Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kæranleg skattákvörðun
  • Vörunotkun

Úrskurður nr. 294/2007

Gjaldár 2006

Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr.  

Skattstjóri leiðrétti gjaldfærða vörunotkun í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2005 til lækkunar og leiddi sú leiðrétting af breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda gjaldárið 2005 þar sem skattstjóri hafði lækkað birgðir í árslok 2004. Sú breyting hafði ekki verið kærð af hálfu kæranda. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að sakarefni málsins varðaði í raun hina síðarnefndu breytingu skattstjóra á skattskilum kæranda gjaldárið 2005, enda væri augljóst að birgðir í upphafi árs yrðu að vera í samræmi við birgðir í lok undanfarandi árs. Var kærunni vísað frá yfirskattanefnd á þeim forsendum að ekki lægi fyrir nein kæranleg ákvörðun.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2006 og sætti kærandi af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattframtal kæranda árið 2006 barst skattstjóra hinn 26. júní 2006 eða að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið.

Skattstjóri tók skattframtal kæranda árið 2006 til meðferðar sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og kvað upp kæruúrskurð hinn 7. nóvember 2006 þar sem hann féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006 með tilgreindri breytingu. Gerði skattstjóri þá breytingu á skattframtalinu að fella niður birgðir í upphafi árs 2005 að fjárhæð 442.201 kr., sbr. reiti 3013 og 7190 í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) kæranda fyrir árið 2005. Vísaði skattstjóri til þess að með bréfi skattstjóra, dags. 26. júlí 2005, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2005, hefði vörunotkun verið lækkuð til samræmis við efnissölu samkvæmt útgefnum reikningum á árinu 2004 úr 2.656.725 kr. í 2.197.235 kr., en ekki hefði verið gerð nein grein fyrir misræmi í gjaldfærðri vörunotkun og vörunotkun samkvæmt útgefnum reikningum. Þá hefði hreyfingalisti vegna vörukaupa í september og október 2004 ekki borist. Af þessum sökum hefðu vörubirgðir í árslok 2004 verið 0 kr. Skattstjóri tók fram að í samræmi við þessa niðurstöðu lækkaði tap ársins í reit 4990 samkvæmt rekstrarskýrslu úr 644.369 kr. í 202.168 kr.

II.

Með kæru, dags. 7. febrúar 2007, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, 7. nóvember 2006, til yfirskattanefndar. Kveður umboðsmaðurinn forsögu málsins vera þá að hann hafi séð um skattskil kæranda í um 20 ár. Allan þann tíma hafi vörukaup verið gjaldfærð við kaup „þótt þau hafi verið til í birgðum eða ekki verið búið að rukka fyrir þau“, eins og þar segir. Þetta hafi verið gert til að „lágmarka skriffinnsku og vinnu sem tilheyrir birgðahaldi, talningu og utanumhaldi, þar sem hér er um einstaklingsrekstur að ræða“, eins og það er orðað. Kæranda hafi verið bent á það við gerð skattframtals vegna ársins 2004, þ.e. væntanlega skattframtals árið 2005, að einungis væri hægt að gjaldfæra vörukaup sem „innheimt væru á árinu og bæri saman við innheimta reikninga“. Hér sé ekki gert ráð fyrir þeim lager „sem var búið að inna af hendi og teldist því til þess sem kallast vörur í vinnslu né heldur til þeirra birgða sem voru til á lager en iðnaðarmönnum er nauðsynlegt að vera með lager í bifreiðum sínum til að geta bjargað sér, þannig að ekki þurfi að vera í eilífum sendiferðum til birgja“, svo sem það heitir í kærunni. Þá megi ævinlega búast við einhverri rýrnun, en hún sé þó óveruleg hjá kæranda. Kærandi hefði ekki kært þá breytingu sem skattstjóri hefði gert á skattframtali hans árið 2005 þar sem litið hefði verið á þetta sem breytingu á framtalsaðferðum og heimild væri til að gera slíkar breytingar við uppgjör næsta árs þar sem þetta hefði ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins. Við uppgjör vegna ársins 2005 hefði þessi breyting verið höfð að leiðarljósi og skattframtal gert með þessum hætti og birgðir taldar og þar með birgðir fyrra árs reiknaðar út frá birgðabreytingum ársins. Þessi aðferð hefði ekki áhrif á niðurstöðu rekstrarreiknings þar sem gjaldfærð vörunotkun miðaðist einungis við vörusölu samkvæmt útgefnum reikningum. Þessi aðferð væri hins vegar nauðsynleg til að virðisaukaskattsuppgjör stemmdi við vörukaup. Með vísan til framangreinds sé farið fram á að skattframtal árið 2006, eins og það sé úr garði gert, verði lagt til grundvallar álagningu.

III.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Ágreiningsefni máls þessa varðar þá breytingu skattstjóra á skattskilum kæranda gjaldárið 2006 samkvæmt kæruúrskurði skattstjóra, dags. 7. nóvember 2006, að leiðrétta vörunotkun kæranda samkvæmt rekstrarskýrslu (RSK 4.11) fyrir árið 2005, er fylgdi skattframtali kæranda árið 2006, til lækkunar um 442.201 kr. vegna leiðréttingar á birgðum í upphafi árs 2005 úr 442.201 kr. í 0 kr. Vísaði skattstjóri til þess að umrædd leiðrétting leiddi af breytingu skattstjóra á skattskilum kæranda gjaldárið 2005, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 26. júlí 2005, um breytingu á skattskilum þess árs, sem gerð var í kjölfar bréfs skattstjóra, dags. 26. apríl 2005, og framlagðra gagna af hendi kæranda í framhaldi af því, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi breyting skattstjóra var ekki kærð af hálfu kæranda. Nú ber hins vegar svo við að kærandi hefur kært breytingu samkvæmt umræddum kæruúrskurði skattstjóra, dags. 7. nóvember 2006, vegna afgreiðslu skattframtals kæranda árið 2006 þar sem birgðir í upphafi árs 2005 samkvæmt því skattframtali eru felldar niður til samræmis við birgðastöðu í lok árs 2004 samkvæmt skattframtali árið 2005 svo sem því var breytt samkvæmt umræddri tilkynningu skattstjóra, dags. 26. júlí 2005. Sýnt þykir að sakarefnið varðar í raun þessa breytingu á skattskilum kæranda gjaldárið 2005, enda er augljóst að birgðir í upphafi árs verða að vera í samræmi við birgðir í lok undanfarandi árs. Eins og fram er komið var umrædd breyting gjaldárið 2005 ekki kærð af hálfu kæranda. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Af þeim sökum ber að vísa kærunni frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kæru kæranda er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja