Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kæranleg ákvörðun
  • Málsmeðferð
  • Leiðbeiningarskylda
  • Aðgangur að gögnum

Úrskurður nr. 134/1997

Gjaldár 1992–1995

Lög nr. 75/1981, 101. gr. 3. mgr.   Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 7. gr. 1. mgr.  

Málið spratt af erindi kæranda til ríkisskattstjóra um að breyta álagningu opinberra gjalda gjaldárin 1992–1995. Ríkisskattstjóri hafnaði erindinu að því er snerti gjaldárin 1992 og 1995 en féllst að hluta á erindið að öðru leyti. Taldi ríkisskattstjóri að til þess að fallast mætti á að leggja skattframtöl 1993 og 1994 óbreytt til grundvallar álagningu, þyrfti að skýra tiltekin atriði nánar. Í kæru til ríkisskattstjóra var boðað að rökstuðningur bærist síðar. Var tekið fram að embætti skattstjóra hefði öll bókhaldsgögn undir höndum og að illmögulegt væri að gera frekari grein fyrir umræddum atriðum fyrr en gögnunum væri skilað. Ríkisskattstjóri vísaði kærunni frá á þeirri forsendu að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist. Yfirskattanefnd vísaði frá þeim þætti kærunnar sem laut að gjaldárunum 1992 og 1995, enda hefði ríkisskattstjóri ekki gert breytingar á þeim skattframtölum og væri því ekki um að ræða skattákvörðun sem kæranleg væri til yfirskattanefndar. Vegna gjaldáranna 1993 og 1994 tók yfirskattanefnd fram að ríkisskattstjóra hefði borið í kærumeðferð að hlutast til um að bókhaldsgögnum kæranda eða afritum af þeim yrði komið til hans eða að leiðbeina honum um rétt til aðgangs og/eða afrita af bókhaldsgögnum sínum í stað þess að kveða upp frávísunarúrskurð í málinu. Ómerkti yfirskattanefnd því úrskurð ríkisskattstjóra og lagði fyrir hann að kveða upp kæruúrskurð að nýju.

I.

Málavextir eru þeir að hinn 29. nóvember 1995 barst ríkisskattstjóra erindi kæranda þar sem farið var fram á að áður álögð opinber gjöld gjaldárin 1992, 1993, 1994 og 1995 yrðu tekin til endurákvörðunar og meðfylgjandi skattframtöl lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda í stað fyrri skattframtala gjaldárin 1992 og 1995 og í stað áætlana skattstjóra gjaldárin 1993 og 1994. Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til afgreiðslu hinn 25. júní 1996 og féllst að hluta á kröfu kæranda að því er varðaði gjaldárin 1993 og 1994, en synjaði alfarið kröfu kæranda varðandi gjaldárin 1992 og 1995. Af hálfu kæranda var ákvörðun ríkisskattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 25. júlí 1996, og boðað að rökstuðningur yrði sendur síðar. Tók kærandi fram að bókhaldsgögn vegna rekstraráranna 1991 til og með 1995 væru hjá skattstjóranum í Reykjavík og að gerð yrði grein fyrir kærunni þegar skattstjóri hefði skilað gögnunum. Með kæruúrskurði, dags. 27. september 1996, vísaði ríkisskattstjóri kærunni frá á þeirri forsendu að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist.

Af hálfu kæranda hefur frávísunarúrskurði ríkisskattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 15. október 1996, með þeirri kröfu að málinu verði vísað aftur til ríkisskattstjóra og að réttmætur frestur verði veittur til andsvara. Til stuðnings kröfunni segir svo í kærunni:

„Þann 6. maí sl. var orðið við áskorun virðisaukaskattsdeildar Skattstjórans í Reykjavík og bókhald mitt lagt inn til skoðunar ásamt öllum fylgiskjölum fyrir rekstrarárin 1991–1995.

Þann 2. júní sl. var úrskurður ríkisskattstjóra póstlagður til mín varðandi skattlagningu samkvæmt skattframtölum mínum vegna gjaldáranna 1992–5.

Vegna starfsmannaskipta og sumarleyfa hjá Skattstjóranum í Reykjavík var seinagangur þar í húsi á meðferð bókhaldsskoðunarinnar.

Þann 25. júlí sl. var kærufrestur til Ríkisskattstjóra að renna út og bókhaldsgögnin mín enn í vörslu Skattstjórans í Reykjavík þrátt fyrir ítrekanir mínar um að fá þeim skilað. Því reyndist nauðsynlegt að senda inn bráðabirgðakæru til Ríkisskattstjóra til þess að fá frest á málinu framlengdan þangað til ég hefði fengið eðlilegan tíma með bókhaldsgögnum mínum til að unnt væri að leggja fram umbeðinn rökstuðning til Ríkisskattstjóra.

Þann 24. september sl. var leiðrétting virðisaukaskatts afgreidd hjá Skattstjóranum og póstlögð til mín. Ekki fylgdi neitt bréf, né heldur tilkynning þess efnis að ég mætti sækja bókahaldsgögnin. Ég beið í tvær vikur eftir bréfinu. Ég hafði hringt nokkuð oft áður til að kynna mér framvindu málsins og mér var sagt að þetta tæki sinn tíma, en væri aðeins dagaspursmál hvenær því lyki. Það var ekki fyrr en 8. október að ég hringdi aftur í virðisaukaskattsdeildina og mér var þá bent á að gögnin væru tilbúin til afhendingar. Ég sótti þau undireins og þar með breyttist fyrst forsenda bráðabirgðakærunnar."

Með bréfi, dags. 8. nóvember 1996, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Í úrskurði sínum, dags. 25. júní 1996, gerði ríkisskattstjóri engar breytingar á álagningu kæranda gjaldárin 1992 og 1995. Er niðurstaða ríkisskattstjóra varðandi þau gjaldár því ekki kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lokamálslið 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærunni er því vísað frá varðandi þau gjaldár. Svo sem rakið er að framan féllst ríkisskattstjóri á að leggja tekjur kæranda samkvæmt framlögðum ársreikningum vegna rekstraráranna 1992 og 1993 til grundvallar endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1993 og 1994, en hafnaði að byggja að öðru leyti á skattframtölum kæranda með vísan til þess m.a. að eign- og skuldfærslur, ásamt tilteknum gjaldfærslum, þyrftu skýringa við. Í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 25. júlí 1996, greindi kærandi svo frá að hinn 6. maí 1996 hefðu öll bókhaldsgögn vegna rekstraráranna 1991 til og með 1995 verið afhent virðisaukaskattsdeild skattstjórans í Reykjavík samkvæmt beiðni skattstjóra. Gögnin væru enn í fórum skattstjóra og væri illmögulegt að gera frekari grein fyrir umræddum ársreikningum fyrr en þeim hefði verið skilað. Þegar virtar eru athugasemdir ríkisskattstjóra við hin framlögðu skattframtöl kæranda verður að taka undir það með kæranda að eðli máls samkvæmt var erfitt fyrir kæranda að gefa ríkisskattstjóra viðhlítandi skýringar án þess að styðjast við bókhaldgögn. Verður að telja að við svo búið hafi ríkisskattstjóra annað hvort borið að hlutast til um að bókhaldsgögnum kæranda eða afritum af þeim yrði komið til kæranda eða að leiðbeina kæranda um rétt til aðgangs og/eða afrita af bókhaldsgögnunum, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, í stað þess að kveða upp frávísunarúrskurð í málinu. Þykir því eins og málið liggur nú fyrir verða að ómerkja hinn kærða úrskurð ríkisskattstjóra og leggja fyrir ríkisskattstjóra að kveða upp kæruúrskurð að nýju í máli kæranda, að gættum rétti kæranda til hæfilegs andmælafrests.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja