Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat fjármálaráðherra
  • Pallbifreið

Úrskurður nr. 29/2009

Gjaldár 2007

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 118. gr.   Skattmat fyrir tekjuárið 2006.  

Í máli þessu var deilt um skattlagningu bifreiðahlunninda hjá kæranda vegna einkanota hans af bifreið launagreiðanda. Kærandi hélt því fram í málinu að ekki væri hægt að hafa sömu afnot af viðkomandi bifreið, sem var pallbifreið af gerðinni Ford F-350, og af fólksbifreið eða jeppabifreið, enda væri bifreiðin flokkuð sem vörubifreið í ökutækjaskrá. Yfirskattanefnd taldi að hægt væri að hafa sambærileg afnot af bifreiðinni og fólksbifreið, m.a. að athuguðum ljósmyndum af bifreiðinni og í ljósi þess að óumdeilt var að kærandi hefði haft einkaafnot af henni. Var því talið að skattmatsreglur fjármálaráðherra tækju til slíkra bifreiða sem um ræðir. Voru kæranda ákvörðuð skattskyld bifreiðahlunnindi vegna afnota af bifreiðinni eftir reglum um full og ótakmörkuð umráð.

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra, er hann tók með úrskurði um endurákvörðun, dags. 14. febrúar 2008, að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2007 skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 663.000 kr. vegna afnota kæranda af bifreiðinni Z sem var í eigu X ehf. Af hálfu kæranda er þess krafist að tekjufærsla bifreiðahlunninda verði lækkuð.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi er eigandi alls hlutafjár í X ehf. og eini starfsmaður félagsins. Með bréfi til X ehf., dags. 29. júlí 2007, óskaði skattstjóri eftir því að félagið léti í té upplýsingar um afnot af bifreið félagsins Z af gerðinni Ford F-350. Í svarbréfi umboðsmanns X ehf., dags. 27. ágúst 2007, kom fram að bifreiðin Z væri vörubifreið og hentaði því illa til einkanota. Allt að einu kæmi fyrir að kærandi hefði einkaafnot af bifreiðinni, þótt slík not væru sjaldgæf. Því væri fallist á að kæranda yrðu reiknuð til tekna bifreiðahlunnindi vegna 1.200 km aksturs í einkaþágu eða miðað við um 100 km akstur í einkaþágu á mánuði.

Með bréfi til kæranda, dags. 4. september 2007, skoraði skattstjóri á kæranda að rökstyðja kröfu um að við tekjufærslu bifreiðahlunninda vegna afnota hans af bifreiðinni Z bæri ekki að miða við full og ótakmörkuð afnot, „sbr. verklagsreglur ríkisskattstjóra“, en í reglunum kæmi fram að þeir sem störfuðu við eigin atvinnurekstur eða stunduðu sjálfstæða starfsemi, eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar og aðrir í sambærilegum störfum og stjórnarmenn félaga teldust hafa full og ótakmörkuð umráð yfir fólksbifreiðum sem þeir hefðu til einkanota. Vísaði skattstjóri til meðfylgjandi ljósrits af reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2006 og benti á að verð bifreiðarinnar Z samkvæmt bifreiðaskrá ríkisskattstjóra væri 4.420.000 kr. og því yrðu bifreiðahlunnindi 663.000 kr. miðað við 15% hlutfall. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 10. september 2007, var ítrekað að um væri að ræða vörubifreið en ekki fólksbifreið eða jeppa, þ.e. atvinnubifreið „á rauðum númerum“.

Með bréfi, dags. 13. nóvember 2007, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2007 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til skattskyldra tekna bifreiðahlunnindi að fjárhæð 663.000 kr. í skattframtali hans umrætt ár. Vegna bréfs umboðsmanns kæranda frá 10. september 2007 tók skattstjóri fram að bifreiðin Z væri ekki „á rauðum númerum“ samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu, heldur væri notkunarflokkur bifreiðarinnar almenn notkun. Því væri fyrirhugað að „áætla“ kæranda bifreiðahlunnindi miðað við 15% hlutfall af verði bifreiðarinnar samkvæmt bifreiðaskrá ríkisskattstjóra eða hlunnindi að fjárhæð 663.000 kr. Í því sambandi mætti benda á að engin bifreið væri í eigu kæranda samkvæmt upplýsingum um bifreiðaeign í skattframtali hans.

Með bréfi, dags. 5. desember 2007, gerði umboðsmaður kæranda athugasemdir vegna fyrirhugaðrar endurákvörðunar skattstjóra. Í bréfinu var áréttað að bifreiðin Z væri vörubifreið og í því sambandi vísað til meðfylgjandi skoðunarvottorðs. Því yrði að teljast ásættanlegt að kæranda yrði gert að greiða skatt af bifreiðahlunnindum miðað við 1.200 km afnot á ári. Vart kæmi málinu við hvort kærandi væri eigandi bifreiðar eða ekki.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 14. febrúar 2008, hratt skattstjóri hinni boðuðu tekjufærslu bifreiðahlunninda að fjárhæð 663.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2007 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2007 til samræmis, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum gerði skattstjóri grein fyrir lagagrundvelli skattskyldu bifreiðahlunninda samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tók fram að kveðið væri á um bifreiðahlunnindi í skattmötum, bæði skattmötum í staðgreiðslu og almennum skattmötum. Þá kom fram í úrskurðinum að kærandi væri eigandi X ehf. og jafnframt stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins, en við slíkar aðstæður yrði að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi leiddi í ljós með gögnum, t.d. varðandi nýtingu bifreiðar í þágu rekstrar, eða sýndi skýrlega fram á með öðrum hætti að hann hefði ekki þau umráð yfir bifreið launagreiðanda að þau yrðu metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Samkvæmt lokamálsgrein í lið 2 „í almennu skattmati ráðherra framtalsárið 2007, sbr. og hliðstætt ákvæði í lið 1.1 í skattmati í staðgreiðslu árið 2006, og niðurlagsákvæði í lið 2.3 í skattmati tekjuárið 2006,“ skyldu þeir sem störfuðu við eigin atvinnurekstur eða stunduðu sjálfstæða starfsemi, eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum teljast hafa full og ótakmörkuð afnot af bifreiðum sem þeir hefðu afnot af. Samkvæmt þessu og miðað við aðstæður í málinu ylti úrlausn þess á því hvort eigin notum kæranda af umræddri bifreið hefði verið fyrir að fara, enda bæri að ákvarða bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, yrði niðurstaðan sú. Reyndi því ekki í málinu á skil fullra umráða annars vegar og takmarkaðra afnota hins vegar.

Skattstjóri tók fram í úrskurðinum að miðað við fram komnar skýringar kæranda virtist viðhorf hans vera það að notkun bifreiðarinnar skipti máli en ekki umráðin sem slík. Þannig væri því ekki mótmælt að kærandi hefði haft umráð bifreiðarinnar, enda lægi það í augum uppi. Vegna þessa væri vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998, sem staðfestur hefði verið með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 hinn 10. febrúar 2000 (H 2000:571), þar sem m.a. væri tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem nyti fullra og ótakmarkaðra afnota af bifreið, væri verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtti sér umráðaréttinn. Engin gögn hefðu verið lögð fram í máli kæranda sem bæru með sér að allur akstur bifreiðarinnar hefði verið í þágu X ehf., og lægi í raun fyrir að svo væri ekki, „a.m.k. í árslok 2006“, eins og þar stóð. Þá þættu skýringar kæranda varðandi eigin bifreiðaeign ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins. Samkvæmt því, sem hér hefði verið rakið, og að virtum aðstæðum og atvikum að öðru leyti, þætti ekki varhugavert að byggja á því að kærandi hefði haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, enda yrði ekki talið að kærandi hefði verið bundinn takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni Z utan vinnutíma, og því haft á valdi sínu að nota bifreiðina í eigin þágu í einstökum tilvikum. Umrædd bifreið, af gerðinni Ford 350, væri í almennri notkun og skráð fyrir fimm farþega. Bifreiðin væri því að hluta til farþegabifreið þrátt fyrir að vera skráð í tollflokk sem vörubifreið. Að þessu athuguðu yrðu bifreiðahlunnindi kæranda ákvörðuð miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, og væri kröfu hans í málinu því hafnað.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. maí 2008, er greint frá því að starfsemi X ehf. sé, eins og nafn félagsins bendi til, fólgin í þjónustu tengdri ... og útheimti því talsverðan akstur. Vegna akstursþarfa rekstrarins hafi félagið fest kaup á öflugri bifreið með mikla flutningsgetu, þ.e. bifreiðinni Z. Þá sé skilningur kæranda á skattmatsreglum vegna bifreiðahlunninda sá að þegar um sé að ræða afnot launþega af fólks- eða jeppabifreið í eigu launagreiðanda, og launagreiðandinn sé að hluta eða öllu leyti í eigu launþegans sjálfs, þá komi einungis ótakmörkuð afnot til álita. Sé launþegi ekki jafnframt eigandi eða stjórnandi launagreiðandans kunni hins vegar að vera um að ræða takmörkuð afnot. Hafi launþegi hins vegar afnot af öðrum bifreiðum en fólks- eða jeppabifreiðum, svo sem sendibifreið eða vörubifreið, beri launþeganum að telja sér til tekna einkaafnot, séu slík afnot til staðar. Kærandi falli í síðastnefndan flokk, svo sem gerð hafi verið grein fyrir í bréfum til skattstjóra. Þá sé afar einkennilegt að við tollafgreiðslu bifreiðarinnar, meðferð bifreiðarinnar í virðisaukaskattsskilum, álagningu bifreiðagjalds vegna hennar, skoðunarskyldu og veggjalds vegna aksturs um Hvalfjarðargöng sé af hálfu hins opinbera miðað við að um vörubifreið sé að ræða. Kveðst umboðsmanni kæranda vera kunnugt um tilvik þar sem skattstjórar hafi hlutfallað innskatt vegna slíkra bifreiða vegna ætlaðra einkanota. Ljóst sé því að hið opinbera „tali tungum tveim“ í málinu. Vísar umboðsmaður kæranda til meðfylgjandi ljósmynda af bifreiðinni Z og tekur fram að myndirnar sýni bifreiðina „í action“, eins og þar stendur.

IV.

Með bréfi, dags. 4. júlí 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þrátt fyrir skýringar umboðsmanns kæranda á notkun bifreiðarinnar Z, þykir verða að byggja á því að kærandi hafi haft umráð yfir bifreiðinni utan vinnutíma, enda hefur ekkert komið fram um að kærandi hafi verið bundinn takmörkunum varðandi afnot af bifreið félagsins utan vinnutíma og ekki verður annað ráðið en að kærandi hafi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilvikum. Þá virðist það vera viðhorf umboðsmanns kæranda að notkun bifreiðarinnar skipti máli við ákvörðun bifreiðahlunninda, en ekki umráðin sem slík, sbr. skýringar umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar. Vegna þessa skal vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998 (Magnús Hreggviðsson gegn íslenska ríkinu), sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 hinn 10. febrúar 2000 (H 2000:571), þar sem m.a. er tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem nýtur ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, og með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 101/2006, þar sem fallist var á það með ríkisskattstjóra að skattmatsreglur embættisins taki til vörubifreiða sem hægt sé að hafa „sambærileg not“ af og fólksbifreiðum, þ.m.t. skutbifreiðum og jeppabifreiðum, ber að ákvarða bifreiðahlunnindi vegna tekjuársins 2006 miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. að kærandi hafi haft bifreiðina Z til fullra umráða.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. júlí 2008, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 30. júlí 2008, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Víkur umboðsmaður kæranda nánar að úrskurði yfirskattanefndar nr. 101/2006 og kveðst telja að yfirskattanefnd hafi með úrskurðinum litið til eðlis máls fremur en skilgreiningar sem lögð sé til grundvallar við opinbera skráningu ökutækja. Þá vísar umboðsmaður kæranda til ljósmynda af bifreiðinni Z, sem lagðar hafi verið fram í málinu, og tekur fram að þær beri með sér að eðli máls samkvæmt sé ekki unnt að hafa sambærileg afnot af bifreiðinni og venjulegri fólks- eða jeppabifreið. Sé þess vænst að yfirskattanefnd „verði sjálfri sér samkvæmt, þ.e. láti eðli máls hér ráða för“, eins og segir í bréfinu.

V.

Í máli þessu er deilt um skattlagningu bifreiðahlunninda hjá kæranda vegna ætlaðra einkanota hans af bifreiðinni Z sem var í eigu launagreiðanda hans, X ehf. Unir kærandi því ekki að honum séu ákvörðuð bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot hans af bifreiðinni og verður að skilja kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar svo að þess sé krafist að bifreiðahlunnindi kæranda verði lækkuð þannig að þau taki mið af akstri kæranda í einkaþágu á árinu 2006 sem kærandi telur hafa numið um 1.200 km, sbr. m.a. bréf umboðsmanns X ehf. til skattstjóra, dags. 27. ágúst 2007. Nánari töluleg útfærsla reiknaðra bifreiðahlunninda í þessu sambandi kemur þó ekki fram, hvorki í greindu bréfi X ehf. né í kæru kæranda til yfirskattanefndar. Byggt er á því af hálfu kæranda að ekki sé hægt að hafa sömu afnot af umræddri bifreið Z og af fólksbifreið eða jeppabifreið, enda sé um að ræða vörubifreið samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá, sbr. m.a. bréf umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 30. júlí 2008, þar sem skírskotað er til ljósmynda af bifreiðinni í þessu sambandi.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Er nú gert ráð fyrir því í 118. gr. laga nr. 90/2003 að fjármálaráðherra hafi slíkt mat með höndum að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, en áður var útgáfa slíkra matsreglna á hendi ríkisskattstjóra, sbr. 116. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003 skal fjármálaráðherra í upphafi árs, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997, sem birtur er í 2. hefti Skatta- og tollatíðinda 1997 (ST 1997:115) og á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is), og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda. Kveðið er á um bifreiðahlunnindi í lið 2.3 í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2006, sbr. auglýsingu nr. 1195, 28. desember 2005, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda.

Í upphafi liðar 2.3 í skattmatsreglum fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2006 segir svo: „Láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið (station) eða jeppabifreið, eða aðra bifreið sem hægt er að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skal meta umráðin starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.“ Telja verður því að málið velti á því hvort sú tilgreining bifreiða, sem kveðið er á um í upphafi skattsmatsreglna fjármálaráðherra, taki til þeirrar bifreiðar sem í málinu greinir, en eins og fram er komið er bifreiðin flokkuð sem vörubifreið í opinberri ökutækjaskrá. Í lögum nr. 90/2003 er ekki að finna sérstaka skilgreiningu á fólksbifreið eða öðrum gerðum bifreiða. Í 1. gr. reglugerðar nr. 822, 24. september 2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum, sem sett var á grundvelli umferðarlaga nr. 50/1987, er að finna flokkun ökutækja og skilgreiningar þeirra, auk þess sem slík flokkun er tilgreind í inngangi reglugerðarinnar í sambandi við ákvörðun á gildissviði hennar. Samkvæmt þessum ákvæðum reglugerðarinnar eru bifreiðar sérstaklega skilgreindar og flokkaðar og er fólksbifreiðum, hópbifreiðum, sendibifreiðum og vörubifreiðum skipað sjálfstætt í undirflokka bifreiða. Samkvæmt skilgreiningum þessum telst fólksbifreið vera bifreið sem aðallega er ætluð til fólksflutninga og gerð er fyrir 8 farþega eða færri. Sendibifreiðum er skipt í tvo flokka og telst sendibifreið 1 vera bifreið með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna sem aðallega er ætluð til vöruflutninga, svo sem nánar er rakið, og sendibifreið 2 telst vera bifreið með leyfða hámarksþyngd 3.500 kg eða minna sem ætluð er til vöruflutninga og er að hámarki fyrir 6 farþega, svo sem nánar er rakið. Vörubifreið telst vera bifreið með leyfða heildarþyngd meiri en 3.500 kg sem ætluð er til vöruflutninga og er að hámarki fyrir 6 farþega svo sem nánar er skilgreint í lið 01.14 og er vörubifreiðum skipt í tvo flokka eftir leyfðri heildarþyngd þeirra, þ.e. vörubifreið I og II.

Ljóst er að tilgreining bifreiða í skattmati fjármálaráðherra tekur til bifreiða sem teljast fólksbifreiðar í skilningi nefndrar reglugerðar um gerð og búnað ökutækja. Að því er varðar bifreiðar, sem ekki flokkast sem fólksbifreiðar, verður hins vegar að taka afstöðu til þess hvort hægt sé að hafa „sambærileg not“ af þeim og fólksbifreiðum, þ.m.t. skutbifreiðum og jeppabifreiðum, en með hinum tilvitnuðu orðum verður að telja að skírskotað sé til hliðstæðra persónulegra þarfa launamanns og almennt er mætt með notkun fólksbifreiða. Bifreiðin Z, sem um ræðir í þessu máli, er pallbifreið af tegundinni Ford F-350 og er bifreiðin flokkuð sem vörubifreið I í ökutækjaskrá og tilgreint að um sé að ræða bifreið fyrir fimm farþega. Telja verður óumdeilt að kærandi hafði einkaafnot af bifreiðinni, sbr. greint bréf til skattstjóra, dags. 27. ágúst 2007. Samkvæmt því og að því virtu sem að öðru leyti liggur fyrir um bifreiðina, m.a. að athuguðum ljósmyndum af henni sem fylgdu kæru til yfirskattanefndar, verður ekki annað séð en að hægt sé að hafa sambærileg afnot af bifreið þessari og fólksbifreið.

Samkvæmt því sem hér að framan er rakið verður að telja að skattmatsreglur fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2006 taki til slíkra bifreiða sem í máli þessu greinir, sbr. ennfremur úrskurð yfirskattanefndar nr. 101/2006, sem birtur er á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is).

Víkur þá að þeim þætti málsins er snýr að því hvort bifreiðahlunnindi kæranda verði miðuð við ótakmörkuð afnot hans af bifreið launagreiðanda eða einungis takmörkuð afnot. Eins og fram er komið er kærandi eigandi og fyrirsvarsmaður X ehf. og fyrir liggur að umrædd bifreið félagsins var í umsjá hans sjálfs. Veltur úrlausn málsins því eingöngu á því hvort eigin notum kæranda af bifreiðinni hafi verið fyrir að fara, enda ber að ákvarða bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, verði niðurstaðan sú, sbr. lokamálsgrein liðar 2.3 í reglum fjármálaráðherra um skattmat tekjuárið 2006 þar sem sérstaklega er tekið fram að þeir sem starfi við eigin atvinnurekstur eða stundi sjálfstæða starfsemi, eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum og stjórnarmenn félaga teljist hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeir hafa til einkanota. Í málinu reynir því ekki á skil fullra umráða bifreiðar annars vegar og takmarkaðra afnota hins vegar.

Fyrir liggur í málinu að kærandi hafði umráð bifreiðarinnar Z utan vinnutíma og hefur ekkert komið fram um að kærandi hafi verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Verður ekki annað ráðið en kærandi hafi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilvikum. Þá virðist það vera viðhorf umboðsmanns kæranda að notkun bifreiðarinnar skipti máli en ekki umráðin sem slík, sbr. einkum bréf umboðsmannsins til skattstjóra, dags. 27. ágúst 2007, vegna X ehf. þar sem lagt var mat á akstur kæranda í einkaþágu. Vegna þessa skal vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 hinn 10. febrúar 2000 (H 2000:571), þar sem m.a. er tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem nýtur ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, þykir bera að ákvarða skattskyld bifreiðahlunnindi kæranda gjaldárið 2007 vegna afnota af bifreiðinni Z í eigu vinnuveitanda kæranda, X ehf., eftir reglum um full og ótakmörkuð umráð í skilningi framangreindra skattmatsreglna. Með vísan til þess og þar sem enginn ágreiningur er um fjárhæð bifreiðahlunninda, sem leiðir af framangreindum reglum, er kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Gera verður þá athugasemd við málsmeðferð skattstjóra að í boðunarbréfi hans, dags. 13. nóvember 2007, skortir alveg tilvísun til viðeigandi réttarreglna. Þá er ástæða til að taka fram, vegna tilvísunar í hinum kærða úrskurði um endurákvörðun til ákvæðis í „lið 1.1 í skattmati í staðgreiðslu árið 2006“, að reglur fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2006, sbr. auglýsingu nr. 1195/2005 í B-deild Stjórnartíðinda, giltu einnig við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2006, sbr. upphaf reglnanna, en útgáfa sérstaks skattmats vegna staðgreiðslu mun hafa lagst af frá og með tekjuárinu 2002. Voru annmarkar á rökstuðningi skattstjóra að þessu leyti, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði um efni rökstuðnings í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki þykja þó næg efni til að ómerkja ákvörðun skattstjóra af þessum sökum, enda verður hvorki séð að greindir annmarkar hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar né valdið kæranda réttarspjöllum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja