Úrskurður yfirskattanefndar
- Söluhagnaður hlutabréfa
- Jöfnunarverðmæti
- Álag
Úrskurður nr. 29/2010
Gjaldár 2002-2005
Lög nr. 90/2003, 18. gr., 108. gr. 2. mgr.
Í máli þessu var deilt um söluhagnað hlutabréfa í X hf. sem kærendur höfðu eignast fyrir árslok 1996 og seldu á árinu 2003. Ekki lá fyrir að skattstjóra hefði verið gerð grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis hlutabréfa í X hf. í síðasta lagi í árslok 1999. Samkvæmt fortakslausum fyrirmælum laga bæri því að telja jöfnunarverðmæti við sölu hlutabréfanna í X hf. því vera nafnverð þeirra í árslok 1996 að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhlutabréfa á árunum 1989-1996 og sölu hlutabréfa á árinu 1997. Var skattstjóri talinn hafa ákvarðað skattskyldan söluhagnað hlutabréfanna í samræmi við lög. Þá var ekki fallist á kröfu kærenda um niðurfellingu 25% álags.
I.
Með bréfi, dags. 26. janúar 2009, sem barst yfirskattanefnd 27. sama mánaðar, hafa kærendur farið fram á það við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 257/2008, sem kveðinn var upp 5. nóvember 2008, í máli kærenda vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005. Með úrskurði þessum var kæru kærenda, dags. 15. ágúst 2008, vegna úrskurðar skattstjóra, dags. 21. maí 2008, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005, vísað frá yfirskattanefnd á þeim grundvelli að kæran fullnægði ekki skilyrðum 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, og að kærendur hefðu ekki bætt úr þeim annmörkum þrátt fyrir ábendingu yfirskattanefndar þar að lútandi í bréfi, dags. 20. ágúst 2008, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992. Í beiðni kærenda til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2009, kemur fram að vegna sérstakra aðstæðna hafi ekki tekist að koma að rökstuðningi í málinu innan veitts frests og sé þess vænst að yfirskattanefnd geti nú tekið málið til efnislegrar meðferðar.
Með úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 21. maí 2008, sem kveðinn var upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf skattstjóra til kærenda, dags. 21. mars og 23. ágúst 2007, og svarbréf umboðsmanns kærenda, dags. 23. október 2007, hækkaði skattstjóri tilfærðan söluhagnað hlutabréfa í reit 164 í skattframtölum kærenda árin 2002, 2003, 2004 og 2005 um 30.150 kr. gjaldárið 2002, 120.458 kr. gjaldárið 2003, 9.221.985 kr. gjaldárið 2004 og 560.000 kr. gjaldárið 2005 vegna sölu hlutabréfa í X hf., Z hf., Y hf. og T ehf. á greindum árum. Þá bætti skattstjóri 25% álagi við þá hækkun á fjármagnstekjuskattsstofni kærenda umrædd ár sem af þessum breytingum leiddi, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nam hækkun stofns til fjármagnstekjuskatts að meðtöldu álagi því 37.688 kr. gjaldárið 2002, 150.573 kr. gjaldárið 2003, 11.527.481 kr. gjaldárið 2004 og 700.000 kr. gjaldárið 2005. Að því er snertir sölu hlutabréfa í X hf. kom fram í úrskurðinum að kærendur hefðu selt hlutabréf í félaginu fyrir 9.009.611 kr. hinn 15. október 2003, en enga grein gert fyrir sölunni í skattframtali sínu árið 2004. Vísaði skattstjóri til ákvæða 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem kveðið væri á um skattskyldu hagnaðar af sölu hlutabréfa. Að svo búnu rakti skattstjóri þær skýringar umboðsmanns kærenda í bréfi, dags. 23. október 2007, að greind hlutabréf í X hf. hefðu verið keypt á árunum 1988-2000 og að ekki lægju fyrir upplýsingar um kaupverð þar sem langt væri liðið frá kaupum hlutabréfanna. Þá sagði svo í úrskurði skattstjóra:
„Í skattframtali yðar fyrir gjaldárið 1989 kemur fram að þér hefðuð á árinu 1988 keypt hlutabréf í félaginu að nafnverði kr. 212.010 fyrir kr. 254.412 eða á genginu 1,2. Í skattframtalinu kemur einnig fram að hlutabréfaeign yðar í félaginu í árslok 1988 hafi verið að nafnverði kr. 430.410. Með hliðsjón af kaupgengi ársins 1988 þykir mega við það miða að stofnverð eða kaupverð þessara hlutabréfa hafi verið kr. 516.492 (þ.e. kr. 430.410 x 1,2). Í skattframtölum yðar fyrir gjaldárin 1990-2004 er ekki gerð grein fyrir frekari kaupum á hlutabréfum í félaginu. Í skattframtölunum er hins vegar gerð grein fyrir (eða af þeim má ráða) útgáfu jöfnunarhlutabréfa á árunum 1989-1998 og sölu hlutabréfa á árunum 1989, 1993, 1995, 1997 og 2003. Af fyrirliggjandi gögnum verður því ekki annað ráðið en að kaupverð þeirra hlutabréfa, að nafnverði kr. 243.503, sem seld voru þann 15. október 2003 hafi verið kr. 63.020, sjá nánar meðfylgjandi yfirlit um hlutabréfaeign yðar í X hf.“
Í úrskurðinum áréttaði skattstjóri að samkvæmt framansögðu yrði ekki annað ráðið en að kaupverð hinna seldu hlutabréfa í X hf. hefði verið 63.020 kr. og að hlutabréfin hefðu verið keypt á árinu 1988. Framreiknað kaupverð hlutabréfanna yrði því 113.367 kr., þ.e. kaupverð margfaldað með framreikningsstuðli ársins 1998 (1,7989). Þar sem X hf. hefðu aldrei gert skattstjóra grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis hlutabréfa í félaginu teldist jöfnunarverðmæti hinna seldu hlutabréfa vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996 eða 164.532 kr., sbr. ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem jöfnunarverðmæti væri þannig hærra en framreiknað kaupverð hlutabréfanna teldist skattskyldur söluhagnaður bréfanna vera söluverð 9.009.611 kr. að frádregnu jöfnunarverðmætinu 164.532 kr. eða 8.845.079 kr. sem færðist til tekna í reit 164 í skattframtali kærenda árið 2004.
Með úrskurði sínum um endurákvörðun áætlaði skattstjóri kærendum söluhagnað að fjárhæð 265.000 kr. gjaldárið 2004 vegna sölu hlutabréfa að nafnverði 98.100 kr. í Y hf. á árinu 2003. Vísaði skattstjóri til þess að umrædd hlutabréf hefðu verið tilgreind í skattframtali kærenda árið 2003 en ekki í skattframtali árið 2004 án þess að nein grein væri þar gerð fyrir ráðstöfun þeirra á árinu 2003. Þætti söluhagnaður greindra hlutabréfa hæfilega áætlaður með fyrrgreindri fjárhæð 265.000 kr.
Þá fjallaði skattstjóri um söluhagnað hlutabréfa í Z hf. og T ehf. Í kæru eru ekki gerðar athugasemdir við þær ákvarðanir skattstjóra og verður því ekki frekar um þær fjallað.
II.
Í bréfi umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2009, er rakið að samkvæmt upplýsingum skattstjóra hafi X hf. átt að hafa skilað útreikningi á jöfnunarverðmæti hlutabréfa í félaginu í síðasta lagi með skattframtali árið 1999, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003. Komið hafi þó fyrir að skattstjóri hafi ekki staðfest innsenda útreikninga félaga á jöfnunarverðmæti. Umboðsmaður kæranda hafi aflað sér upplýsinga frá fyrrverandi endurskoðanda X hf. og starfsmanni félagsins um að útreikningur jöfnunarverðmætis hafi farið fram hjá félaginu á greindum tíma. Hafa beri í huga að skýrar reglur gildi um útreikning jöfnunarverðmætis og allar upplýsingar varðandi slíkan útreikning liggi fyrir hjá skattstjóra. Kærendur hafi hins vegar ekki aðgang að gögnum þar að lútandi og geti ekki aflað sér upplýsinga um þau efni með sama hætti. Með vísan til þess að skattyfirvöldum beri að gæta meðalhófs við ákvarðanir sínar og þar sem kærendur hafi verulega hagsmuni af úrlausn málsins sé þess því krafist að þessum þætti málsins verði vísað aftur til skattstjóra til meðferðar.
Í bréfi umboðsmanns kærenda er tekið fram að ekki séu að svo stöddu gerðar athugasemdir vegna tekjufærslu söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa í Y hf. og T ehf., en upplýsingar um söluverð liggi ekki fyrir í tilviki hinna síðarnefndu hlutabréfa sem kærendur hafi að öllum líkindum selt á árinu 2004. Að því er varðar tekjufærðan söluhagnað vegna sölu hlutabréfa í Y hf. sé hins vegar til þess að líta að ríkissjóður hafi selt hlutabréf sín í því félagi á árinu 2003 og í Morgunblaðinu hinn 3. maí 2003 hafi komið fram að starfsmenn hefðu keypt hlut ríkisins fyrir tvo milljarða króna á kaupgengi 3,69. Sé gert ráð fyrir því að hlutabréfin hafi verið keypt á nafnverði og þar sem afar sennilegt sé að yfirtökutilboð hafi verið á genginu 3,69 þá teljist söluverð hlutabréfanna hafa numið 361.989 kr. Söluhagnaður hlutabréfanna hafi þá numið 263.889 kr. í stað hins áætlaða söluhagnaðar 265.000 kr. samkvæmt ákvörðun skattstjóra.
Í niðurlagi bréfs umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar er farið fram á að 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 verði ekki beitt þar sem þau mistök sem átt hafi sér stað við framtalsgerð kærenda eigi rætur sínar að rekja til þekkingarleysis og reynsluleysis kærenda.
III.
Með bréfi, dags. 3. apríl 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Krafa umboðsmanns kærenda að yfirskattanefnd taki „...málið aftur til efnislegrar ákvörðunar“ felur í sér kröfu um endurupptöku, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málsaðili á rétt á endurupptöku máls ef annað hvor 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. framangreindra laga á við um tilvik hans.
Umboðsmaður kæranda krefst þess að úrskurði skattstjóra verði heimvísað hvað varðar sölu hlutabréfa í X hf. Umboðsmaður kæranda styður kröfu sína þeim rökum að skattstjóri eigi nú að hafa undir höndum öll gögn og upplýsingar vegna útreikning jöfnunarverðmætis hlutabréfa.
Með 12. gr. laga nr. 154/1998 var kveðið á um að gera skuli grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis hlutabréfa í síðasta lagi í árslok 1999 og skyldi skattstjóri staðfesta útreikninginn, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXV laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 97/1996. Ríkisskattstjóri gaf út reglur, nr. 8/1997, um jöfnunarverðmæti hlutabréfa samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 97/1996, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 1997. Í 3. mgr. 11. gr. framangreindra reglna kemur fram að hafi félag ekki reiknað út jöfnunarverðmæti og skilað útreikningi í síðasta lagi með skattframtali 1999 og fengið staðfestingu skattstjóra skal jöfnunarverðmæti við sölu bréfanna vera nafnverð þeirra í árslok 1996. Þar sem ekki er fyrir að dreifa (sic) slíkum staðfestum útreikningi jöfnunarverðmæta hlutabréfa í X hf. skal jöfnunarverðmæti við sölu bréfanna vera nafnverð í árslok 1996, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Breytir hér engu um þó útreikningar jöfnunarverðmætis liggi fyrir hjá X hf. eða skattstjóra í dag.
Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á, með framlagningu gagna eða skýringa, að ákvörðun skattstjóra hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Krefst því ríkisskattstjóri að endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar, nr. 257/2008, verði hafnað.
Telji yfirskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferð er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans að framangreindum athugasemdum virtum, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. apríl 2009, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.
Með bréfi, dags. 4. maí 2009, hefur umboðsmaður kærenda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er áréttað í bréfinu að sérkennilegt verði að teljast að staðfesting skattstjóra á jöfnunarverðmæti hlutabréfa í X hf. liggi ekki fyrir þar sem um hafi verið að ræða almenningshlutafélag, auk þess sem fyrrverandi löggiltur endurskoðandi félagsins hafi fullyrt að haldið hafi verið utan um útreikning jöfnunarverðmætis á greindum tíma. Kærendur séu ósátt við að þurfa að gjalda þess að staðfest jöfnunarverðmæti liggi ekki fyrir, ekki síst í ljósi þess að allar upplýsingar um jöfnunarverðmætið ættu að vera í fórum skattyfirvalda. Sé því ítrekuð krafa kærenda um að söluhagnaður vegna sölu hlutabréfanna verði felldur niður og málinu vísað á nýjan leik til skattstjóra. Ennfremur sé ítrekuð krafa kærenda um niðurfellingu álags.
IV.
Þar sem kærendur hafa með bréfi umboðsmanns síns, dags. 26. janúar 2009, bætt úr þeim annmörkum á kæru, dags. 15. ágúst 2008, sem leiddu til frávísunar hennar með úrskurði yfirskattanefndar nr. 257/2008, er fallist á að taka málið til meðferðar að nýju.
Með hinum kærða úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 21. maí 2008, færði skattstjóri kærendum til tekna í skattframtölum árin 2002, 2003, 2004 og 2005 söluhagnað vegna sölu hlutabréfa í tilgreindum hluta- og einkahlutafélögum á árunum 2001, 2002, 2003 og 2004, nánar tiltekið hlutabréfa í X hf., Z hf., Y hf. og T ehf. Ekki er deilt í málinu um tekjufærslu hagnaðar vegna sölu hlutabréfa í Z hf. og T ehf., sbr. bréf umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2009. Lýtur meginágreiningsefni málsins að tekjufærslu söluhagnaðar að fjárhæð 8.845.079 kr. í skattframtali kærenda árið 2004 vegna sölu hlutabréfa í X hf. að nafnverði 243.503 kr. fyrir 9.009.611 kr. hinn 15. október 2003. Verður að skilja bréf umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar svo, sbr. ennfremur bréf umboðsmannsins frá 4. maí 2009, að þess sé krafist að umrædd tekjufærsla skattstjóra verði felld niður og þessum þætti málsins vísað til skattstjóra til meðferðar á nýjan leik. Er sú krafa byggð á því að skattstjóra hafi sjálfum borið að grafast fyrir um jöfnunarverðmæti hlutabréfa í X hf. í árslok 1996 og ákvarða söluhagnað hlutabréfanna í hendi kærenda í samræmi við ákvæði 4. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sem söluverð hlutabréfanna að frádregnu jöfnunarverðmæti þeirra, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Þá verður ennfremur að skilja málatilbúnað umboðsmanns kærenda svo að þess sé krafist að áætlun skattstjóra á söluhagnaði vegna sölu hlutabréfa í Y hf. á árinu 2003, sem byggðist á því að kærendur hefðu enga grein gert fyrir sölu eða annarri ráðstöfun hlutabréfa í félaginu að nafnverði 98.100 kr. sem hefðu verið í eigu kærenda í árslok 2002 samkvæmt skattframtali árið 2003, verði lækkuð úr 265.000 kr. í 263.889 kr. eða um 1.111 kr. Loks er þess krafist af hálfu kærenda að 25% álag, sem skattstjóri bætti við þá hækkun fjármagnstekjuskattsstofns kærenda gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005 sem leiddi af tekjufærslu söluhagnaðar hlutabréfa, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði fellt niður. Víkur fyrst að söluhagnaði hlutabréfa í X hf.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, telst hagnaður af sölu hlutabréfa að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu hlutabréf. Í upphafsmálslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003 segir að hagnaður af sölu hlutabréfa teljist mismunur á söluverði þeirra annars vegar og kaupverði þeirra hins vegar, sbr. þó 4. mgr. lagagreinarinnar. Í greindri 4. mgr. kemur fram að við sölu á hlutabréfum, sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 1996, skuli skattskyldur söluhagnaður vera söluverð þeirra að frádregnu jöfnunarverðmæti, sbr. 3. mgr. greinarinnar, eða upphaflegu kaupverði hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 1996 ef það er hærra. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laganna skal jöfnunarverðmæti hlutabréfa hjá þeim félögum sem skráð voru, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., í árslok 1996 vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996 að viðbættri þeirri fjárhæð sem heimilt væri að gefa út af jöfnunarhlutabréfum samkvæmt þeim reglum sem giltu í árslok 1996. Hafi hlutafélag ekki gefið út jöfnunarhlutabréf eða, ef um einkahlutafélag er að ræða, tilkynnt nýtt nafnverð til hlutafélagaskrár, eða gert skattstjóra grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis í síðasta lagi í árslok 1999, skal jöfnunarverðmætið við sölu bréfanna vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996. Tekið er fram að ríkisskattstjóri skuli birta með aðgengilegum hætti jöfnunarstuðul fyrir hlutabréf eða hluti í félögum, þ.e. hlutfall jöfnunarverðmætis, sem skattstjóri hefur staðfest samkvæmt greininni, og nafnverðs hlutabréfa eða hluta í félögum. Þess er að geta að framangreind ákvæði um jöfnunarverðmæti hlutabréfa eiga rót sína að rekja til ákvæðis til bráðabirgða II með lögum nr. 97/1996, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og voru tekin upp í hin síðarnefndu lög með 3. gr. laga nr. 154/1998, um breyting á lögum nr. 75/1981, sem breytti 17. gr. þeirra laga, sbr. nú 3. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Í bréfi umboðsmanns kærenda til skattstjóra, dags. 23. október 2007, kom fram að hin seldu hlutabréf í X hf. að nafnverði 243.503 kr. hefðu verið keypt á árunum 1988-2000, en að nánari upplýsingar um einstök kaup og kaupverð lægju ekki fyrir og því væri erfitt um vik að ákvarða söluhagnað hlutabréfanna. Í hinum kærða úrskurði sínum um endurákvörðun miðaði skattstjóri þó við að hlutabréfin hefðu verið keypt á árinu 1988 og skírskotaði í því sambandi m.a. til upplýsinga í skattframtali kærenda árið 1989 um kaup þeirra á hlutabréfum í X hf. að nafnverði 212.010 kr. fyrir 254.412 kr. á árinu 1988 og tilgreiningu á hlutabréfaeign í félaginu að nafnverði 430.410 kr. í árslok 1988. Þá benti skattstjóri á að í skattframtölum kærenda árin 1990-2004 væri ekki gerð grein fyrir frekari kaupum á hlutabréfum í X hf. Af skattframtölunum yrði þó ráðið að um hefði verið að ræða útgáfu jöfnunarhlutabréfa á árunum 1989-1998 og sölu hlutabréfa í félaginu á árunum 1989, 1993, 1995, 1997 og 2003, sbr. yfirlit skattstjóra yfir hlutabréfaeign kærenda sem fylgdi úrskurði skattstjóra. Í bréfi umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar eru ekki gerðar sérstakar athugasemdir í tilefni af þessu að öðru leyti en því að tekið er fram að umboðsmaðurinn hafi ekki skattframtöl fyrri ára undir höndum og hafi því ekki forsendur til þess að taka afstöðu til þeirra að svo stöddu. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar úrlausn þess að kærendur hafi eignast hin seldu hlutabréf í X hf. fyrir árslok 1996, svo sem gögn málsins bera frekast með sér. Fer því um ákvörðun söluhagnaðar hlutabréfanna vegna sölu þeirra á árinu 2003 eftir framangreindum ákvæðum 4. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003.
Skattstjóri hefur byggt á því að X hf. hafi ekki gert embættinu grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis hlutabréfa í félaginu innan tilskilinna tímamarka samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. í síðasta lagi í árslok 1999, sbr. nú ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kærenda hefur ekki verið sýnt fram á að það hafi verið gert. Samkvæmt fortakslausum fyrirmælum umrædds ákvæðis laganna telst jöfnunarverðmæti við sölu hlutabréfanna á árinu 2003 því vera nafnverð þeirra í árslok 1996 eða 164.532 kr. að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhlutabréfa á árunum 1989-1996 og sölu hlutabréfa að nafnverði 137.530 kr. á árinu 1997, sbr. fyrrgreint yfirlit yfir hlutabréfaeign kærenda í X hf. og viðskipti með hlutabréf í félaginu á árunum 1989-2003 sem fylgdi úrskurði skattstjóra um endurákvörðun. Hefur skattstjóri því ákvarðað skattskyldan söluhagnað hlutabréfanna í samræmi við lög, þ.e. sem söluverð 9.009.611 kr. að frádregnu jöfnunarverðmæti 164.532 kr. eða 8.845.079 kr., sbr. 4. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, enda er framreiknað kaupverð hlutabréfanna til ársloka 1996 lægra en nafnverð í árslok þess árs sé miðað við kaupgengið 1,2 við kaup kærenda á hlutabréfum í félaginu á árinu 1989, svo sem skattstjóri gerði, en kærendur hafa ekki gert sérstakar athugasemdir vegna þeirrar viðmiðunar. Ekki getur skipt neinu máli í þessu sambandi þótt útreikningur jöfnunarverðmætis hlutabréfa í X hf. kunni að hafa legið fyrir hjá félaginu sjálfu eða að unnt sé að grafast fyrir um jöfnunarverðmætið með athugun á skattframtölum félagsins og fylgigögnum þeirra, sbr. fyrrgreindan áskilnað í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003. Með vísan til þess sem hér að framan greinir verður að hafnað kröfu kærenda varðandi þetta kæruatriði.
Eins og fram er komið má skilja bréf umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2009, svo að þess sé krafist að áætlun skattstjóra á söluhagnaði vegna sölu hlutabréfa að nafnverði 98.100 kr. í Y hf. á árinu 2003 verði lækkuð úr 265.000 kr. í 263.889 kr. eða um 1.111 kr. Er þessi krafa rökstudd með vísan til þess að í tilgreindum viðskiptum íslenska ríkisins með hlutabréf í félaginu á sama ári hafi hlutabréfin verið seld á genginu 3,69. Sé miðað við sama sölugengi í tilviki kærenda og lagt til grundvallar að kærendur hafi keypt hlutabréfin á nafnverði reiknist söluhagnaður 263.889 kr. Í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu er ekkert að þessu vikið. Þykir mega fallast á kröfu kærenda varðandi þetta kæruatriði.
Víkur þá að kröfu kærenda um niðurfellingu álags, en eins og fram er komið bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við þá hækkun stofns til fjármagnstekjuskatts kærenda gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005 sem af breytingum hans leiddi. Kemur fram í bréfi umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar að annmarkar á skattframtölum kærenda umrædd ár með tilliti til söluhagnaðar hlutabréfa eigi rót sína að rekja til þekkingarskorts og reynsluleysis kærenda.
Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má skattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.
Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattframtölum kærenda umrædd ár, þar sem engin grein var gerð fyrir skattskyldum hagnaði af sölu hlutabréfa, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kærenda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kærenda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kærenda um niðurfellingu álags því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Skattskyldur söluhagnaður hlutabréfa í Y hf. gjaldárið 2004 verður 263.889 kr. Að öðru leyti er kröfum kærenda í máli þessu hafnað.