Úrskurður yfirskattanefndar

  • Olíugjald
  • Sekt

Úrskurður nr. 36/2009

Lög nr. 87/2004, 4. gr. 3. mgr., 19. gr. 5. og 6. mgr. (brl. nr. 169/2006, 8. gr.)  

Ríkisskattstjóri gerði kæranda sem skráðum eiganda fólksbifreiðar sekt vegna brota á reglum um olíugjald þar sem í ljós kom við sýnatöku úr eldsneytisgeymi bifreiðarinnar í mars 2008 að lituð olía var notuð á bifreiðina. Ekki var fallist á með kæranda að ætlað grandleysi hans um notkun litaðrar olíu gæti leitt til niðurfellingar sektar þar sem refsiábyrgð skráðs eiganda samkvæmt 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 væri óháð sök. Hins vegar þótti eftir atvikum rétt að lækka sektarfjárhæð hlutfallslega vegna tímabils á árinu 2006 þar sem bifreiðin var úr umferð samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 28. september 2008, hefur kærandi sem eigandi ökutækisins X mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 14. júlí 2008, að gera kæranda sekt að fjárhæð 200.000 kr. samkvæmt 5. mgr., sbr. 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að notkun litaðrar gjaldfrjálsrar olíu á greint ökutæki kæranda hefði verið andstæð lögum nr. 87/2004. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður, en til vara að sektarfjárhæð verði lækkuð.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 12. mars 2008, kom í ljós við sýnatöku úr eldsneytisgeymi ökutækisins X að lituð olía hefði verið notuð á ökutækið. Kom fram í skýrslunni að ökutækið, sem væri fólksbifreið (M1), hefði verið á N-vegi, nánar tiltekið við ... . Þá kom fram í skýrslunni að ökumaður, kærandi í máli þessu, hefði verið viðstaddur sýnatöku, en neitað „að hafa sett vélarolíu á tank bifreiðar en tjáir sig ekki meira um málið“, eins og segir í skýrslunni.

Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 27. maí 2008, með yfirskriftinni „Boðun sektar vegna brots á reglum um olíugjald.“ Í bréfi þessu vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið skýrslu, dags. 12. mars 2008, frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins X er væri 2.515 kg að heildarþyngd. Kom fram að sýni hefðu verið tekin úr eldsneytistanki bifreiðarinnar og sjónræn niðurstaða gefið til kynna að um litaða olíu væri að ræða. Í kjölfarið hefði sýni verið sent til Efnagreiningar Keldnaholti til athugunar og samkvæmt skýrslu þess aðila, dags. 7. maí 2008, hefði hlutfall litarefnis í olíunni verið 14,4%, en færi hlutfall litarefnis í ólitaðri olíu yfir 3% teldist olía lituð, sbr. 4. mgr. reglugerðar nr. 283/2005, um litun á gas- og díselolíu. Fylgdu umræddar skýrslur eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og Efnagreiningar Keldnaholti bréfi ríkisskattstjóra. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðaði það sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og næmi sekt 200.000 kr. ef heildarþyngd ökutækis væri 3.500.000 kg eða minni. Tók ríkisskattstjóri ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 orðrétt upp í bréfinu. Í ljósi framangreinds og með vísan til 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 200.000 kr. er væri full sekt (án lækkunar), sbr. umráðatíma kæranda frá 16. desember 1999 til dagsetningar brots hinn 12. mars 2008, þ.e. fjöldi daga 730 og hlutfall sektar, miðað við sl. tvö ár því 730/730 eða 100%. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar.

Með bréfi, dags. 3. júní 2008, andmælti kærandi hinni boðuðu sektarákvörðun ríkisskattstjóra. Fram kom að mistök hefðu orðið þess valdandi að lituð olía hefði verið sett á ökutækið X. Hefði sonur kæranda sett litaða olíu á umrædda bifreið úr brúsa sem geymdur hefði verið í hlöðu kæranda. Þar hefði bæði verið lituð og ólituð olía á brúsum, hin litaða í rauðum brúsa og ólituð í bláum, svo að ekki kæmi til ruglings. Þetta hefði þó greinilega ekki dugað og kvaðst kærandi hafa verið grandalaus, uns hann var stöðvaður ... . Í framhaldi af því hefði hann grennslast fyrir um orsökina og hið sanna komið á daginn. Kærandi kvaðst alltaf taka út olíu hjá Skeljungi hf. þar sem hann væri með viðskiptakort. Þar kæmi og fram að hann hefði tekið út ólitaða olíu á bifreiðina, auk bensíns á tvær aðrar bifreiðar, enda væri öll eldsneytisnotkun skráð á kortið. Umrætt ökutæki, sem væri gömul jeppabifreið, væri ekki mikið notað. Tveir starfsmenn ríkisskattstjóra hefðu birst sl. sumar, sennilega í ágúst, og mælt í eldsneytisgeymi og ekkert fundið athugavert við olíuna. Ítrekaði kærandi grandleysi sitt og óskaði eftir að tekið yrði tillit til umræddra málsatvika. Hann gæti lagt fram olíureikninga frá Skeljungi hf. og eins staðfestingu frá syni sínum. Með úrskurði, dags. 14. júlí 2008, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 200.000 kr. Rakti ríkisskattstjóri sem áður málavexti og ítrekaði röksemdir sínar. Vegna athugasemda kæranda í andmælabréfi, dags. 3. júní 2008, tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en þau sem þar væru tilgreind, þ.e. dráttarvélar, námuökutæki, beltabifreiðar, bifreiðar í eigu björgunarsveita og ökutæki sem ætluð væru til sérstakra nota. Í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 laga kæmi fram að það varðaði sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskyld ökutæki og færi sektin eftir heildarþyngd ökutækisins. Í 6. mgr. lagagreinar þessarar kæmi síðan fram að skráðum eiganda ökutækisins yrði gerð sekt óháð því hvort að brot yrði rakið til saknæmrar háttsemi hans eður ei. Tók ríkisskattstjóri fram að ljóst væri að lituð ógjaldskyld olía hefði verið á ökutæki kæranda þegar það hefði verið stöðvað, en slíkt væri óheimilt samkvæmt framangreindu. Skipti ekki máli hvort um ásetning væri að ræða eða ekki. Þær ástæður, sem fram hefðu komið af hálfu kæranda, væru ekki þess eðlis að ríkisskattstjóri gæti fellt niður sekt að hluta eða fullu, sbr. heimild í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004. Þá gerði ríkisskattstjóri með sama hætti og í boðunarbréfi grein fyrir forsendum sektarákvörðunar og útreikningi sektarfjárhæðar 200.000 kr.

III.

Með kæru, dags. 28. september 2008, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 14. júlí 2008, um ákvörðun sektar vegna brota á lögum um olíugjald, til yfirskattanefndar. Krefst kærandi þess aðallega að sektin verði felld niður, en til vara lækkuð og „reiknað verði frá og með þeim degi sem farið var í tankinn í fyrra skiptið sem var 8 mánuðum fyrr“, eins og þar stendur. Kærandi vísar til þeirrar sýnatöku, sem fór fram hinn 12. mars 2008, úr eldsneytisgeymi bifreiðarinnar X þar sem greinst hafi lituð olía. Um það hafi hann ekkert vitað, sbr. skýringar í bréfi, dags. 3. júní 2008, til ríkisskattstjóra. Kærandi bendir á að þetta sé í annað skipti á átta mánaða tímabili sem sýni hafi verið tekið úr tank umræddrar bifreiðar. Í hið fyrra sinn hafi ekkert athugavert komið í ljós. Þrátt fyrir það sé sektin reiknuð tvö ár aftur í tímann sem verði að telja mjög óréttlátt.

IV.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

V.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 14. júlí 2008, að gera kæranda sekt að fjárhæð 200.000 kr. eftir ákvæðum 5. mgr., sbr. 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með áorðnum breytingum, fyrir að hafa notað litaða olíu á ökutækið X, sbr. skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 12. mars 2008, um brot á reglum um olíugjald, og skýrslu Efnagreiningar Keldnaholti, dags. 7. maí 2008, vegna athugunar á litarefni í olíu, en skýrslur þessar eru meðal gagna málsins. Umrætt ökutæki er fólksbifreið (M1) samkvæmt skilgreiningu reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, sbr. reglugerð nr. 822/2004 um það efni. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en tilgreind ökutæki samkvæmt 5., 7, 8. og 9. tölul. 1. mgr. lagagreinar þessarar, sbr. 1. gr. laga nr. 169/2006 og 2. gr. laga nr. 162/2007, um breyting á hinum fyrstnefndu lögum. Slíkri undanþágu væri ekki til að dreifa í tilviki kæranda og er það út af fyrir sig óumdeilt í málinu. Kærandi er engu að síður ósáttur við sektarákvörðun ríkisskattstjóra. Kærandi byggir aðalkröfu sína um niðurfellingu sektarinnar með öllu á því að honum hafi verið ókunnugt um að lituð olía væri í eldsneytisgeymi bifreiðarinnar. Varakrafan um lækkun sektarfjárhæðar er á hinn bóginn reist á því að sektin hafi verið ofákvörðuð, sbr. ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 um hlutfallslega lækkun sektarfjárhæðar þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili talið frá þeim tíma þegar brot liggur fyrir. Í þeim efnum ber kærandi því við að eftirlitsmenn hafi skyggnst í eldsneytistank bifreiðarinnar um sumarið 2007, líklegast í ágústmánuði, og þá ekkert reynst athugavert. Verði sektarfjárhæð reiknuð frá og með þeim tíma eða átta mánuðum fyrr.

Tildrög málsins eru þau að eftirlitsmenn Vegagerðarinnar stöðvuðu X á N-vegi hinn 12. mars 2008, sbr. fyrirliggjandi skýrslu eftirlitsmanns Vegagerðarinnar, dags. sama dag, vegna ökutækisins X þar sem fram kemur að sýnataka úr eldsneytisgeymi ökutækisins hafi leitt í ljós að lituð olía hefði verið notuð á ökutækið. Umrædd skýrsla er undirrituð af ökumanni bifreiðarinnar X, kæranda í máli þessu. Í skýrslunni er getið athugasemdar kæranda þess efnis að hann neiti því að hafa sett vélarolíu á tank bifreiðarinnar, en tjái sig ekki frekar um málið.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða í ríkissjóð vörugjald af gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að gjaldskyldum aðilum samkvæmt 3. gr. sömu laga sé heimilt að selja eða afhenda olíu samkvæmt 1. gr. án innheimtu olíugjalds í tilgreindum tilvikum sem talin eru upp í einstökum töluliðum málsgreinarinnar. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds samkvæmt 2.-9. tölul. 1. mgr. sé að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr. laganna. Litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst sé í 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og ræðst sektarfjárhæð af heildarþyngd ökutækis, svo sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Sé heildarþyngd ökutækis 0 til 3.500 kg skal fjárhæð sektar nema 200.000 kr. Sektarfjárhæðina skal lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Sektarfjárhæð skal að hámarki lækkuð um helming. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu, sbr. niðurlag 5. mgr. 19. gr. laganna. Í 6. mgr. 19. gr. kemur fram að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Hafi umráðamaður ökutækis gerst sekur um brot samkvæmt 4. og 5. mgr. sé hann ábyrgur fyrir greiðslu sektarinnar ásamt skráðum eiganda. Í 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 segir að gera megi lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Eins og fram er komið er óumdeilt að lituð olía var notuð á ökutæki kæranda X og þannig brotið gegn fyrirmælum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004, enda hefur kærandi engar athugasemdir gert við niðurstöðu þeirrar efnagreiningar sem fram fór. Samkvæmt því voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga þessara. Til úrlausnar í málinu er því einungis hvort efni séu til að fella sektarákvörðun ríkisskattstjóra niður, svo sem aðalkrafa kæranda lýtur að, eða lækka sektarfjárhæð á grundvelli fyrrgreindra ákvæða 5. mgr. 19. gr. umræddra laga. Eins og fyrr greinir er svo mælt fyrir í 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. lagagreinar þessarar óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Með vísan til þessa getur grandleysi kæranda ekki leitt til niðurfellingar sektar. Samkvæmt þessu er aðalkröfu kæranda hafnað.

Samkvæmt varakröfu sinni ber kærandi við því ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, sbr. 8. gr. laga nr. 169/2006, að sektarfjárhæð skuli lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Skuli sektarfjárhæð að hámarki lækkuð um helming. Telur kærandi að vegna umræddrar sýnatöku í ágústmánuði 2007 beri að miða við átta mánuði samkvæmt þessari hlutfallsreglu. Umrætt ákvæði var lögtekið með 8. gr. laga nr. 169/2006, er breytti 20. gr. laga nr. 87/2004, sbr. nú 19. gr. laganna. Í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 169/2006, segir svo um þetta:

„Gert er ráð fyrir að heimilt verði að lækka sektarfjárhæðina þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á umrætt ökutæki á tveggja ára tímabili frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Hér er einkum haft í huga ef breyting verður á eignarhaldi ökutækis innan hins tveggja ára tímabils. Mæla sanngirnisrök með því að sektarfjárhæðin verði þá í hlutfalli við eignarhaldstímann. Er í þessum tilvikum gert ráð fyrir að stuðst verði við opinber gögn um eignarhald ökutækja. Lagt er til að sektarfjárhæðina sé að hámarki unnt að lækka um helming af þessari ástæðu.“

Fram er komið í málinu að kærandi hefur verið skráður eigandi umræddrar bifreiðar X frá 16. desember 1999. Samkvæmt því réttlætir skammur eignarhaldstími kæranda á bifreiðinni ekki lækkun sektar á grundvelli umrædds ákvæðis 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 sem tiltekið er sem helsta lækkunartilefni sektarfjárhæðar samkvæmt greindu lögskýringargagni. Þá verður ekki talið að framborin málsástæða kæranda fyrir varakröfunni gefi að öðru leyti tilefni til lækkunar á fjárhæð sektar, enda liggur engan veginn fyrir að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á ökutækið á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir, þótt lituð olía hafi ekki greinst í eldsneytistanki bifreiðarinnar við sýnatöku ótilgreindan sumardag árið 2007. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að hafna varakröfu kæranda. Þá verður ekki talið að skilyrði séu til niðurfellingar eða lækkunar sektarfjárhæðar vegna sérstakra aðstæðna, sbr. niðurlagsákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004. Við eftirgrennslan hefur komið í ljós að samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá (innlagnarferill) var bifreiðin X úr umferð tímabilið 6. júní 2006 til 11. september 2006. Þykir eftir atvikum rétt að lækka sektarfjárhæð í hlutfalli við hlutfall greinds tímabils (97 dagar) af tveimur árum (730 dagar). Sektarfjárhæð lækkar um 26.580 kr. og verður 173.420 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarfjárhæð ákveðst 173.420 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja