Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði
  • Stofnverð

Úrskurður nr. 77/2009

Gjaldár 2008

Lög nr. 90/2003, 12. gr. 2. mgr., 17. gr.  

Talið var að fjármagnskostnaður, þ.e. vaxta- og lántökukostnaður, vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði kæranda gæti ekki talist með stofnverði íbúðarhúsnæðisins við ákvörðun söluhagnaðar vegna sölu þess. Var bent á að hliðstæður kostnaður sem félli til við kaup fasteignar teldist ekki til stofnverðs eignarinnar.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2008 fylgdi greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna sölu fasteignar við N-götu á árinu 2007. Þá fasteign hafði kærandi keypt á árinu 2005. Var tilgreint að fasteignin hefði verið seld með kaupsamningi, dags. 18. apríl 2007, fyrir 57.400.000 kr. og hafði húsnæðið verið í eigu kæranda skemur en tvö ár þegar það var selt. Þá var gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðar 13.664.358 kr. vegna sölu húseignarinnar og fór kærandi fram á að greindur söluhagnaður yrði færður til lækkunar kaupverði fasteignarinnar Z.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2008, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali kæranda árið 2008 að söluhagnaður íbúðarhúsnæðis að fjárhæð 13.664.358 kr. hefði verið færður til tekna í reit 522 í skattframtalinu. Vísaði skattstjóri til ákvæðis 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að íbúðarhúsnæðið Z hefði verið keypt hinn 20. janúar 2005, þ.e. um ári áður en íbúðin við N-götu hefði verið keypt. Með vísan til þess væri kröfu kæranda um að hagnaður vegna sölu N-götu yrði færður til lækkunar á stofnverði Z synjað.

Með kæru til skattstjóra, dags. 18. ágúst 2008, fór umboðsmaður kæranda fram á leiðréttingu á tilfærðum söluhagnaði vegna sölu N-götu á árinu 2007 í skattframtali kæranda árið 2008 og óskaði þess jafnframt að skattlagningu söluhagnaðarins yrði frestað um tvenn áramót frá söludegi. Í kærunni kom fram að við útreikning söluhagnaðar bæri að taka tillit til vaxta- og lántökukostnaðar á árunum 2005, 2006 og 2007 að fjárhæð samtals 5.761.041 kr. Kærunni fylgdi útreikningur söluhagnaðar þar sem tilgreint var að kaupverð fasteignarinnar við N-götu á árinu 2005 hefði numið 30.875.000 kr. og söluverð að frádregnum sölukostnaði við sölu eignarinnar á árinu 2007 numið 55.590.382 kr. Þá var tilgreint að kostnaður vegna endurbóta fasteignarinnar á árunum 2006 og 2007 hefði numið 10.168.187 kr. fyrra árið og 882.837 kr. það síðara. Að teknu tilliti til fyrrgreinds vaxta- og lántökukostnaðar 5.761.041 kr. var söluhagnaður húsnæðisins talinn hafa numið 7.903.317 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 3. október 2008, féllst skattstjóri á kröfu kæranda um frestun á skattlagningu söluhagnaðar að fjárhæð 13.664.358 kr. um tvenn áramót, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003. Á hinn bóginn hafnaði skattstjóri kröfu kæranda um lækkun á fjárhæð söluhagnaðarins. Kom fram í úrskurðinum að krafa kæranda lyti að hækkun á stofnverði íbúðarhúsnæðisins við N-götu vegna fjármagnskostnaðar af lánum sem tekin hefðu verið vegna kaupa og/eða endurbóta á húsnæðinu. Þar sem ekki yrði talið að slíkur kostnaður félli undir skilgreiningu á stofnverði eigna í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003 yrði að hafna kröfu kæranda um hækkun stofnverðs fasteignarinnar. Fallist væri á kröfu um frestun skattlagningar söluhagnaðarins.

II.

Með kæru, dags. 12. desember 2008, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 3. október 2008, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að við ákvörðun söluhagnaðar íbúðarhúsnæðis kæranda við N-götu verði tekið tillit til vaxtakostnaðar að fjárhæð 5.761.041 kr. og söluhagnaður lækkaður til samræmis úr 13.664.358 kr. í 7.903.317 kr. Er tekið fram að ekki verði annað séð en að í 17. gr. laga nr. 90/2003 sé hugtakið stofnverð túlkað á annan hátt en sem kostnaðarverð, sem í tilviki kæranda feli í sér töluverðan vaxtakostnað, auk kaupverðs og endurbóta.

III.

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. febrúar 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 2. mars 2009, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram í bréfinu að ekki sé ágreiningur í málinu um fjárhæð vaxta sem um ræðir, heldur sé einungis deilt um hvort vaxtakostnaður kæranda teljist hluti af stofnverði vegna endurbóta á fasteigninni við N-götu. Vaxtakostnaður sé verulegur vegna umfangs endurbótanna sem hafi verið tímafrekar. Með vísan til ákvæðis 17. gr. laga nr. 90/2003 sé túlkun kæranda sú að umræddur vaxtakostnaður teljist til kostnaðarverðs eignarinnar við sölu hennar og komi þannig til lækkunar á fjárhæð söluhagnaðar.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis mismunur á söluverði og stofnverði að frádregnum áður fengnum söluhagnaði, sbr. 2. mgr. þessarar lagagreinar og 4. mgr. 12. gr. sömu laga. Í 12. gr. laga nr. 90/2003 eru sameiginleg ákvæði um söluhagnað eigna. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar telst stofnverð eigna kostnaðarverð þeirra, þ.e. kaup- eða framleiðsluverð, ásamt kostnaði við endurbætur, breytingar eða endurbyggingu og sérhverjum öðrum kostnaði sem á eignirnar fellur, en að frádregnum óendurkræfum styrkjum, afsláttum, eftirgjöfum skulda og skaðabótum sem til falla í sambandi við kaup þeirra, framleiðslu, breytingar eða endurbætur.

Í máli þessu er deilt um ákvörðun fjárhæðar söluhagnaðar vegna sölu íbúðarhúsnæðis í eigu kæranda við N-götu á árinu 2007, nánar tiltekið ákvörðun stofnverðs hins selda húsnæðis. Ágreiningslaust er að telja beri kostnað vegna endurbóta á húsnæðinu að fjárhæð samtals 11.051.024 kr. til stofnverðs, sbr. fyrrgreind ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003. Krafa kæranda lýtur hins vegar að því að telja beri vaxta- og lántökukostnað að fjárhæð samtals 5.761.041 kr. vegna lána, sem tekin voru til að fjármagna endurbætur á húsnæðinu, með stofnverði þess. Það þykir leiða af fyrrgreindri skilgreiningu í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2003 að slíkur fjármagnskostnaður vegna endurbóta getur ekki talist með stofnverði viðkomandi fasteignar, enda er ljóst að hliðstæður kostnaður sem fellur til við kaup fasteignar telst ekki til stofnverðs (kaupverðs) eignarinnar í framangreindum skilningi. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja