Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sölutap hlutabréfa
  • Málamyndagerningur

Úrskurður nr. 30/2009

Gjaldár 2007

Lög nr. 90/2003, 24. gr. 1. mgr.  

Talið var að virða bæri ráðstöfun kæranda á hlutabréfum í X ehf. til bróður síns á árinu 2006 fyrir 1 kr. sem málamyndagerning sem horfa bæri framhjá í skattalegu tilliti, enda var óumdeilt að hlutabréfin voru verðlaus eða því sem næst verðlaus í hendi kæranda á greindum tíma. Var byggt á því að frádráttur sölutaps hlutabréfanna í skattframtali kæranda árið 2007 hefði í raun verið afskrift hlutabréfanna þar sem hlutaféð í X ehf. taldist tapað. Þar sem skilyrði fyrir frádrætti sölutaps voru þannig ekki uppfyllt og frádráttur kom ekki til álita á öðrum grundvelli var kröfum kæranda hafnað.

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra, sem hann tók með úrskurði sínum, dags. 24. júní 2008, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2007 að fella niður tilfært tap af sölu hlutabréfa í X ehf. að fjárhæð 3.432.202 kr. sem leiddi til þess að hagnaður kæranda af sölu hlutabréfa ákvarðaðist 2.551.225 kr. er færðist til tekna í reit 164 í skattframtali kæranda árið 2007. Samkvæmt yfirliti yfir kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.19), er fylgdi skattframtali kæranda árið 2007, nam sölutap 880.977 kr. samkvæmt samtölum. Skattstjóri byggði á því að óumdeilt væri að um væri að ræða tapað hlutafé. Samkvæmt því ætti 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ekki við og frádráttarheimild vegna tapaðs hlutafjár væri ekki fyrir að fara.

Af hálfu kæranda er þess krafist samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 4. júlí 2008, að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 24. júní 2008, verði felldur úr gildi, enda hafi verið um raunverulega sölu hlutafjárins að tefla og frádráttarheimild sölutapsins frá söluhagnaði því verið til staðar samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003.

II.

Málavextir eru þeir að í fylgiskjölum (RSK 3.19, hlutabréfaeign - kaup og sala) með skattframtali kæranda árið 2007 var gerð grein fyrir viðskiptum kæranda með hlutabréf á árinu 2006 og hlutabréfaeign hans. Hagnaður vegna sölu kæranda á hlutabréfum í Z-banka hf. nam 2.626.240 kr. Þá nam sölutap vegna sölu kæranda á hlutabréfum í Y hf. 75.015 kr. Ennfremur var gerð grein fyrir sölu hlutabréfa í X ehf. að nafnverði 1.500.000 kr. og stofnverði 3.432.203 kr. Var söluverð tilgreint ein króna og sölutap talið 3.432.202 kr. Í samræmi við framangreint var sölutap tilgreint 880.977 kr. vegna sölu kæranda á hlutabréfum á árinu 2006, sbr. samtöludálk í umræddu yfirliti yfir viðskipti með hlutabréf. Með bréfi, dags. 4. mars 2007, fór skattstjóri fram á að kærandi skýrði, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, hvers vegna miðað hefði verið við greint söluverð, eina krónu, við sölu á hlutabréfunum í X ehf. þegar söluhagnaður/sölutap hefði verið reiknað út. Skyldi kærandi upplýsa hvers vegna hann hefði talið rétt að miða við téð söluverð og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Veittur var 16 daga svarfrestur, miðað við dagsetningu bréfsins. Í svarbréfi kæranda, dags. 6. mars 2007, kom fram að hann hefði keypt hlutafé í X ehf. á árinu 2003 að nafnverði 1.966.667 kr. á genginu 2,288 og greitt 4.500.000 kr. fyrir bréfin. Einkahlutafélag þetta hefði verið fjölskyldufyrirtæki sem stofnsett hefði verið á árinu 2003. Fram kom að rekstur félagsins hefði ekki gengið sem skyldi og hefði kærandi á árinu 2005 selt hlutafé í félaginu að nafnverði 466.667 kr. til erlendrar ferðaskrifstofu sem komið hefði inn í félagið sem kjölfestufjárfestir. Félagið hefði hins vegar ekki rétt úr kútnum og í lok ársins 2006 hefði orðið ljóst að hinn erlendi aðili væri ekki reiðubúinn til að setja meira fé í rekstur félagins til að mæta uppsöfnuðu tapi. Kvaðst kærandi þá hafa ákveðið að selja bróður sínum, B, sem hefði verið framkvæmdastjóri félagsins, öll hlutabréf sín í félaginu að nafnverði 1.500.000 kr. fyrir eina krónu, enda metið stöðuna svo „að bréfin væru í raun orðin verðlaus“, eins og þar sagði. Hugmynd kæranda hefði verið sú að ef bróðir hans, B, gæti gert sér eitthvert verð úr þessu þá væri það kæranda að meinfangalausu. Það hefði því miður ekki gengið eftir að bróðirinn fengi eitthvert verð fyrir hlutabréfin og hefði félagið verið sett í slitameðferð. Formlegum félagsslitum hefði lokið hinn 4. febrúar 2008 og einkahlutafélagið verið afskráð hinn ... febrúar 2008, sbr. meðfylgjandi vottorð fyrirtækjaskrár. Þá fylgdi svarbréfi kæranda lokareikningsskil X ehf. tímabilið 1. janúar til 20. júní 2007 er sýndu tap á rekstri að fjárhæð 6.991.100 kr. og neikvætt eigið fé í árslok 2006 að fjárhæð 350.027 kr.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2008, boðaði skattstjóri kæranda, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, að fyrirhugað væri að fella niður tilfært sölutap að fjárhæð 3.432.202 kr. vegna sölu á hlutabréfum í X ehf. Af því myndi leiða að skattskyldur hagnaður vegna sölu hlutabréfa reiknaðist 2.551.225 kr. í stað sölutaps að fjárhæð 880.977 kr. er færðist til tekna í reit 164 í skattframtali kæranda árið 2007. Skattstjóri gerði grein fyrir gangi málsins og bréfaskiptum í því. Þá vék skattstjóri að ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003 þar sem svo væri mælt fyrir að tap á sölu eigna, sem ekki væru notaðar í atvinnurekstri, væri ekki heimilt að draga frá skattskyldum tekjum. Áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna væri ákveðinn mætti skattaðili þó draga frá heildarhagnaðinum það tap sem hann kynni að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári. Tók skattstjóri fram að samkvæmt þessu lagaákvæði væri ljóst að einungis væri heimilt að draga sölutap af hlutafé frá söluhagnaði. Hlutafé, sem tapaðist vegna þess að félag yrði gjaldþrota, teldist hins vegar ekki sala í skilningi skattalaga. Vísaði skattstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 271/2005 niðurstöðu sinni til stuðnings. Skattstjóri tók fram að hann liti svo á að ekki hefði verið um eiginlega sölu á hlutabréfunum í X ehf. til bróður kæranda, B, að ræða. Fremur mætti telja að um málamyndagerning hefði verið að ræða með því að salan hefði farið fram til nátengds aðila í því skyni að kærandi gæti nýtt sér sölutap vegna sölu bréfanna á móti söluhagnaði vegna sölu annarra hlutabréfa. Í raun hefðu hlutabréfin verið verðlaus í hendi kæranda þegar hann hefði afráðið að selja bróður sínum bréfin. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003 gætu því ekki átt við, enda væri ekki um eiginlegt sölutap að ræða heldur tapað hlutafé. Undantekningarákvæði skattalega heimiluðu einungis að draga sölutap frá söluhagnaði en ekki tapað hlutafé. Skattstjóri veitti kæranda 16 daga frest, miðað við dagsetningu boðunarbréfsins, til að koma að athugasemdum sínum og andmælum.

Með bréfi, dags. 17. apríl 2008, mótmælti kærandi hinum boðuðu breytingum skattstjóra og krafðist þess að skattframtal árið 2007 stæði óbreytt. Kærandi rakti þau atriði sem hann taldi að ekki væri ágreiningur um. Ekki væri um það deilt að hann hefði lagt fram fé við stofnun X ehf. og sannanlega tapað þeim fjármunum hvort sem tapið reiknaðist 3.432.202 kr. eða 3.432.203 kr., eins og skattstjóri teldi. Þá væri ekki ágreiningur um það að frá stofnun félagsins hefði verðmæti umrædds hlutafjár lækkað úr 3.432.203 kr. í 0 kr. við slit félagsins á árinu 2008 og að á einhverju tímamarki hefði verðmæti hlutafjárins því verið ein króna. Ágreiningur stæði hins vegar um það hvenær verðmæti hlutanna hefði verið ein króna. Ekki væri um það ágreiningur að töpuð verðbréfaeign vegna gjaldþrots eða slita væri ekki frádráttarbær. Hins vegar væri heimilt að færa tap á hlutabréfaeign, sem stafaði af því að verðmæti hlutabréfa hefði lækkað við sölu án þess þó að tapast að öllu leyti, til frádráttar söluhagnaði af sams konar eignum. Þá væri væntanlega ekki um það deilt að atvik í máli því, sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 271/2005, væru ólík atvikum í máli kæranda. Umrætt félag, X ehf., hefði hvorki verið gjaldþrota né hætt starfsemi þegar kærandi hefði selt hlutabréfin í félaginu. Kærandi taldi ágreininginn snúast um það hvort um málamyndagerning hefði verið að ræða eða ekki og hvort umrædd hlutabréf hefðu í raun verið verðlaus eða verðlítil. Kærandi hafnaði því að salan á hlutabréfunum til bróður síns benti til þess að um málamyndagerning hefði verið að ræða. B hefði verið framkvæmdastjóri X ehf., átt fyrir hlutafé í félaginu og haldið áfram störfum og séð um málefni þess eftir sölu kæranda á árinu 2006 fram á árið 2007. Á því ári hefðu farið fram athuganir á sölu á viðskiptasamböndum félagsins til annars félags þannig að ekki hefði verið útséð að gera hefði mátt einhver verðmæti úr félaginu. Það hefði fremur bent til málamyndagernings ef sala til nákomins ættingja hefði átt sér stað sem ekkert hefði tengst rekstri félagsins eða átt fyrir hlut í því. Þá vísaði kærandi til meginreglu um samningsfrelsi, sem bæri að virða, nema sýnt væri fram á að verðmæti í viðskiptum væri verulega frábrugðið því sem almennt gerðist í slíkum viðskiptum. Í slíkum tilvikum mætti líta svo á að um málamyndagerning væri að ræða, sbr. m.a. orðalag 57. gr. laga nr. 90/2003. Ágreiningurinn í málinu stæði hins vegar um það hvort verðmæti hlutabréfanna á söludegi hefði numið einni krónu eða staðið í núlli. Skattstjóri hefði ekki haldið því fram í málinu að verðmæti hlutabréfanna hefði verið vantalið og kærandi fært fram rök fyrir því að verðmæti félagsins hefði ekki verið orðið 0 kr. þegar sala á hlutabréfunum hefði átt sér stað á árinu 2006. Væri ítrekað að félagið hefði aldrei orðið gjaldþrota, en ákveðið að slíta því á árinu 2007 eftir að legið hefði fyrir að ekki tækist að gera verðmæti úr viðskiptasamböndum.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. júní 2008, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, felldi niður frádrátt sölutaps að fjárhæð 3.432.2002 í skattframtali árið 2007 og ákvarðaði skattskyldan söluhagnað hlutabréfa 2.551.225 kr. í reit 164 í skattframtalinu. Endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2007 í samræmi við þetta. Skattstjóri gerði grein fyrir málsatvikum í úrskurðinum, rakti gang málsins og bréfaskipti í því. Skattstjóri vék að skýringum og andmælum kæranda. Í svarbréfi, dags. 6. mars 2008, hefði kærandi upplýst að staðan hefði verið metin þannig að hlutabréfin væru verðlaus. Í andmælabréfi sínu, dags. 17. apríl 2008, héldi kærandi því hins vegar fram að meginágreiningurinn snérist um það hvort um málamyndagerning væri að tefla og hvort hlutabréfin hefðu verið orðin verðlaus eða verðlítil. Samkvæmt hinu fyrra bréfi kæranda væri óumdeilt að um tapað hlutafé hefði verið að ræða. Samkvæmt umræddu ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003 væri einungis heimilt að draga sölutap frá söluhagnaði. Þá sagði svo í úrskurði skattstjóra:

„Með hliðsjón af ofangreindu er ekki hægt að fallast á að umrætt sölutap sé frádráttarbært frá söluhagnaði hlutabréfa gjaldárið 2007. Óumdeilt er að um tapað hlutafé er að ræða og gildir einu hvort framkvæmdir hafi verið málamyndagerningar um sölu hlutafjár fyrir 1 kr. Ákvæði skattalaga heimila einungis að draga sölutap frá söluhagnaði en ekki tapað hlutafé.“

III.

Með kæru, dags. 4. júlí 2008, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 24. júní 2008, til yfirskattanefndar. Kærandi krefst þess að umræddur úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og skattframtal kæranda árið 2007 verði látið standa óhreyft.

Kærandi rekur í kærunni þau málsatvik sem hann telur að séu ágreiningslaus, þ.e. kaup hans á umræddu hlutafé í X ehf. á árinu 2003, sölu hlutafjárins á árinu 2006 til bróður síns, B, og loks afdrif einkahlutafélags þessa sem ekki hafi orðið gjaldþrota, heldur farið í félagsslitameðferð eftir að mistekist hafi að gera verðmæti úr félaginu á árinu 2007. Kærandi telur ágreininginn einkum lúta að því að skattstjóri hafi ekki fallist á að söluverð umræddra hlutabréfa, þ.e. ein króna, hafi verið rétt. Í því sambandi bendir kærandi á að skattstjóri vísi til svarbréfs kæranda, dags. 6. mars 2008, þar sem fram komi að kærandi hafi metið stöðuna þannig að hlutabréfin hafi í raun verið verðlaus á söludegi, sbr. og umfjöllun skattstjóra og ályktanir í hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. júní 2008.

Kærandi heldur því fram í kærunni að söluverð hlutabréfanna hafi í raun verið ein króna og samkvæmt skilningi hans á skattalögum sé sá munur á söluverðmæti, annars vegar einni krónu og hins vegar 0 kr., að í fyrra tilvikinu reiknist sölutap mismunur á stofnverði og söluverði og sé heimilt að nota þannig reiknað sölutap til frádráttar hagnaði af sams konar viðskiptum á sama ári. Sé söluverðið hins vegar talið vera 0 kr. sé litið svo á að um tapað hlutafé sé að ræða og teljist það ekki sala í skilningi skattalaga. Til stuðnings umræddu sjónarmiði sínu að rétt söluverð hafi verið ein króna teflir kærandi fram ýmsum rökum. Í fyrsta lagi hafi X ehf. ekki verið gjaldþrota þegar salan fór fram og raunar aldrei orðið gjaldþrota heldur verið slitið. Í öðru lagi hafi salan átt sér stað seint á árinu 2006, en á árinu 2007 hafi rekstur félagsins haldið áfram og leitast við að gera verðmæti úr viðskiptasamböndum, en það ekki tekist. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að slíta félaginu. Formlegum slitum hafi lokið 4. febrúar 2008 og félagið afskráð í sama mánuði. Í þriðja lagi bendir kærandi á að frá stofnun X ehf. á árinu 2003 þar til félaginu var slitið á árinu 2008 hafi verðmæti umrædds hlutafjár lækkað úr 3.432.2003 kr. í 0 kr. Samkvæmt því hafi verðmæti hlutafjárins á einhverju tímamarki verið ein króna og standi ágreiningurinn aðeins um það á hvaða tímamarki það hafi verið. Í fjórða lagi teflir kærandi því fram að samningsfrelsi sé í landinu og hann ákveðið seint á árinu 2006 að selja greint hlutafé á eina krónu sem hafi verið það verð sem samningsaðilar hafi talið eðlilegt á þeim tíma. Hafi skattstjóri ekki fært rök fyrir því hvers vegna þetta verð hafi ekki verið rétt á umræddum tíma. Í fimmta lagi tekur kærandi fram að þótt kaupandi hlutabréfanna hafi verið bróðir hans hafi ekki verið um óeðlileg viðskipti að ræða, enda hafi bróðirinn verið meðeigandi að einkahlutafélaginu fyrir viðskiptin og að auki framkvæmdastjóri félagsins. Hann hafi því haft mikla hagsmuni af því að félagið yrði rekið áfram, sameinað öðru félagi eða að unnt yrði að gera verðmæti úr félaginu með einhverjum hætti. Í sjötta lagi ber kærandi því við að staðhæfing hans í svarbréfi, dags. 6. mars 2008, um verðleysi hlutafjárins hafi verið leiðrétt og skýrð nánar í andmælabréfi, dags. 17. apríl 2008, þ.e. að um hafi verið að ræða verðlaus eða verðlítil hlutabréf, enda sé ekki mikill munur á einnar krónu virði og algeru verðleysi nema í skilningi skattalaga. Eftir standi þó sú staðreynd að hlutabréfin hafi verið seld á eina krónu en ekki 0 kr. og félagið hafi á þeim tíma ekki verið með öllu verðlaust að mati seljanda og kaupanda. Loks og í sjöunda lagi sé sú ályktun skattstjóra röng, sem byggð sé á því að taka úr samhengi eitt orð úr svarbréfi kæranda, að óumdeilt sé að um tapað hlutafé sé að ræða.

IV.

Með bréfi, dags. 26. september 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 92/2005 (sic), enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra. “

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. september 2008, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í máli þessu er deilt um frádrátt sölutaps að fjárhæð 3.432.202 kr. vegna meintrar sölu kæranda á hlutabréfum í X ehf. á árinu 2006 frá söluhagnaði af öðrum seldum hlutabréfum, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eins og fram kemur í II. kafla hér að framan var gerð grein fyrir viðskiptum með hlutabréf og hlutabréfaeign kæranda í tilskildum fylgiskjölum (RSK 3.19) með skattframtali kæranda árið 2007. Hagnaður vegna sölu kæranda á hlutabréfum í Z-banka hf. nam 2.626.240 kr. Þá nam sölutap vegna sölu kæranda á hlutabréfum í Y hf. 75.015 kr. Ennfremur var gerð grein fyrir sölu hlutabréfa í X ehf. að nafnverði 1.500.000 kr. og stofnverði 3.432.203 kr. Var söluverð tilgreint ein króna og sölutap talið 3.432.202 kr. Í samræmi við framangreint var sölutap tilgreint 880.977 kr. vegna sölu kæranda á hlutabréfum á árinu 2006, sbr. samtöludálk í umræddu yfirliti yfir viðskipti með hlutabréf.

Í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf skattstjóra, dags. 4. mars 2008, og svarbréf kæranda, dags. 6. mars 2008, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 4. apríl 2008, hina umdeildu niðurfellingu á frádrætti umrædds sölutaps vegna meintrar sölu hlutabréfa kæranda í X ehf. Að fengnum andmælum kæranda með bréfi, dags. 17. apríl 2008, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. júní 2008. Leiddu breytingar skattstjóra til þess að skattskyldur söluhagnaður vegna sölu hlutabréfa var ákvarðaður 2.551.225 kr. í reit 164 í skattframtali kæranda árið 2007. Var þar um að ræða hagnað vegna sölu hlutabréfa í Z-banka hf. að fjárhæð 2.626.240 kr. að frádregnu sölutapi að fjárhæð 75.015 kr. vegna sölu hlutabréfa í Y hf. Skattstjóri byggði ákvörðun sína á því að skilyrði frádráttar sölutaps samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003 væru ekki til staðar, enda væri um tapað hlutafé að ræða. Í því sambandi gilti einu hvort gerður hefði verið málamyndagerningur um sölu hlutafjárins í X ehf. fyrir eina krónu.

Af hálfu kæranda er á því byggt að um sölu hlutafjárins hafi verið að ræða fyrir umrætt söluverð en ekki tapað hlutafé. Velti sú ályktun á því hvort söluverð hlutabréfanna hafi í raun verið ein króna, svo sem kærandi telur, eða 0 kr. Færir kærandi ýmis rök fyrir niðurstöðu sinni, sbr. III. kafla hér að framan, þar á meðal að umrætt einkahlutafélag hafi aldrei orðið gjaldþrota heldur slitið, söluverðið hafi verið talið eðlilegt og skattstjóri ekki sýnt fram á annað, viðskiptin hafi og verið eðlileg, enda gerð tilraun til að rétta félagið við í kjölfar sölu kæranda á hlutabréfunum og ljóst sé að verðmæti hlutabréfanna hafi lækkað úr 3.432.2003 kr. í 0 kr. og á einhverju tímamarki verið ein króna.

Í 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er meðal annars fjallað um frádrátt sannanlega tapaðs hlutafjár í félögum, sem hafa orðið gjaldþrota, frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Óumdeilt er að þetta ákvæði á ekki við í tilviki kæranda, enda var um að ræða viðskipti með hlutabréf utan rekstrar, auk þess sem umrætt einkahlutafélag varð ekki gjaldþrota heldur slitið á öðrum grundvelli, sbr. viðeigandi ákvæði XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Því er þvert á móti haldið fram af hálfu kæranda að um sölu hlutabréfanna hafi verið að ræða. Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003 er mælt svo fyrir að tap af sölu eigna, sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri, sé ekki heimilt að draga frá skattskyldum tekjum. Áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna er ákveðinn má skattaðili þó draga frá heildarhagnaðinum það tap sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári. Um frádráttarbærni umrædds meints sölutaps á grundvelli síðastgreinds ákvæðis er tekist á um í málinu, eins og fram er komið.

Þess skal getið að til þess getur komið og talið heimilt að skattyfirvöld leggi á það sjálfstætt mat, hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra, og eru skattyfirvöld þá ekki bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Við mat þetta þurfa skattyfirvöld í vissum tilvikum að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmæltri skattlagningu, t.d. með málamyndagerningi, sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Í öðrum tilvikum kann að reyna beint á greiningu á efni tiltekins gernings, þannig að grafist er fyrir um hvert efni hans sé í raun, en heiti það, sem gerningnum er gefið, ræður ekki úrslitum ef það er annað en efnið gefur til kynna.

Eins og fram er komið galt kærandi 4.500.000 kr. fyrir hlutabréf að nafnverði 1.966.667 kr. í X ehf. við stofnun félagsins á árinu 2003. Eftir sölu kæranda á hluta hlutafjárins á árinu 2005 námu eftirstöðvar kaupverðs 3.432.203 kr. eftir því sem fram er komið. Slit félagsins án gjaldþrotaskipta fóru fram hinn 4. febrúar 2008 í samræmi við viðeigandi ákvæði XIII. kafla laga nr. 138/1994, sbr. 85. gr. laganna, og félagið afskráð úr hlutafélagaskrá hinn ... febrúar 2008 án þess að nokkuð kæmi til úthlutunar til hluthafa eftir því sem ráðið verður. Miðað við þessi atvik telur kærandi að á greindu tímabili frá stofnun félagsins til slita þess hafi verðmæti umræddra eftirstöðva hlutafjár hans í félaginu lækkað úr 3.432.2003 kr. í 0 kr. og má það til sanns vegar færa. Af því leiði að á einhverju tímamarki á umræddu tímaskeiði hafi verðmæti hlutafjárins staðið í einni krónu. Byggir hann á því að við sölu hlutafjárins hafi verðmæti þess svarað til umrædds verðs, enda hafi skattstjóri ekki sýnt fram á annað. Hvað sem þessu líður liggur fyrir og er óumdeilt að hlutabréfin voru verðlaus eða því sem næst verðlaus í hendi kæranda við umrædda ráðstöfun þeirra til bróður kæranda svo sem hin umdeildu einnar krónu viðskipti kæranda við bróður sinn eru órækastur vottur um. Undir það tekur kærandi í kæru til yfirskattanefndar þar sem hann getur þess að í andmælabréfi, dags. 17. apríl 2008, hafi orðalag fyrra bréfs, dags. 6. mars 2008, verið leiðrétti og „skýrt þannig að átt hafi verið við verðlaus eða verðlítil, enda ekki stór munur á 0 kr. og 1 kr. nema í skilningi skattalaganna“. Samkvæmt þessu blasir við að umrædd hlutabréf voru talin verðlaus við þá ráðstöfun, sem í málinu greinir, enda þykir enga þýðingu hafa þótt umrædd verðlagning upp á eina krónu hafi, bersýnilega að nafninu til, verið sett á þann gerning. Þræta um skattalegan mun eftir því hvort selt var á 0 kr. eða fyrir eina krónu þykir frekast vera deila um keisarans skegg. Samkvæmt þessu og eins og málið liggur fyrir og að öðru leyti með vísan til niðurstöðu skattstjóra þykir bera að virða umrædda ráðstöfun kæranda á hlutabréfunum til bróður síns sem málamyndagerning sem horfa verður framhjá í skattalegu tilliti. Verður því byggt á því að umræddur frádráttur í skattskilum kæranda gjaldárið 2007 hafi í raun verið afskrift hlutabréfanna þar sem hlutafé í X ehf. taldist tapað. Voru því ekki uppfyllt skilyrði til frádráttar umræddrar fjárhæðar sem sölutaps á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003. Að því athuguðu og þar sem frádráttur kemur ekki til álita á öðrum grundvelli svo sem óumdeilt er, sbr. ákvæði 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, er kröfum kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja