Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 314/2007

Gjaldár 2006

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

Fallist var á heimild kæranda, sem stundaði framhaldsnám erlendis, til að draga frá fengnum námsstyrkjum kostnað vegna skólagjalda og annarra útgjalda vegna námsins. Af þeirri niðurstöðu leiddi að ekki kom til skattlagningar umræddra styrkja.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 7. júlí 2006, óskaði kærandi eftir því að skattstjóri leiðrétti skattframtal hennar árið 2006. Kvaðst kærandi hafa gleymt að geta um greidd skólagjöld í greinargerð sem fylgt hefði skattframtalinu um frádrátt á móti styrk til náms, rannsóknar- eða vísindastarfa. Meðfylgjandi væri ný greinargerð, ásamt kvittunum sem staðfestu greiðslu á skólagjöldum. Væri þess óskað að frádráttur í reit 149 í skattframtalinu yrði hækkaður úr 48.672 kr. í 587.500 kr.

Með bréfi, dags. 16. nóvember 2006, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi veitti upplýsingar um það hver hefði greitt henni umræddan styrk, hvaða nám væri um að ræða og hvort náminu lyki með prófi.

Kærandi svaraði fyrirspurn skattstjóra með bréfi, dags. 22. nóvember 2006. Kvað kærandi sig hafa fengið annars vegar styrk frá Rannsóknarnámssjóði Rannís að fjárhæð 560.000 kr., sbr. meðfylgjandi launamiða frá greiðanda, og hins vegar styrk frá Vísindasjóði íslenskra náttúrufræðinga að fjárhæð 27.500 kr., en sú fjárhæð hefði verið forskráð í skattframtal hennar árið 2006. Samtals næmu styrkir því 587.500 kr. Kærandi hefði stundað doktorsnám við X-háskóla í Englandi frá janúar 2004, sbr. meðfylgjandi staðfestingu frá skólanum. Meðfram náminu hefði hún verið í hálfu starfi hjá Y, þar sem hún hefði einnig vinnuaðstöðu vegna námsins. Námi hennar lyki með munnlegri doktorsvörn og fengi hún Ph.D-gráðu að henni lokinni.

Skattstjóri tók erindi kæranda til úrlausnar sem kæru með kæruúrskurði, dags. 9. janúar 2007, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattstjóri tók fram að styrkir sem málið snerist um væru skattskyldir samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Heimilt væri að færa til frádráttar beinan kostnað vegna öflunar teknanna, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Ekki væri heimilt að færa til frádráttar persónulegan kostnað. Kærandi hefði óskað eftir frádrætti á móti styrkjum vegna skólagjalda við X-háskóla. Telja yrði að kostnaður vegna náms sem lyki með prófgráðu væri persónulegur kostnaður og heimilaðist ekki frádráttur vegna slíks kostnaðar. Því væri kröfu kæranda hafnað.

II.

Með kæru, dags. 9. apríl 2007, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 9. janúar 2007, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæranda hefði láðst að geta um kostnað vegna skólagjalda til frádráttar á móti tekjufærðum styrkjum til náms, vísinda- eða vísindastarfa. Skattstjóri hafi hafnað leiðréttingarbeiðni á þeim grundvelli að um persónulegan kostnað væri að ræða, þar sem um væri að ræða nám sem lyki með prófgráðu. Mótmælir kærandi niðurstöðu skattstjóra og tekur fram að hún telji skorta lagarök fyrir henni. Um sé að ræða styrk frá Rannís sem sérstaklega sé ætlað að standa straum af kostnaði vegna rannsóknartengds náms og sé hann veittur nemendum í meistara- eða doktorsnámi. Telji kærandi að kostnaður sem styrkur sé veittur út á hljóti að vera frádráttarbær til skatts, hliðstætt og gildi um styrki úr Starfsmenntasjóði BHM og vísindasjóðum aðildarfélaga BHM.

III.

Með bréfi, dags. 25. maí 2007, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Styrkir kæranda, annars vegar að fjárhæð 560.000 kr. frá Rannís og hins vegar að fjárhæð 27.500 kr. frá Vísindasjóði Félags Íslenskra náttúrufræðinga, teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og er ekki ágreiningur um það í málinu. Um frádrátt frá þeim tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, samt sem áður gilda eftir því sem við á um frádrátt beins kostnaðar við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr., þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri, þ.e. þann kostnað sem á árinu gengur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.

Styrkir þeir sem í málinu greinir voru veittir kæranda vegna framhaldsnáms hennar við X-háskóla. Er fallist á með kæranda að henni beri frádráttur beins kostnaðar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 frá umræddum styrkjum, sbr. m.a. úrskurðaframkvæmd, t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 39/1998 sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum 1998 (ST 1998:34) og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Fyrir liggja í málinu gögn sem staðfesta skólavist kæranda við X-háskóla frá janúar 2004 og gögn sem staðfesta greiðslur á skólagjöldum á árinu 2005 að fjárhæð 576.712 kr. Þá hefur kærandi gert grein fyrir öðrum kostnaði sem nemur hærri fjárhæð en mismuninum á skólagjöldum og umræddum styrkjum og þykir ekki ástæða til að draga þann kostnað í efa þrátt fyrir að ekki liggi fyrir gögn um hann, en tekið skal fram að kærandi var ekki krafin um gögn vegna þess kostnaðar. Er því fallist á frádrátt sem nemur styrkfjárhæð, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja