Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Kæra vegna tafa á afgreiðslu máls
  • Málshraði

Úrskurður nr. 28/2010

Lög nr. 50/1988, 26. gr.   Lög nr. 37/1993, 9. gr. 1. og 4. mgr.  

Talið var að kæranda væri heimilt að kæra drátt á afgreiðslu máls síns hjá skattstjóra til yfirskattanefndar á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en málið laut að afgreiðslu á innsendum leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts fyrir árin 2002-2007 sem fylgt höfðu skattframtölum kæranda vegna umræddra ára. Þá var talið að kæruheimildina yrði að skýra svo að hún ætti einungis við í þeim tilvikum þegar mál hefði ekki verið til lykta leitt af lægra stjórnvaldi. Fallist var á með kæranda að óhæfilegur dráttur hefði orðið á meðferð málsins á skattstjórastigi sem brotið hefði í bága við almennar málshraðareglur.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2009, hefur umboðsmaður kæranda gert athugasemdir við tafir á afgreiðslu innsendra leiðréttingarskýrslna virðisaukaskatts kæranda fyrir árin 2002, 2004, 2005 og 2007. Kemur fram í kærunni að um sé að ræða leiðréttingarskýrslur vegna fjögurra skráningarnúmera, þ.e. leiðréttingarskýrslur fyrir árin 2002, 2005 og 2007 vegna skráningarnúmersins 01, leiðréttingarskýrslu fyrir árið 2002 vegna skráningarnúmersins 02, leiðréttingarskýrslur fyrir árin 2004 og 2005 vegna skráningarnúmersins 03 og leiðréttingarskýrslu fyrir árin 2005, 2006 og 2007 vegna skráningarnúmersins 04. Um kæruheimild er vísað til ákvæðis 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í kærunni. Er rakið að umræddar leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts hafi borist skattstjóra með skattframtölum kæranda fyrir viðkomandi ár og hafi leiðréttingarskýrslur fyrir árið 2002 þannig legið óafgreiddar í ríflega fimm ár. Þá kemur fram að skattstjóri hafi boðað kæranda breytingar á innsendum leiðréttingarskýrslum fyrir árin 2005 og 2006 vegna skráningarnúmersins 04 með bréfi, dags. 27. desember 2007. Því bréfi hafi verið svarað með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 11. febrúar 2008, og sé nú liðið rúmt ár án þess að afstaða skattstjóra til þessara skýrslna liggi fyrir. Með bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 4. febrúar 2009, hafi athygli skattstjóra verið vakin á þessu. Að mati kæranda sé seinagangur skattstjóra á afgreiðslu á hinum innsendu leiðréttingarskýrslum í andstöðu við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ekkert liggi fyrir um það hvenær afgreiðslu málsins sé að vænta af hendi skattstjóra eigi kærandi ekki annan kost en að kæra óhæfilegan drátt skattstjóra á afgreiðslunni til yfirskattanefndar.

II.

Með bréfi, dags. 4. september 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Umboðsmaður kæranda hefur kært afgreiðslu skattstjórans í X-umdæmi á leiðréttingarskýrslum RSK 10.26 á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati umboðsmanns kæranda hafa fjölmargar leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts RSK 10.26 ekki verið afgreiddar hjá skattstjóra, og er seinagangur skattstjóra í andstöðu við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kæru til yfirskattanefndar er á það bent að leiðréttingarskýrslur vegna skráningarnúmers 04 fyrir árin 2005 og 2006 liggi óafgreiddar hjá skattstjóra.

Í bréfi skattstjóra, dags. 7. júlí 2009 er tekið fram að skattstjóri hafi sent kæranda ákvörðun, vegna umræddra leiðréttingarskýrslna áranna 2005 og 2006, þann 9. apríl 2008, þar sem boðun skattstjóra, dags. 27. desember 2007, vegna leiðréttingarskýrslnanna var látin standa óbreytt.

Ákvörðun skattstjóra varðandi leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts vegna áranna 2005 og 2006 liggur nú fyrir, og því ljóst að umræddar leiðréttingarskýrslur hafa verið afgreiddar hjá skattstjóra. Þar sem ekki liggur fyrir kæranlegur úrskurður skattstjóra er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra að málið verði sent skattstjóra til þóknanlegrar meðferðar.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. september 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 2009, kemur fram að óhæfilegar tafir hafi orðið á meðferð skattstjóra X-umdæmis á innsendum leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts (RSK 10.26) kæranda vegna tilgreindra ára. Er tekið fram að umræddur dráttur á meðferð málsins sé kærður til yfirskattanefndar á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í greindu ákvæði kemur fram að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Úrskurðir skattstjóra um endurákvörðun virðisaukaskatts eru kæranlegir til yfirskattanefndar samkvæmt almennum reglum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 4. mgr. 26. gr. þeirra laga, sbr. ennfremur lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Hafa ber þó í huga að samkvæmt úrskurðaframkvæmd er synjun slíkra skatterinda, sem hér um ræðir, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ekki kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Allt að einu verður að telja að kæranda sé heimilt að kæra drátt á afgreiðslu málsins til yfirskattanefndar á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda ber almennt að beina kæru á grundvelli þessa ákvæðis til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. og áðurgreint úrskurðarvald yfirskattanefndar. Þessa kæruheimild stjórnsýslulaga verður þó að skýra svo að hún eigi einungis við í þeim tilvikum þegar mál hefur ekki verið til lykta leitt af lægra stjórnvaldi, sbr. m.a. athugasemdir með 9. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 37/1993, en þar er tekið fram að um sé að ræða undantekningu frá reglu 2. mgr. 26. gr. laganna um að ákvarðanir, sem ekki binda endi á mál, verði ekki kærðar fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þegar lægra stjórnvald hefur tekið ákvörðun í máli og þannig lokið meðferð þess fer því um kærumeðferð hjá æðra stjórnvaldi eftir almennum reglum.

Eins og reifað er í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu munu leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts kæranda vegna skráningarnúmersins 04 fyrir árin 2005 og 2006 hafa hlotið afgreiðslu af hendi skattstjóra hinn 9. apríl 2008, sbr. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 7. júlí 2009, þar sem þetta er rakið, og „ákvörðun“ skattstjóra frá 9. apríl 2008 sem liggur fyrir í málinu. Ekki verður annað séð en að um sé að ræða úrskurð um endurákvörðun samkvæmt 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 sem kæranda var unnt að skjóta til yfirskattanefndar eftir reglum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. og niðurlag hins fyrrnefnda ákvæðis í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Að þessu athuguðu og með vísan til þess sem hér að framan er rakið um kæruheimild 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður að vísa kærunni frá að því leyti sem hún varðar drátt á afgreiðslu þess máls sem skattstjóri lauk með úrskurði um endurákvörðun hinn 9. apríl 2008.

Fram kemur í kæru til yfirskattanefndar að leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts kæranda, sem málið varðar að öðru leyti, þ.e. leiðréttingarskýrslur fyrir árin 2002, 2005 og 2007 vegna skráningarnúmersins 01, fyrir árið 2002 vegna skráningarnúmersins 02, fyrir árin 2004 og 2005 vegna skráningarnúmersins 03 og fyrir árið 2007 vegna skráningarnúmersins 04, hafi fylgt skattframtölum kæranda vegna viðkomandi rekstrarára. Verður að leggja til grundvallar að þetta sé óumdeilt, enda eru engar athugasemdir gerðar af þessu tilefni í kröfugerð ríkisskattstjóra. Hvorki í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, né í reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra er skattstjóra settur ákveðinn frestur til að ljúka afgreiðslu erinda af þessum toga, sem líta verður á sem sérstaka beiðni skattaðila um að skattstjóri taki virðisaukaskatt hans vegna viðkomandi uppgjörstímabila til formlegrar endurákvörðunar, sbr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Gilda því almennar málshraðareglur um afgreiðslutíma slíkra erinda, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Fallast verður á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu máls félagsins af hendi skattstjóra sem brotið hafi í bága við hina almennu málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest er í fyrrgreindu ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafa engar skýringar komið fram af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra á þeim drætti sem varð á afgreiðslu innsendra leiðréttingarskýrslna kæranda. Er ástæða til að benda á í því sambandi að um er að ræða leiðréttingarskýrslur sem munu hafa borist skattstjóra m.a. á árunum 2003, 2005 og 2006. Þá verður ekki séð að kæranda hafi verið tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins á neinu stigi. Má í þessu sambandi vísa til sjónarmiða í áliti umboðsmanns Alþingis frá 2. desember 1999 í máli nr. 1924/1996.

Rétt er að taka fram að ráðið verður af færslum í upplýsingakerfi ríkisskattstjóra að skattstjóri hefur dagana 10. og 25. mars og 29. og 30. apríl 2009 endurákvarðað virðisaukaskatt kæranda vegna skráningarnúmersins 01 fyrir árin 2005 og 2007, skráningarnúmersins 02 fyrir árið 2002, skráningarnúmersins 03 fyrir árin 2004 og 2005 og skráningarnúmersins 04 fyrir árið 2007.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins á skattstjórastigi sem brotið hafi í bága við almennar málshraðareglur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja