Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
- Reiknað endurgjald
Úrskurður nr. 274/2007
Gjaldár 2005
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 58. gr. 5. mgr. Reglur fjármálaráðherra um reiknað endurgjald tekjuárið 2004
Deilt var um ákvörðun skattstjóra að fella niður gjaldfært reiknað endurgjald tveggja sona kæranda í rekstrarreikningi vegna vöruflutninga. Talið var að kærandi hefði ekki gert svo skilmerkilega grein fyrir vinnuframlagi sona sinna sem ætlast yrði til í ljósi vefengingar skattstjóra. Þá var fallist á með skattstjóra að ungur aldur sona kæranda, sem fæddir voru á árunum 1988 og 1990, og verkefni þau, sem fylgdu starfsemi kæranda, gæfu naumast tilefni til að ákvarða þeim reiknað endurgjald og laun í þeim mæli sem gert hefði verið. Þar sem ekki þóttu á hinn bóginn efni til að draga í efa að synir kæranda hefðu aðstoðað hann að einhverju leyti við reksturinn var fallist á að ákvarða reiknað endurgjald þeirra að álitum og var í því sambandi miðað við reglur fjármálaráðherra um reiknað endurgjald.
I.
Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2005 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnun við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 2005 barst skattstjóra hinn 27. maí 2005 og tók skattstjóri framtalið til meðferðar sem kæru, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Skattframtalinu fylgdi m.a. rekstrarskýrsla (RSK 4.11) vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda við vöruflutninga á árinu 2004. Samkvæmt skýrslunni námu rekstrartekjur samtals 8.684.687 kr., þar af virðisaukaskattsskyld velta 7.058.727 kr. Til gjalda færði kærandi m.a. reiknað endurgjald 1.200.000 kr. vegna vinnu sinnar við eigin atvinnurekstur og vegna vinnu barna 180.000 kr. og laun 739.490 kr. Að teknu tilliti til rekstrargjalda og fjármagnsgjalda samtals 10.464.999 kr. nam tap ársins 1.780.312 kr.
Áður en skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu ritaði hann kæranda bréf, dags. 6. mars 2006, þar sem hann fór fram á skýringar kæranda vegna tilgreindra liða í skattframtalinu. Skattstjóri tók fram að tilfært reiknað endurgjald að fjárhæð 1.200.000 kr. vegna vinnu kæranda sjálfs við sjálfstæða starfsemi á árinu 2004 virtist lægra en eðlilegt gæti talist og með hliðsjón af heildartekjum kæranda af akstri á árinu 2004. Óskaði skattstjóri eftir því að kærandi gerði nákvæma tölulega grein fyrir ákvörðun sinni um reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur á árinu 2004, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2004 (RSK 6.02). Varðandi greidd laun og endurgjald vegna vinnu barns tók skattstjóri fram að af heildarlaunum í atvinnurekstri kæranda 2.119.490 kr. væru 919.490 kr. vegna launa til tveggja sona kæranda sem voru fæddir á árunum 1988 og 1990. Þættu launagreiðslur þeirra vart fá staðist með hliðsjón af ungum aldri þeirra og eðlis rekstrar kæranda. Þá hefðu orðið verulegar breytingar á rekstri kæranda á árinu 2004 með tilliti til rekstraráranna 2002 og 2003 þegar kærandi hefði að mestu staðið einn að tekjuöflun. Óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að hann gerði nákvæma grein fyrir vinnuframlagi barna sinna við reksturinn á árinu 2004, hvaða störf þeir hefðu unnið, á hvaða tímabili og hve marga tíma. Jafnframt fór skattstjóri fram á að kærandi legði fram gögn um útreikning launa, tímakaup, staðfestingu barna á greiðslum, ásamt bankayfirliti sem staðfesti greiðslur til þeirra. Að lokum fór skattstjóri fram á að kærandi legði fram öll bókhaldsgögn sem lægju til grundvallar gjaldaliðnum ,,Kaupleiga“ 1.328.946 kr. í rekstrarreikningi fyrir árið 2004.
Bréfi skattstjóra var svarað með bréfi kæranda, dags. 13. mars 2006. Þar kom fram að kranar, sem tilgreindir væru í fyrningarskýrslu, væru bílkranar. Annar þeirra hefði verið seldur og hinn væri gamall og lítið verðmæti í honum. Þá væri einn bílkrani á leigu. Á árinu 2004 hefði kærandi verið í miklum akstri fyrir stóra verktaka. Aksturinn hefði verið á lágum gjöldum og mikill kostnaður hefði verið samfara keyrslunni þar sem ökutæki kæranda væru gömul og þörfnuðust viðgerða sem færu fram á kvöldin og um helgar. Kærandi hefði því breytt akstrinum á árinu 2004. Hann hefði farið í bakaðgerð og hefði þess vegna lítið getað unnið og þurft að sækja sér aðstoð sona sinna við vinnuna og hefðu þeir m.a. hjálpað honum í viðgerðum á kvöldin og um helgar. Kom fram að tímakaup yngri sonar kæranda hefði verið 500 kr. með orlofi. Hann hefði unnið fyrir 150.000 kr. í maí til september og 30.000 kr. hefði hann fengið til viðbótar á öðrum tímabilum ársins eða samtals 360 tímar. Laun eldri sonar kæranda, sem hefði orðið 16 ára á árinu, hefðu verið 40% dagvinna og 60% næturvinna sem hann hefði unnið um kvöld og helgar. Tímakaup hans í dagvinnu hefði verið 700 kr. með orlofi, og tímafjöldi 284 tímar, og tímakaup í næturvinnu 1.260 kr. og tímafjöldi 429 tímar. Yfir vetrarmánuðina hefði kærandi verið í 30-40% starfi. Reiknað endurgjald kæranda hefði verið miðað við 90% starf í fimm mánuði á ári og 50% starf í sjö mánuði. Afkoman hefði ekki verið betri en raun bæri vitni vegna vanheilsu kæranda. Meðfylgjandi bréfi kæranda voru ljósrit vegna kaupleigu 1.328.946 kr.
Með ódagsettum kæruúrskurði, sem mun hafa verið kveðinn upp 9. ágúst 2006, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda árið 2005 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005 í stað áætlunar, en að gerðum breytingum á skattframtali kæranda. Í fyrsta lagi lækkaði skattstjóri gjaldaliðinn „Kaupleiga“ um 224.502 kr. með vísun til 31. gr. laga nr. 90/2003, en um var að ræða kostnað vegna uppgreiðslu á jafngreiðsluláni í tengslum við sölu á festivagni. Í öðru lagi felldi skattstjóri niður gjaldfært reiknað endurgjald 180.000 kr. vegna yngri sonar kæranda og gjaldfærðan launakostnað 739.490 kr. vegna eldri sonar hans. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði ekki lagt fram umbeðin gögn vegna vinnuframlags sona sinna við reksturinn. Kærandi hefði ekki gert næga grein fyrir í hverju vinna sona hans hefði falist, fjölda vinnustunda eða lagt fram bókhaldsgögn til staðfestingar á tímamælingum og greiðslum. Þá væri ákvörðun tímakaups ekki í samræmi við fyrirmæli ríkisskattstjóra sem væri að finna í leiðbeiningum vegna skattframtals einstaklinga framtalsárið 2005 (RSK 8.01). Kom fram að skattstjóri teldi launagreiðslur til eldri sonar kæranda svara til 62% af launum kæranda sjálfs og að hann hefði verið 16 ára á árinu 2004 þegar hinna meintu tekna var aflað. Þá vísaði skattstjóri til tímakaups ófaglærðs starfsmanns samkvæmt kjarasamningi Samiðnar svo og tímakaups unglings samkvæmt kjarasamningi Eflingar. Miðað við greinda samninga væri tímakaup ofmetið. Varðandi vinnu yngri sonar kæranda vísaði skattstjóri og til ungs aldurs. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til 31. gr. laga nr. 90/2003. Þá dró skattstjóri í efa að tilfært reiknað endurgjald kæranda sjálfs væri í samræmi við vinnuframlag, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en með tilliti til rekstrartaps yrði ekki hróflað við því. Í þriðja lagi lækkaði skattstjóri mótframlag í lífeyrissjóð í 72.000 kr.
II.
Með kæru, dags. 9. nóvember 2006, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra frá 9. ágúst 2006 til yfirskattanefndar. Þess er krafist að reiknað endurgjald og laun til sona kæranda samtals að fjárhæð 919.490 kr. verði heimiluð til gjalda í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) fyrir árið 2004. Í kærunni gerir kærandi grein fyrir skertri vinnugetu sinni vegna vinnuslyss er hafi verið ástæða þess að synir hans hlupu undir bagga. Vísað er til skýringa á vinnuframlagi sona kæranda í bréfum til skattstjóra. Laun til þeirra hafi verið greidd í samræmi við afköst, mikilvægi og vinnuframlag. Heimilt sé að greiða hærri laun en lágmarkskjör segi til um.
III.
Með bréfi, dags. 19. janúar 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Skattframtal kæranda 2005 barst skattstjóra 27. maí 2006, og var það tekið sem skattkæra samkvæmt 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt en kæran barst að loknum kærufresti. Skattstjóra bar að sjá til þess samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að aðili máls gæti tjáð sig um efni máls, áður en ákvörðun væri tekin. Skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf en af því verður ekki ráðið svo óyggjandi sé á hverju ákvörðun skattstjóra muni byggjast. Þar sem ekki verður talið að skattstjóri hafi séð til þess að andmælaréttar kæranda væri gætt áður en skattstjóri kvað upp úrskurð sinn er gerð krafa um að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar.“
IV.
Vegna sjónarmiða í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu skal tekið fram að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2005 og sætti kærandi af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2005, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 2005 barst skattstjóra hinn 27. maí 2005 og var framtalið tekið til meðferðar sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 90/2003 hygðist hann breyta skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða að hluta. Skattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þ.m.t. þær breytingar sem hann gerði á framtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. síðastnefndra laga að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks.
Með úrskurði sínum gerði skattstjóri þá breytingu á skattframtali kæranda að lækka gjaldaliðinn „Kaupleiga“ um 224.502 kr. Telja verður að breyting þessi á skattframtali kæranda sé ágreiningslaus, enda er ekkert að henni vikið í kæru kæranda til yfirskattanefndar.
Eins og fram er komið byggði skattstjóri hinar kærðu breytingar vegna launa og reiknaðs endurgjalds á því að reiknað endurgjald kæranda sjálfs við vöruflutninga hefði verið undir viðmiðunarfjárhæðum, sbr. reglur fjármálaráðherra um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2004 nr. 17, 9. janúar 2004 er birtust í B-deild Stjórnartíðinda, og að ekki hefðu verið lögð fram umbeðin gögn vegna veikinda kæranda eða vegna vinnu sona hans við reksturinn. Í bréfi sínu dags. 6. mars 2006, fór skattstjóri fram á að kærandi gerði ítarlega grein fyrir reiknuðu endurgjaldi sínu á árinu 2004. Ennfremur óskaði skattstjóri eftir með sama bréfi að kærandi gerði nákvæma grein fyrir vinnuframlagi sona sinna á árinu 2004, hvaða störf þeir hefðu unnið, á hvaða tímabili og legði fram gögn því til staðfestingar, svo og bankayfirlit sem staðfestu greiðslur. Með bréfi sínu, dags. 13. mars 2006, gerði kærandi grein fyrir vinnuframlagi sona sinna, hvaða störf þeir hefðu unnið, á hvaða tímabili, fjölda vinnustunda og tímakaupi þeirra. Engin skrifleg gögn voru hins vegar lögð fram með bréfi kæranda sem staðfestu veikindi hans. Þá lagði kærandi hvorki fram umbeðin gögn sem staðfestu útreikning launa og skýrðu vinnuframlag sona hans við reksturinn né bankayfirlit varðandi greiðslur til þeirra.
Í ódagsettum kæruúrskurði sínum, sem mun hafa verið kveðinn upp 9. ágúst 2006, hafnaði skattstjóri með öllu gjaldfærslu reiknaðs endurgjalds og launa vegna vinnu sona kæranda við starfsemi hans vegna skorts á fyrrgreindum gögnum og vísaði jafnframt til þess að ungur aldur og verkefni gæfu ekki tilefni til ákvörðunar gjaldfærslu reiknaðs endurgjalds og launa hjá þeim. Vegna niðurstöðu og forsendna skattstjóra er rétt að fram komi að samkvæmt orðalagi 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 5. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 er gengið út frá því að börn innan 16 ára á tekjuári kunni að starfa við atvinnurekstur foreldris án þess að frekari aldursmörk séu tilgreind í þessu sambandi. Gat því komið til álita að taka til greina reiknað endurgjald vegna starfa yngri sonar kæranda, enda væri fullnægjandi grein gerð fyrir því. Með bréfi sínu, dags. 6. mars 2006, krafði skattstjóri kæranda, eins og fyrr greinir, um ítarlega greinargerð um vinnuframlag sonanna. Af hálfu kæranda hefur einungis almenn grein verið gerð fyrir þessu að undanskildum upplýsingum um tímakaup og á hvaða tímabili vinnan var innt af hendi. Samkvæmt þessu liggja hvorki viðhlítandi upplýsingar fyrir af hálfu kæranda að því er varðar launaútreikning né tímaútreikning til staðfestingar á umræddum gjaldfærslum. Þá verður að taka undir með skattstjóra að ungur aldur sona kæranda og verkefni þau, sem fylgja starfsemi kæranda, gefa naumast tilefni til að ákvarða þeim reiknað endurgjald og laun í þeim mæli sem gert var. Á hinn bóginn þykja ekki efni til að draga í efa að synir kæranda hafi aðstoðað kæranda að einhverju leyti við reksturinn. Eins og málið liggur fyrir verður reiknað endurgjald og laun þeirra hins vegar aðeins ákvörðuð að álitum. Í þessu sambandi þykir rétt að miða reiknað endurgjald sonar kæranda, B, við ein mánaðarlaun 70.000 kr. og laun sonar kæranda, D, við tvenn mánaðarlaun eða 230.000 kr., sbr. greindar reglur um reiknað endurgjald á árinu 2004 og þargreindan viðmiðunarflokk H með yfirskriftinni „Makar og börn“.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Gjaldfærður launakostnaður hækkar um 230.000 kr. og gjaldfært reiknað endurgjald hækkar um 70.000 kr. frá því sem skattstjóri ákvað.