Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar
  • Stofnverð
  • Endurbætur eða viðhald

Úrskurður nr. 285/2007

Gjaldár 2006

Lög nr. 90/2003, 12. gr. 2. mgr., 15. gr., 16. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 4. gr.  

Skattstjóri færði kæranda til skattskyldra tekna söluhagnað vegna sölu hesthúss. Kærandi krafðist þess að við ákvörðun söluhagnaðar hesthússins yrði tekið tillit til margvíslegra endurbóta sem fram hefðu farið á því. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri kröfu að því er tók til framkvæmda við breytingar á hlöðu og gerð salernisaðstöðu, en engin kostnaðargögn lágu fyrir varðandi þær framkvæmdir. Á hinn bóginn þótti ekki varhugavert að telja kostnað vegna nýrra innréttinga í hesthúsinu, sem kærandi kvaðst hafa ráðist í vegna breytinga á reglum um aðbúnað hrossa, að fullu til stofnverðs hins selda húss. Þá var fallist á að telja kostnað vegna kaupa á gólfmottum í húsið til stofnverðs, m.a. þar sem talið var viðbúið, miðað við kröfur í reglum um aðbúnað hrossa, að um gæti verið að ræða fylgifé fasteignarinnar. Var hin kærða tekjufærsla skattstjóra því lækkuð.

I.

Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 5. mars 2007, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði þessum að færa kæranda til tekna í lið 3.9 í skattframtali árið 2006 hagnað að fjárhæð 1.095.320 kr. vegna sölu hesthúss að X. Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 23. mars 2007, er þess krafist af hálfu kæranda að greindum úrskurði skattstjóra um endurákvörðun verði hnekkt, enda sé ekki fyrir að fara neinum skattskyldum söluhagnaði vegna umræddrar sölu þar sem skattstjóri hafi ekki við útreikning söluhagnaðar tekið tillit til endurbóta samtals að fjárhæð 1.437.135 kr. svo sem nánar er lýst.

II.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2006 fylgdu greinargerðir um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna sölu hesthúss að X með kaupsamningi, dags. 5. júlí 2005. Þar var söluverð tilgreint 4.200.000 kr. og framreiknað stofnverð samtals 2.704.680 kr. og söluhagnaður því talinn 1.495.320 kr. Í athugasemdum í greinargerðinni varðandi skattalega meðferð söluhagnaðar sagði svo: „Hesthúsið var keypt í tvennu lagi. Helmingur árið 1987 á kr. 360.000 og helmingur árið 1994 á kr. 1.300.000. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á tímabilinu. Söluandvirðið gengur upp í kaup og lagfæringar á jörðinni Z sem keypt var á árinu 2004.“ Í samræmi við þetta viðhorf væntanlega var umræddur söluhagnaður ekki færður til tekna í skattframtali kæranda árið 2006.

Með bréfi, dags. 27. desember 2006, óskaði skattstjóri eftir því, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að kærandi gerði grein fyrir því að hagnaður af sölu hesthúss á árinu 2005 að X að fjárhæð 1.495.340 kr., miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um stofnverð, hefði ekki verið tekjufærður í skattframtali árið 2006. Rakti skattstjóri ákvæði 15. gr. laga nr. 90/2003 orðrétt og tók fram að samkvæmt ákvæðinu væri ekki heimilt að fresta skattlagningu hagnaðarins eða færa hann til lækkunar á stofnverði annarra eigna. Að öðru leyti varðaði bréf skattstjóra hvort lán vegna kaupa kæranda á fasteigninni Z gætu talist til íbúðarlána sem mynduðu stofn til útreiknings á vaxtabótum, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, en skattstjóri taldi að ekki yrði séð að kærandi hefði verið búsettur í húsinu á árinu 2005.

Með bréfi, dags. 1. janúar 2007, svaraði kærandi fyrirspurn skattstjóra. Kærandi tók fram að umrædd kaup á fasteigninni að Z tengdust sölu hesthússins með þeim hætti að kaupin hefðu verið fjármögnuð að hluta til með sölunni, en auk íbúðarhúss að Z væri þar jarðnæði fyrir hrossahald. Því hyrfi ætlaður söluhagnaður af hesthúsinu inn í kaupin á Z. Hvað sem því liði væri engum söluhagnaði fyrir að fara vegna kostnaðar við breytingar á hesthúsinu árin fyrir sölu.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2007, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárið 2006, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Vísaði skattstjóri til fyrirspurnarbréfs síns, dags. 27. desember 2006, og svarbréfs kæranda, dags. 1. janúar 2007. Varðandi kæruefnið tók skattstjóri fram að samkvæmt skattframtali kæranda árið 2006, sbr. greinargerðir um kaup og sölu eigna (3.02), næmi skattskyldur hagnaður af sölu hesthúss að X 1.495.320 kr. Skattstjóri kvaðst hafa óskað eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hagnaðurinn hefði ekki verið tekjufærður í skattframtali árið 2006. Í svarbréfi kæranda, dags. 1. janúar 2007, hefði verið upplýst að ekki væri um skattskyldan söluhagnað að ræða þar sem söluverð hesthússins hefði runnið til kaupa á Z, auk þess sem enginn söluhagnaður reiknaðist vegna kostnaðar vegna endurbóta og breytinga á hesthúsinu á árum áður. Tók skattstjóri fram að í 14. gr. (sic) laga nr. 90/2003 væri ekki heimild til þess að fresta skattlagningu á söluhagnaði hesthúss eða til að færa hagnaðinn til lækkunar á kaupverði annarra eigna. Þá hefði kærandi hvorki gert grein fyrir endurbótum á hesthúsinu í eldri skattframtölum né í skattframtali árið 2006. Með svarbréfinu hefði kærandi heldur ekki lagt fram gögn sem staðfestu kostnað vegna endurbóta. Með vísan til framangreinds hygðist skattstjóri tekjufæra hagnað vegna sölu hesthússins að fjárhæð 1.495.320 kr. í reit 522 í skattframtali kæranda árið 2006.

Kærandi mótmælti hinni boðuðu tekjufærslu söluhagnaðarins með bréfi, dags. 22. janúar 2007. Með bréfinu fylgdu afrit reikninga, annars vegar reiknings frá Y hf., dags. 28. mars 2001, að fjárhæð 799.999 kr. vegna innréttinga í hesthús, og hins vegar fimm reikninga samtals að fjárhæð 237.106 kr. frá árunum 2003 og 2004 frá ýmsum aðilum vegna kaupa á hesthúsmottum. Kostnaður næmi því samtals 1.037.105 kr., en ekki væru til reikningar fyrir öllum mottunum. Kom fram að nýjar innréttingar hefðu verið settar í hesthúsið vegna nýrra krafna samkvæmt reglugerð um aðbúnað hrossa. Auk þess hefði hlöðunni verið breytt vegna þess að þurrhey væri nú ófáanlegt hjá bændum. Fylla hefði þurft upp í niðurgrafið gólf hlöðunnar, einangra og klæða að innanverðu. Reikningar væru ekki til vegna þessara framkvæmda sem farið hefðu fram á árinu 1999. Steypustöð ... hefði steypt gólfið og fyllt upp í það og mætti væntanlega nálgast kvittanir hjá fyrirtækinu. Kvaðst kærandi vænta þess að þessi greinargerð fyrir kostnaði vegna endurbóta leiddi til þess að skattstjóri félli frá því að skattleggja söluhagnað vegna sölu hesthússins. Jafnframt kvaðst kærandi undrast að kaupin á Z til aðstöðu fyrir hestamennsku kæmu ekki þarna á móti.

Með úrskurði um endurákvörðun, 5. mars 2007, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu á skattframtali kæranda árið 2006 í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þó þannig að fjárhæð tekjufærðs söluhagnaðar í reit 522 í skattframtalinu var ákvörðuð 1.095.320 kr., en skattstjóri féllst á að lækka fjárhæð söluhagnaðarins um áætlaða fjárhæð 400.000 kr. vegna kostnaðar við endurbætur. Skattstjóri rakti ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því ákvæði teldist hagnaður af sölu ófyrnanlegrar fasteignar mismunur á söluverði hennar annars vegar og stofnverði hennar, framreiknuðu ef það ætti við, hins vegar. Ef endurbætur hefðu verið gerðar á eign væri heimilt að taka tillit til þeirra við ákvörðun á stofnverði við útreikning á söluhagnaði. Almennt viðhald og rekstrarkostnaður eignar teldist ekki með við ákvörðun á stofnverði. Við mat á því hvað teldist viðhald og hvað endurbætur mætti líta til 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar sem fjallað væri um viðhaldskostnað og endurbætur eigna í atvinnurekstri. Samkvæmt ákvæðinu teldist viðhald það sem gera þyrfti til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í, þegar aðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar. Þó að eign gengi úr sér fyrir aldurs sakir skyldi hún samt talin í svipuðu ástandi að því er viðhald varðaði. Endurbætur á eign, sem hefði verið keypt, eða væri orðin úr sér gengin fyrir aldurs sakir, stækkun eða breyting hennar, skyldi ekki talin til viðhalds. Þá væri um endurbætur á eign að ræða sem skyldi eignfæra sérstaklega. Kærandi hefði keypt hesthús að X í tvennu lagi, annars vegar á árinu 1987 og hins vegar á árinu 1994. Á eignarhaldstímanum hefði ekki verið gerð grein fyrir kostnaði við endurbætur á eigninni. Í bréfi kæranda hefði hins vegar komið fram að lagt hefði verið í kostnað vegna nýrra innréttinga, endurbyggingar og breytinga á hlöðu og vegna kaupa á mottum í hestastíur. Tók skattstjóri fram að gólfmottur í hestastíur væru lausamunir með tiltölulega skamman endingartíma, sem telja yrði til almenns rekstrarkostnaðar, en hvorki viðhald né endurbætur sem ykju verðmæti hennar frá því sem var þegar kærandi hefði eignast fasteignina. Því væri ekki fallist á að telja kostnað við kaup á gólfmottum með við ákvörðun á stofnverði við útreikning á söluhagnaði. Þá hefðu engin gögn verið lögð fram sem staðfestu kostnað við endurbyggingu og breytingu á hlöðu og væri því ekki unnt að taka tillit til þess kostnaðar. Í svarbréfi kæranda hefði komið fram að lagt hafi verið í kostnað vegna nýrra innréttinga í hesthúsi til samræmis við reglugerð um frágang og hirðu hrossa. Hesthúsið hefði verið innréttað með básum, en nýjar reglur bönnuðu það fyrirkomulag. Tók skattstjóri fram að eins og fram hefði komið teldist það til viðhaldskostnaðar að halda eign í sama eða svipuðu ástandi og hún hafi verið í þegar viðkomandi eignaðist hana. Á árinu 2001 þegar umræddar framkvæmdir hefðu farið fram hefði kærandi verið búinn að eiga hluta hesthússins í sjö ár og annan hluta þess í fjórtán ár. Miðað við að um venjulega notkun húsnæðisins hefði verið að ræða yrði að telja líklegt að innréttingar hefðu gengið úr sér og að nauðsynlegt hefði verið að halda þeim í sambærilegu ástandi og þær voru í þegar kærandi eignaðist húsnæðið. Enda þótt byggðar hefðu verið stíur í húsinu í stað bása yrði ekki talið að sú breyting hefði að öllu leyti verið endurbætur á eigninni, heldur væri um að ræða framkvæmd sem fæli í sér hvort tveggja, endurbætur og viðhald. Taldi skattstjóri að áætla mætti, með hliðsjón af eignarhaldstímanum og kostnaði vegna breytinganna, að hlutfall endurbóta og viðhalds hefði verið jafnt eða 50%. Væri því fallist á að lækka skattskyldan hagnað vegna sölu hesthússins um 400.000 kr. eða í 1.095.320 kr. Kröfu kæranda um að skattstjóri félli frá tekjufærslu á söluhagnaðinum væri hafnað þar sem til þess skorti lagaheimild, sbr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Söluhagnaður að fjárhæð 1.095.320 kr. yrði því tekjufærður undir lið 3.9 (reit 522) í skattframtali kæranda árið 2006.

III.

Með kæru, dags. 23. mars 2007, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 5. mars 2007, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að tekjufærsla skattstjóra á meintum söluhagnaði 1.095.320 kr. í reit 522 í skattframtali árið 2006 vegna sölu hesthúss verði felld niður. Þess er getið í kærunni að söluverð hafi numið 4.200.000 kr. Þá kemur fram að skattstjóri hafi talið endurnýjun á innréttingum í hesthúsinu að X til hálfs endurbætur og til hálfs viðhald. Þessu sé harðlega mótmælt þar sem nýjar innréttingar hafi verið settar upp til að bæta eignina og breyta henni, sbr. skilgreiningu á endurbótum. Þessi kostnaður hafi numið 799.999 kr. Þá hafi skattstjóri talið gólfmottur vera lausamuni, en því sé einnig mótmælt. Um sé að ræða 65 mm þykkar mottur sem hafi áratugaendingu. Þær séu sérhannaðar fyrir gripahús og hleypi raka í gegnum sig. Þegar básar hafi verið fjarlægðir og stíur settar í staðinn hafi valið staðið á milli þess að kaupa slíkar mottur eða að dýpka stíurnar. Motturnar séu varanlegt gólfefni. Kvittanir séu til fyrir kaupum á mottum fyrir 237.136 kr. (sic), en í raun hafi kostnaður verið hærri, en ekki finnist kvittanir fyrir öllu. Ennfremur tekur kærandi fram að á árunum 1998 og 1999 hafi hlaða verið endurnýjuð frá því að vera niðurgrafin fyrir þurrhey, en slíkt hey sé ekki lengur á boðstólum. Hlöðugólf hafi verið hækkað og steypt, hlaðan einangruð og klædd að innan með krossviði. Kaffistofa hafi verið sett upp, útbúin hafi verið salernisaðstaða og tengt hafi verið fyrir heitu vatni inn í húsið. Ekki séu til kvittanir fyrir þessum kostnaði, en meðfylgjandi séu ljósmyndir af hlöðunni. Þessar endurbætur á hlöðunni hafi á sínum tíma kostað um 250.000 kr. og salernið og heitavatnstengingin um 150.000 kr. Þess sé vænst að tekið verði tillit til þessa kostnaðar, en hann sé augljóslega ekki oftalinn.

IV.

Með bréfi, dags. 18. maí 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Eins og fram er komið seldi kærandi hesthús að X með kaupsamningi, dags. 5. júlí 2005, og nam söluverð 4.200.000 kr. Samkvæmt greinargerðum um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), sem fylgdu skattframtali kæranda árið 2006, taldi kærandi söluhagnað vegna sölu þessarar nema 1.495.320 kr. Söluhagnaður þessi var ekki færður til tekna í reit 522 í skattframtali kæranda árið 2006, heldur var ráðstöfun hans tilgreind sem önnur ráðstöfun, óskilgreind, í téðum greinargerðum. Þar kom og fram það viðhorf að söluandvirðið gengi „upp í kaup og lagfæringar á jörðinni Z“, en sú eign hefði verið keypt á árinu 2004. Með bréfi sínu, dags. 27. desember 2006, gerði skattstjóri grein fyrir því viðhorfi sínu að umræddur söluhagnaður teldist til skattskyldra tekna í skattframtali kæranda árið 2006, enda væri ekki fyrir að fara lagaheimild til að fresta skattlagningu söluhagnaðarins eða færa hann til lækkunar á stofnverði annarra eigna, sbr. tilgreind ákvæði 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem skattstjóri rakti orðrétt. Í svarbréfi kæranda, dags. 1. janúar 2007, kom í fyrsta lagi fram að söluhagnaði væri ekki til að dreifa með tilliti til kostnaðar við endurbætur og breytingar. Nánari grein fyrir kostnaði þessum gerði kærandi með andmælabréfi sínu, dags. 22. janúar 2007, sbr. nánar í II. kafla hér að framan. Í öðru lagi kom fram í báðum bréfunum sjónarmið þess efnis að unnt ætti að vera að færa söluhagnaðinn til lækkunar á stofnverði hinnar keyptu eignar að Z. Í hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. mars 2007, færði skattstjóri kæranda til tekna söluhagnað að fjárhæð 1.095.320 kr. með vísan til 15. gr. laga nr. 90/2003 og hafði þá lækkað áður boðaða fjárhæð um 400.000 kr. með tilliti til þess að unnt teldist að virða helming kostnaðar við innréttingar í hinu selda hesthúsi sem endurbætur og þar með til hækkunar á stofnverði, sbr. 12. gr. greindra laga. Á frekari hækkun stofnverðs féllst skattstjóri ekki. Í því sambandi tók skattstjóri fram að kostnaður vegna kaupa á gólfmottum, sem væru lausafé, félli undir almennan rekstrarkostnað en hvorki endurbætur né viðhaldskostnað og engin gögn hefðu verið lögð fram vegna endurbyggingar og breytinga á hlöðu o.fl. Skattstjóri færði kæranda umræddan söluhagnað til tekna sem fjármagnstekjur í reit 522 í skattframtalinu, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. og 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Í kæru til yfirskattanefndar er einvörðungu á því byggt af hálfu kæranda að engum söluhagnaði hafi verið fyrir að fara með tilliti til þess kostnaðar vegna endurbóta sem ekki hafi verið horft til við ákvörðun stofnverðs, þ.e. 399.999 kr. sem eftir standi af kostnaði við endurbætur, 237.136 kr. (rétt fjárhæð samkvæmt reikningum er 237.106 kr.) vegna kostnaðar við gólfmottur og 400.000 kr. vegna kostnaðar við hlöðu og salernisaðstöðu. Samtals nema þessir liðir 1.037.105 kr. og standa þá eftir 58.215 kr. af umræddum tekjufærðum söluhagnaði 1.095.320 kr. Verður að ætla að kærandi vísi til enn frekari kostnaðar til að slétta þá fjárhæð út, sbr. tilvísun til þess að nótur séu ekki fyrir hendi vegna alls kostnaðar. Miðað við málavexti og kröfugerð í málinu verður að ætla að upphaflegur útreikningur söluhagnaðar af hendi kæranda, sbr. greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), hafi verið rangur og hagnaðurinn þar oftalinn vegna of lágs stofnverðs.

Ákvæði 15. gr. laga nr. 90/2003 fjalla meðal annars um söluhagnað fasteigna sem ekki er heimilt að fyrna. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinar þessarar telst hagnaður af sölu fasteigna, sem ekki er heimilt að fyrna samkvæmt 33. gr., þar með talin ófyrnanleg mannvirki, lönd, lóðir, ófyrnanleg náttúruauðæfi og réttindi tengd þessum eignum, svo sem lóðarréttindi, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. er meginreglan um ákvörðun söluhagnaðar þess efnis að hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofnverði þeirra, að frádregnum áður fengnum niðurfærslum samkvæmt 32. gr. og söluhagnaði, sbr. 4. mgr. 15. gr. og 4. mgr. 12. gr., hins vegar. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. er skattaðila heimilt, hafi hann eignast hina seldu eign fyrir árslok 1978, að nota gildandi fasteignamat í árslok 1979 í stað stofnverðs. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 er skattaðila jafnan heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna í stað söluhagnaðar samkvæmt 2. mgr. greinarinnar. Að virtri forsögu þessara ákvæða, sbr. sérstaklega athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. síðar lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, nú lög nr. 90/2003, verður að telja að meginreglan um uppgjör söluhagnaðar af fasteignum, sem ekki er heimilt að fyrna, komi fram í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að líta á reglu 3. mgr. 15. gr. fremur sem undantekningu sem skattaðili getur valið sé torvelt að henda reiður á stofnverði eða fasteignamatsverði eða uppgjör samkvæmt því reynist óhagstætt. Í máli kæranda er ekki deilt um uppgjörsaðferð, enda er óumdeilt að fara ber eftir 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 í þeim efnum og einungis tekist á um ákvörðun stofnverðs hinnar seldu eignar. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003 telst stofnverð eigna kostnaðarverð þeirra, þ.e. kaup- eða framleiðsluverð, ásamt kostnaði við endurbætur, breytingar eða endurbyggingu og sérhverjum öðrum kostnaði sem á eignirnar fellur, en að frádregnum óendurkræfum styrkjum, afsláttum, eftirgjöfum skulda og skaðabótum sem til falla í sambandi við kaup þeirra, framleiðslu, breytingar eða endurbætur.

Við mat sitt á því hvað teldist til endurbóta af umræddum kostnaði vegna innréttinga að fjárhæð 799.999 kr. vísaði skattstjóra m.a. til 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar sem fjallað er um viðhaldskostnað eigna sem rekstrarkostnað og mörk gagnvart endurbótum á eign. Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar segir svo um viðhaldsfrádrátt: „Viðhald telst það sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í, þegar rekstraraðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar.“ Þessi regla hefur lengi verið talin gilda í skattskilum, sbr. H 1943:150. Tekið er fram í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að þótt eign gangi úr sér fyrir aldurs sakir, þ.e. fyrnist, þá skuli hún samt talin í svipuðu ástandi að því er viðhald varðar. Fyrning hennar komi hins vegar til frádráttar samkvæmt 7. gr. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að ef aðili lætur endurbæta eign, sem hann hefur keypt, ellegar er orðin úr sér gengin fyrir aldurs sakir, stækka eign, eða breyta henni, þá skuli það ekki talið til viðhalds. Ennfremur kemur fram að til viðhalds skuli aftur á móti telja að halda eigninni í svipuðu ástandi og hún varð að stækkun, breytingu eða endurbót lokinni. Sé annars vegar viðhald og hins vegar breytingar, endurbætur og/eða stækkun framkvæmd í einu lagi, verður að meta hvað telja beri til hvors um sig, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Varðandi framkvæmdir við breytingar á hlöðu og gerð salernisaðstöðu á árunum 1998 og 1999 þá liggur fyrir að kærandi gerði enga grein fyrir þeim í skattskilum vegna viðkomandi ára og engin kostnaðargögn eru til staðar varðandi þessar framkvæmdir. Af hálfu kæranda hefur þessum framkvæmdum aðeins verið lýst með almennum hætti og lagðar fram nokkrar ljósmyndir. Að svo vöxnu máli kemur ekki til álita að telja kostnað þennan samkvæmt áætlun kæranda til stofnverðs við ákvörðun söluhagnaðar af sölu hesthússins. Kröfu kæranda er því hafnað að þessu leyti. Óumdeilt er að kostnaður kæranda vegna nýrra innréttinga í hesthúsið að fjárhæð 799.999 kr. samkvæmt reikningi frá Y hf. fól í sér endurbætur á fasteigninni. Skattstjóri mat þetta hins vegar svo að framkvæmdir þessar hefðu falið í sér hvort tveggja, endurbætur og viðhald og taldi hæfilegt „með hliðsjón af eignarhaldstímanum og fjárhæð kostnaðar vegna breytinganna“ að áætla hlutfall endurbótanna 50%. Af hálfu kæranda hefur þessum framkvæmdum verið lýst og m.a. komið fram að í þær hefði verið ráðist vegna nýrra reglna um aðbúnað hrossa. Virðist hér vera vísað til reglugerðar nr. 132/1999, um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa, sbr. nú reglugerð nr. 160/2006, um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa. Þegar horft er til lýsingar kæranda á umræddum framkvæmdum og virtur er aðdragandi þeirra svo og eignartími kæranda og önnur þau atriði sem þýðingu hafa þykir ekki varhugavert að telja umræddan kostnað að fullu til stofnverðs hinnar seldu eignar. Er því fallist á kröfu kæranda hvað snertir þennan þátt kostnaðarins og reiknast því það sem eftir stendur af kostnaði samkvæmt greindum reikningi eða 399.999 kr. til stofnverðs. Hvað snertir kostnað vegna umræddra gólfmottna, er nam samtals 237.106 kr. samkvæmt fimm reikningum, þá kemur ekki skýrt fram hvort þær fylgdu með við umrædda sölu hesthússins, en kaupsamningur liggur ekki fyrir og hefur skattstjóri ekki gengið eftir honum. Málatilbúnaður kæranda verður ekki skilinn á annan hátt en að umræddar mottur hafi fylgt með í kaupunum og virðist skattstjóri frekast hafa gengið út frá því. Miðað við kröfur í umræddum reglugerðum, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 132/1999 og 8. gr. reglugerðar nr. 160/2006, er viðbúið að um geti verið að ræða fylgifé fasteignarinnar, sbr. 22. gr. og a-lið 23. gr. laga nr. 40/2002, um fasteignakaup. Þegar þess er gætt og að virtum skýringum kæranda þykir ekki ástæða til annars en að telja þennan lið til stofnverðs. Þess er rétt að geta að forsendur skattsjóra, sbr. og 1. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003, ættu síst að leiða til óhagstæðari niðurstöðu fyrir kæranda. Samkvæmt þessu þykir því mega fallast á kröfu kæranda varðandi þennan þátt kostnaðarins. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið þykir bera að lækka tekjufærslu skattstjóra um 637.105 kr. eða úr 1.095.320 kr. í 458.215 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða tekjufærsla skattstjóra lækkar í 458.215 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja