Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Atvinnurekstrareign

Úrskurður nr. 12/2010

Virðisaukaskattur 2002

Lög nr. 50/1988, 2. gr. 1. mgr.   Lög nr. 90/2003, 24. gr. 2. mgr.  

Kærandi, sem seldi atvinnuhúsnæði í ársbyrjun 2002, tók vörubifreið sem hluta greiðslu á söluandvirði húsnæðisins. Seldi kærandi vörubifreiðina síðar á sama ári og stóð skil á virðisaukaskatti af söluverði hennar. Með úrskurði yfirskattanefndar var þeim breytingum skattstjóra á virðisaukaskattsskilum kæranda árið 2002, að fella niður tilfærðan innskatt af kaupverði bifreiðarinnar og útskatt af söluverði hennar, hnekkt á þeim grundvelli að um hefði verið að ræða öflun og sölu á skattskyldri vöru samkvæmt virðisaukaskattslögum.

I.

Með kæru, dags. 12. nóvember 2008, sbr. rökstuðning með bréfi, dags. 2. desember 2008, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 13. ágúst 2008, um endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda árið 2002. Samkvæmt úrskurðinum felldi skattstjóri niður innskatt að fjárhæð 490.000 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2002 og útskatt að fjárhæð 367.500 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002. Þá kom fram í úrskurði skattstjóra að 10% álagi væri bætt við ofgreiddan innskatt, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 11. apríl 2005, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á innsendri virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-nóvember 2004, sem móttekin hefði verið þann 8. apríl 2005, þar sem hvorki væri tilgreind skattskyld velta né innskattur. Skattstjóri tók fram að kærandi hefði ekki haft neinar tekjur síðan á árinu 2002. Áður en skattstjóri tæki afstöðu til innsendrar skýrslu væri lagt fyrir kæranda að gera grein fyrir því hvers vegna félagið hefði engar tekjur og í framhaldi af því hvenær ætla mætti að félagið færi að afla tekna. Ef starfsemi félagsins væri lokið væri lagt fyrir það að tilkynna um lok rekstrar, sbr. meðfylgjandi eyðublað. Ef reksturinn hefði verið seldur væri óskað eftir yfirtökusamningi, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ef starfsemi væri hins vegar enn í gangi þyrfti að leggja fram rekstraráætlun fyrir árið 2005.

Með tölvupósti til skattstjóra hinn 11. apríl 2005 fór fyrirsvarsmaður kæranda fram á að áætlun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið september-október 2004 yrði felld niður, enda hefði kærandi hefði ekki haft neina starfsemi með höndum um árabil. Hugsanlega gæti þó orðið um einhvern rekstur að ræða á yfirstandandi ári eða því næsta. Af þeim sökum væri þess óskað að virðisaukaskattsnúmeri kæranda yrði haldið opnu gegn því að kærandi skilaði inn skýrslum á réttum tíma.

Með bréfi, dags. 4. maí 2005, fór skattstjóri fram á frekari skýringar kæranda varðandi virðisaukaskattsskil félagsins. Skattstjóri vísaði til þess að samkvæmt leiðréttri virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2002, sem borist hefði hinn 28. febrúar 2003, væri innskattur 490.000 kr., en engin skattskyld velta verið á tímabilinu. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2003, sem hefði borist skattstjóra í maí 2004, hefði kærandi keypt vörubifreiðina X þann 1. febrúar 2002 og virtist kærandi hafa tekið bifreiðina upp í söluverð fasteignar. Kaupverðið hefði verið 2.000.000 kr. auk virðisaukaskatts 490.000 kr. Framtalsgögn bæru ekki með sér að kærandi hefði haft með höndum neinn virðisaukaskattsskyldan rekstur á árinu 2002 og hefðu einu tekjur félagsins verið hagnaður af sölu eigna. Einu tekjur kæranda á árinu 2001 hefðu verið af útleigu fasteignar án virðisaukaskatts. Skattskyld velta væri 1.500.000 kr. og útskattur 367.500 kr. samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 og væri þar samkvæmt framtalsgögnunum um að ræða sölu á áðurnefndri vörubifreið, en önnur uppgjörstímabil árið 2002 væri engin skattskyld velta, útskattur eða innskattur. Beindi skattstjóri því til kæranda að færa rök fyrir því að heimilt hefði verið að reikna innskatt af kaupverði greindrar bifreiðar, sbr. ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, með tilliti til þess að eiginlegri starfsemi kæranda hefði lokið á árinu 2000. Þá skyldi kærandi leggja fram reikninga vegna kaupa og sölu bifreiðarinnar. Vegna fyrirliggjandi beiðni um að virðisaukaskattsnúmeri kæranda yrði haldið opnu, sbr. tölvupóst frá 11. apríl 2005, vísaði skattstjóri til 1. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskylda aðila, og tók fram að hann teldi upplýsingar um rekstur kæranda í framtíðinni svo óljósar að ekki væri unnt að leggja þær til grundvallar áframhaldandi skráningu kæranda. Því væri kæranda enn á ný gefinn kostur á að útfylla og senda skattstjóra meðfylgjandi tilkynningu um rekstrarlok. Bent skyldi á að ef félagið hæfi starfsemi að nýju gæti það fengið sama skráningarnúmer og áður þegar tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi hefði verið skilað til skattstjóra. Ef tilkynning um starfslok bærist ekki mætti kærandi búast við því að skattstjóri úrskurðaði félagið af virðisaukaskattsskrá. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að bregðast við fyrirspurn skattstjóra, miðað við dagsetningu bréfs skattstjóra. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2006, ítrekaði skattstjóri fyrirspurn sína til kæranda.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2007, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilin janúar-febrúar og nóvember-desember 2002. Skattstjóri tók fram að fyrra tímabilið væri færður innskattur 490.000 kr. vegna kaupa kæranda á vörubifreiðinni X þann 1. febrúar 2002 í tengslum við sölu íbúðar og síðara tímabilið væri um að ræða útskatt vegna sölu bifreiðarinnar. Hefðu það verið einu tekjur kæranda á árinu 2002, miðað við framtalsgögn. Kærandi hefði ekki orðið við beiðni skattstjóra í bréfi, dags. 4. maí 2005, um að rökstyðja innskattsbærni vörubifreiðarinnar og leggja fram gögn um viðskiptin. Með vísan til þess væri nú fyrirhugað að fella niður umræddan innskatt 490.000 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2002 og jafnframt fella niður útskatt 367.500 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002. Þá boðaði skattstjóri beitingu álags vegna vangreidds virðisaukaskatts, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Skattstjóri tók fram að kærandi hefði tilkynnt um rekstrarlok, svo sem skorað hefði verið á félagið að gera, og hefði skráningarnúmeri kæranda nú verið lokað. Skattstjóri veitti kæranda 15 daga frest til að andmæla boðuðum breytingum.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. ágúst 2008, tilkynnti skattstjóri að hann hefði hrundið boðaðri endurákvörðun á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2002 og nóvember-desember 2002 í framkvæmd, sbr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Í úrskurðinum kom fram að engar athugasemdir hefðu borist vegna boðaðra breytinga þótt umboðsmaður kæranda hefði óskað eftir framlengdum fresti í því sambandi. Samkvæmt úrskurði skattstjóra felldi hann niður innskatt 490.000 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2002 og útskatt 367.500 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002. Þá kom fram að 10% álagi væri bætt á ofgreiddan innskatt. Færði skattstjóri sömu rök fyrir breytingum sínum og fram höfðu komið í boðunarbréfi, dags. 29. janúar 2007, þ.e. að kærandi hefði þrátt fyrir áskorun skattstjóra ekki fært rök fyrir tilfærðum innskatti 490.000 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2002 vegna vörubifreiðar sem félagið hefði eignast við sölu íbúðar.

III.

Í greinargerð umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 2. desember 2008, kemur fram að kærandi hafi í janúar 2002 selt fasteign sína Z, þar sem rekin hafi verið verslunin Y. Það sé því rangt hjá skattstjóra að um sölu á íbúðarhúsnæði hafi verið að ræða. Kærandi hafi haft leigutekjur af fasteigninni, en leigan hafi verið án virðisaukaskatts. Kærandi hafi tekið vörubifreiðina X upp í kaupverð fasteignarinnar og í afsali sé sérstaklega tekið fram að söluverð bifreiðarinnar nemi 2.490.000 kr. og að þar af sé virðisaukaskattur 490.000 kr. Seljandi bifreiðarinnar, D, hafi vafalaust skilað virðisaukaskatti af sölu hennar. Kærandi hafi stundað virðisaukaskattsskylda starfsemi á fyrri árum og hafi haft í hyggju að hefja slíka starfsemi að nýju eftir sölu á húsnæðinu. Í samræmi við það hafi innskattur verið tilgreindur vegna kaupa á umræddri vörubifreið með 490.000 kr. í virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2002. Fyrirætlanir um að hefja rekstur á nýjan leik hafi síðan breyst og hafi vörubifreiðin verið seld í nóvember 2002 á 1.500.000 kr. auk virðisaukaskatts 367.500 kr. til E ehf., nú F ehf., og hafi kærandi gert grein fyrir viðskiptunum í virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002. Kaupandi bifreiðarinnar hafi verið og sé skráður aðili. Þá hafi kærandi verið skráður aðili þegar viðskiptin fóru fram.

Samkvæmt framangreindu hafi umrædd viðskipti átt sér stað á milli félaga í rekstri og ljóst sé að viðsemjandi kæranda hafi innheimt og skilað virðisaukaskatti. Viðskiptin hafi því verið í samræmi við reglur og þau hafi á engan hátt skaðað ríkissjóð. Sé niðurstöðu skattstjóra í hinum kærða úrskurði því mótmælt og þess krafist að virðisaukaskattur kæranda verði ákvarðaður í samræmi við virðisaukaskattsskýrslur fyrir umrædd uppgjörstímabil á árinu 2002.

Umboðsmaður kæranda tekur fram að útreikningur söluhagnaðar í skattframtali kæranda árið 2003 hafi miðast við að kærandi væri virðisaukaskattskyldur en söluhagnaður hefði átt að færast með öðrum hætti ef svo hefði ekki verið. Skattstjóri hafi engar athugasemdir gert við útreikning söluhagnaðar og sýni það hversu gallaður úrskurðurinn sé.

Bréfi umboðsmanns kæranda fylgdu gögn varðandi kaup og sölu kæranda á vörubifreiðinni X og kaupsamningur vegna sölu kæranda á eignarhluta í fasteigninni Z.

IV.

Með bréfi, dags. 6. febrúar 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal telja til innskatts virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Fram hefur komið að starfsemi kæranda hafi verið lokið á árinu 2000.

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir skattstjóra, hefur kærandi ekki orðið við beiðni hans um að gera grein fyrir innskattsbærni umræddra viðskipta. Ekki þykir breyta neinu þar um þótt kærandi hafi verið með opið virðisaukaskattsnúmer á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. febrúar 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi vörubifreið, sem í málinu greinir, sem hluta greiðslu vegna sölu á atvinnuhúsnæði í janúar 2002 og var bifreiðin metin á 2.000.000 kr. auk virðisaukaskatts í þeim viðskiptum. Umrædda bifreið seldi kærandi í nóvember 2002 fyrir 1.500.000 kr. og stóð skil á virðisaukaskatti af söluverði. Verður ekki annað séð en að þessi atvik séu óumdeild, enda voru þau reifuð í fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 4. maí 2005, en á síðari stigum málsins kom fram sá misskilningur skattstjóra að um sölu kæranda á íbúðarhúsnæði hefði verið að ræða. Í skattframtali sínu árið 2003 tekjufærði kærandi söluhagnað 5.239.148 kr., sbr. reit 1050 í skattframtalinu, sem reiknaðist sem mismunur söluhagnaðar atvinnuhúsnæðis 5.739.148 kr. og sölutaps bifreiðar 500.000 kr. Ljóst er að í þessu uppgjöri hefur verið gengið út frá því að vörubifreiðin teldist eign sem notuð væri í atvinnurekstri og gjaldfærsla sölutaps þannig verið byggð á ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hefur það ekki sætt athugasemdum af hálfu skattstjóra.

Miðað við það sem liggur samkvæmt framansögðu fyrir um tildrög þess að umrædd bifreið komst í eigu kæranda og um sölu hennar síðar á sama ári var ekki tilefni til hinna kærðu breytinga skattstjóra, enda um að ræða öflun og sölu á skattskyldri vöru samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Er því fallist á kröfu kæranda í málinu. Það athugist að gjaldabreytingar samkvæmt úrskurði skattstjóra hafa ekki komið til framkvæmda og leiðir niðurstaða þessa máls því ekki til breytinga á virðisaukaskatti kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja