartíðinda, er að finna reglur um frádrátt dagpeninga og hliðstæðra endurgreiðslna í lið 3.2. Þar segir m.a. svo, sbr. samhljóða ákvæði í lið 3.2 í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2003 (framtalsárið 2004), sbr. auglýsingu nr. 6, 8. janúar 2003 í B-deild Stjórnartíðinda, og í lið 3.2 í skattmati ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2002 (framtalsárið 2003), sbr. auglýsingu nr. 33, 16. janúar 2002 í B-deild Stjórnartíðinda:
„Frádráttur á móti dagpeningum sem launþegi hefur fengið greidda frá launagreiðanda sínum er heimill, enda hafi dagpeningarnir verið greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar og launþeginn greitt gistingu og fæði og annan ferðatengdan kostnað, svo sem fargjöld að og frá flugvöllum. Frádrátturinn er jafnframt háður því skilyrði að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launþega, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga, svo og nafn og kennitala launþega.“
Síðan eru raktar þær fjárhæðir sem draga má frá dagpeningum.
Samkvæmt framanrituðu þykir verða við það að miða að frádráttur dagpeninga samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 komi að meginstefnu ekki til álita nema á móti greiðslum sem vinnuveitandi hefur greitt launamanni vegna „tilfallandi ferða á vegum launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar“. Í þessu sambandi er og rétt að vísa til sambærilegrar túlkunar vegna eldri gjaldára samkvæmt úrskurðaframkvæmd, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 298/1997 sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum 1997 (ST 1997:52) og á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is).
Eins og rakið hefur verið hér að framan var starf kæranda hjá X ehf. fólgið í útgerð og sjósókn á bát félagsins, Z, sem róið var frá ýmsum stöðum á Suðvestur- og Vesturlandi þau ár sem um ræðir. Ljóst er að hinir umdeildu dagpeningar voru fyrst og fremst greiddir kæranda vegna reglubundinna ferða hans í tengslum við sjóferðir og undirbúning veiða, sbr. einkum fyrrgreint yfirlit yfir dagpeninga sem X ehf. lét skattstjóra í té með bréfi, dags. 1. júní 2006, en samkvæmt yfirlitinu og greinargerðum um dagpeninga (RSK 3.11), sem fylgdu skattframtölum kæranda, var um að ræða samtals 83 ferðadaga hvert tekjuáranna 2002, 2003 og 2004, nánar tiltekið á tímabilinu frá 19. mars til 14. október 2002, frá 11. mars til 18. október 2003 og frá 16. mars til 13. ágúst 2004. Þegar tilhögun á starfi kæranda, eins og henni er lýst í málinu, er virt og sérstaklega er haft í huga að starfið var beinlínis fólgið í sjósókn á bát launagreiðanda, Z, verður ekki fallist á að um tilfallandi ferðir utan venjulegs vinnustaðar í framangreindum skilningi hafi verið að ræða þannig að frádráttur eftir reglum um dagpeninga komi til álita. Má í þessu sambandi jafnframt vísa til sjónarmiða í dómi Hæstaréttar Íslands frá 12. nóvember 1998 í málinu nr. 119/1998 (H 1998:3651), sbr. ennfremur úrskurðaframkvæmd, sbr. t.d. úrskurði yfirskattanefndar nr. 298/1997, 170/2004 og 42/2005 sem birtir eru á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is). Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Af hálfu kæranda hefur beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 verið sérstaklega mótmælt. Samkvæmt ákvæði þessu má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sömu laga skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Eftir öllum atvikum þykir mega falla frá beitingu álags í tilviki kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álag fellur niður. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.