Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Hrossarækt
  • Málsmeðferð skattstjóra

Úrskurður nr. 352/2007

Virðisaukaskattur 2004

Lög nr. 50/1988, 3. gr. 1. mgr. 1. tölul., 16. gr. 1. mgr. og 3. mgr. 2. og 4. tölul., 20. gr. 7. mgr.   Lög nr. 37/1993, 13. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 6. gr., 8. gr.  

Í máli þessu var deilt um frádráttarbærni innskatts í virðisaukaskattsskilum kæranda sem skráður var í grunnskrá virðisaukaskatts vegna hrossaræktar. Fallist var á með skattstjóra að vegaframkvæmdir kæranda á jörð hans á árinu 2004 væru að öllu leyti vegna einkanota kæranda, þ.e. vegna vegtengingar íbúðarhúss eða sumarbústaðar hans á jörðinni, þannig að enginn grundvöllur væri til að telja hluta virðisaukaskatts vegna þeirra framkvæmda til innskatts, enda lá fyrir að engum útihúsum var til að dreifa á jörðinni. Hins vegar var fallist á kröfu kæranda um frádrátt innskatts af kostnaði við innréttingu hesthúss í nágrenni jarðar kæranda, enda hafði skattstjóri ekki dregið í efa að kærandi hefði hrossarækt að atvinnu og ekkert komið fram sem gæfi tilefni til að ætla að kærandi notaði hesthúsið til annarra þarfa en þeirrar starfsemi. Kröfum kæranda varðandi innskatt af farsímakostnaði var hafnað.

I.

Með kæru, dags. 4. september 2006, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 4. ágúst 2006, vegna endurákvörðunar virðisaukaskatts uppgjörstímabilið janúar-júní 2004 og ákvörðunar virðisaukaskatts uppgjörstímabilið júlí-desember 2004. Kæruefnið eru ákvarðanir skattstjóra um að lækka innskatt um 1.951 kr. fyrra tímabilið og um 154.520 kr. síðara tímabilið. Vegna þessara breytinga skattstjóra hækkaði virðisaukaskattur kæranda um 1.951 kr. fyrra tímabilið og ákvarðaðist 13.751 kr. síðara tímabilið í stað inneignar virðisaukaskatts 140.769 kr. samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu. Þá bætti skattstjóri álagi að fjárhæð 941 kr. við vangreiddan virðisaukaskatt uppgjörstímabilið júlí-desember 2004.

Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingum skattstjóra verði hnekkt en til vara fer kærandi fram á að yfirskattanefnd hlutist til um tilteknar leiðréttingar á virðisaukaskattsskilum kæranda uppgjörstímabilin júlí-desember 2003 og janúar-júní 2005. Nánar greinir frá kröfugerð kæranda í kafla III.

II.

Kærandi var skráður í grunnskrá virðisaukaskatts vegna hrossaræktar (atvgr.nr. 01.22.2). Í framhaldi af því að skattstjóra barst virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir uppgjörstímabilið júlí-desember 2004, þar sem fram kom inneign í virðisaukaskatti, fór hann með bréfi, dags. 11. mars 2005, fram á að lögð yrðu fram bókhaldsgögn, þ.m.t. sölureikningar og önnur fylgiskjöl, sem virðisaukaskattsskýrslur vegna beggja uppgjörstímabila ársins 2004 væru byggðar á. Samkvæmt gögnum málsins bárust umbeðin gögn til skattstjóra hinn 18. mars 2005 og í kjölfar þess fór skattstjóri með bréfi, dags. 11. maí 2005, fram á að kærandi veitti nánari upplýsingar og legði fram gögn varðandi virðisaukaskattsskyldan rekstur á árinu 2004. Meðal annars skyldi kærandi sýna fram á að kostnaður við hesthúsbyggingu, sölu- og auglýsingakostnaður frá [fasteignasölu] og keypt steypa vegna hesthúss að Z uppfyllti skilyrði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá skyldi kærandi leggja fram gögn því til stuðnings að hesthús hans væri nýtt til atvinnurekstrar. Einnig fór skattstjóri fram á að kærandi legði fram frumrit reiknings vegna auglýsingakostnaðar.

Með bréfi, dags. 20. maí 2005, greindi kærandi m.a. frá því að hann hefði árið 1999 hafið byggingu viðbyggingar við hesthús sitt að Z, svo sem fram hefði komið í húsbyggingarskýrslum með skattframtölum kæranda árin 2000 og 2001. Byggingarfulltrúi hefði gefið munnlegt leyfi fyrir byggingunni. Kærandi hefði innréttað viðbygginguna árið 2004 fyrir sex hesta, en notað hana fokhelda til tamninga „meðan ég átti eldra hús“, svo sem þar sagði. Kvaðst kærandi vinna einn að tamningu og því ekki geta lagt fram gögn um starfsemina en fulltrúi skattstjóra væri velkominn í heimsókn. Vegna fyrirspurnar skattstjóra um söluþóknun og auglýsingakostnað fasteignasölu tók kærandi fram að hann hefði notað fasteignir á jörðinni X, aðrar en íbúðarhús, fyrir skattskylda starfsemi og því verið heimilt að færa innskatt af öllum rekstrarkostnaði greindra fasteigna, þ.m.t. af sölukostnaði vegna sölu þeirra. Þar sem salan hefði verið „pakkasala“, þ.e. sala á fasteignum, vélum, tækjum og sauðfjárdeild rekstrarins, félli hún undir ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, enda væri kaupandi skráður aðili og hefði yfirtekið rekstur kæranda að þessu marki. Baðst kærandi velvirðingar á því að hafa ekki tilkynnt um söluna innan tilskilinna átta daga, en hann hefði talið sig hafa greitt fasteignasölunni fyrir þá þjónustu. Söluþóknun vegna atvinnurekstrarins hefði verið reiknuð 56,9% heildarreiknings frá fasteignasölunni svo sem kærandi gerði nánari grein fyrir. Bújörðin hefði farið í sölu á árinu 2003 og væri auglýsingakostnaður vegna auglýsinga á því ári, en ekki hefði verið gengið frá sölunni fyrr en á árinu 2004. Kostnaðurinn hefði ekki verið gjaldfærður árið 2003.

Með bréfi dags. 9. ágúst 2005, tilkynnti skattstjóri kæranda um fyrirhugaða ákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið júlí-desember 2004 og boðaði endurákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið janúar-júní 2004, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988. Að því er varðaði tímabilið janúar-júní 2004 kom fram að skattstjóri hefði í hyggju að lækka innskatt úr 72.824 kr. í 70.873 kr. eða um 1.951 kr., annars vegar vegna tilfærðs innskatts 919 kr. af símreikningum sem stílaðir væru á annan aðila, B, og því ekki í samræmi við 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, og hins vegar af tilfærðum innskatti 1.603 kr. vegna auglýsingar fasteignar sem byggður væri á reikningsyfirliti en ekki fullgildu frumriti reiknings, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Til hækkunar innskatts kæmi hins vegar helmingur virðisaukaskatts samkvæmt farsímareikningum sem hefðu verið færðir á síðara uppgjörstímabili ársins, en ekki væri fallist á að allur sá kostnaður væri vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Boðuð lækkun innskatts tímabilið júlí-desember 2004 úr 168.448 kr. í 13.928 kr. eða um 154.520 kr. var í fyrsta lagi byggð á því að færsla innskatts 1.768 kr. af símreikningum í nafni B fengi ekki staðist, sbr. hliðstæða breytingu vegna fyrra tímabils ársins, í öðru lagi að innskattur væri offærður um 1.142 kr. vegna farsímareikninga sem tilheyrðu fyrra tímabili ársins, í þriðja lagi að innskattur væri offærður um 67.532 kr. vegna malarflutninga og vegalagningar að sumarbústað kæranda, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, og í fjórða lagi taldi skattstjóri að kærandi hefði ekki sýnt fram á að innskattur 84.078 kr. vegna byggingar hesthúss varðaði sölu kæranda á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Um þetta síðastnefnda atriði tók skattstjóri fram að fyrir lægju húsbyggingarskýrslur með skattframtölum kæranda árin 2000 og 2001 vegna viðbyggingar við hesthús kæranda að Z. Samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins hefði kærandi selt hesthúsið 31. desember 2001 og afhent það nýjum eiganda 1. febrúar 2002. Ljóst væri að kærandi væri ekki eigandi hesthússins að Z og engin gögn hefðu komið fram um það að kærandi hefði umráð yfir húsinu auk þess sem kærandi hefði ekki lagt fram sölureikninga eða önnur gögn sem sýndu fram á að atvinnustarfsemi færi fram í húsinu. Væri því ekki unnt að fallast á að framtalinn byggingarkostnaður væri vegna byggingar fyrir eigin atvinnurekstur. Þá boðaði skattstjóri beitingu álags uppgjörtímabilið júlí-desember 2004, sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988, og tók fram að álagsfjárhæð tæki mið af ofgreiddum virðisaukaskatti á fyrra uppgjörstímabili.

Kærandi andmælti boðuðum breytingum skattstjóra með bréfi, dags. 18. ágúst 2005. Að því er varðaði farsímakostnað kom fram að um væri að ræða síma sem eiginkona kæranda hefði gefið honum fyrir allmörgum árum og ekki hefði verið hægt að skrá símann á nafn annars en kaupanda. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefði ekki tekist að fá skráningu símanúmersins breytt. Tveir aðrir símar væri í eigu þeirra hjóna. Rétt væri að einkanot færu að hluta fram í þessu númeri, en þau væri þó ekki meiri en not á hinum símanum vegna atvinnurekstrar. Ef til vill hefði verið réttara að færa innskatt af helmingi farsíma og heimasíma. Þá tók kærandi fram að hann liti ekki svo á að eiginkona sín, B, væri „annar aðili“ í umfjöllun um rekstur á búi þeirra, enda væri hún að lögum eigandi að öllum eignum þeirra að hálfu. Kostnaður við söluauglýsingu vegna X hefði átt að færast á árinu 2003, enda hefði jörðin verið auglýst til sölu á því ári, en kærandi hefði talið óvíst hvort hún seldist og á hvaða verði og þá jafnframt verið óljóst um skiptingu milli íbúðarhúss og rekstrar. Um innskatt vegna vegagerðar kom fram í bréfi kæranda að hann ætti ásamt eiginkonu sinni helming lögbýlisins Y. Á jörðinni væri vandað íbúðarhús og byggi kærandi þar jafnt að vetri sem sumri og stundaði landbúnað og eiginkonan skógrækt. Að mati kæranda væri ekki fráleitt að telja að kostnaður við vegagerð væri að hálfu vegna íbúðarhúss og að hálfu vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Kærandi kvaðst ekki telja það þjóna tilgangi að fjölyrða að sinni um frádrátt virðisaukaskatts vegna hesthúsbyggingar, enda bæri bréf skattstjóra með sér að hann tæki ekki mark á upplýsingum kæranda í bréfi, dags. 20. maí 2005, og húsbyggingarskýrslum með skattframtölum kæranda. Bréfinu fylgdu m.a. ljósrit af skrám og tilkynningum til Bændasamtaka Íslands vegna sölu hesta.

Með tilkynningu, dags. 29. september 2005, ákvarðaði skattstjóri virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilið júlí-desember 2004 og endurákvarðaði virðisaukaskatt hans uppgjörstímabilið janúar-júní 2004 í samræmi við það sem boðað hafði verið með bréfi, dags. 9. ágúst 2005. Vegna innskatts af farsímareikningum, 919 kr. tímabilið janúar-júní 2004 og 1.768 kr. tímabilið júlí-desember 2004, tók skattstjóri fram að kærandi væri hinn skattskyldi aðili og væri ekki unnt að fallast á að reikningar sem ekki væru útgefnir á nafn kæranda uppfylltu skilyrði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988. Fram kæmi í skýringum kæranda að kostnaður við auglýsingu fasteignar tilheyrði árinu 2003 en ekki hefði verið vitað þá um skiptingu milli íbúðarhúss og jarðar. Þar sem komið hefði fram í bréfi kæranda að kostnaðurinn tilheyrði ekki uppgjörstímabilinu janúar-júní 2004 og uppfyllti þar með ekki skilyrði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988 hefði skattstjóri ákveðið að lækka innskatt kæranda á því tímabili um 1.603 kr. Engin andmæli hefðu komið fram vegna lækkunar innskatts um 1.142 kr. tímabilið júlí-desember og hækkun innskatts um 571 kr. tímabilið janúar-júní 2004. Vegna innskatts að fjárhæð 67.532 kr. samkvæmt reikningum fyrir malarflutningum og vegagerð vísaði skattstjóri til þess að ekki væru aðrar byggingar á jörðinni Y en sumarbústaður kæranda og fram kæmi á greindum reikningum að lagður hefði verið vegur og útbúið plan við sumarhús. Væri ekki unnt að fallast á að slíkur kostnaður félli undir aðföng vegna rekstrar, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Vegna skýringa kæranda um notkun hesthúss við tamningar tók skattstjóri fram að samkvæmt bókhaldi kæranda fyrir árið 2004 væru allar rekstrartekjur vegna innleggs folalda og hrossa í sláturhús, en hvergi kæmi fram að kærandi hefði selt taminn hest eða haft tekjur af tamningu fyrir aðra aðila. Samkvæmt gögnum með andmælabréfi kæranda um skráningu Bændasamtaka Íslands hefði kærandi selt tvö folöld, fædd 2004, og eina hryssu, fædda 1990, samtals fyrir 80.000 kr., en ekkert kæmi fram um að sala á þessum gripum tengdist atvinnustarfsemi að Z. Þá áréttaði skattstjóri að kærandi hefði selt hesthús sitt að Z í árslok 2001 og engin gögn hefðu komið fram um umráð kæranda yfir hesthúsinu eða til stuðnings því að hann hefði notað það vegna atvinnurekstrar. Því væri frádrætti innskatts að fjárhæð 84.078 kr. af byggingarkostnaði hesthúss hafnað, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988.

Af hálfu kæranda var ákvörðun og endurákvörðun virðisaukaskatts kærð til skattstjóra með kæru, dags. 21. október 2005, þar sem fyrri rökstuðningur var áréttaður og því beint til skattstjóra að afla frekari gagna í málinu. Með kæruúrskurði, dags. 3. ágúst 2006, staðfesti skattstjóri þær ákvarðanir sem tilkynntar hefðu verið kæranda 29. september 2005.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 4. september 2006, er breytingum skattstjóra á virðisaukaskatti kæranda árið 2004 mótmælt í fjórum liðum.

Að því er varðar símakostnað krefst kærandi þess í fyrsta lagi að innskattur vegna farsíma hans ... verði viðurkenndur þrátt fyrir að símakostnaður sé greiddur af Visareikningi eiginkonu. Í öðru lagi óskar kærandi úrskurðar um það hvort heimilt sé að jafna út einkanot af umræddum síma kæranda á móti hluta kostnaðar vegna annars síma hans ... vegna landbúnaðar. Báðir símarnir séu í eigu kæranda þótt þeir séu af hagkvæmnisástæðum skráðir á nafn eiginkonu ásamt einkasíma hennar ... , en sparnaður vegna útskriftargjalda nemi 2.760 kr. á ári.

Vegna auglýsingakostnaðar kemur fram í kærunni að um rangt færslutímabil sé að ræða. Eignin X hafi verið seld ári eftir að hún var auglýst til sölu. Vegna skiptingar sölukostnaðarins milli atvinnurekstrar og íbúðarhúsnæðis hafi ekki verið unnt að bókfæra þann kostnað sem tilheyrði atvinnurekstri fyrr en legið hefði fyrir hvað yrði selt, þ.e.a.s. hvort bústofn og vélar myndu fylgja hinni seldu fasteign. Því hafi auglýsingakostnaður verið geymdur til söluárs (2004). Til vara fer kærandi fram á að innskattur uppgjörstímabilið júlí-desember 2003 verði leiðréttur með tilliti til þessa liðar.

Kærandi gerir þá kröfu varðandi innskatt af kostnaði við vegalagningu að helmingur virðisaukaskatts verði viðurkenndur til endurgreiðslu, enda sé umræddur vegur að jöfnu notaður vegna atvinnurekstrar og íbúðarhúsnæðis. Kærandi tekur fram í þessu sambandi að hesthús hans sé staðsett í hesthúsahverfinu Z í um 17 km fjarlægð frá íbúðarhúsnæði. Ekki hafi verið lagður sérstakur vegur þangað en hinn umþrætti vegur sé notaður. Jafnframt bendir kærandi á að erfitt sé að stunda landbúnað án vega um landið, m.a. til þess að þungir sláturhúsabílar komist að og frá réttum til töku sláturgripa og til að kaupendur gripa geti fyrirhafnarlítið metið sölugripi með hagkvæmum hætti.

Vegna þess þáttar málsins sem varðar hesthúsbyggingu kemur fram í kæru að skattstjóri vefengi eignarhald kæranda á hesthúsi. Þrátt fyrir það hafi skattstjóri lagt eignarskatt á kæranda vegna eignarinnar. Gögn séu ekki aðgengileg hjá byggingarfulltrúa, þótt skattstjóri geti fengið upplýsingar frá því embætti, en kærandi hafi fengið munnlegt leyfi til byggingarinnar eftir að hafa sótt um slíkt leyfi. Um sé að ræða viðbyggingu við hesthús að Z. Viðbyggingin, sem hafi verið fullgerð árið 2004, hafi ekki fylgt við sölu á eldri hluta hesthússins, sbr. meðfylgjandi ljósrit afsals þar sem glöggt komi fram að undanskilin sölu sé 40 fermetra viðbygging. Vegna athugasemdar skattstjóra um að tilgreindur kostnaður tilheyri ekki tímabilinu tekur kærandi fram að verkið hafi verið unnið á árinu 2004 svo sem vinnuseðill beri með sér, en til vara sé farið fram á að innskattur komi til endurgreiðslu á fyrri hluta árs 2005.

IV.

Með bréfi, dags. 3. nóvember 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

,,Í úrskurði skattstjóra kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn er sanni eignarhald eða umráð yfir hesthúsabyggingu. Kærandi hefur nú lagt fram afsal, dags. 31. desember 2001, sem fylgiskjal með kæru, þar sem fram kemur að afsalað er hesthúsi og hlöðu, en undanskilin er 40 fermetra nýbygging sem ekki er afsalað.

Þar sem kærandi hefur nú lagt fram ný gögn að þessu leyti er þess krafist með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að þeim þætti kærunnar verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Að öðru leyti er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

V.

Um innskatt af símakostnaði.

Eins og fram er komið gerði skattstjóri tvenns konar breytingar á innskatti kæranda uppgjörstímabilin janúar-júní og júlí-desember 2004 vegna símakostnaðar. Annars vegar felldi skattstjóri niður innskatt að fjárhæð 919 kr. fyrra tímabilið og 1.768 kr. síðara tímabilið vegna farsímareikninga sem voru á nafni eiginkonu kæranda, B, og hins vegar felldi skattstjóri niður innskatt 1.142 kr. af farsímareikningum í nafni kæranda uppgjörstímabilið júlí-desember 2004, enda væri ekki um að ræða útgjöld vegna þess tímabils, en færði helming fjárhæðarinnar, þ.e. 571 kr., sem innskatt uppgjörstímabilið janúar-júní 2004 og byggði í því sambandi á því að kærandi notaði farsímann einnig til persónulegra þarfa.

Af hálfu kæranda er breytingu skattstjóra vegna farsímareikninga í nafni eiginkonu kæranda mótmælt á þeim grundvelli að skráning farsímanúmers á nafn eiginkonu hafi verið í sparnaðarskyni. Við meðferð málsins hjá skattstjóra var gerð nánari grein fyrir þessu og kom þá m.a. fram að reglur Símans um skráningu síma á nafn kaupanda hefðu orðið til þess að skrá varð viðkomandi símanúmer á nafn eiginkonu kæranda.

Ekki verður fallist á að reikningar á nafni annars aðila en kæranda geti talist fullnægjandi til sönnunar innskatti kæranda, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Er í þessu sambandi litið til þess að samkvæmt skilgreiningum í 3. og 4. mgr. 15. gr. laganna er hugtakið innskattur bundið við virðisaukaskatt sem fellur á kaup skattaðila sjálfs á vörum og skattskyldri þjónustu til nota í rekstri hans. Tekið skal fram að undantekning í niðurlagsákvæði 7. mgr. 20. gr. laganna þykir ekki geta átt við um seljanda þeirrar þjónustu sem hér um ræðir, sbr. tilgreiningu í fylgiskjali með reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Er kröfunni því hafnað um þennan lið kærunnar.

Í kæru eru út af fyrir sig ekki gerðar athugasemdir við þá forsendu skattstjóra að kostnaður kæranda samkvæmt farsímareikningum frá febrúar, mars og apríl 2004 hafi að einhverju leyti verið persónuleg útgjöld og því hafi ekki verið heimilt að reikna allan tilgreindan virðisaukaskatt til frádráttar. Hins vegar telur kærandi að líta megi í þessu sambandi til notkunar heimilissíma í þágu rekstrar og verður að skilja kæruna svo að byggt sé á því að þar sem ekki hafi verið reiknaður innskattur vegna rekstrarafnota heimilissíma sé ekki tilefni til lækkunar innskatts sökum greindra einkanota farsíma. Ekki er fallist á þetta með kæranda, enda verður að meta frádráttarbærni tilgreinds innskatts í skattskilum kæranda án tillits til hugsanlegra vanfærðra útgjalda í bókhaldi hans.

Um innskatt af söluauglýsingu fasteignar.

Boðuð lækkun innskatts vegna þessa liðar í bréfi skattstjóra, dags. 9. ágúst 2005, var byggð á því að ekki væri fyrir hendi frumrit sölureiknings til sönnunar tilfærðum innskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, sem skattstjóri vísaði til, en innskattur væri færður á grundvelli viðskiptayfirlits. Í tilkynningu skattstjóra, dags. 3. ágúst 2006, brá svo við að skattstjóri greip á lofti skýringu kæranda um ástæður þess að innskattur hefði ekki verið færður miðað við útgáfu sölureiknings, þ.e. að á þeim tíma hefði skipting sölukostnaðar milli rekstrareigna og íbúðarhúss ekki legið fyrir, án þess þó að veita þeirri skýringu neina úrlausn, og felldi hinn umdeilda innskatt niður á þeim forsendum að fram væri komið að kostnaðurinn tilheyrði ekki uppgjörstímabilinu janúar-júní 2004 og uppfyllti þar með ekki skilyrði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt þessu byggði skattstjóri breytingu sína á allt öðrum forsendum en kom fram í bréfi hans, dags. 9. ágúst 2005. Var málsmeðferð skattstjóra til þess fallin að torvelda kæranda að gæta nægilega lögfests andmælaréttar síns, sbr. m.a. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Miðað við þær forsendur sem skattstjóri byggði á að lyktum verður jafnframt að telja að á það hafi skort að skattstjóri tæki fram komnar skýringar kæranda og andmæli til rökstuddrar úrlausnar, svo sem fyrr greinir. Að framangreindu virtu þykir ekki hjá því komist að ómerkja breytingu skattstjóra samkvæmt þessum kærulið. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefnisins.

Um innskatt af veglagningu.

Samkvæmt gögnum málsins, m.a. áritunum á sölureikninga, er um að ræða lagningu vegar um jörð kæranda, Y, sem eingöngu er vegna vegtengingar íbúðarhúss eða sumarbústaðar kæranda á jörðinni en liggur ekki jafnframt að byggingum (útihúsum) sem kærandi notar vegna skattskyldrar starfsemi sinnar, enda er óumdeilt að ekki séu aðrar byggingar á jörðinni en íbúðarhúsið. Að svo vöxnu verður að fallast á það með skattstjóra að framkvæmdin sé að öllu leyti vegna einkanota kæranda, sbr. einnig ákvæði 2. og 4. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, en geti ekki að neinu leyti talist varða sölu kæranda á vörum og skattskyldri þjónustu í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Þykja skýringar kæranda um nauðsyn vegalagningar um jörðina vegna aksturs sláturhúsabíla o.fl. ekki fá breytt þessu. Er þannig enginn grundvöllur til að telja hluta virðisaukaskatts vegna greindra framkvæmda til innskatts, sbr. 2. málsl. 8. gr. og 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Kröfu kæranda er því hafnað um þetta kæruatriði.

Um innskatt af innréttingu hesthúss.

Eins og rakið er að framan byggði skattstjóri boðaðar breytingar á innskatti að því er varðaði innréttingu hesthúss annars vegar á því að ljóst væri að kærandi væri ekki eigandi hesthúss að Z, enda hefði hann selt það í árslok 2001, og engin gögn hefðu komið fram um það að kærandi hefði umráð yfir húsinu og hins vegar á því að kærandi hefði ekki lagt fram sölureikninga eða önnur gögn sem sýndu fram á að hann notaði húsið til rekstrarþarfa. Þótt ráða hafi mátt af bréfi kæranda frá 20. maí 2005 að um tvær byggingar væri að ræða, þ.e. viðbyggingu og „eldra hús“, kom það ekki skýrt fram í bréfinu og svo virðist sem greind viðbygging hafi ekki komið fram í skrám Fasteignamats ríkisins sem skattstjóri vísaði til. Í andmælabréfi sínu, dags. 18. ágúst 2005, og í kæru til skattstjóra, dags. 21. október 2005, gerði kærandi ekki frekari grein fyrir atvikum að þessu leyti. Með kæru til yfirskattanefndar fylgja á hinn bóginn gögn sem sýna fram á að kærandi hélt umræddri viðbyggingu eftir við sölu hesthússins að Z í árslok 2001. Þrátt fyrir ný gögn um þetta atriði þykir þó ekki ástæða til að vísa þessum lið kærunnar til skattstjóra að nýju með vísan til þeirra lagaraka sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, svo sem ríkisskattstjóri krefst, enda byggði skattstjóri ákvörðun sína jafnframt á atriðum sem ekki lutu að eignarhaldi eða umráðum kæranda yfir húsnæðinu, sbr. að framan.

Af hálfu skattstjóra hefur ekki verið dregið í efa að kærandi hafi hrossarækt að atvinnu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, og þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til að ætla að kærandi noti umrætt hesthús til annarra þarfa en þeirrar starfsemi, enda er útihúsum ekki til að dreifa á jörð kæranda svo sem fram er komið í málinu. Samkvæmt þessu þykir bera að taka kröfu kæranda til greina um þetta kæruatriði.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á hækkun innskatts um 84.078 kr. uppgjörstímabilið júlí-desember 2004. Lækkun innskatts að fjárhæð 1.603 kr. uppgjörstímabilið janúar-júní 2004 er ómerkt. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja