Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluréttur að hlutabréfum
  • Teknategund
  • Kaupauki
  • Tímamörk endurákvörðunar

Úrskurður nr. 402/2010

Gjaldár 2006

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 97. gr. 2. mgr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr.   Reglugerð nr. 245/1963, 13. gr. A- og B-liður.  

X ehf. var stofnað á árinu 2004 og var tilgangur félagsins að vera eignarhaldsfélag um hlutabréf í Z hf. Kærandi, sem var starfsmaður Z hf., var ásamt 16 öðrum starfsmönnum þess félags eða dótturfélaga þess skráður fyrir hlutafé í X ehf. auk þess sem kærandi seldi X ehf. hlutabréf sín í Z hf. Í tengslum við hlutabréfaviðskiptin veitti Z hf. X ehf. rétt til að selja Z hf. hin keyptu hlutabréf á tilgreindu gengi að þremur árum liðnum (sölurétt). Voru kaup hlutabréfanna fjármögnuð með bankaláni. Í mars 2005 seldi X ehf. öll hlutabréf sín í Z hf., annars vegar til Z hf. og hins vegar til kæranda og annarra hluthafa í X ehf., og voru bankalán vegna hlutabréfakaupanna þá gerð upp. Í kjölfar þess eða í apríl 2005 ákvað hluthafafundur í X ehf. að kaupa eigin hlutabréf af hluthöfum og lækka hlutafé félagsins um sömu fjárhæð. Tilgreindi kærandi hagnað af sölu hlutabréfanna að fjárhæð 83.703.464 kr. sem fjármagnstekjur í skattframtali sínu árið 2006. Skattstjóri taldi að færa bæri kæranda til skattskyldra launatekna í skattframtali hans árið 2006 fjárhagslegan ávinning að fjárhæð 72.667.064 kr. af sölu hlutabréfanna í X ehf. þar sem fyrrnefndur söluréttarsamningur milli Z hf. og X ehf. hefði verið gerður á grundvelli starfssambands kæranda og annarra hluthafa í X ehf. við Z hf. og veittur í þágu þeirra endurgjaldslaust í því skyni að takmarka áhættu hluthafanna af fjárfestingu sinni. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að í málinu reyndi á skattalega meðferð söluréttar sem slíks þar sem skattstjóri hefði ekki byggt á því að neinu leyti að í tilviki kæranda hefði í raun verið um að ræða nýtingu kaupréttar. Um ákvörðun starfstengdra hlunninda manns, sem fólgin væru í sölurétti sem hann hefði öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, færi eftir almennum reglum laga nr. 90/2003. Yfirskattanefnd taldi ekki ástæðu til að draga í efa að með stofnun X ehf. hefði hópur stjórnenda Z hf. tekið sig saman í því skyni að ná yfirráðum eða a.m.k. umtalsverðum áhrifum í félaginu og að því leyti til verið í stöðu fjárfesta. Hvað sem því leið þótti deginum ljósara að sá söluréttur, sem Z hf. veitti X ehf., hefði ekki komið til nema vegna starfssambands hluthafa X ehf. við Z hf. Þá kom fram í úrskurðinum að skattstjóri hefði skattlagt sem launahlunnindi hjá kæranda vegna sölu X ehf. á hlutabréfunum í Z hf. hagnað kæranda vegna sölu hans á hlutabréfum í X ehf. til félagsins sjálfs í apríl 2005. Rakti yfirskattanefnd forsendur skattstjóra fyrir skattlagningunni og taldi að þótt einsýnt væri, að uppsafnaður hagnaður vegna sölu X ehf. á hlutabréfunum í Z hf. hefði skilað sér að verulegu leyti til hluthafa X ehf. með kaupum X ehf. á eigin hlutafé, yrði ekki séð að neitt rökrænt samhengi væri á milli afmörkunar skattstjóra á fjárhæð hinna meintu launahlunninda annars vegar og forsendna skattstjóra hins vegar. Var talið að verulegir annmarkar hefðu verið á ákvörðun skattstjóra á fjárhæð meintra skattskyldra hlunninda kæranda vegna söluréttar. Kom fram að þótt fallast mætti á að veiting söluréttar til starfsmanns gæti falið í sér skattskyld hlunnindi yrði naumast séð, miðað við lagaaðstöðu, að skattgilding hlunninda af því tagi gæti komið til álita nema við veitingu söluréttar eða þegar nýting hans leiddi til þess að starfsmanni hlotnuðust verðmæti sem hann ella hefði ekki fengið. Hvorugu þessu væri til að dreifa í tilviki kæranda, enda hefði engin skattlagning farið fram við veitingu söluréttar og hin sölutryggðu hlutabréf verið seld við hærra verði en nam söluréttargengi. Að svo vöxnu máli yrði ekki talið að lagaforsendur hefðu verið fyrir hinni kærðu skattlagningu. Var krafa kæranda tekin til greina.

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, að færa kæranda til skattskyldra launatekna í skattframtali árið 2006 fjárhagslegan ávinning af sölu hlutabréfa í X ehf. að fjárhæð 72.667.064 kr., sbr. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, enda hefði í raun verið um að ræða skattskyld hlunnindi sem veitt hefðu verið á grundvelli starfssambands. Jafnframt lækkaði skattstjóri tilfærðan söluhagnað af hlutabréfum í reit 164 í skattframtalinu og stofn til fjármagnstekjuskatts samsvarandi.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 22. september 2009, sbr. kröfugerð með bréfi, dags. 16. október 2009, er þess krafist aðallega af hálfu kæranda að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, verði felldur úr gildi og álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006 verði óbreytt frá álagningu skattstjóra samkvæmt skattframtali árið 2006 vegna tekna á árinu 2005. Til vara er gerð sú krafa að skattlagðir verði sem launahlunnindi hagsmunir hluthafa af sölurétti sem snúi að eiginfjárframlagi kæranda í X ehf. Söluréttur, sem tryggi í heild 14.361.235 hluti í félaginu, verði metinn til verðs í réttu hlutfalli við hlutafjáreign hvers hluthafa og skattlagður þannig að mati yfirskattanefndar, þó ekki hærri en sem nemur 4.000.000 kr. hlutafjárframlagi kæranda. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða skattlagning verði afmörkuð við verðmæti hlutabréfa í Z hf. þann 18. ágúst 2005 (sic), þ.e. mismunur á genginu 7 (söluréttargengi) og 8,2 (markaðsvirði). Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með skattframtali kæranda árið 2006 fylgdi greinargerð um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09). Þar var meðal annars gerð grein fyrir sölu hlutabréfa í X ehf. á árinu 2005. Tildrög máls þessa eru þau að skattstjóri ákvað að kanna réttmæti skattskila X ehf. og reit í því skyni félaginu bréf, dags. 8. nóvember 2007, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bréfinu vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt ársreikningum X ehf. hefði félagið keypt hlutabréf í Z hf., að nafnvirði 255.000.000 kr. fyrir 1.847.000.000 kr. á árinu 2004. Lagði skattstjóri fyrir X ehf. að láta í té kaupsamning vegna umræddra hlutabréfakaupa svo og frumgögn bókhalds félagsins fyrir rekstrarárin 2004, 2005 og 2006. Munu umbeðin gögn hafa borist skattstjóra hinn 13. desember 2007. Að fengnum umræddum gögnum taldi skattstjóri tilefni til að spyrja hluthafa í X ehf. út í viðskipti með hlutabréf í félaginu og hlutabréf í Z hf., ásamt því að afla upplýsinga frá félögunum um sömu viðskipti. Með bréfi, dags. 6. júní 2008, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar varðandi viðskiptin með hlutabréf í X ehf. og Z hf. Fram kom að umrædd hlutafjárkaup X ehf. í Z hf. hefðu verið fjármögnuð með lánsfé frá T-banka hf. og til tryggingar lánunum hefðu verið eignarhlutir X ehf. í Z hf. ásamt söluréttarsamningi við það félag. Í bréfinu lagði skattstjóri fyrir kæranda að skýra ástæður fyrir fjárfestingu í X ehf. og gera grein fyrir viðskiptum sínum við félagið. Þá skyldi kærandi upplýsa um kaup- og/eða söluréttarsamninga, sem hann kynni að hafa gert við Z hf. á grundvelli starfssambands, og gera grein fyrir nýtingu slíks réttar væri um slíkt að ræða. Sama dag reit skattstjóri X ehf. bréf þar sem krafist var framlagningar söluréttarsamnings, sem tilgreindur væri í lánssamningi á milli félagsins og T-banka hf. sem trygging fyrir lánum, og farið fram á að sá samningur yrði skýrður og upplýst um hvort söluréttur samkvæmt samningnum hefði verið nýttur. Einnig reit skattstjóri Z hf. bréf, dags. 20. maí 2008, þar sem meðal annars var krafist upplýsinga félagsins um það hvers vegna það hefði gengist í ábyrgð fyrir umræddum lánssamningi. Skyldi félagið leggja söluréttarsamninginn fram og gera grein fyrir nýtingu söluréttar svo sem nánar greindi. Svör við fyrirspurnarbréfum skattstjóra, dags. 6. júní 2008, til X ehf. og kæranda bárust með sameiginlegu bréfi, dags. 30. júlí 2008, X ehf. og kæranda, auk 17 annarra hluthafa í X ehf. sem höfðu fengið hliðstæð fyrirspurnarbréf. Bréfinu fylgdu ýmis gögn, þar á meðal söluréttarsamningur X ehf. og Z hf., dags. 11. mars 2004, skuldbinding aðila til kaupa á hlutabréfum í X ehf., ýmis gögn varðandi kaupréttarkerfi fyrir stjórnendur Z hf., skuldaviðurkenning vegna hlutabréfakaupa í Z hf. og yfirlit yfir nýtta kauprétti. Í svarbréfinu kom fram að ástæðan fyrir fjárfestingu í X ehf. hefði verið sú að þarna væri um góðan fjárfestingarkost að ræða og með því að fjárfesta með öðrum í gegnum X ehf. sameiginlega og undir einum hatti væri unnt að hafa meiri áhrif innan Z hf. og meðal annars fá mann kjörinn í stjórn. Þá var gerð grein fyrir kaupréttarsamningum og nýtingu þeirra. Í svarbréfi Z hf., dags. 22. ágúst 2008, var vísað til fyrrgreinds bréfs X ehf. og greindra hluthafa í því félagi, dags. 30. júlí 2008. Þar kom og fram að í ábyrgðina hefði að líkindum verið gengist til að greiða fyrir þeim viðskiptum sem um ræddi.

Með bréfi, dags. 29. september 2008, boðaði skattstjóri kæranda, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, skattlagningu á tilfærðum söluhagnaði að fjárhæð 83.703.464 kr. vegna sölu hlutabréfa í X ehf., sbr. yfirlit yfir kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09), sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2006, sem skattskyldum launatekjum samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, enda væri í raun um að ræða hlunnindi, veitt á grundvelli starfssambands. Jafnframt var boðað að stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts yrði lækkaður um sömu fjárhæð.

Í boðunarbréfinu gerði skattstjóri grein fyrir gangi málsins og bréfaskiptum í því. Þá rakti skattstjóri lagagrundvöll málsins og gerði í því sambandi grein fyrir upphafsákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003 svo og ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar sömu lagagreinar. Ennfremur rakti skattstjóri ákvæði B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Að auki gat skattstjóri ákvæðis 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 varðandi óvenjuleg skipti í fjármálum. Því næst vék skattstjóri að málavöxtum. Í því sambandi kom meðal annars fram að kærandi hefði á árinu 2004 starfað hjá Z hf. Í byrjun þess árs hefði X ehf. verið stofnaður. Hinn 12. mars 2004 hefði kærandi, ásamt fleiri starfsmönnum Z hf., fjárfest í hlutabréfum í X ehf. að nafnverði 4.000.000 kr., auk þess sem sumir fjárfestanna hefðu selt X ehf. hlutafjáreign sína í Z hf. Á árinu 2004 hefði X ehf. fjárfest enn frekar í hlutabréfum í Z hf. og í árslok orðið þriðji stærsti hluthafinn í hlutafélagi þessu. Til að fjármagna hlutabréfakaupin í Z hf. hefði X ehf. tekið tvö lán hjá T-banka hf., annars vegar í mars 2004 að fjárhæð 1.550.000.000 kr. með gjalddaga hinn 16. apríl 2007, en með heimild fyrir X ehf. til að fresta gjalddaga um allt að tvö ár, og hins vegar í ágúst 2004 að fjárhæð 204.000.000 kr. með gjalddaga hinn 15. apríl 2009. Sérstaklega væri tekið fram í báðum lánssamningunum að ráðstafa skyldi lánsfénu til kaupa á hlutabréfum í Z hf. Til tryggingar fyrir fyrra láninu hefði X ehf. lagt fram söluréttarsamning sem félagið hefði gert við Z hf. á sama tíma og lánið hefði verið tekið. Í söluréttarsamningnum kæmi fram að sölurétturinn næði yfir hlutabréf í Z hf. að nafnverði 216.414.286 kr. og yrði virkur í tvö skipti, annars vegar hinn 16. apríl 2007 og hins vegar hinn 15. apríl 2009. Gengi í viðskiptum, sem grundvölluðust á söluréttarsamningnum, skyldi vera 7, en það væri sama gengi sem kærandi og aðrir hluthafar í X ehf. hefðu selt hlutabréf sín í Z hf. á til X ehf. Tekið væri sérstaklega fram í samningnum að andvirði hlutabréfa í Z hf., sem seld væru á grundvelli samningsins, skyldi ráðstafað inn á fyrra lánið frá T-banka hf. Þá kom fram að annar söluréttarsamningur hefði verið gerður á sama tíma og hinn fyrri vegna eiginfjármögnunar hluthafa í X ehf. Hefði samningurinn að geyma sölurétt á hlutabréfum í Z hf. að nafnverði 14.361.235 kr. á sölugenginu 7. Að öðru leyti væru söluréttarsamningarnir samhljóða, nema hvað snerti ráðstöfun söluandvirðis hlutabréfa í Z hf. væru bréfin seld á grundvelli samningsins svo sem nánar greindi. Ennfremur kom fram að á vormánuðum 2005 hefði X ehf. ákveðið að selja alla hlutafjáreign sína í Z hf. Hefði salan farið fram annars vegar um miðjan mars, þegar hlutabréf að nafnverði 152.220.000 kr. hefðu verið seld Z hf. á genginu 14,2, og hins vegar um miðjan apríl þegar X ehf. hefði selt hlutabréf að nafnverði 102.993.949 kr. til hluthafa X ehf. einnig á genginu 14,2. Þar með hefði X ehf. selt öll hlutabréf sín í Z hf. og hefði hagnaður félagsins numið samtals 1.777.063.700 kr. í þessum tveimur viðskiptum. Á sama tíma og kærandi og aðrir hluthafar í X ehf. hefðu keypt af félaginu hlutabréf í Z hf. hefði X ehf. ákveðið að kaupa eigin hlutabréf að nafnverði 73.000.000 kr. fyrir alls 1.621.514.076 kr. Hagnaður kæranda vegna þeirrar sölu hefði numið 83.703.464 kr., þ.e. söluverð 87.649.410 kr. að frádregnu kaupverði 3.945.946 kr.

Þá rakti skattstjóri í boðunarbréfinu tilganginn með gerð umræddra söluréttarsamninga samkvæmt framkomnum skýringum og ástæður þess að kærandi seldi hlutabréfaeign sína í Z hf. til X ehf. og hvers vegna hann hefði fjárfest í X ehf. Dró skattstjóri ályktanir af ráðstöfunum þessum og skýringum kæranda. Þá fjallaði skattstjóri almennt um sölurétt og skattlagningu hans og bar sölurétt m.a. saman við kauprétt. Skattstjóri tók fram að hann liti svo á að umræddir söluréttarsamningar á milli Z hf. og X ehf. hefðu eingöngu verið gerðir vegna tengsla eigenda X ehf. við Z hf. á grundvelli vinnusambands, enda hefði kærandi sem aðrir hluthafar í X ehf. verið lykilstjórnandi hjá Z hf. eða dótturfélögum þess félags. Skattstjóri rakti lagagrundvöll hvað þetta varðaði og fjallaði um réttarframkvæmd varðandi skattlagningu kaupréttar fyrir gildistöku sérstakra lagaákvæða þar að lútandi, sbr. lög nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003. Ekki væri fyrir að fara sérstökum ákvæðum í skattalöggjöf er tækju á söluréttum, en þar sem söluréttarsamningar væru gerðir í sama tilgangi og kaupréttarsamningar þætti réttast að skattleggja þá líkt og gert hefði verið í tilviki kaupréttarsamninga áður en sérstakar lagareglur varðandi þá hefðu komið til sögunnar. Því væri það álit skattstjóra að skattleggja bæri þann ávinning sem starfsmaður hefði af söluréttarsamningi við vinnuveitanda sinn á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Þá rakti skattstjóri meginreglu 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 um óvenjuleg skipti í fjármálum og túlkun þeirrar reglu í úrskurða- og dómaframkvæmd. Í því sambandi vék skattstjóri frekar að umræddum söluréttarsamningum, sem byggðust á starfssambandi hluthafa í X ehf. sem lykilstarfsmanna hjá Z hf. og dótturfélögum, og hagsmunum Z hf. að veita söluréttinn. Hlutabréfin í Z hf. hefðu verið seld áður en söluréttirnir urðu virkir. Taldi skattstjóri að hagnaðarvon hefði rekið til þess, enda hefði markaðsverð hlutabréfanna hækkað verulega. Þá tók skattstjóri fram líta yrði svo á að með því að fjárfesta í gegnum X ehf. en ekki á eigin vegum bæri með sér vilja til sniðgöngu þar sem með slíkum tilflutningi skattskyldra launahlunninda í félag mætti komast hjá að greiða almennan tekjuskatt af hlunnindunum og greiða aðeins fjármagnstekjuskatt. Skattstjóri tók fram að farnar hefðu verið miklar krókaleiðir til að komast hjá skattlagningu hlunnindanna. Í fyrsta lagi hefðu sumir hluthafar selt X ehf. hlutabréf sín í Z hf. X ehf. hefði síðan fjárfest enn frekar í hlutabréfum í Z hf., fjármagnað kaupin með lánsfé sem tryggt hefði verið með sölurétti í hlutabréfunum. Hlutabréfin hefðu síðan verið seld með miklum hagnaði áður en söluréttirnir urðu virkir og sú leið farin að X ehf. keypti eigin hlutabréf af hluthöfum og með þeim hætti deilt hagnaðinum af sölu hlutabréfanna út til hluthafa. Þessar aðstæður og ráðstafanir svo og tilurð og staða X ehf., þar sem hópur starfsmanna hafi tekið sig saman, stofnað félag og keypt síðan hlutabréf í móðurfélagi vinnuveitanda síns, tryggð með sölurétti vegna starfssambands, væru óvanalegar og flókin krókaleið farin til að komast hjá skattlagningu eða a.m.k. að lækka skattgreiðslur. Skattstjóri tók fram að X ehf. hefði verið tryggður fyrir tapi á hlutafjáreigninni í Z hf. allt fram að söludegi svo sem nánar var rakið. Taldi skattstjóri að ekki hefði komið til umræddra ráðstafana nema vegna þess starfssambands sem verið hefði á milli aðila, annars vegar launagreiðandans og hins vegar umrædds félags, X ehf., í eigu starfsmanna launagreiðandans eða dótturfélaga hans. Því féllu umrædd viðskipti undir meginreglu 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 um sniðgöngu, sbr. dómaframkvæmd. Skattstjóri tók fram að sú fjárhæð, sem fyrirhugað væri að skattleggja sem skattskyld hlunnindi kæranda afmarkaðist af hagnaði af sölu kæranda í X ehf. til félagsins sjálfs hinn 13. apríl 2005 og ítrekaði að með þeim kaupum hefði X ehf. verið að dreifa hagnaði vegna sölunnar til hluthafa. Sú óvanalega leið hefði verið farin að láta hlutabréfaviðskiptin eiga sér stað hjá X ehf. og láta hagnaðinn síðan ganga til hlutahafa með kaupum félagsins á eigin bréfum. Tilgangurinn hefði verið að sneiða hjá skattgreiðslu. Samkvæmt framansögðu bæri að skattleggja fjárhagslegan ávinning kæranda af sölu hlutabréfa í X ehf. samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. B-lið reglugerðar nr. 245/1963, þar sem í raun væri um að ræða skattskyld hlunnindi, veitt á grundvelli starfssambands. Jafnframt væri vísað til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Skattstjóri veitti kæranda 15 daga frest frá dagsetningu bréfsins til að leggja fram athugasemdir sínar og andmæli.

Með bréfi, dags. 31. október 2008, bárust athugasemdir umboðsmanns kæranda ásamt ýmsum gögnum. Í samantekt í upphafi bréfsins var vikið að málavöxtum og forsendum og viðhorfum skattstjóra. Fram kom að boðuð álagning skattstjóra byggði að meginstefnu til annars vegar á því að fjárfesting kæranda í X ehf. hefði verið áhættulaus og óvenjuleg og hins vegar á því að söluréttar- og kaupréttarsamningar væru sami hluturinn í skilningi skattalaga og skattleggja bæri meintar tekjur af söluréttarsamningum með ákveðnum hætti á grundvelli almennra reglna um skattlagningu. Umboðsmaður kæranda tók fram að þar sem svo virtist sem skattstjóri ætlaði að hunsa tilvist og tilgang X ehf. væri ástæða til að gera grein fyrir aðdraganda að stofnun félagsins. Stofnendur X ehf. hefðu ráðgert, í kjölfar breytinga á eignarhaldi Z hf. í september 2003, að freista þess að kaupa ráðandi hlut í félaginu. Það hefði reynst of stór biti og því verið leitað samstarfs við aðra tilgreinda fjárfesta og í ársbyrjun 2004 náðst samkomulag um að X ehf. keypti og ætti 10% heildarhlutafjár í félaginu og hefði mann í stjórn. Síðar á árinu hefðu orðið átök milli einstakra hluthafa og inn komið nýir aðilar. Á þessum tíma hefði X ehf. keypt meira hlutafé til að styrkja stöðu sína og verja fjárfestinguna. Í byrjun árs 2005 hefðu hluthafar X ehf. talið að mál væru að þróast á þann veg að upphaflegum markmiðum með fjárfestingunni yrði ekki náð og ákveðið að selja allt hlutaféð í Z hf. út úr X ehf. Var þetta nánar skýrt og vísað til frétta og tilkynninga frá umræddum tíma, sbr. gögn meðfylgjandi andmælabréfinu. Fyrir lægi að hluthafar í X ehf. hefðu lagt félaginu til 74 milljónir króna og það fé hefði tapast ef rekstur félagsins hefði gengið illa. Fullyrðingar skattstjóra um áhættuleysi byggðust að líkindum á misskilningi, enda fjallaði hann ekkert um það að félagið hefði fjárfest fyrir ríflega 200 milljónir króna án söluréttar sem tapast hefðu ef illa hefði gengið. Af því hefði leitt að hluthafar X ehf. hefðu allir tapað hlutafé sínu. Ennfremur lægi fyrir að X ehf. hefði átt í verulegum viðskiptum og ætti enn, sbr. og lántökur félagsins frá T-banka hf. Fullyrðingar skattstjóra um að fjárfestingar félagsins og framlag hlutafjár til þeirra væru óvanalegar ættu ekki við nein rök að styðjast. Þá stæðist samanburður skattstjóra á söluréttarsamningum og kaupréttarsamningum ekki. Meðal annars tæki söluréttarhafi á sig áhættu um gjaldfærni gagnaðila og í því sambandi var bent á að Z hf. væri nú í greiðslustöðvun. Þá hefði söluréttur, í tilviki X ehf. sérstaklega, ekki náð til allra hlutafjárkaupa í Z hf. og sérstök áhætta því falist í því. Í tilviki kaupréttarsamninga væri slíkri áhættu ekki fyrir að fara. Tilvitnaður lagagrundvöllur af hendi skattstjóra tæki ekki til söluréttarsamninga, enda viðurkenndi skattstjóri að engum reglum væri til að dreifa um slíka samninga. Þá fjölluðu tilvitnaðir dómar ekki um sambærileg tilvik.

Auk fyrrgreindra meginatriða voru í andmælabréfi umboðsmanns kæranda gerðar sérstakar athugasemdir við boðunarbréf skattstjóra. Í því sambandi var gerð nánari grein fyrir stofnun X ehf. svo og starfsemi og tilgangi félagsins og tekið fram að um tíma hefði X ehf. verið þriðji stærsti hluthafinn í Z hf. Sú nálgun skattstjóra að horfa fram hjá X ehf. í skattalegu tilliti, með tilliti til fjárfestingar félagsins í Z hf., væri því í engu samræmi við raunverulegt hlutverk félagsins sem fjárfestis í Z hf. Vegna afstöðu skattstjóra þætti rétt að rekja aðdraganda að stofnun X ehf. og sögu félagsins. Í því sambandi var fjallað um uppstokkun í íslensku viðskiptalífi í september 2003 er leiddi m.a. til þess að verulegur hlutur í Z hf. var til sölu svo sem nánar var rakið. Upp hefði komið, miðað við stöðu mála, að stjórnendur Z hf. væru í lykilaðstöðu til að kaupa ráðandi hlut í félaginu og hefði hópur stjórnenda tekið til við að kanna þann möguleika. Vegna umfangs fjárfestingarinnar og áhættu hefði verið leitað til fleiri einstaklinga innan Z hf. Allt að einu hefði komið í ljós að stór og ráðandi hlutur hefði verið hópnum ofviða vegna krafna um eiginfjárframlag. Tekist hefði samstarf við nýja ráðandi fjárfesta um að X ehf. eignaðist 10% hlut í Z hf. á þann hátt að hluthafar í því félagi seldu því öll hlutabréf sín í Z hf. og jafnframt yrði keyptur 6,26% hlutur að auki. Samkomulag um þetta hefði verið sett í framvirkan samning sem X ehf. hefði getað nýtt sér einhliða til 12. mars 2004. Þá kom fram að í samkomulaginu hefði einnig falist að gerðir yrðu söluréttarsamningar um það hlutafé sem X ehf. hefði keypt og skattstjóri gerði nú ágreining um. Gerð þeirra samninga hefði hins vegar verið í því skyni að greiða fyrir öllum viðskiptunum, en ekki verið tilkomin vegna starfssambands hluthafa X ehf. við Z hf., enda hefði X ehf. enga heimild haft til að semja um starfskjör. Þá var gerð grein fyrir breytingum á eignarhaldi í Z hf. þegar kom fram á árið 2004, þar á meðal kaupum X ehf. á 1% viðbótarhlut í Z hf. til að tryggja það áfram að hafa einn mann í stjórn félagsins. Enginn söluréttur hefði fylgt þeirri fjárfestingu. Í ársbyrjun 2005 hefðu hluthafar X ehf. talið að forsendur fyrir aðkomu félagsins að fjárfestingunni í Z hf. væru að bresta, sbr. áherslubreytingar sem staðfestar hefðu verið á aðalfundi Z hf. hinn 10. mars 2005. Á sama tíma hefði verið ákveðið á hluthafafundi í X ehf. að selja allt hlutaféð í Z hf. og tilkynnt um það hinn 11. mars 2005. Hluti bréfanna hefði verið seldur til að greiða skuldir X ehf. vegna hlutabréfakaupanna, en það sem eftir stóð hefði verið selt hluthöfum X ehf. Var hnykkt á því, sbr. fréttir frá umræddum tíma, að ekki dyldist að X ehf. hefði verið í hópi áhrifamestu fjárfesta í Z hf. og breytti engu þar um þótt stefna félagsins hefði ekki gengið upp, þ.e. ekki hefði tekist að halda áhrifum í félaginu. Skattstjóri hefði ekki byggt á réttum staðreyndum. Kærandi hefði bæði tekið verulega persónulega áhættu með fjárfestingu sinni og þar með staðið í umfangsmiklum viðskiptum í samfloti með fjárfestum í X ehf. Þá var í andmælabréfinu fjallað frekar um umfang viðskipta X ehf. Þar kom fram að í fyrstu hefði X ehf. keypt hlutafé í Z hf. fyrir 230.755.521 kr. (rétt fjárhæð er 255.775.521 kr.) að nafnverði á genginu 7, er svarað hefði til 10% hlutafjár í Z hf., og jafnframt gerðir söluréttarsamningar hvað þau kaup varðaði. Í ágúst sama ár hefði síðan verið keypt hlutafé að nafnverði 24.438.428 kr. á genginu 8,26. Síðastgreind fjárfesting að fjárhæð u.þ.b. 202 milljónir króna hefði verið fjármögnuð með láni frá T-banka hf. en enginn söluréttarsamningur verið gerður varðandi þessa fjárfestingu. Ástæðan fyrir fjárfestingu þessari hefði verið að tryggja áframhaldandi áhrif í stjórn Z hf. Á næstu árum og allt til dagsins í dag hefði X ehf. staðið í verulegum viðskiptum svo sem nánar var lýst. Tekið var fram að á árinu 2006 hefði X ehf. greitt álagðan skatt vegna tekna af sölu hlutabréfa í Z hf., þ.e. vegna sömu tekna og skattstjóri vildi nú skattleggja hjá kæranda. Skattyfirvöld hefðu því samþykkt þessi viðskipti X ehf., en vildu allt að einu herma þau upp á kæranda. Þessu væri sérstaklega mótmælt.

Að svo búnu vék umboðsmaður kæranda að þeirri meginforsendu skattstjóra að horfa fram hjá því að X ehf. hefði stundað umrædd viðskipti og telja að tekjur félagsins tilheyrðu kæranda að hluta til. Umboðsmaðurinn fjallaði um tilvísun skattstjóra til seinni og fyrri söluréttar er væri óljós, en umræddir tveir söluréttarsamningar hefðu báðir verið gerðir hinn 11. mars 2004. Skattstjóri hefði vísað til þess að eiginfjármögnun hluthafa X ehf. hefði numið 14.361.235 kr. að nafnverði á genginu 7, en þar væri um að ræða fjárhæð sem hluthafar X ehf. hefðu sannanlega tapað ef rekstur félagsins hefði gengið illa. Staðhæfing skattstjóra um að söluréttarsamningarnir hefðu verið gerðir á grundvelli starfssambands stæðist engan veginn, enda hefði komið fram í svarbréfi að söluréttarsamningar hefðu verið gerðir til að takmarka áhættu X ehf. en ekki lykilstjórnenda. Þeir hefðu getað tapað fjárfestingu sinni 74.000.000 kr. ef rekstur félagsins hefði gengið illa. Skattstjóri hefði vísað til þess að Z hf. hefði svarað því til að líklegast hefði verið gengið í ábyrgðina til að greiða fyrir umræddum viðskiptum. Tók umboðsmaðurinn fram að ljóst væri að eigendur X ehf. hefðu verið starfsmenn Z hf. og dótturfélaga þess félags. Það væri hins vegar jafnljóst að sú staðreynd ein og tilvísun til þess í umræddum söluréttarsamningum gæti ekki gert það að verkum að horft væri fram hjá því að X ehf. stundaði veruleg viðskipti og að þau viðskipti væru talin vera gerð af kæranda. Fyrir lægi að X ehf. hefði fjárfest í hlutabréfum Z hf. fyrir meira en 200 milljónir króna án nokkurs söluréttar þannig að ef rekstur félagsins hefði gengið illa hefðu hluthafar þess tapað fjárfestingu sinni í félaginu að fullu, en sú fjárfesting hefði numið 74 milljónum króna. Því væri staðhæfing skattstjóra um áhættuleysi röng. Þá vék umboðsmaðurinn að sölu á hlutafénu í Z hf. er fram hefði farið um miðjan mars og miðjan apríl 2005. Þó lægi fyrir að X ehf. hefði aðeins getað nýtt sér sölurétti sína hinn 16. apríl 2007 og hinn 15. apríl 2009. Þannig væri ljóst að X hf. hefði keypt hlutafé árið 2004 án tillits til sölurétta fyrir meira en 200 milljónir króna og selt á árinu 2005 hlutafé aftur án nokkurs tillits til sölurétta. Af þessu mætti ráða að fjárfestingar félagsins hefðu ekki verið háðar söluréttarsamningum. Ítrekað væri að X ehf. væri enn í rekstri með verulegar fjárfestingar og skuldbindingar sem fyrr. Fram kom af hálfu umboðsmanns kæranda að skattstjóri hefði enga athugasemd gert við þær skýringar á fjárfestingunni að umræddur hópur manna hefði talið Z hf. álitlegan fjárfestingarkost og viljað hafa áhrif á stjórn félagsins, sbr. aðdraganda að umræddum ráðstöfunum öllum. Þá tók umboðsmaður kæranda fram að ekki yrði annað ráðið af boðunarbréfi skattstjóra en að sú staðreynd að söluréttarsamningar X ehf. gerðu það að verkum að hluthafar í félaginu bæru enga áhættu af fjárfestingu sinni væri grundvöllurinn fyrir afstöðu skattstjóra og væri það í samræmi við viðhorf í fréttablaði ríkisskattstjóra, Tíund, útg. ágúst 2008, sbr. tilvitnun í það rit. Þessi grundvöllur ætti hins vegar ekki við í tilviki kæranda, eins og fram væri komið. Um hefði verið að ræða sameiginlega fjárfestingu X ehf. og hefðu hluthafar í því félagi borið verulega fjárhagslega áhættu sem hefði verið óháð umræddum söluréttarsamningum, eins og rekstur félagsins væri enn í dag. Þá benti umboðsmaðurinn sérstaklega á þá staðreynd að fram væri komið að fjárfesting kæranda í X ehf. væri ekki hluti af kaupréttarkerfi Z hf., heldur áhættufjárfesting í umræddu félagi. Með vísan til þessa væri þess krafist að skattstjóri félli frá boðaðri álagningu. Væri því naumast þörf á umfjöllun um skilning skattstjóra á skattlagningarheimildum varðandi söluréttarsamninga í tengslum við hlunnindi starfsmanna, en engu að síður þætti rétt að víkja að þeim atriðum.

Að svo búnu fjallaði umboðsmaður kæranda um skattlagningu söluréttarsamninga og benti á í því sambandi að engin bein lagaheimild væri til staðar fyrir afstöðu skattstjóra varðandi skattskyldu vegna slíkra samninga. Þá væri engum fordæmum til að dreifa hvorki í stjórnsýslu né dómaframkvæmd. Einnig væru viðhorf ríkisskattstjóra á sandi byggð, sbr. Tíund. Því næst bar umboðsmaðurinn saman kauprétti og sölurétti og taldi skilning skattstjóra þar að lútandi rangan, enda væri umtalsverður munur á þessum fyrirbrigðum, eins og nánar var rakið. Þá fjallaði umboðsmaðurinn um starfstengd hlunnindi og tók fram að hlunnindaskattlagning í íslenskum rétti hefði byggst á því að launþega væru látin í té verðmæti fyrir starf, en í því fælist ekki að launþeganum væri bannað að eiga viðskipti við vinnuveitanda sinn svo sem reyndin hefði orðið í tilviki kæranda vegna fjárfestingar í hlutafé. Staðhæfing skattstjóra um að söluréttarsamningarnir hefðu verið starfstengd hlunnindi væri því röng, enda upplýst að hlunnindakerfi Z hf. hefði falist í gildandi kaupréttarkerfi. Fram kom varðandi mat á starfstengdum hlunnindum til tekna að sérreglur 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003 ættu ekki við um sölurétti. Því bæri að miða við viðeigandi reglur laganna, sbr. skattmatsreglur fjármálaráðherra, en ekkert slíkt mat lægi fyrir. Afstaða skattstjóra ætti sér enga skýra lagaheimild, enda eingöngu vísað í almennar heimildir 7. gr. laga nr. 90/2003 og tveggja dóma Hæstaréttar Íslands sem ekki ættu við í tilviki kæranda svo sem nánar greindi. Ítrekað var að kærandi hefði borið fulla áhættu af fjárfestingu sinni í X ehf. Þá staðhæfði umboðsmaðurinn að lán frá T-banka hf. hefðu verið veitt á viðskiptalegum forsendum, enda slík lán tíðkuð á greindum tíma gegn veði í hlutafé.

Þá fjallaði umboðsmaður kæranda um rök skattstjóra fyrir því að virða ekki X ehf. Staðhæfingu skattstjóra um skattasniðgöngu, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, var hafnað með vísan til aðdraganda að stofnun félagsins og tilgangs þess. Þá ætti fullyrðing skattstjóra um óvanaleg viðskipti ekki við nein rök að styðjast og meðal annars ítrekað að X ehf. hefði stundað umfangsmikil viðskipti á frjálsum markaði jafnt við aðila, er tengdust hluthöfum félagsins, og við aðra aðila. Þá hefði X ehf. ekki verið tryggður fyrir tapi af hlutafjáreign sinni, eins og skattstjóri héldi fram, enda veruleg áhætta umfram sölurétti. Þá hefði ekki verið fjárfest fyrir lánsfé eingöngu, sbr. hlutafjárframlag hluthafa. Ennfremur væri því mótmælt að ekki hefði komið til umræddra ráðstafana nema vegna starfssambands milli aðila, enda hefði tilgangurinn verið fjárfesting í Z hf. hvað sem leið starfssambandi. Að lokum vék umboðsmaður kæranda að útreikningi skattstjóra og benti á að ekkert tillit væri tekið til þess að X ehf. væri skattskyldur vegna hagnaðar af sölu hlutafjár er næmi 18%. Skattstjóri tæki hins vegar aðeins tillit til 10% skattgreiðslu þegar með réttu hefði átt að taka 26,2% skattgreiðslu með í reikninginn.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtali kæranda árið 2006 í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þó þannig að boðuð tekjufærsla á fjárhagslegum ávinningi kæranda af sölu hlutabréfa í X ehf. að fjárhæð 83.703.464 kr., sem skattstjóri taldi að virða bæri sem launatekjur, var lækkuð um 11.036.400 kr. eða í 72.667.064 kr. Stafaði lækkunin af því að skattstjóri féllst á að taka tillit til þess að engin söluréttartrygging hefði verið fyrir láni X ehf. að fjárhæð 204.000.000 kr. sem tekið hefði verið hjá T-banka hf. í ágústmánuði 2004. Í ljósi þess væri á það fallist að lækka hina boðuðu tekjufærslu sem næmi „hlutfalli [kæranda] af ofangreindu láni“, eins og þar sagði. Eignarhluti kæranda í X ehf. hefði verið 5,41% og þar af leiðandi næmi lækkunarfjárhæðin 11.036.400 kr. Í samræmi við þetta var stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts lækkaður um greinda fjárhæð 72.667.064 kr. Í samræmi við framangreint endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2006.

Skattstjóri gerði grein fyrir gangi málsins og bréfaskiptum í því í úrskurði sínum um endurákvörðun. Þá vék skattstjóri að andmælabréfi umboðsmanns kæranda, dags. 31. október 2009, rakti efni þess bréfs og gerði athugasemdir við ýmis atriði í því. Rakti skattstjóri í því sambandi frásögn umboðsmannsins í andmælabréfinu af tildrögum og aðdraganda að stofnun X ehf. og taldi ýmislegt missagt í þeirri frásögn það svo að margvíslegar mótsagnir rýrðu trúverðugleika andmælabréfsins. Meðal annars dró skattstjóri í efa frásögn í andmælabréfinu varðandi frumkvæði að fjárfestingu í Z hf., enda bentu gögn til þess að Y ehf. hefði tekið sjálfstæða ákvörðun um fjárfestingu í félaginu og hefði í því sambandi lýst yfir áhuga á að fá fleiri til liðs við sig síðar. Þá sýndu tilgreind gögn frá Kauphöll Íslands og fleiri aðilum að framvirkur samningur á milli Y ehf. og X ehf. um kaup á hlutum í Z hf. hefði verið gerður hinn 25. febrúar 2004, en ekki hinn 27. janúar 2004, eins og fram kæmi í andmælabréfinu, og tekið fram að kaupin hefðu verið gerð í framhaldi af þeirri yfirlýsingu Y ehf. við kaup á hlutabréfum í félaginu að það hefði áhuga á að fá fleiri aðila að félaginu. Þá fjallaði skattstjóri í úrskurði sínum um lýsingu umboðsmanns kæranda í andmælabréfinu á tilurð umræddra söluréttarsamninga. Taldi skattstjóri að sú skýring í andmælabréfinu stæðist ekki að sölurétturinn hefði komið til í því augnamiði að liðka fyrir viðskiptunum með tilliti til aðkomu bankanna svo sem nánar var rökstutt. Tók skattstjóri fram að hagur Z hf. af því að veita sölurétt hefði verið í því fólginn að halda í starfsmenn, vernda hagsmuni þeirra og takmarka áhættu þeirra af hlutabréfakaupunum. Þá fjallaði skattstjóri um viðbótarkaup X ehf. á hlutafé í Z hf. á ágústmánuði 2004 og hlutafjárhækkun síðar á því ári. Frásögn í andmælabréfinu af þessu stæðist ekki, enda lægi fyrir samkvæmt gögnum frá Kauphöll að hlutafjárhækkunin hefði farið fram tveimur mánuðum eftir að kaup X ehf. á hlutafénu hefðu verið gerð. Skattstjóri vék að meintri áhættu kæranda vegna framlagningar fjármuna í X ehf. og blés á rök kæranda með tilliti til áhættu hans vegna kaupa á margföldum verðmætum í hlutabréfum í Z hf. af því félagi svo sem nánar var rakið. Þá vék skattstjóri að umfjöllun í andmælabréfinu um umfang viðskipta X ehf. og þeirri staðhæfingu í bréfinu að félagið hefði stundað veruleg viðskipti á umliðnum árum. Í þessu sambandi vísaði skattstjóri til ársreikninga X ehf. fyrir árin 2004 til og með 2007 þar sem fram kæmi að einu viðskipti félagsins hefðu verið með hlutabréf í Z hf., sem síðan hefðu verið seld árið eftir, og engin önnur viðskipti átt sér stað fyrr en seinni hluta ársins 2007 þegar félagið hefði fengið lán að fjárhæð 1,5 milljarður króna, stofnað dótturfélagið Þ ehf. og fjárfest í hlutabréfum í gegnum það. Samkvæmt þessu mætti segja að X ehf. hefði legið í dvala í tvö ár frá því að hlutabréfin í Z hf. voru seld og þar til umrætt lán var tekið. Þá kæmi fram í gögnum varðandi hlutafjárlækkun eftir sölu á hlutafjáreigninni í Z hf. að enginn rekstur né starfsemi hefði verið á vegum X ehf., sbr. ársreikning fyrir árið 2004 til staðfestingar. Dró skattstjóri þá ályktun af þessu að fullyrðingar umboðsmanns kæranda um umfangsmikil og margvísleg umsvif X ehf. væru ýktar. Varðandi þá viðbáru umboðsmanns kæranda í andmælabréfi að skattyfirvöld hefðu samþykkt umrædd viðskipti, sbr. meðferð söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfanna hjá X ehf., þá hafnaði skattstjóri því að þau atriði byndu hendur hans gagnvart kæranda, auk þess sem endurákvörðunarheimild væri til staðar samkvæmt 97. gr. laga nr. 90/2003 svo sem nánar greindi.

Því næst rakti skattstjóri kaup á hlutabréfum í Z hf. og fjármögnun þeirra af hálfu X ehf. með sama hætti og í boðunarbréfi svo og gerð og innihald umræddra söluréttarsamninga í tengslum við þau kaup. Ítrekaði skattstjóri sem áður að ekki yrði annað séð en að eina markmiðið með veitingu söluréttarins hefði verið að tryggja að kærandi ásamt hinum hluthöfunum gæti gengið frá fjárfestingunni án fjárhagslegs skaða umfram framlagt hlutafé. Jafnframt yrði ekki annað séð en að umræddir söluréttir hefðu verið forsenda bankaláns til kaupa á hlutabréfunum, enda um verulegar fjárhæðir að ræða sem aðallega hefðu verið tryggðar með umræddum hlutabréfum og söluréttinum. Skýringar kæranda á forsendum bankans fyrir lánveitingu væri bæði misvísandi og óljósar. Þá bæri að hafa í huga að allir hluthafar X ehf. hefðu verið stjórnendur innan sömu samstæðu og því beint starfssamband milli þess aðila, er veitti söluréttinn, og þeirra er tóku við honum. Þá gerði skattstjóri grein fyrir ástæðum fyrir fjárfestingunni samkvæmt skýringum kæranda með sama hætti og í boðunarbréfi og ennfremur sölu á hlutabréfunum í Z hf. Ennfremur fjallaði skattstjóri um sölurétt og skattlagningu hans með sama hætti og í boðunarbréfi sínu. Vegna viðbáru í andmælabréfi hvað snerti áhættu X ehf. þrátt fyrir söluréttinn, sbr. örlög Z hf. síðar með greiðslustöðvun, vísaði skattstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 117/2009 þar sem fram kæmi að afdrif félags síðar gætu ekki haft þýðingu. Skattstjóri ítrekaði að ekki yrði annað séð en að söluréttarsamningarnir hefðu verið starfstengd hlunnindi kæranda og annarra hluthafa í X ehf., enda staðfest í samningunum sjálfum. Engu máli skipti hvort ákveðið kaupréttarkerfi hefði verið í gangi innan samstæðu Z hf. á greindum tíma, enda hefðu umræddir söluréttir ekki verið í boði fyrir aðra starfsmenn eða stjórnendur. Athugavert væri þegar 17 starfsmenn í lykilstöðum tækju sig saman og keyptu hlutabréf í vinnuveitanda sínum og fengju söluréttartryggingu líkt og gerst hefði í umræddu tilfelli. Skattstjóri tók fram að X ehf. hefði verið tryggður fyrir tapi allt þar til söluréttirnir urðu virkir eða ef fallið yrði frá sölurétti áður en þeir yrðu virkir. Fjárhagslegur ávinningur söluréttarins væri munur á söluréttargengi og markaðsgengi á þeim degi þegar hlutabréfin væru seld. Skipti ekki máli hvort markaðsgengið væri hærra eða lægra en söluréttargengið og hvort verið væri að selja hlutabréfin á grundvelli söluréttarins eða áður en hann væri nýttur. Í öllu falli gæti starfsmaðurinn hvenær sem er gengið út úr viðskiptunum áður en sölurétturinn yrði virkur án þess að verða fyrir fjárhagslegum skaða. Í þessu tilviki hefði X ehf. ákveðið að falla frá söluréttinum áður en hann yrði virkur með því að markaðsgengi hlutabréfanna hefði verið 100% hærra en söluréttargengið og félagið því hagnast verulega. Skattstjóri hafnaði þeim viðbárum umboðsmanns kæranda í andmælabréfi að skattmat á söluréttum þyrfti að vera til staðar, sbr. lagafyrirmæli þar um, en því væri ekki til að dreifa. Rakti skattstjóri lagagrundvöll skattmatsreglna og þýðingu gangverðs, sbr. m.a. 2. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, og tók fram að ekkert kæmi fram um nauðsyn skattmats þegar gangverð lægi fyrir, sbr. vitneskju um gangverð, þegar hlutabréfin voru seld, þ.e. á genginu 14,2, og um söluréttargengið, þ.e. 7. Mismunurinn á söluréttargengi og gangverði við sölu teldist tekjur sem skattleggja bæri á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en ekki sem tekjur samkvæmt C-lið sömu lagagreinar.

Þá gerði skattstjóri nánari grein fyrir lagagrundvelli skattlagningarinnar. Kvaðst hann skattleggja söluréttinn á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, en ákvæði þessi rakti skattstjóri efnislega. Í þessu sambandi vék skattstjóri að réttarframkvæmd varðandi skattlagningu kaupréttar fyrir gildistöku sérstakra lagaákvæða um það efni, sbr. lög nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003. Vísaði skattstjóri ennfremur til tveggja dóma Hæstaréttar Íslands er vörðuðu kaup starfsmanna á hlutabréfum í þeim fyrirtækjum þar sem þeir unnu. Vegna andmæla umboðsmanns kæranda varðandi þýðingu dómanna sem fordæma tók skattstjóri fram að hann legði áherslu á sameiginleg einkenni kaup- og sölurétta, einkum það atriði að báðar tegundirnar fælu í sér umbun vinnuveitanda til starfsmanns fyrir unnin störf og hvatningu til góðra verka. Þótt ólíkar væru ættu þessar samningstegundir það sameiginlegt að vera veittar á grundvelli starfssambands. Ekki væri fyrir að fara sérstökum ákvæðum í skattalöggjöf er tækju á söluréttum, en þar sem söluréttarsamningar væru gerðir í sama tilgangi og kaupréttarsamningar þætti réttast að skattleggja þá líkt og gert hefði verið í tilviki kaupréttarsamninga áður en sérstakar lagareglur varðandi þá voru settar. Á þeim tíma, sem tilvitnaðir dómar vörðuðu, hefði ekki verið fyrir að fara sértækum lagareglum um skattlagningu og því verið stuðst við almenna skattlagningarheimild 7. gr. skattalaganna. Að auki vísaði skattstjóri til athugasemda með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 86/2000, þar sem sérstök ákvæði um meðferð kaupréttar voru fyrst lögleidd. Loks vísaði skattstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 117/2009 þar sem „tekið [hefði] verið á sölurétti sem kærandi fékk á grundvelli starfssambands“, eins og þar sagði. Rakti skattstjóri þann úrskurð að nokkru leyti. Sló skattstjóri því föstu, með vísan til alls þess sem rakið hefði verið, að þeir söluréttarsamningar, sem um ræddi í málinu, teldust skattaleg hlunnindi, veitt á grundvelli starfssambands, og fælu í sér fjárhagslegan ávinning er bæri að skattaleggja á framangreindum grundvelli. Jafnframt skaut skattstjóri 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, varðandi óvenjuleg skipti í fjármálum, undir ákvörðun sína. Taldi skattstjóri að ekki hefði komið til umræddra samninga nema vegna þess starfssambands sem hefði verið á milli aðila, annars vegar launagreiðandans og hins vegar félags í eigu starfsmanna launagreiðandans eða dótturfélaga hans. Skattstjóri taldi atvik málsins, sem hann tíundaði nánar og áður er lýst, bera með sér að farið hefði verið í flókið ferli til að komast hjá réttri skattlagningu. Í því sambandi tók skattstjóri fram að farnar hefðu verið krókaleiðir til að komast hjá skattlagningu umræddra hlunninda. Í fyrsta lagi hefðu nokkrir hluthafanna í X ehf. selt hlutabréf sín í Z hf. til X ehf. Það félag hefði síðan fjárfest enn frekar í hlutabréfum í Z hf. og fjármagnað hlutabréfakaupin með lánsfé sem tryggt hefði verið með sölurétti í hlutabréfunum. Hlutabréfin hefðu síðan verið seld með miklum hagnaði áður en söluréttir urðu virkir og sú leið farin að X ehf. keypti eigin hlutabréf af hluthöfunum og með þeim hætti deilt út hagnaðinum af sölu hlutabréfanna til hluthafanna.

III.

Með kæru, dags. 22. september 2009, sbr. kröfugerð með bréfi, dags. 16. október 2009, hafa umboðsmenn kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, til yfirskattanefndar. Þess er krafist aðallega að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006 verði óbreytt frá álagningu skattstjóra samkvæmt skattframtali árið 2006 vegna tekna á árinu 2005. Til vara er gerð sú krafa að skattlagðir verði sem launahlunnindi hagsmunir hluthafa af sölurétti sem snúi að eiginfjárframlagi kæranda í X ehf. Söluréttur, sem tryggi í heild 14.361.235 hluti í félaginu, verði metinn til verðs í réttu hlutfalli við hlutafjáreign hvers hluthafa og skattlagður þannig að mati yfirskattanefndar, þó ekki hærri en sem nemur 4.000.000 kr. hlutafjárframlagi kæranda. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða skattlagning verði afmörkuð við verðmæti hlutabréfa í Z hf. þann 18. ágúst 2005 (bersýnilega misritun fyrir 2004), þ.e. mismunur á genginu 7 (söluréttargengi) og 8,2 (markaðsvirði). Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Þess er getið í kærunni varðandi kæruefnið að 17 einstaklingar, er allir hafi verið stjórnendur hjá Z hf. og þekkt vel til rekstrar félagsins, hafi stofnað X ehf. til að fjárfesta í Z hf. í því skyni að komast til áhrifa í félaginu á miklum umbrotatímum í íslensku viðskiptalífi. Skattstjóri hafi endurákvarðað skattlagningu hluthafa X ehf. og talið að hagnaður þeirra af fjárfestingunni væri skattskyld launahlunnindi með því að Z hf. hafði veitt hinu fyrrnefnda félagi sölurétt vegna kaupa á hlutabréfum í Z hf.

Af hálfu umboðsmanna kæranda er í kærunni gerð grein fyrir málavöxtum. Þar kemur fram að X ehf. hafi verið stofnaður hinn 10. febrúar 2004 í tengslum við mikla uppstokkun í íslensku viðskiptalífi í september 2003 með samkomulagi R-banka hf. og T-banka hf. um skiptingu á nokkrum stærstu fyrirtækjum landsins, svo sem nánar er rakið, þar á meðal breytingu á eignarhaldi á hlutafé í Z hf. þar sem niðurstaðan hefði orðið sú að 38,48% hlutur í því félagi hefði verið til sölu. Í árslok 2003 hafi fimm manna hópur stjórnenda hjá Z hf. tekið til við að kanna kaup á ráðandi hlut í félaginu, þ.e. umræddum 38,48% hlut. Stjórnendurnir hafi haft frumkvæði að því að fá til liðs við sig fjársterka aðila með mögulegt samstarf í huga. Tilgreindir aðilar hafi stofnað fjárfestingarfélagið Y ehf. er keypt hafi 38,48% hlut í Z hf. hinn 27. janúar 2004 og tekið frumkvæðið í sínar hendur. Í kjölfarið hafi X ehf. verið stofnaður og gert kaupréttarsamning við Y ehf. um 144.418.200 hluti í Z hf., eða 6,26% útgefins hlutafjár, á genginu 7. Samningstími hafi verið til 12. mars 2004. Vísað er til tilkynningar til Kauphallar um að kaupin hafi verið gerð í framhaldi af þeirri yfirlýsingu eigenda Y ehf. að við kaup á hlutabréfum í Z hf. hafi þeir áhuga á að fá fleiri aðila að félaginu. Ennfremur komi þar fram að hluti þeirra einstaklinga, sem eigi hlut í X ehf., eigi sjálfir sem nemi 3,57% hlutafjár í Z hf. og ætlunin sé að gefa fleiri stjórnendum Z hf. og dótturfélaga þess kost á að eignast hlut í X ehf. Hinn 12. mars 2004 hafi X ehf. síðan keypt hlutabréf af stjórnendum í Z hf. að heildarnafnvirði 86.357.321 kr. á genginu 1:7. Að gerðum þessum kaupum hafi viðkomandi einstaklingar ekki átt nein hlutabréf í Z hf. Sama dag hafi X ehf. nýtt sér kauprétt á 6,26% hlut í Z hf. samkvæmt umræddum samningi við Y ehf. Eftir þessi viðskipti hafi hlutur X ehf. í Z hf. numið 10% en eignarhlutur Y ehf. verið 32,22%. Fram kemur að vegna þessara viðskipta hafi Z hf. veitt X ehf. sölurétt á 10% hlut í Z hf. á genginu 1:7 er samþykkt hafi verið í stjórn Z hf. hinn 11. mars 2004. T-banki hf. hafi lánað X ehf. fyrir kaupum þessum og átt frumkvæði að veitingu söluréttarins. Skattstjóri hafi ekki áttað sig á því að sölurétturinn tryggði hagsmuni lánveitanda miklu frekar en hagsmuni lántaka, enda hefðu hinir keyptu hlutir verið settir að veði til tryggingar láninu, auk söluréttarins, en X ehf. hafi ráðið yfir óverulegu eigin fé, miðað við umfang fjárfestingarinnar. Svo virðist sem sölurétturinn hafi verið veittur til að T-banki hf. mætti færa þessa útlánaáhættu á Z hf. í stað X ehf. Hafi einstaklingar að baki X ehf. átt óverulega hagsmuni af umræddum sölurétti. Ekki sé vitað hvort T-banki hf. hafi haft hagsmuni af því að Y ehf. seldi hlut sinn, en þó sé ljóst að Y ehf. sem ráðandi hluthafi í Z hf. hafi aldrei mátt véla um sölurétt sér til handa, hvorki í heild né að hluta. Fram kemur að til að eignarhlutur X ehf. þynntist ekki út, ef til hlutafjárhækkunar kæmi, hafi félagið keypt hinn 17. ágúst 2004 14.038.428 hluti í Z hf. á genginu 1:8,3 og hinn 18. ágúst 2004 10.400.000 hluti á genginu 1:8,2. Að þessum kaupum gerðum hafi X ehf. átt 255.213.949 hluti í félaginu, er numið hafi 10,06% af heildarhlutafé í Z hf., og verið þriðji stærsti hluthafinn. Þessi kaup X ehf. hafi verið fjármögnuð með láni frá T-banka hf., en enginn söluréttur verið veittur í sambandi við kaup þessi. Hinn 11. mars 2005 hafi X ehf. selt hluti sína í Z hf. Í kjölfar starfsloka tilgreindra stjórnenda hafi verið tekin sú ákvörðun að gera upp skuldir X ehf. og selja eignarhluta í Z hf. til eigenda X ehf. Að mati hluthafa hafi þá orðið einskonar forsendubrestur fyrir fjárfestingu X ehf. í félaginu með því að það hefði færst úr því að vera ... yfir í fjárfestingarstarfsemi. Hluthafar X ehf. hafi keypt hluta af hlutabréfum í Z hf. af X ehf. hinn 11. mars 2005 og X ehf. síðan keypt eigin hlutabréf af hluthöfum sínum eða 98,65% af útistandandi hlutafé. Í framhaldi af því hafi hlutafé í X ehf. verið fært niður. Við sölu hlutabréfa í X ehf. hafi myndast skattskyldur söluhagnaður hjá kæranda og öðrum hluthöfum sem talinn hefði verið fram í skattframtali árið 2006 og fjármagnstekjuskattur verið greiddur í samræmi við það. Í lok umfjöllunar sinna um málavexti rekja umboðsmenn kæranda forsendur skattstjóra að nokkru og taka fram að skattstjóri hafi aldrei lagt „mat á fjárhagslega hagsmuni [kæranda] af veitingu söluréttarins.“

Því næst fjalla umboðsmenn kæranda um málsástæður og lagarök. Er teflt fram málsástæðum er varða bæði meðferð málsins og meinta annmarka á henni og efnislegum málsástæðum. Varðandi meðferð málsins kemur fram að svo virðist sem skattstjóri ætli að líta fram hjá X ehf. og skattleggja 17 hluthafa félagsins á þeim grundvelli að um launahlunnindi hafi verið að ræða. Skattstjóri líti fram hjá félaginu með því að líta á söluréttinn sem starfstengd hlunnindi þannig að beint vinnuréttarsamband sé á milli hluthafa í X ehf. og Z hf. Á sama tíma líti skattstjóri á X ehf. sem lögaðila, enda ætli hann að skattleggja söluhagnað X ehf. af sölu hlutabréfa í Z hf., og jafnframt viðurkenni hann tilvist félagsins þar sem skattstjóri ætli að skattleggja söluhagnað kæranda vegna sölu hans á hlutabréfum í X ehf. Á það er bent að í úrskurði skattstjóra komi fram að skattleggja beri hagnað vegna sölu hlutabréfa í Z hf., en einnig að skattskyld hlunnindi kæranda afmarkist af sölu hlutabréfa hans í X ehf. hinn 13. apríl 2005. Samkvæmt þessu hafi skattstjóri ákveðið að skattleggja kæranda um söluhagnað X ehf. vegna sölu á hlutabréfum í Z hf. og söluhagnað kæranda á hlutabréfum í X ehf. Hér sé skattstjóri hvarflandi í afstöðu sinni. Skýrt þurfi að liggja fyrir hvert hið skattskylda atvik sé og hvernig það sé afmarkað. Slíku sé ekki fyrir að fara. Verði því ekki annað séð en um sé að ræða brot á rökstuðningsreglu stjórnsýslu- og skattaréttar, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á sama tíma og skattstjóri skattleggi tekjurnar sem launahlunnindi telji hann að hluti sama hagnaðar teljist til fjármagnstekjuskatts, enda þótt hagnaðurinn eigi rót sína að rekja til sömu atvika. Með þessu sé skattstjóri í senn að viðurkenna X ehf. sem sjálfstæðan skattaðila og líta fram hjá félaginu og skattleggja tekjur þess sem launahlunnindi. Gera verði þá kröfu að samkvæmni sé í úrlausn skattstjóra. Afar sérstakt verði að telja að líta á söluhagnað af hlutabréfum í X ehf. sem launahlunnindi hjá Z hf. Skattstjóri taki fram að söluréttir séu skattskyld hlunnindi séu þeir veittir á grundvellir starfssambands „líkt og um er að ræða í máli þessu“, eins og þar segi, og því beri að skattleggja hagnað vegna hlutabréfanna í Z hf. þrátt fyrir að bréfin hafi verið seld áður en söluréttir urðu virkir. Þá vísi skattstjóri til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Að þessu öllu tíunduðu álykti skattstjóri síðan að skattlögð fjárhæð skuli afmarkast af tilgreindum hluta hagnaðar af sölu kæranda á bréfum sínum í X ehf. Þannig haldi skattstjóri öllu fram í senn, að skattleggja eigi hagnað af sölu hlutabréfa í Z hf., að afmarka eigi fjárhæðina við sölu hlutabréfa kæranda í X ehf. og að sölurétturinn sé í raun andlag skattlagningarinnar þrátt fyrir að fallið hafi verið frá honum og hann í raun aldrei veittur í þágu kæranda, heldur í þágu T-banka hf. Svo virðist sem skattstjóri sé ekki viss um hvaða skattalega atvik hann sé að skattleggja og ekkert rökrænt samhengi sé í framsetningu skattstjóra. Til viðbótar vísi skattstjóri til 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, auk tilvísunar til B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, og enn til viðbótar sé ekki aðeins vísað til grunnreglu 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, heldur beint til þess ákvæðis. Í boðunarbréfi sé ennfremur vísað til að umrædd viðskipti „falli undir þá meginreglu um skattasniðgöngu sem dómstólar telja að sé að finna í 1. mgr. 57. gr. [laga nr. 90/2003]“. Enn og aftur sé um að ræða svo almenna lýsingu á lagagrundvelli að vörnum verði trauðla við komið. Umboðsmenn kæranda taka fram að gera verði þá kröfu til skattstjóra að lagagrundvöllur, sem hann byggi skattlagninguna á, sé skýr, sbr. lagakröfur um rökstuðning. Ekki dugi að tína til hin og þessi atriði og vonast til að eitthvert þeirra eigi við. Slíkir annmarkar séu því á málatilbúnaði skattstjóra að ómerkingu varði án kröfu. Þá haldi skattstjóri því fram að ekki verði annað séð en að söluréttir hafi einungis verið veittir á grundvelli starfssambands, en jafnframt að forsenda lánafyrirgreiðslu hafi verið krafa lánveitanda að gerður yrði söluréttarsamningur. Fullkomin mótsögn sé í þessu hjá skattstjóra og rökstuðningur því ófullnægjandi. Þá hafni skattstjóri rökstuddum skýringum kæranda um að fjárfestingin hafi ekki verið þáttur í kaupréttarskipulagi Z hf., enda þótt slíkt kerfi hafi verið í gildi og skattstjóri verið upplýstur um það.

Umboðsmenn kæranda benda á að megintilgangur málsmeðferðarreglna hjá skattstjóra sé að tryggja að mál sé nægjanlega vel upplýst áður en ákvörðun er tekin, en á það hafi skort í máli þessu. Skattstjóri hafi kosið að mótmæla ummælum kæranda í stað þess að sinna þeirri skyldu sinni sem stjórnvald að upplýsa málið, svo sem hann hafi allar heimildir til, enda hafi skattstjóri ekki stöðu málsaðila í þeim skilningi að mótmæli hans hafi sérstakt gildi. Skattstjóra hafi borið, að málinu nægjanlega upplýstu, annars vegar að hafna skýringum kæranda með rökstuddum hætti eða þá að fallast á þær. Geta umboðsmennirnir þess að skattstjóri reyni að koma sér undan því að upplýsa og taka afstöðu til raunverulegra atburða í málinu sem þó sé unnt að sannreyna með tilkynningum Kauphallar og öðrum opinberum gögnum, en freisti þess í staðinn að klæða úrskurð sinn í einhvern búning sem kunni að hæfa öðrum málum sem snertu „kaupréttarkerfi“ fyrirtækja. Þá er því haldið fram að svo virðist sem skattstjóri hafi þegar tekið endanlega afstöðu í málinu þegar með boðunarbréfi sínu, enda taki hann ekki málefnalega afstöðu til andmæla. Slíkt sé skýlaust brot á andmælareglu skatta- og stjórnsýsluréttar, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk brots á rökstuðningsreglu á þessu réttarsviði.

Víkur þá að efnislegum málsástæðum umboðsmanna kæranda fyrir aðalkröfu í málinu um niðurfellingu á hinum kærða úrskurði skattstjóra. Í því sambandi er vikið að aðdraganda að stofnun X ehf., sem áður er rakinn, þar á meðal framlagningu kæranda á hlutafé í það félag og síðan fjárfestingu félagins í hlutafé í Z hf., fyrst í mars 2004 að nafnverði 230.755.521 kr. (rétt fjárhæð 255.775.521 kr.) er m.a. var fjármögnuð með láni frá T-banka hf. að fjárhæð 1.550.000.000 kr. og síðar í ágúst 2004 að nafnverði 24.438.428 kr. sem fjármögnuð var með láni frá T-banka hf. að fjárhæð 204.000.000 kr. Að svo búnu er í kærunni fjallað um samþykkt stjórnar Z hf. á fundi sínum hinn 11. mars 2004 fyrir veitingu söluréttar á 216.414.286 hlutum að nafnvirði í Z hf. er mátt hafi nýta hinn 15. apríl 2007 og/eða hinn 16. apríl 2009. Hafi söluréttargengið verið 7,0 fyrir hverja krónu nafnverðs, að viðbættum fjármagnskostnaði, en að frádregnum greiddum og gjaldföllnum arði. Tekið sé fram að fjármagnskostnaður falli til vegna láns sem X ehf. hafi tekið hjá T-banka hf. Ennfremur sé tekið fram að í tengslum við lánssamning á milli X ehf. og T-banka hf. sé bankanum veittur réttur til að nýta söluréttinn utan greindra tímamarka verði lánssamningur vanefndur. Að auki hafi stjórn Z hf. samþykkt að veita X ehf. sölurétt á 14.285.714 kr. (rétt fjárhæð er 14.361.235 kr.) að nafnverði sem mátt hafi nýta hinn 15. apríl 2007 og/eða 16. apríl 2009. Tekið sé fram að kaup X ehf. á þessum hlut sé fjármagnaður með eiginfjárframlagi hluthafa í X ehf. Söluréttargengið hafi verið ákveðið 7,0 fyrir hverja krónu nafnverðs.

Umboðsmenn kæranda taka fram að nauðsyn beri til að hafa greinda tvískiptingu söluréttarins í huga og gefa þeim mismun gaum er sé á þessum tveimur söluréttarsamningum. Í samningnum að nafnvirði 216.414.286 kr. hafi T-banki hf. sjálfstæðan rétt til að nýta söluréttinn komi til gjaldfellingar lánssamnings X ehf. og T-banka hf., en sambærilegt ákvæði sé ekki að finna í söluréttarsamningnum að nafnverði 14.361.235 kr. Til þess að styðja við tryggingar að baki láni frá T-banka hf. hafi Z hf. veitt X ehf. sölurétt að hinum keyptu hlutum að því marki sem dygði til endurgreiðslu lánsins, auk kostnaðar og vaxta. Ljóst sé að hvorki X ehf. né kærandi hafi átt hagsmuni af þessum sölurétti er helgaðist af því að sölurétturinn hefði því aðeins verið nýttur ef markaðsverð hlutabréfanna félli niður fyrir kaupverð, en þá hefði allt söluverðið runnið til T-banka hf. til endurgreiðslu lánsins. Á hinn bóginn hafi Z hf. veitt X ehf. sjálfstæðan sölurétt til að tryggja eiginfjárframlag og í því tilviki hafi X ehf. og þar með kærandi átt hagsmuna að gæta, en þeir hagsmunir hafi numið 6% af heildarhagsmunum í kaupunum. Felist í varakröfu í málinu að þessi þáttur verði einangraður og skattlagður samkvæmt mati yfirskattanefndar, verði ekki fallist á aðalkröfuna. Með vísan til þessa árétta umboðsmennirnir að söluréttur X ehf. á hlutabréfum í Z hf. hafi fyrst og fremst verið tryggingaráðstöfun T-banka hf. fyrir endurgreiðslu lánsins ásamt fjármagnskostnaði, en hefði ekki eingöngu sem tryggingu veð í hlutabréfaeign X ehf. Þá eru raktir hagsmunir T-banka hf. varðandi Z hf., þar á meðal að við mat á áhættuskuldbindingum bankans hafi verið gerð krafa um sölurétt þannig að áhættan yrði færð á Z hf. en ekki X ehf., hvað þá einstaklingana sjálfa. Skattstjóri viðurkenni að umræddir söluréttir hafi verið forsenda lánveitingarinnar og fyrir liggi í svari Z hf. að söluréttur hafi verið til að liðka fyrir viðskiptunum. Engu að síður dragi skattstjóri þá ályktun að söluréttur hafi einungis verið veittur vegna starfssambands er sé rangt, eins og rakið hafi verið. Henti það betur málatilbúnaði skattstjóra.

Umboðsmenn kæranda benda á að svo virðist sem skattstjóri líti á kaup X ehf. í mars 2004 á hlutabréfum í Z hf. sem hluta af skattskyldum launahlunnindum hluthafa X ehf. Með þessu sé skattstjóri í raun að rjúfa þau tengsl sem felist í fjárfestingum X ehf. í hlutabréfum í Z hf. Þannig ætli skattstjóri ekki að taka tillit til fjárfestingar X ehf. í ágúst 2004, en félagið hafi fjármagnað þau kaup með lántöku hjá T-banka hf. án söluréttar. Líta verði heildstætt á fjárfestingar X ehf., þ.e. öll viðskipti félagsins með hlutabréf í Z hf., auk þess að horfa til aðdraganda að stofnun félagsins og fjárfestinganna. Skattstjóri virðist draga þá ályktun að kaup X ehf. á hlutabréfum í Z hf. og söluréttur X ehf. hafi „eingöngu“ verið veittur á grundvelli „starfssambands“ og því beri að skattleggja hluthafa X ehf. um hagnað af viðskiptunum sem launahlunnindi þeirra. Þessi ályktun skattstjóra sé ekki tæk. Er á það bent að á árunum 2003 til 2005 hafi verið í gildi kaupréttarkerfi hjá Z hf. sem kærandi hafi tekið þátt í. Kaup X ehf. á hlutabréfum í Z hf. hafi verið með allt öðrum hætti. Er lýst almennum einkennum kaupréttar- og söluréttarkerfa í fyrirtækjum, sbr. og löggjafarstefnu í 10. gr. laga nr. 90/2003. Engu slíku sé til að dreifa í þessu tilfelli. T.d. hafi Z hf. ekki ákveðið hverjir yrðu hluthafar í X ehf., en það sé vinnuveitandinn sem ákveði hverjir öðlist kaup- og/eða sölurétt á hlutabréfum vinnuveitandans. Því sé hér ekki um að ræða kaup- eða söluréttarsamning sem beri að skattleggja sem launahlunnindi. Frekar er þetta rökstutt, m.a. með vísan til nýtingar kaupréttar við starfslok hjá Z hf. Þá er því teflt fram að þátttaka kæranda og annarra hluthafa í X ehf. hafi komið til án nokkurs frumkvæðis Z hf. og verið gerð í því skyni að fjárfesta í félaginu og öðlast völd í því með samtakamætti, en ekkert haft með kaupréttar- og/eða söluréttarkerfi félagsins að gera. Fram kemur að svo virðist sem skattstjóri hafi myndað sér þá skoðun að þar sem orðið „söluréttur“ kom fyrir hljóti að vera á ferðinni „söluréttur vegna starfssambands“ sem skattleggja beri sem launahlunnindi. Skattstjóri fjalli með almennum hætti um dóma vegna skattasniðgöngumála, þar á meðal um dóma Hæstaréttar Íslands um kaup starfsmanna banka á hlutabréfum á sérstöku starfsmannagengi er varði á engan hátt skattlagningu kaupréttarsamninga. Þá fjalli skattstjóri ennfremur um lagasetningu varðandi skattalega meðferð kaupréttarsamninga, en hvorki í þeim ákvæðum né öðrum ákvæðum skattalaga sé fjallað um söluréttarsamninga. Einnig haldi skattstjóri því ranglega fram í almennri umfjöllun sinni að kaup- og söluréttarsamningar eigi það sameiginlegt að vera veittir á grundvelli starfssambands. Hins vegar liggi fyrir að íslensk hlutabréf hafi gengið kaupum og sölum á grundvelli afleiðusamninga þar sem bæði tengdir aðilar og ótengdir hafi tekið þátt. Umboðsmenn kæranda leggja áherslu á að kærandi og aðrir hluthafar í X ehf. hafi ekki verið að gera samninga sem starfsmenn Z hf. við yfirmenn sína þar, enda aðrir hagsmunir ráðið því að stjórn Z hf. ákvað að veita X ehf. sölurétt. Til undirstrikunar á hinni sjálfstæðu fjárfestingarstarfsemi X ehf. sé ennfremur að viðbótarhlutafé hafi verið keypt í Z hf. til að halda áhrifum í félaginu. Enda þótt skattstjóra hafi mistekist að halda yfirsýn yfir málið hafi hann þó fallist á að fella niður skattlagningu hagnaðar sem launahlunninda af þeim hluta sem ekki var veittur söluréttur fyrir. Þá kemur fram að höfuðmáli skipti að sölurétturinn var veittur X ehf. vegna kaupa félagsins á hlutabréfum Y ehf. er var ráðandi hluthafi í Z hf. og hefði skattstjóri líklega fremur átt að kanna þann þátt kaupanna. Ítrekað er að sölurétturinn hafi verið veittur X ehf. en ekki starfsmönnum Z hf. sem slíkum, auk þess að Z hf. hafi ekki ráðið neinu um það hverjir voru hluthafar í X ehf. og raunar látið sig það engu varða er styðji enn aðkomu Y ehf. að þessum viðskiptum. Því skipti máli að kaupréttarkerfi hafi verið til staðar hjá Z hf., en fjárfesting X ehf. hafi verið allt annars eðlis. Skattstjóri loki augunum fyrir þessu. Þá hefði samstarfi í fjárfestingarstarfsemi naumast verið hætt ef um „kaupréttarkerfi“ Z hf. hefði verið að ræða. Þetta styðji það enn frekar að um hafi verið að ræða fjárfestingarfélag með það að markmiði að öðlast völd og áhrif í Z hf. Því er mótmælt að um „óvanaleg“ viðskipti hafi verið að ræða, enda hafi slík viðskipti verið altíð á greindum tíma og lánastofnanir lánað háar fjárhæðir til kaupa á hlutabréfum. Fjárhæð viðskiptanna styðji það frekast að stofnað væri félag um þau. Þá er þeirri staðhæfingu skattstjóra sérstaklega mótmælt að farnar hafi verið „miklar krókaleiðir til að komast hjá skattlagningu hlunnindanna“. Ekkert sé óeðlilegt við það að stofnað sé einkahlutafélag, þ.e. félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, til að taka þátt í fjárfestingum, og raunar eigi hið gagnstæða við. Þá sé einnig algengt að einkahlutafélög kaupi eigin hlutabréf og í framhaldi af því sé hlutafé lækkað, eins gert hafi verið í tilviki X ehf. Ennfremur er mótmælt staðhæfingum skattstjóra um áhættuleysi vegna umræddra viðskipta er beri vott um kunnáttuleysi á félögum með takmarkaðri ábyrgð. Er á það bent að hluthafar í X ehf. hafi lagt félaginu til fé og ekki getað hringlað með eignir félagsins, eins og skattstjóri álíti. Á móti hafi hluthafarnir borið takmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins, takmarkaða við eigin fé. Við sölu á hlutabréfunum í Z hf. hafi skuldir félagsins verið greiddar upp. Kærandi hafi síðan keypt hluta af bréfum í Z hf. og ýmist getað átt bréfin skuldlaus eða selt þau. Síðan hafi kærandi selt hlutabréf sín í X ehf. til félagsins sjálfs og við það myndast söluhagnaður. Í framhaldi af því hafi hlutafé í X ehf. verið lækkað. Umboðsmenn kæranda mótmæla tilvísun skattstjóra til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 54/2008, er kveðinn var upp hinn 6. nóvember 2008, og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 117/2009, enda séu þau mál eðlisólík máli kæranda og eigi því ekki við, svo sem nánar greinir.

Umboðsmenn kæranda benda á að umdeilanlegt sé hvort stjórn Z hf. hafi verið heimilt að gera söluréttarsamning við X ehf., einkum með tilliti til þess hver seljandinn var, en sölurétturinn hafi fyrst og fremst verið til að tryggja fjármögnun þeirrar sölu. Hins vegar verði ekki fullyrt að starfssamband Z hf. og hluthafa X ehf. hafi verið ákvörðunarástæða þess að þetta var gert. Það hafi verið B sem lagt hafi tillögu að söluréttartryggingu fyrir stjórn félagsins. Hér kunni önnur sjónarmið að hafa ráðið svo sem í tengslum við átök um yfirráð og völd. Þá megi vera að tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið að tryggja hagsmuni seljanda, þ.e. Y ehf., en um það verði ekki fjölyrt. Er á það bent í þessu sambandi að kaupréttarsamningur milli Y ehf. og X ehf. frá 25. febrúar 2004, sem nýta mátti hinn 12. mars 2004, sé skilyrtur um að Z hf. gangi frá sölurétti gagnvart X ehf. Hér komi fram með skýrum hætti hagsmunir Y ehf. af því að söluréttur verði gerður og félagið, sem ráðandi hluthafi, í raun getað ráðið því að selja X ehf. í stað D hf. sem reynt hefði að ná yfirráðum í Z hf.

Umboðsmenn kæranda taka fram að af framansögðu megi ljóst vera að ekki sé unnt að undirbyggja skattlagningu launahlunninda vegna starfa hluthafa X ehf. fyrir Z hf. og þannig eigi kærandi ekki að gjalda þess þótt stjórn Z hf. kunni að hafa séð sér hag í því að greiða fyrir eða tryggja að X ehf. gæti notið þeirrar lánafyrirgreiðslu sem raun varð á. Ennfremur taka umboðsmennirnir fram að þegar litið sé heildstætt á hlutabréfaviðskipti X ehf., þ.e. kaup á hlutabréfum í mars 2004 og síðar í ágúst sama ár, sýni það ótvíræðan ásetning X ehf. að viðhalda áhrifum sínum innan Z hf. Hafi kaupin í ágúst verið gerð þar sem eignarhlutur X ehf. hefði getað lækkað hlutfallslega ef til hlutafjárhækkunar kæmi, en þau kaup hafi verið fjármögnuð án söluréttar Z hf. Áhættan af þeim viðskiptum hafi hvílt á X ehf. og lánveitanda án sérstakrar tryggingar Z hf. Þetta styðji með óyggjandi hætti það sem haldið hafi verið fram af hálfu kæranda á öllum stigum málsins um aðdraganda og ástæður fjárfestinga X ehf. í Z hf. Er á það bent að skattstjóri hafi í úrskurði sínum fallist á að hin síðari kaup í ágústmánuði 2004 teljist ekki til launahlunninda, en byggi það eingöngu á því að ekki hafi verið til staðar söluréttur vegna þeirrar fjárfestingar. Eins og fram sé komið geti skattstjóri ekki slitið fjárfestingarstarfsemi X ehf. úr samhengi með þessum hætti.

Í greinargerð sinni fyrir kæruatriðum draga umboðsmenn kæranda saman rök sín með svofelldum hætti:

„Hér að framan hafa verið færð fram rök fyrir því að söluréttur sem Z hf. veittu X ehf. var ekki veittur vegna starfssambands hluthafa X ehf. hjá Z hf. Það er ljóst að önnur sjónarmið sem réðu því eins og hagsmunir ráðandi hluthafa í félaginu, Y ehf., og hagsmunir T-banka hf. vegna fjármögnunar. Það er því ekki hægt að skattleggja hluthafa X ehf. vegna fjárfestinga félagsins sem launahlunnindi. Ekki er unnt að sjá að sá lagagrundvöllur sem skattstjóri virðist vísa til, þ.e. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, og/eða grunn- eða meginregla þess ákvæðis eigi við hér. Almennt hefur verið talið að til að slíkt eigi við þurfi að vera um að ræða óvenjuleg viðskipti sem ekki hefðu komið til nema vegna tengsla aðila. Viðskipti þau sem hér um ræðir voru ekki óvenjuleg. Einkahlutafélag 17 hluthafa ákveður að fjárfesta í félagi sem þeir eru starfsmenn í til að komast þar til áhrifa og valda en ljóst er að barátta var um yfirráð og völd í félaginu. Það eru ekki óvenjuleg eða óeðlileg viðskipti. Stjórn félagsins ákveður að veita félaginu sölurétt en það voru ekki hluthafar í X ehf. sem tóku ákvörðun um slíkt. Það hafa verið aðrir hagsmunir sem réðu því eins og nefnt hefur verið og hafa snúið að ráðandi hluthafa í félaginu og jafnvel heildarfjármögnun þess aðila við kaupin. Þess ber að geta að aðrir höfðu sóst eftir að kaupa ráðandi hlut eins og D en, af einhverjum ástæðum, sem þáttur í valdabaráttu, voru þeir aðilar ekki taldir heppilegir sem ráðandi hluthafar í Z hf. Í söluréttinum fólust enda óverulegir hagsmunir hluthafa X ehf. Hafi skattstjóri átt við að verið væri að byggja á svonefndri „raunveruleikareglu“ skattaréttar er ekki hægt að byggja skattlagningu hluthafanna eins og skattstjóri hefur gert á þeim grundvelli. Hér kemur til að ekki er verið að færa hefðbundna kaup- og/eða söluréttarsamninga í annan búning og komast þannig hjá eðlilegri skattlagningu launahlunninda. Hér var raunverulega um fjárfestingarhóp að ræða sem vildi komast til áhrifa í Z hf. og tókst það með um 10% eignarhlut og stjórnarmann á þeim grundvelli. Að ráðandi hluthafi og fjármögnunaraðili hafi séð sér hag í því með lánafyrirgreiðslu og aukinni tryggingarvernd vegna lánsins, þ.e. að áhættan væri hjá Z hf. en ekki X ehf. og ekki eingöngu með veðum í bréfunum var auðvitað góður samningur fyrir X ehf., en getur ekki talist þáttur í launakjörum umræddra aðila. Eins og komið hefur fram var í gildi kaupréttarkerfi í félaginu og fjárfesting í gegnum X ehf. var því algjörlega óviðkomandi. Fjárfesting X ehf. í Z hf. var því raunveruleg og ekki gerð í þeim (eina) tilgangi að sniðganga skattareglur um skattlagningu launahlunninda.“

Að svo búnu víkja umboðsmenn kæranda að varakröfu í málinu. Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir fyrir aðalkröfu sé þess krafist að skattlagðir verði sem launahlunnindi hagsmunir hluthafa af söluréttinum sem snúi að eiginfjárframlagi hluthafans. Kærandi sem og flestir aðrir hluthafar hafi lagt fram 4.000.000 kr. í hlutafjárframlag. Keypt hafi verið hlutabréf í Z hf. fyrir þessa fjárhæð. Fram komi í stjórnarsamþykkt Z hf. frá 11. mars 2004 að veittur hefði verið söluréttur annars vegar á um 216 milljónum hluta og hins vegar um 14 milljónum hluta. Það sé hinn síðari söluréttur sem í raun hafi verið ætlað að vernda hlutafjárframlag hluthafanna. Þeirri fjárhæð hefðu þeir ella getað tapað ef hlutabréfaverð í Z hf. hefði lækkað. Taka umboðsmennirnir fram að skattstjóri hafi ekki gert reka að því að grafast fyrir um hvert verðmæti þessa söluréttar hafi verið í hendi hluthafa X ehf., en ljóst sé að verðmætið hafi ekki getað verið meira en sem nam hlutafjárframlagi hluthafans, þ.e. aðeins í því tilviki að Z hf. yrðu gjaldþrota. Því sé gerð sú varakrafa að söluréttur, sem tryggi í heild 14.361.235 kr. hluti í félaginu, verði metinn til verðs í réttu hlutfalli við hlutafjáreign hvers hluthafa og skattlagður þannig að mati yfirskattanefndar, þó ekki hærri en sem nemur 4.000.000 kr. hlutafjárframlagi kæranda.

Eins og fram er komið lýtur þrautavarakrafa kæranda að því skattlagningin verði afmörkuð við verðmæti hlutabréfa í Z hf. hinn 18. ágúst 2005 (sic), þ.e. mismunur á genginu 7 (söluréttargengi) og 8,2 (markaðsvirði) á þeim degi. Fram kemur að rök fyrir þrautavarakröfu séu þau „að í tveimur kaupum í ágúst 2005 (sic) sem gerð voru með lántöku án söluréttar hefði getað leitt til þess að ef hlutabréfaverð hefði lækkað, hefðu hluthafar í X ehf. getað tapað sínu hlutafjárframlagi“. Þá segir að þótt „söluréttur hafi verið á bréfum er svaraði til fjögurra milljóna hlutafjárframlags og sá réttur verið nýttur hefði lánveitandi lánanna í ágúst getað gengið að þeirri greiðslu hefðu hlutabréf í Z hf. lækkað. Við lántökurnar í ágúst 2005 (sic) breyttist þannig áhætta eigenda X ehf. og félagið hefði getað orðið gjaldþrota við lækkun á markaðsvirði hlutabréfaeignar félagsins. Launahlunnindi hluthafa X ehf. eiga því ekki að geta numið hærri fjárhæð og þessi tímaviðmiðun er rökrétt vegna breyttrar áhættu félagsins og þar með hluthafa þess.“ Með kærunni fylgdi útreikningur á þrautavarakröfunni og í samræmi við hann er þess krafist að skattskyldar tekjur verði ákveðnar 13.071.921 kr. í samræmi við hlutdeild kæranda í heildartekjum.

Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til framlagðra málskostnaðarreikninga. Hinn 2. nóvember 2009 bárust málskostnaðarreikningar, stílaðir á X ehf., samtals að fjárhæð 6.844.058 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Fram kemur að reikningarnir hafi „til einföldunar“ verið stílaðir á félagið.

Í niðurlagi greinargerðar kæranda fyrir kæruatriðum er óskað eftir því að fram fari munnlegur málflutningur í málinu, sbr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

IV.

Með bréfi, dags. 12. mars 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Umboðsmaður kæranda krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er gerð krafa um að skattskyld hlunnindi kæranda af sölurétti verði metin til verðs í réttu hlutfalli við hlutafjáreign kæranda, þó ekki hærri en sem nemur 4.000.000 kr. Til þrautavara er gerð sú krafa að hin kærða skattlagning verði afmörkuð við verðmæti hlutabréfa í Z hf. þann 18. ágúst 2005, þ.e. mismuninn á söluréttargengi og markaðsvirði.

Í kæru umboðsmanns kæranda eru færð fram ýtarlega rök fyrir því að ómerkja eigi úrskurð skattstjóra á grundvelli annmarka á málsmeðferð sem snúa m.a. að annmörkum á rannsókn skattstjóra, rökstuðningi skattstjóra og almennum lýsingum skattastjóra á lagagrundvelli. Hafi kæranda því verið erfiðara um vik að verjast á meðan mál var til umfjöllunar hjá skattstjóra sem og að það „... gerir kæru málsins til yfirskattanefndar erfiðari viðfangs, ...“. Krefst umboðsmaður kæranda því að „... málið verði ómerkt á grundvelli annmarka á málsmeðferð skattstjóra.“

Bæði í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 29. september 2008, og í hinum kærða úrskurði kemur fram á hvaða grundvelli breytingar á skattskilum kæranda voru byggðar, þó fallast megi á með umboðsmanni kæranda að rökstuðningur skattstjóra hefði hugsanlega mátt vera með skýrari hætti. Þá þykir ljóst af andmælabréfi kæranda, dags. 31. október 2008, og kæru umboðsmanns kæranda að kærandi hafi ekki orðið fyrir réttarspjöllum vegna meintra annmarka á málsmeðferð skattstjóra.

Umboðsmaður kæranda rökstyður ýtarlega kröfu sína um ómerkingu úrskurðar skattstjóra á grundvelli efnisþáttar málsins. Rök umboðsmanns kæranda snúa m.a. að því að sýna fram á að tilgangur hluthafa með stofnun X ehf. hafi verið að ná ákveðnum yfirráðum í Z hf. Hafi hlutabréfakaup X ehf. verið ætluð til að ná þessu tiltekna markmiði hluthafa. Einnig er því haldið fram að umrædd viðskipti séu afar venjuleg og eðlileg, hafi ekki verið gerð milli tengdra aðila og almennt hafi verið tíðkað að lánastofnanir lánuðu háar fjárhæðir vegna hlutabréfakaupa. Enn fremur er því haldið fram að í hlutabréfakaupum X ehf. á hlutafé í Z hf. hafi falist áhætta fyrir hluthafa sem nemi hlutafjárframlagi þeirra til X ehf.

Með úrskurði skattstjóra voru kæranda færð til tekna þau skattskyldu hlunnindi sem skattstjóri taldi felast í veittum sölurétti til X ehf. vegna hlutabréfakaupa félagsins í Z hf. Skattstjóri byggir endurákvörðun sína m.a. á því að söluréttur sem Z hf. veittu X ehf. hafi verið forsenda þess að T-banki hf. veitti lán til kaupa á hlutafé að nafnverði 216.414.286 kr. þann 9. mars 2004. Samkvæmt gögnum málsins aflaði skattstjóri upplýsinga um ástæður fyrir veitingu söluréttar á hlutabréfum í Z hf. Mat skattstjóri þær upplýsingar á þann veg að ekki hefði fengist lánveiting fyrir kaupum X ehf. á hlutafé í Z hf. án umrædds söluréttar. Verður því að telja að hluthafar X ehf., þ.á.m. kærandi, hafi haft verulega hagsmuni af því að söluréttur yrði veittur. Sú fullyrðing umboðsmanns kæranda að hagsmunir Y ehf. sem seljanda hlutafjárins og T-banka hf. sem lánveitanda hafi ráðið mestu um veitingu söluréttarins er ekki rökstudd nema að litlu leyti. Aðallega er vísað til þess að skattstjóri hefði átt að kanna þennan þátt kaupanna frekar. Ríkisskattstjóri hafnar þessari fullyrðingu enda er tilvísun umboðsmanns til kaupsamnings milli Y ehf. og X ehf. og sjónarmiða um yfirráð, völd og áhrif í Z hf. ekki til þess fallin að skýra frekar hvaða hagsmuni Y ehf. hafði af því að Z hf. veittu umræddan sölurétt.

Umræddur söluréttur var veittur af Z hf. endurgjaldslaust til X ehf. Í söluréttarsamningi aðila segir: „... æskilegt sé að lykilstarfsmenn taki þátt í starfsemi félagsins með eignarhaldi til þess að skerpa vilja starfsmanna til góðra verka.“Skattstjóri vísar m.a. til söluréttarsamningsins sem og til lánasamnings sem líta verður á sem hluta af forsendum sem skattstjóri leggur til grundvallar mati sínu á málavöxtum í hinum kærða úrskurði. Skattstjóri metur það svo að hinn umræddi endurgjaldslausi söluréttur sem Z hf. veitti X ehf. hafi í raun verið veittur á grundvelli starfsambands hluthafa X ehf., þ.á.m. kæranda, við Z hf. og dótturfélög þess. Þannig byggir fyrrgreindur söluréttarsamningur m.a. á þeim forsendum að X ehf. hafi verið stofnað „... til þess að halda utan um hlutafé lykilstarfsmanna í Z.“, að hluthafar í X ehf. væru „... allir starfsmenn Z...“ og að félagið væri „... lokað fyrir inngöngu annarra en starfsmanna.“ Ljóst þykir að um tengda aðila er að ræða, annars vegar kærandi og Z hf. á grundvelli starfsambands hans og ... dótturfélags Z hf., og hins vegar kærandi og X ehf. á grundvelli eignarhalds. Með vísan til framangreinds og umrædds söluréttarsamnings verður vart annað talið en að umræddur söluréttur hafi verið veittur endurgjaldslaust af launagreiðanda hluthafa X ehf. svo að félagið gæti keypt hlutafé í Z hf. og með vísan til málavaxta að öðru leyti verður að telja að umræddur söluréttur hefði ekki verið veittur endurgjaldslaust nema á grundvelli starfsambands hluthafa X ehf. og Z hf. eða dótturfélaga.

Í hinum kærða úrskurði skattstjóra kemur skýrt fram að verið sé að færa kæranda til tekna hin starfstengdu hlunnindi sem felast í hinum veitta endurgjaldslausa og starfstengda sölurétti á hlutabréfum í Z hf. sem X ehf. keypti 9. mars 2004 að nafnverði 216.414.286 kr. Skattstjóri hefur við endurákvörðun sína í hinum kærða úrskurði tekið tillit til kaupa X ehf. þann 26. ágúst 2004 á hlutabréfum í Z hf. að fjárhæð 24.438.428 kr. að nafnverði til lækkunar, miðað við boðun skattstjóra, enda voru þau kaup ekki tryggð með starfstengdum sölurétti. Skattstjóri hefur ekki talið að síðari til komin kaup X ehf. þann 26. ágúst 2004 án söluréttar breyti þeirri niðurstöðu. Umboðsmaður kæranda telur að líta eigi heildstætt á fjárfestingar X ehf. með hlutabréf í Z hf. Þar sem hin síðari til komnu kaup, þ.e. kaup þann 26. ágúst 2004 að nafnvirði 24.438.428 kr., á hlutabréfum í Z hf. höfðu ekki að geyma sölurétt verður að telja að skattstjóra hafi verið rétt að meta hin skattskyldu hlunnindi kæranda eins og hinn kærði úrskurður ber með sér, enda gátu þau ekki komið til álita við mat skattstjóra á skattskyldum hlunnindum vegna söluréttar á hlutafé sem keypt var 9. mars 2004. Skattstjóri hefur því „... ekki slitið fjárfestingarstarfsemi X ehf. úr samhengi ...“ eins og umboðsmaður kæranda heldur fram, heldur metið þau skattskyldu hlunnindi kæranda sem fólust veitingu á endurgjaldslausum og starfstengdum sölurétti, eins og að framan greinir.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að skattstjóri telji að miðað við þær aðstæður sem uppi eru í máli kæranda sé það „... óvanalegt að félag eins og X ehf. sem hefur enga starfsemi, starfsmenn eða viðskiptalega sögu geti tekið lán upp á 1,7 milljarð króna til hlutabréfakaupa og fengið söluréttarsamning til tryggingar á láni.“Hér vísar skattstjóri ekki einungis til þess að félag sem hafði engan rekstur með höndum, enga starfsmenn eða viðskiptalega sögu geti tekið að láni háa fjárhæð til hlutabréfakaupa, heldur einnig að félagið hafi fengið endurgjaldslausan og starfstengdan söluréttarsamning frá því félagi sem keypt var í til tryggingar láninu. Í máli þessu hefur félagið sem stofnað var til að halda utan um eignarhluta lykilstarfsmanna Z hf. og dótturfélaga þess keypt hlutafé í Z hf. þann 9. mars 2004 með lánsfé og lögð var fram trygging fyrir láninu m.a. í formi söluréttar sem Z hf. veittu. Hér er því ekki um sambærileg tilvik að ræða og þegar fengið er lán fyrir kaupum á hlutabréfum á almennum markaði, enda ljóst að veiting Z hf. á endurgjaldslausum sölurétti til félags í eigu lykilstarfsmanna þess eða lykilstarfsmanna dótturfélaga til tryggingar láni sem fengið var vegna kaupa á hlutafé í Z hf. verður vart talin til venjulegra og almennt tíðkaðra viðskipta. Ríkisskattstjóri hafnar því að viðskipti þau sem í úrskurði skattstjóra er fjallað um séu afar venjuleg, eðlileg og almennt tíðkuð viðskipti, eins og fullyrt er í kæru umboðsmanns kæranda.

Umboðsmaður vísar m.a. til umfjöllunar í andmælabréfi kæranda frá 31. október 2008 varðandi áhættu sem hafi verið fólgin í rekstri og fjárfestingum X ehf. Eins og kemur fram í úrskurði skattstjóra þá var um algera lágmarks áhætta fyrir kæranda að ræða vegna kaupa X ehf. á hlutafé í Z hf. að nafnvirði 216.414.286 kr. þann 9. mars 2004 þar sem félagið var tryggt með endurgjaldslausum og starfstengdum sölurétti. Síðari til komin kaup á hlutafé í Z hf. þann 26. ágúst 2004 og sú áhætta sem felst í slíkum kaupum fyrir félagið án söluréttar getur ekki komið til álita þegar metin eru hin skattskyldu hlunnindi kæranda sem felast í endurgjaldslausum sölurétti sem byggðist á starfsambandi kæranda og ... dótturfélags Z hf., sem fékkst vegna kaupa X ehf. á hlutafé í Z hf. þann 9. mars 2004. Fallast má á með umboðsmanni kæranda að áhætta kæranda takmarkist við framlagt fé og að mögulegt væri að kærandi hefði glatað hinu framlagða fé sínu ef Z hf. hefði farið í gjaldþrot fyrir þann tíma sem X ehf. seldi hlutafé sitt í Z hf. Líta verður þó heildstætt á aðstæður. Hluthafar í X ehf. voru allir lykilstarfsmenn Z hf. og/eða dótturfélaga þeirra. Meðal hluthafa X ehf. voru forstjóri Z hf. ... og framkvæmdastjóri Z hf., svo að einhverjir séu nefndir. Að framangreindu virtu, málavaxta og með vísan til þess að tveir hluthafar X ehf. létu af störfum sínum, þ.e. forstjóri Z hf. ... og framkvæmdastjóri ..., vegna breyttra forsendna í rekstri Z hf. á svipuðum tíma og X ehf. seldi öll hlutabréf sín í Z hf., verður vart annað talið en að áhætta hluthafa, þ.á.m. kæranda, hafi verið hverfandi hvað varðar kaup félagsins á hlutabréfum í Z hf. þann 9. mars 2004. Í úrskurði skattstjóra er því ekki haldið fram að hluthafar, þ.á.m. kærandi, hafi „hringlað“ með eignir X ehf. heldur er tilvísun umboðsmanns kæranda tekin úr umfjöllun skattstjóra um færslu eignarhluta í Z hf. yfir til kæranda. Hér er skattstjóri að vísa til kaupa kæranda á hlutafé í Z hf. af X ehf. annars vegar og kaupa X ehf. á eigin hlutafé af kæranda hins vegar. Er hér því ekki um „... algjört kunnáttuleysi ...“skattstjóra að ræða heldur einföldun skattstjóra á málavöxtum.

Gerð er sú varakrafa að „... söluréttur sem tryggir í heild 14.361.235 kr. hluti í félaginu verði metin til verðs í réttu hlutfalli við hlutafjáreign hvers hluthafa og skattlagður þannig að mati yfirskattanefndar þó ekki hærri en sem nemur 4.000.000 kr. hlutafjárframlagi kæranda.“ Í úrskurði skattstjóra eru hin skattskyldu hlunnindi, sem felast í veitingu á endurgjaldslausum sölurétti á hlutafé að nafnverði 216.414.286 kr. í Z hf., sem veittur var á grundvelli starfsambands kæranda. Slík hlunnindi geta ekki takmarkast við hlutafjárframlag kæranda til X ehf. Samkvæmt gögnum málsins var ekki veittur söluréttur vegna annarra kaupa á hlutafé í Z hf. en vegna hlutabréfakaupa X ehf. þann 9. mars 2004 eins og umboðsmaður heldur fram og slíkt kemur heldur ekki fram í tilvísuðum samþykktum Z hf. sem breytt var 11. mars 2004. Að framangreindu virtu krefst ríkisskattstjóri þess að varakröfu umboðsmanns kæranda verði hafnað.

Í þrautvarakröfu umboðsmanns kæranda er gerð sú krafa „ ... að skattlagning sé afmörkuð við verðmæti hlutabréfa í Z hf. þann 18. ágúst 2005...“ Hér á umboðsmaður kæranda líklega við 18. ágúst 2004. Byggir umboðsmaður kæranda þrautvarakröfu sína á því að kaup X ehf. á hlutabréfum í Z hf. án söluréttar hefðu getað leitt til þess að kærandi hefði tapað hlutafjárframlagi sínu ef hlutabréfaverð hefði lækkað. Önnur og síðari til komin viðskipti eða fjárfestingar X ehf., sbr. kaup 26. ágúst 2004, geta ekki komið til álita við mat á skattskyldum hlunnindum kæranda vegna endurgjaldslauss starfstengds söluréttar á hlutafé sem X ehf. keypti í Z hf. þann 9. mars 2004, óháð því hvaða áhætta fælist í slíkum viðskiptum fyrir kæranda.

Að öðru leyti vísar ríkisskattstjóri til röksemda í úrskurði skattstjóra.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. mars 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 17. maí 2010, hafa umboðsmenn kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Þar segir að aðili, sem kjósi að selja hlutabréf sín í tilteknu félagi, meti hagsmuni sína svo að hann sé betur settur með því að selja en að selja ekki. Í því sambandi kunni verulegir hagsmunir að búa að baki, t.d. varðandi fjármögnun og almenna skuldsetningu. Y ehf. kunni að hafa verið orðið of skuldsett vegna hinnar miklu fjárfestingar í hlutabréfum í Z hf. og megi vera að lánveitandi hafi krafist frekari trygginga eða óskað eftir því að áhætta af lánveitingu flyttist frá Y ehf. á annan aðila væri félagið komið í hámarks skuldsetningu miðað við reglur bankans. Ekkert verði þó fullyrt um þetta, enda málið óupplýst að þessu leyti. Rétt eins og seljandi þá hafi lánveitandi, sem sé með veð í tilteknum hlutabréfum, sjálfstæða hagsmuni af því að tryggja sölu umræddra eigna og færa áhættuna yfir á sterkari aðila. Stundum sé áhættan miðuð við efnahag skuldarans, en annars sé hún færð á eignina sem slíka, einkum þegar markaðsverð sé fyrir hendi. Mat á verðmæti eignarinnar fari svo eftir því hvaða réttindi séu tengd við hana, t.d. söluréttur, en þá sé ekki aðeins lagt mat á markaðsvirði bréfsins, heldur sé áhættan einnig lögð á gagnaðila söluréttarins. Að mati kæranda sé ljóst að það hafi verið Y ehf. og T-banki hf. sem höfðu hagsmuni af því að söluréttur yrði veittur því að án hans hefði X ehf. ekki átt þess kost að fjármagna kaupin og því engin kaup verið gerð. Umboðsmennirnir árétta að sölurétturinn hafi ekki tryggt aðra hagsmuni X ehf. en eigið fé. Hagsmunir Y ehf. hafi falist í því að selja hlutabréfin og hagsmunir T-banka hf. að fá lánið endurgreitt hvort sem hlutabréfin sjálf hrykkju til eða ekki. Hagsmunir X ehf. hafi fyrst og fremst falist í hækkun á verði undirliggjandi eigna, en sölurétturinn hafi vitanlega ekki tekið til þess. Af þessum sökum hafi verið talið að skattstjóri þyrfti að kanna þetta atriði frekar, enda með heimildir til þess, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003.

Umboðsmenn kæranda mótmæla því sérstaklega að ríkisskattstjóri skuli í kröfugerð sinni horfa fram hjá kaupum hinn 26. ágúst 2004 þegar litið sé til kaupanna hinn 9. mars 2004. Hér slíti ríkisskattstjóri fjárfestingar X ehf. úr samhengi er sé ekki í samræmi við skattframkvæmd, sbr. og dómaframkvæmd, um að líta beri heildstætt á málavexti. Spyrja megi hvers vegna félagið taki slíka áhættu ef umrædd fjárfesting hafi eingöngu verið liður í einhvers konar söluréttarkerfi vinnuveitanda hluthafanna. Þetta beri einmitt með sér að fjárfestingin hafi verið gerð í því skyni að ná áhrifum og völdum í félaginu á umbrotatímum í sögu þess og efnahagslífsins almennt. Ríkisskattstjóri hafi ekki hrundið þessum skýringum. Þá kemur fram að óumdeilt sé að mál kæranda sé eðlisólíkt skattamálum um söluréttarskipulag starfsmanna er hafi verið til umfjöllunar bæði hjá yfirskattanefnd og héraðsdómi. Skattstjóra sé þetta ljóst sem og ríkisskattstjóra sem vísi ekki til þessa máls í kröfugerð sinni. Áréttað er að skattstjóra beri að fara rétt með málavexti og staðreyndir enda þótt það henti ekki tilgangi hans um skattlagninguna.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 17. nóvember 2010, var hafnað beiðni umboðsmanna kæranda um munnlegan flutning máls þessa fyrir yfirskattanefnd, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Jafnframt var umboðsmönnunum gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn eða greinargerð í málinu er berast skyldi innan 20 daga frá dagsetningu bréfsins.

Með tölvupósti, dags. 23. nóvember 2010, tilkynntu umboðsmenn kæranda að þeir teldu ekki ástæðu til að koma að frekari sjónarmiðum og áréttuðu jafnframt allt sem þegar væri fram komið í málinu af hálfu kæranda.

V.

Ágreiningsefni máls þessa varðar þá ákvörðun skattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, að færa kæranda til tekna sem skattskyld launahlunnindi í lið 2.1 í skattframtali árið 2006 72.667.064 kr. og hækka tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2006 um þessa fjárhæð, jafnframt því að lækka tilfærða fjárhæð söluhagnaðar af hlutabréfum í reit 164 í skattframtalinu svo og stofn til fjármagnstekjuskatts um sömu fjárhæð. Samkvæmt greinargerð um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09), sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2006, nam hagnaður kæranda af sölu hlutabréfa í X ehf., er fór fram hinn 11. mars 2005, 83.703.464 kr. Með bréfi sínu, dags. 29. september 2008, boðaði skattstjóri kæranda að greind fjárhæð yrði færð honum til tekna sem skattskyld launahlunnindi og stofn til fjármagnstekjuskatts lækkaður að sama skapi. Að teknu tilliti til þess að enginn söluréttartrygging fylgdi tilgreindu láni til X ehf. frá T-banka hf., er tekið var í ágúst 2004 að fjárhæð 204.000.000 kr. vegna kaupa félagsins á hlutabréfum í Z hf., féllst skattstjóri á með hinum kærða úrskurði sínum um endurákvörðun að lækka boðaða tekjufærslu umrædds hagnaðar af sölu hlutabréfa í X ehf. sem skattskyldra launatekna sem næmi hlutfalli kæranda af umræddu láni. Eignarhluti kæranda í X ehf. væri 5,41% og því lækkaði fjárhæðin um 11.036.400 kr. eða í 72.667.064 kr.

Þörf er á að víkja að helstu málavöxtum í máli þessu, enda þykir framsetning skattstjóra á þeim ekki svo glögg og markviss sem skyldi. Samkvæmt gögnum málsins var X ehf. stofnaður hinn 25. febrúar 2004 og tók til starfa þann dag. Tilgangur félagsins var að vera eignarhaldsfélag um hlutabréf í Z hf. Heildarhlutafé nam 100.000.000 kr. samkvæmt félagssamþykktum. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2004 námu eigin hlutabréf 26.000.000 kr. og innborgað hlutafé því 74.000.000 kr. Var kærandi ásamt 16 öðrum starfsmönnum Z hf. eða dótturfélaga þess félags skráður fyrir hlutafé í X ehf. samtals að fjárhæð 74.000.000 kr. Nam hlutur kæranda 4.000.000 kr. sem og annarra hluthafa, að undanskildum hlut forstjóra félagsins sem nam 10.000.000 kr. Samkvæmt greindum ársreikningi námu eignarhlutir X ehf. í Z hf. 1.846.974.000 kr. pr. 31. desember 2004 og skammtímaskuldir við banka 1.838.459.000 kr. pr. 31. desember 2004. Fram kemur í skýringum með ársreikningnum að umræddir eignarhlutir eru færðir á upphaflegu kaupverði og jafnframt að á tímabilinu 25. febrúar til 31. desember 2004 hafi verið keypt hlutabréf að nafnvirði 255 milljónir króna að fjárhæð 1.847 milljónir króna. Um hlutabréfakaup þessi kemur nánar fram í gögnum málsins, sbr. fyrirliggjandi kvittanir, að keypt voru annars vegar hlutabréf í Z hf. af Y ehf., sbr. kvittun, dags. 12. mars 2004, að nafnvirði 144.418.200 kr. á genginu 7 eða fyrir 1.010.927.400 kr. og hins vegar af 13 aðilum, þar á meðal 12 hluthöfum í X ehf., sem seldu félaginu hlutabréf sín í Z hf., jafnframt hlutafjáráskrift sinni í því félagi, sbr. kvittanir, dags. 12. mars 2004, sem liggja fyrir í málinu, og nam nafnverð þessa selda hlutafjár í Z hf. 86.357.321 kr. og kaupverð á genginu 7 604.501.247 kr. Samtals nam nafnverð hinna keyptu hlutabréfa X ehf. í Z hf. á þessum tíma því 230.775.521 kr. og kaupverð 1.615.428.647 kr. Að auki keypti X ehf. hinn 18. ágúst 2004 hlutabréf í Z hf. að nafnvirði samtals 24.438.428 kr., sbr. fyrirliggjandi kvittanir S hf. Annars vegar var um að ræða kaup að nafnvirði 10.400.000 kr. á genginu 8,2 eða fyrir 85.280.000 kr. og hins vegar kaup að nafnvirði 14.038.428 kr. á genginu 8,3 eða fyrir samtals 116.518.952 kr. Samtals nam kaupverð þessara hluta því 201.798.952 kr. Samkvæmt framansögðu nam hlutafjáreign X ehf. í Z hf. samtals 255.213.949 kr. að nafnvirði í árslok 2004 og kaupverð þessa hlutafjár hafði numið samtals 1.817.227.599 kr. samkvæmt kvittunum. Tekið skal fram að samkvæmt yfirliti í bókhaldi X ehf. er lokastaða hlutabréfaeignar félagsins í Z hf. pr. 31. desember 2004 talin 1.846.974.376 kr. og er þá gert ráð fyrir kaupgengi 7,2 á hlutabréfum keyptum af Y ehf. og kaupgengi 8,23 og 8,34 á hlutabréfum keyptum fyrir milligöngu S hf. Í skatt- og reikningsskilum X ehf. er gengið út frá umræddu heildarverði sem stofnverði hlutabréfaeignarinnar.

Í tengslum við hlutabréfakaupin, sem fram fóru hinn 12. mars 2004, voru gerðir tveir samningar, dags. 11. mars 2004, á milli X ehf. annars vegar og Z hf. hins vegar um sölurétt X ehf. á hlutabréfum í Z hf. til þess félags á tilgreindu gengi og með nánari skilyrðum. Annar samningurinn ber yfirskriftina „Samningur um sölurétt á hlutum í Z hf. vegna þeirra hluta sem standa á bak við lánsfjármögnun T-banka hf.“ Þar kemur fram að X ehf. hafi verið stofnaður til þess að halda utan um hlutafé lykilstarfsmanna í Z hf., en allir hluthafarnir séu starfsmenn Z hf. og félagið lokað fyrir inngöngu annarra en starfsmanna. Aðilar séu sammála um að „æskilegt sé að lykilstarfsmenn taki þátt í starfsemi félagsins með eignaraðild til þess að skerpa á vilja starfsmanna til góðra verka“. Í samningnum er tekið fram að X ehf. hafi í dag keypt hlutabréf að nafnverði 216.414.286 kr. í Z hf. og samhliða kaupunum veiti Z hf. hér með X ehf. einhliða rétt til að selja sér fyrrgreind hlutabréf í Z hf. Sölugengi sé 7 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs. Tekið er fram að X ehf. geti nýtt sér söluréttinn í tvö skipti, 16. apríl 2007 og 15. apríl 2009, svo sem nánar greinir. Hinn samningurinn ber yfirskriftina „Samningur um sölurétt á hlutum í Z hf. vegna eiginfjármögnunar hluthafa í X ehf.“ Með samningi þessum veita Z ehf. X ehf. sölurétt á hlutabréfum í Z hf. að nafnvirði 14.361.235 kr., en er að öðru leyti hliðstæður hinum fyrrnefnda samningi.

Vegna umræddra hlutabréfakaupa X ehf. í Z hf. á árinu 2004, bæði í mars og ágúst það ár, veitti T-banki hf. X ehf. lán, sbr. fyrirliggjandi lánssamninga, dags. 9. mars og 26. ágúst 2004. Lánsfjárhæð samkvæmt fyrri samningnum nemur 1.522.512.565 kr. og tilgreint að um sé að ræða óverðtryggt lán til þriggja ára. Er tekið fram að ráðstafa skuli láninu til kaupa á 216.414.286 hlutum í Z hf. á genginu 7. Endurgreiða skuli lánið með einni greiðslu þann 16. apríl 2007, sbr. þó heimild til frestunar. Sem tryggingar fyrir láninu skuli sett að handveði í fyrsta lagi 216.414.286 hlutir í Z hf., í öðru lagi innstæða á tilgreindum reikningi og í þriðja lagi „réttindi skv. söluréttarsamningi við Z hf. á 216.414.286 hlutum í Z hf. á genginu 7 að frádregnum útgreiddum arði en að viðbættum áföllnum fjármagnskostnaði samkvæmt lánssamningi þessum“. Síðara lánið er að fjárhæð 204.000.000 kr. og tiltekið að um sé að ræða óverðtryggt lán til allt að fimm ára er greiðast skuli með einni greiðslu þann 15. apríl 2009. Til tryggingar greiðslu lánsins eru að handveði hlutabréf í Z hf. að nafnvirði 38.724.142 kr., auk innstæðu á tilgreindum reikningi. Söluréttar er ekki getið meðal trygginga.

Næst gerðist það að í mars 2005 seldi X ehf. alla hlutabréfaeign sína í Z hf. samtals að nafnverði 255.213.949 kr. á genginu 14,2. Annars vegar voru Z hf. seld hlutabréf að nafnverði 152.220.000 kr. fyrir 2.161.524.000 kr. og hins vegar voru hluthöfum í X ehf. seld hlutabréf í Z hf. að nafnverði 102.993.949 kr. fyrir 1.462.514.076 kr. Samtals nam söluverð því 3.624.038.076 kr. Miðað við greint stofnverð hlutabréfaeignarinnar 1.846.974.376 kr. nam hagnaður X ehf. 1.777.063.700 kr. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2005 voru hins vegar 1.770.579.000 kr. færðar til tekna sem hagnaður af sölu eignarhluta í Z hf. og hafði þá verið tekið tillit til söluþóknunar að fjárhæð 6.484.822 kr. Jafnframt fór fram uppgreiðsla lána við T-banka hf. Hinn 13. apríl 2005 ákvað hluthafafundur í X ehf. að kaupa eigin hlutabréf að nafnvirði 73.000.000 kr. af hluthöfum eða 98,65% af útistandandi hlutafé fyrir 1.621.514.076 kr., sbr. kaupsamning, dags. 13. apríl 2005, sem er meðal málsgagna. Á sama hluthafafundi var ákveðið að lækka hlutafé X ehf. um sömu fjárhæð eða úr 74.000.000 kr. í 1.000.000 kr., sbr. og í því sambandi beiðni lögmanna félagsins, dags. 30. júní 2005, til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um undanþágu frá innköllunarskyldu 36. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Samkvæmt greindum kaupsamningi nam hlutdeild kæranda í söluverði 87.649.410 kr. og nafnverð hins selda hlutafjár að hlut kæranda 3.945.946 kr. Í samræmi við þetta nam söluhagnaður kæranda 83.703.464 kr., sbr. uppgjör hans í yfirliti yfir kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09) sem fylgdi skattframtali hans árið 2006. Samkvæmt ársreikningi X ehf. fyrir árið 2006 var ekki neinni teljandi starfsemi fyrir að fara á vegum félagsins á því ári. Samkvæmt ársreikningi X ehf. fyrir árið 2007 lifnaði hins vegar yfir starfsemi félagsins á því ári og fjárfesti félagið í eignarhlutum í ýmsum félögum, í gegnum dótturfélag sitt, Þ ehf., og tók nýtt langtímalán að fjárhæð 1.500.000.000 kr.

Forsendur skattstjóra í hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, eru nokkuð á víð og dreif. Allt að einu verður ráðið að meginforsenda skattstjóra fyrir ákvörðun hans um hina umdeildu skattlagningu launahlunninda í skattskilum kæranda hafi byggst á því að umræddir söluréttarsamningar á milli Z hf. og X ehf. hafi verið gerðir á grundvelli starfssambands hluthafa í X ehf. við Z hf. eða dótturfélög þess félags og veittir í þágu þeirra í því skyni að takmarka áhættu hluthafanna af fjárfestingu sinni. Sé það raunar staðfest í söluréttarsamningunum sjálfum. Vegna starfssambandsins virtist sölurétturinn hafa verið veittur endurgjaldslaust. Þá lagði skattstjóri ennfremur upp úr því að umræddur söluréttur hefði verið forsenda fyrir því að T-banki hf. lánaði X ehf. fé til hlutabréfakaupanna í Z hf. og einnig sú staðreynd að allir hluthafar X ehf. hafi verið stjórnendur innan samstæðu Z hf. og því beint samband milli veitanda og viðtakenda söluréttarins. Skattstjóri rakti inntak söluréttar og tilgang hans sem liðar í hvatakerfi. Söluréttinn bæri að virða sem starfstengd hlunnindi kæranda og skipti ekki máli þótt sérstakt kaupréttarkerfi hefði verið í gangi innan samstæðunnar, enda hefði söluréttur ekki verið í boði fyrir aðra en starfsmenn. Skattstjóri kvaðst ekki telja neitt óeðlilegt við það að starfsmenn keyptu hlutabréf í því félagi sem þeir störfuðu hjá. Öðru máli gegndi þegar sautján einstaklingar í lykilstöðum tækju sig saman, keyptu hlutabréf í vinnuveitanda sínum og öðluðust söluréttartryggingu sem veitt væri á grundvelli starfssambands eins saman. Á þeim grundvelli, sem hér hefur verið rakinn í höfuðatriðum, ályktaði skattstjóri að kærandi hefði notið starfstengdra hlunninda vegna umrædds söluréttar sem veittur var í tengslum við kaup X ehf. á hlutabréfum í Z hf. Tók skattstjóri þá til við að leggja mat á fjárhagslegan ávinning kæranda af söluréttinum og þar með ákvarða tölulegan grundvöll skattlagningar vegna hinna meintu launahlunninda. Skattstjóri sló því föstu að fjárhagslegur ávinningur söluréttar væri „munur á söluréttargengi og markaðsgengi á þeim degi þegar hlutabréfin eru seld“ og ekki skipti máli „hvort markaðsgengi er hærra eða lægra en söluréttargengið og hvort verið sé að selja hlutabréfin á grundvelli söluréttarins eða áður en sölurétturinn er nýttur“, eins og þar sagði. Í þessu tilviki hefði X ehf. ákveðið að falla frá söluréttunum áður en þeir urðu virkir með því að markaðsgengi hlutabréfanna hefði verið tvöfalt hærra en söluréttargengið og X ehf. því hagnast verulega á sölu hlutabréfanna áður en söluréttirnir urðu virkir. Fyrir lægi í málinu hvert gangverð hlutabréfanna var, þ.e. 14,2, og ennfremur söluréttargengi, þ.e. 7. Skattstjóri hafnaði því að sérstakt hlunnindamat þyrfti að liggja fyrir. Að mati skattstjóra væri mismunurinn á verðmæti hlutabréfa, reiknaðs eftir umræddu tvenns konar gengi, sú fjárhæð sem skattleggja bæri sem tekjur á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. sem launatekjur, en ekki sem tekjur samkvæmt C-lið lagagreinar þessarar. Að auki vísaði skattstjóri um lagagrundvöll til B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri vísaði til tveggja dóma Hæstaréttar Íslands, annars vegar dóms uppkveðins hinn 20. maí 2002 í málinu nr. 26/2002 og hins vegar dóms uppkveðins hinn 9. október 2003 í málinu nr. 144/2003, er vörðuðu skattlagningu sem launatekjum á mismun á kaupverði hlutabréfa starfsmanna samkvæmt sérstöku starfsmannagengi og almennu útboðsgengi. Taldi skattstjóri dóma þessa styðja lagagrundvöllinn, sérstaklega með tilliti til þess að atvik þau, sem dómarnir vörðuðu, hefðu gerst áður en til skjalanna komu sérstök lagaákvæði, líkt og ætti við um söluréttarsamninga þar sem ekki væri til að dreifa sértækum reglum. Að auki vísaði skattstjóri til viðhorfa í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svo og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 117/2009. Með vísan til alls framanritaðs varð niðurstaða skattstjóra „að söluréttarsamningarnir sem um ræðir í þessu máli [eru] skattaleg hlunnindi veitt á grundvelli starfssambands og fela í sér fjárhagslegan ávinning og því ber að skattleggja ávinninginn á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. tsl., sbr. B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963“. Eins og drepið er á í niðurlagi II. kafla hér að framan rakti skattstjóri í lok úrskurðar síns í löngu máli atvik málsins, þar á meðal umrædda fjárfestingu í hlutabréfum í Z hf. og hinar ýmsu ráðstafanir í tengslum við hana, er hann taldi flókið ferli og krókaleiðir til að komast hjá réttmætri skattlagningu, og ályktaði að ekki hefði komið til þeirra samninga, sem í málinu greinir, nema vegna starfssambands aðila. Yrði því að telja að umrædd viðskipti væru þess eðlis að ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 eða grunnregla þess ákvæðis ætti við. Þá kom fram að sú fjárhæð, sem skattlögð væri sem skattskyld hlunnindi kæranda vegna umrædds söluréttarsamnings „afmarkast af hagnaði af sölu hlutabréfa [kæranda] í X ehf. til X ehf. þann 13. apríl 2005“. Tók skattstjóri fram að þegar X ehf. hefði keypt eigin hlutabréf af kæranda og öðrum hluthöfum í félaginu hefði félagið verið að „dreifa hagnaðinum til hluthafa vegna sölunnar á hlutabréfunum í Z hf.“ X ehf. hefði fallið frá söluréttunum, áður en þeir urðu virkir, er breytti engu um það að félagið hefði verið tryggt alveg fram á síðustu stundu vegna þeirrar tryggingar, þ.e. söluréttar, sem sprottið hefði af starfssambandi hluthafanna við Z hf.

Eins og fram er komið er þess krafist aðallega af hálfu umboðsmanna kæranda í málinu að hinn kærði úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, verði felldur úr gildi og álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2006 verði látin standa óbreytt í samræmi við skattframtal hans árið 2006. Vara- og þrautavarakrafa kæranda ganga út á það að tilgreindar fjárhæðir eða verðmæti verði skattlögð sem launahlunnindi svo sem nánar er lýst í III. kafla hér að framan. Aðalkrafan er byggð bæði á formlegum og efnislegum málsástæðum. Varðandi fyrra atriðið er því í fyrsta lagi borið við að endurákvörðunarheimild hafi ekki verið til staðar, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, sem eigi við í málinu, enda hafi þargreindur tveggja ára frestur verið runninn út þegar endurákvörðun fór fram hinn 25. júní 2009 vegna skattframtals árið 2006. Er vísað til þess að kærandi og X ehf. hafi gert fullnægjandi grein fyrir umræddum viðskiptum í skattframtölum sínum, auk þess sem skattstjóra hafi verið í lófa lagið að afla frekari upplýsinga í opinberum tilkynningum Kauphallar, sbr. viðhorf í H 1995:2328. Í öðru lagi er því borið við að skattstjóri hafi verið óskýr og hvarflandi í afstöðu sinni til þeirra atvika sem skattlagningin velti á, það svo að ekki sé fullnægt kröfum skatta- og stjórnsýsluréttar til rökstuðnings, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er á það bent að skattstjóri byggi jöfnum höndum á því að skattleggja beri kæranda vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa í Z hf. og að hin skattskyldu hlunnindi kæranda afmarkist af sölu hlutabréfa kæranda í X ehf. hinn 13. apríl 2005. Hið skattskylda atvik liggi þannig ekki fyrir með skýrum hætti. Þá verði ekki séð að skattstjóri hafi gert upp við sig „hvort virða eigi [X ehf.] að vettugi við skattlagningu eða ekki“, svo sem nánar greinir. Telja verði sérstakt að líta á söluhagnað af hlutabréfum í X ehf. sem launahlunnindi hjá Z hf. Skattstjóri haldi öllu fram í senn að skattleggja eigi hagnað af sölu hlutabréfa í Z hf., að afmarka eigi fjárhæðina við sölu hlutabréfa í X ehf. og að sölurétturinn sé í raun andlag skattlagningar, enda þótt frá honum hafi verið fallið og hann í raun verið í þágu T-banka hf. Þá er fundið að tilvísun skattstjóra til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 er sé reikul og ýmist vísað beint til ákvæðisins eða grunnreglu þess. Torveldi þetta vörn í málinu. Þá sé ályktun skattstjóra um ástæður þess að söluréttur var veittur lítt rökstudd og mótsagnakennd svo sem nánar segir. Þá er því haldið fram að skattstjóri hafi vanrækt að upplýsa málið með fullnægjandi hætti, m.a. til staðreynslu á aðdraganda og tilgangi með stofnun X ehf., sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og í stað þess þjarkað við umboðsmann kæranda um ýmis atvik. Einnig er því haldið fram að skattstjóri hafi í raun tekið endanlega afstöðu í málinu þegar í boðunarbréfi sínu, dags. 29. september 2008, þar sem hann taki ekki málefnalega afstöðu til andmæla. Með þessu hafi verið brotið gegn lögmæltum andmælarétti kæranda, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 13. gr stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Efnislegar málsástæður umboðsmanna kæranda fyrir aðalkröfu í málinu eru einkum á því byggðar að umræddur söluréttur, sem Z hf. veittu X ehf., og þá sér í lagi söluréttur samkvæmt samningi vegna 216.414.286 kr. að nafnverði, hafi fyrst og fremst verið tryggingaráðstöfun T-banka hf. vegna lánsins, auk frekari hagsmuna bankans. Af þessum meginþætti söluréttarins hafi hvorki X ehf. né kærandi haft hagsmuni, en öðru máli kunni að gegna varðandi sölurétt vegna 14.361.235 kr. að nafnverði til að tryggja eiginfjárframlag, sbr. varakröfu. Lögð er áhersla á tilganginn með stofnun X ehf. og fjárfestingarstarfsemi félagsins og jafnframt bent á að þátttaka kæranda og annarra hluthafa í X ehf. hafi verið án frumkvæðis Z hf. Vísað er til þess að sérstakt kaupréttarkerfi hafi gilt hjá Z hf. og kaup X ehf. á hlutabréfum í Z hf. hafi verið með allt öðrum hætti. Bent er á að sölurétturinn hafi ekki verið ekki veittur starfsmönnum Z hf. sem slíkum heldur X ehf. í því skyni að kaupa hlutabréf af Y ehf., ráðandi hluthafa í Z hf., og Z hf. engu ráðið um það hverjir voru hluthafar í X ehf. Sé ályktun skattstjóra um að sölurétturinn hafi „eingöngu“ verið veittur á grundvelli starfssambands ekki tæk. Þá fari skattstjóri rangt með þegar hann haldi því fram að kaup- og söluréttir eigi það sameigið að vera veittir á grundvelli starfssambands. Mótmælt er staðhæfingum skattstjóra um óvanaleg viðskipti og krókaleiðir í sniðgönguskyni. Þá er því mótmælt að úrskurður yfirskattanefndar nr. 117/2009 og dómur Hæstaréttar Íslands frá 6. nóvember 2008 í málinu nr. 54/2008 hafi fordæmisgildi í málinu.

Víkur þá að þeim lagagrundvelli sem skattstjóri byggði hina umdeildu ákvörðun sína á. Eins og fram er komið tiltók skattstjóri, sbr. hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 25. júní 2009, að hann skattlegði söluréttinn á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. B-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Að auki skaut skattstjóri 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 eða grunnreglu þess ákvæðis undir ákvörðun sína. Taldi skattstjóri að til greindra ráðstafana hefði ekki komið nema vegna tengsla aðila og þær miðað að því að komast hjá réttri skattlagningu. Skattstjóri rakti lagareglur um skattlagningu kaupréttar, sbr. lög nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, nú 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003, og lagði áherslu á sameiginleg einkenni kaup- og sölurétta þótt eðlisólíkir væru. Í skattalöggjöf væri ekki fyrir að fara sérstökum ákvæðum um skattlagningu sölurétta, en réttast þætti vegna samstöðu með kaupréttum að skattleggja sölurétti á grundvelli almennrar skattlagningarheimildar 7. gr. laganna, líkt og gert hefði verið í tilviki kaupréttar áður en sérstakar lagareglur um það efni hefðu komið til sögunnar.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi.

Í A-lið 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963 er fjallað um það hvað teljist til skattskyldra launa og eru í því sambandi nefnd dæmi um slíkar tekjur. Í 1. mgr. B-lið greinarinnar er tekið fram að ekki skipti máli í hverju laun eða endurgjald fyrir unnið verk er fólgið ef það verður metið til peninga. Til launatekna teljist því hvers konar hlunnindi, veitt í launaskyni, og önnur form fyrir greiðslu, svo sem fæði, húsnæði, ljós og hiti, bifreiðaafnot, einkennisbúningur og annar fatnaður, einnig fatnaðarplögg, þjónusta og önnur aðhlynning vinnufólks í sveitum, skepnufóðrun, engjatak, heimatekjur presta, greiðslur í vörum úr verslunum eða afurðum úr framleiðslufyrirtæki, og greiðsla í sérhverjum öðrum verðmætum eða eignum, t.d. hlutafjáreign í hlutafélagi, innstæða í félagi eða fyrirtæki, hlutdeild í skipi eða húseign o.s.frv. Í 2. mgr. B-liðarins er mælt svo fyrir að laun greidd í hlunnindum skuli talin til tekna eftir gangverði á hverjum stað og tíma.

Með fyrrgreindum lögum nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, voru tekin upp í hin síðarnefndu lög sérstök ákvæði um skattlagningu vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt svonefndum kauprétti, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 86/2000. Með 2. gr. umræddra laga var bætt við lög nr. 75/1981 tveimur nýjum greinum, sem urðu 8. gr. A og 8. gr. B, sbr. nú 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003. Í 8. gr. A kom fram að tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefði öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, sbr. þó 8. gr. B, skyldu ákveðnar eins og kveðið væri á um í greininni. Til skattskyldra tekna teldist mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur væri nýttur. Með gangverði væri átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði þegar kaupréttur væri nýttur. Ef hlutabréf í félagi væru ekki skráð í kauphöll skyldi miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags. Samkvæmt 8. gr. B laga nr. 75/1981 skyldu tekjur skv. 8. gr. A þó skattlagðar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. laganna að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Kom fram í 2. mgr. 8. gr. B að tekjur samkvæmt þeirri grein kæmu til skattlagningar þegar starfsmaður seldi hlutabréfin og teldust mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði bréfanna. Lög nr. 86/2000 öðluðust þegar gildi og komu til framkvæmda við álagningu á árinu 2001 vegna tekna og eigna á árinu 2000, sbr. 13. gr. laganna, og voru birt í Stjórnartíðindum 2. júní 2000.

Þess skal getið að til þess getur komið og talið heimilt að skattyfirvöld leggi á það sjálfstætt mat, hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra, og eru skattyfirvöld þá ekki bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Við mat þetta þurfa skattyfirvöld í vissum tilvikum að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmæltri skattlagningu, t.d. með málamyndagerningi, sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Í öðrum tilvikum kann að reyna beint á greiningu á efni tiltekins gernings, þannig að grafist er fyrir um hvert efni hans sé í raun, en heiti það, sem gerningnum er gefið, ræður ekki úrslitum ef það er annað en efnið gefur til kynna.

Eins og fram er komið er óumdeilt að greind ákvæði laga nr. 90/2003, sem fjalla um skattlagningu tekna af kauprétti, sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, eiga ekki við í tilviki kæranda, enda sé um sölurétt að ræða en ekki kauprétt. Í 19. tölul. b-liðar 2. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996, sbr. 2. gr. laga nr. 99/2000, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, var valréttarsamningur skilgreindur. Þar kom fram að valréttarsamningur væri afleiðusamningur sem veitti öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt en ekki skyldu til að kaupa (kaupréttur) eða selja (söluréttur) tiltekna eign (andlag samnings) á fyrir fram ákveðnu verði (valréttargengi) á tilteknu tímamarki eða innan tiltekins tíma. Sem endurgjald fyrir þennan rétt fengi hinn samningsaðilinn, útgefandinn, ákveðið gjald sem segði til um markaðsvirði valréttarins við upphaf samningstímans. Í iv. lið b-liðar 2. tölul. 2. gr. laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, var samhljóða ákvæði. Í 2. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 er valréttarsamninga getið í d-lið 2. tölul. 2. gr. laganna án þess þó að hliðstæð skilgreining og að framan getur sé tilgreind, en hana er þó að finna í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 108/2007. Rétt er að taka fram að í ákvæði 79. gr. a laga nr. 2/1995, um hlutafélög, sbr. 3. gr. laga nr. 89/2006, um breyting á þeim lögum, þar sem fjallað er um skyldu félagsstjórnar í hlutafélögum til þess að samþykkja starfskjarastefnu varðandi laun og aðrar greiðslur til æðstu stjórnenda og stjórnarmanna félagsins, er söluréttur að hlutabréfum nú talinn með ýmsum starfstengdum greiðslum sem tengdar eru hlutabréfum í félagi eða þróun verðs á hlutabréfum í félagi, sbr. og hliðstætt ákvæði í 54. gr. a laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sbr. 2. gr. laga nr. 93/2006, um breyting á þeim lögum.

Samkvæmt framansögðu er fyrir að fara almennri skilgreiningu á sölurétti í löggjöf um verðbréfaviðskipti. Þá er gert ráð fyrir því í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, sbr. lög nr. 2/1995 og lög nr. 138/1994, að söluréttur, tengdur hlutabréfum í viðkomandi félagi, geti verið þáttur í umbun til stjórnenda og stjórnarmanna, sbr. greind ákvæði um starfskjarastefnu. Engar sérstakar reglur eru hins vegar í skattalöggjöf um skattalega meðferð söluréttar. Verður því að taka undir það með skattstjóra að um ákvörðun tekna manns af slíkum sölurétti, sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, fari því eftir almennum reglum laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna og 2. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, sé slíkum launahlunnindum á annað borð til að dreifa. Tilvísun skattstjóra til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 eða grunnreglu þess ákvæðis verður að skilja svo að tilgangurinn með ráðstöfunum þeim, sem í málinu greinir, hafi verið sá að klæða starfstengd hlunnindi kæranda og félaga hans í búning fjárfestingarstarfsemi í því skyni að komast hjá skattlagningu hlunnindanna sem launatekna og greiða í þess stað fjármagnstekjuskatt.

Víkur þá að úrlausn þeirrar málsástæðu umboðsmanna kæranda fyrir aðalkröfu að endurákvörðunarheimild hafi ekki verið til staðar, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, enda hafi þargreindur tveggja ára frestur verið runninn út þegar endurákvörðun fór fram hinn 25. júní 2009 vegna skattframtals árið 2006. Eins og fram er komið er í þessu efni vísað til þess að kærandi og X ehf. hafi gert fullnægjandi grein fyrir umræddum viðskiptum í skattframtölum sínum. Þar að auki hafi skattstjóra verið í lófa lagið að afla frekari upplýsinga í opinberum tilkynningum Kauphallar, sbr. viðhorf í H 1995:2328.

Samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 er eigi heimilt að endurákvarða skattaðila skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág, enda hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á. Í athugasemdum við 2. mgr. 97. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að í þessu laganýmæli felist „að frestur til endurupptöku er styttur ef ástæðan fyrir henni er ófullnægjandi skoðun skattstjóra á framtali og fylgigögnum þess en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila“. Er og tekið fram að málsgreinin eigi aðeins við „ef upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið“. Um skýringu á þessu lagaákvæði hafa gengið nokkrir dómar Hæstaréttar Íslands. Samkvæmt þeirri dómaframkvæmd, sbr. m.a. H 1996:470, ber að líta til orðalags 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 og meta hvort fyrir hafi legið nægjanlegar upplýsingar í framtali eða fylgigögnum þess sem rétt álagning varð byggð á. Jafnframt ber samkvæmt þessari dómaframkvæmd að skýra ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 með hliðsjón af leiðréttingarheimildum skattstjóra í 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði getur skattstjóri fyrir álagningu leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði skattframtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 er að finna aðalregluna um tímatakmörk endurákvörðunar. Þar segir að heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 nái til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.

Eins og fram er komið, sbr. II. kafla hér að framan, fylgdi skattframtali kæranda árið 2006 yfirlit yfir kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09). Í yfirlitinu var m.a. gerð grein fyrir sölu kæranda á hlutabréfum sínum í X ehf. til félagsins sjálfs, eins og nánari grein hefur verið gerð fyrir. Fram er komið að hin umdeilda ákvörðun skattstjóra laut að því að skattleggja sem starfstengd hlunnindi hagnað vegna sölu X ehf. á hlutabréfunum í Z hf. sem skyldi þó afmarkast af fjárhagslegum ávinningi kæranda af sölu hlutabréfanna í X ehf., en með þeirri ráðstöfun væri verið að veita hagnaðinum til hluthafa í X ehf., þar á meðal kæranda. Grundvöllur þessarar ákvörðunar var sú staðreynd að Z hf. veittu X ehf. sölurétt á hlutabréfum er það félag keypti í Z hf. Í skattframtali kæranda árið 2006 eða fylgigögnum þess var ekkert að finna um þessar ráðstafanir og gögn að baki þeim. Ljóst er að afla varð margvíslegra gagna og upplýsinga áður en unnt var að taka afstöðu til þess hvort kærandi og aðrir hluthafar í X ehf. hefðu notið starfstengdra hlunninda í tengslum við viðskipti X ehf. með hlutabréf í Z hf., sbr. 1. mgr. 94. gr. og 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Raunin varð enda sú að skattstjóri, í kjölfar athugunar á skattskilum X ehf., sbr. bréf skattstjóra, dags. 8. nóvember 2007, og að fengnum umbeðnum gögnum, reit kæranda og öðrum hluthöfum í X ehf. bréf, dags. 6. júní 2008, varðandi viðskipti með hlutabréf í X ehf. og Z hf. sem svarað var með sameiginlegu bréfi félagsins og kæranda og annarra hluthafa, dags. 30. júlí 2008. Margvísleg gögn fylgdu því bréfi, þar á meðal söluréttarsamningar og gögn varðandi kauprétt stjórnenda í Z hf. Ennfremur reit skattstjóri Z hf. bréf, dags. 20. maí 2008, sem svarað var af hálfu félagsins með bréfi, dags. 22. ágúst 2008. Verður að telja að óhjákvæmilegt hafi verið að upplýsa málið og afla gagna um margháttuð atriði áður en ákvörðun var tekin um skattlagningu meintra launahlunninda hjá kæranda vegna söluréttar og afla sjónarmiða kæranda og upplýsinga frá honum, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafði hvorki skattframtal kæranda árið 2006 né fylgigögn þess nægar upplýsingar að geyma um þessi efni. Þá verður ekki talið að neinu máli geti skipt í þessu sambandi þótt upplýsingar væri að hafa í fréttatilkynningum Kauphallar Íslands og öðrum slíkum gögnum, eins og borið er við af hálfu umboðsmanna kæranda. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður ekki talið að fyrir skattstjóra hafi legið í skattframtali kæranda eða fylgigögnum þess óyggjandi upplýsingar í skilningi 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 þannig að honum hafi verið kleift að ráðast í hinar kærðu breytingar á grundvelli leiðréttingarheimildar þess ákvæðis. Verður ekki talið að dómur Hæstaréttar Íslands frá 19. október 1995 (H 1995:2328), sem umboðsmenn kæranda vísa til, hafi neina þýðingu fyrir úrlausn málsins. Dómur þessi varðaði staðreynslu skattyfirvalda á því hvort lögmælt tilkynning til hlutafélagaskrár um útgáfu jöfnunarhlutabréfa í hlutafélagi hefði farið fram og atvik því engan veginn sambærileg. Að þessu athuguðu og þar sem gætt var 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 við umrædda endurákvörðun verður aðalkrafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að skattstjóra hafi brostið endurákvörðunarheimild. Víkur þá að þeirri málsástæðu umboðsmanna kæranda fyrir aðalkröfu sem lýtur að meintum annmörkum á meðferð málsins, þ.e. málið sé ekki nægjanlega upplýst af hendi skattstjóra um tilgreind atriði, rökstuðningi skattstjóra sé verulega áfátt og að andmælaréttar kæranda hafi ekki verið gætt. Í þessu sambandi er þörf á að fjalla um forsendur skattstjóra fyrir hinni umdeildu skattlagningu, þar á meðal lagaforsendur.

Áður en viðbárur umboðsmanna kæranda varðandi meinta annmarka á málsmeðferð skattstjóra verða teknar til úrlausnar þykir rétt að víkja nánar að sölurétti sem er þungamiðja máls þessa. Fram er komið, sbr. tilvitnaða löggjöf um verðbréfaviðskipti sem rakin er hér að framan, að samningur um sölurétt er valréttarsamningur, skilgreindur sem afleiðusamningur sem veitir öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt til að selja tiltekna eign á fyrir fram ákveðnu verði á tilteknu tímamarki eða innan tiltekins tíma. Skilgreining kaupréttar er hliðstæð, að breyttu breytanda, miðað við eðli slíks réttar, sbr. að framan. Skattstjóri hefur ekki byggt á því að neinu leyti að í tilviki kæranda hafi í raun verið um að ræða nýtingu kaupréttar. Þvert á móti tekur skattstjóri fram í úrskurði sínum að kaupréttar- og söluréttarsamningar séu ólíkir í eðli sínu, en hafi sameiginleg einkenni og eigi m.a. það sameiginlegt að vera veittir á grundvelli starfssambands. Samkvæmt þessu verður að telja að í málinu reyni á skattalega meðferð söluréttar sem slíks. Í þessu sambandi verður að gera athugasemd við tilvísun skattstjóra til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 117/2009, sem kveðinn var upp hinn 27. maí 2009, er skattstjóri telur hafa fordæmisgildi í máli þessu, enda hafi þar verið „tekið á sölurétti sem kærandi [í því máli] fékk á grundvelli starfssambands“. Í forsendum úrskurðarins kemur hins vegar fram að byggt var á því að þar greindar ráðstafanir fælu í sér nýtingu á kauprétti svo sem nánar var rakið. Hið sama var uppi á teningnum í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, sem kveðinn var upp hinn 22. mars 2010, sbr. mál nr. E-8656-2009: Þórður Már Jóhannesson gegn íslenska ríkinu. Sama er að segja um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í dómi um skylt sakarefni sem kveðinn var upp hinn 1. nóvember 2010 í málinu nr. E-4843/2010: Bjarki H. Diego gegn íslenska ríkinu. Samkvæmt þessu verður ekki talið að umræddur úrskurður og dómar hafi þýðingu fyrir úrlausn máls þessa.

Eins og fyrr greinir verður að taka undir það með skattstjóra að um ákvörðun starfstengdra hlunninda manns, sem fólgin eru í sölurétti, sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, fari eftir almennum reglum laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna og 2. mgr. B-liðar 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963, enda sé þá slíkum launahlunnindum á annað borð fyrir að fara. Þótt þannig sé til staðar lagagrundvöllur til skattlagningar á launahlunnindum, sem talin eru felast í sölurétti, er engu að síður ljóst að vandkvæðum getur verið bundið, vegna skorts á sértækum lagareglum, að ákvarða meint launahlunnindi vegna söluréttar í einstökum tilfellum. Hér að framan er getið reglna um skattalega meðferð kaupréttar sem lögleiddar voru með 2. gr. laga nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. nú 9. og 10. gr. laga nr. 90/2003. Í þessu sambandi skal bent á að í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 86/2000, kemur fram að lagt sé til að tekin verði í lög nr. 75/1981 sérstök ákvæði um kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti „og þannig tekin af öll tvímæli um skattskyldu þessara tekna“, eins og þar segir. Þegar þetta er virt og ennfremur horft til þess hvernig skattlagningu starfstengds söluréttar er háttað í ýmsum ríkjum samkvæmt reglum í þeim, þar sem m.a. er algengt að söluréttur sé skattlagður við veitingu hans, miðað við markaðsverð söluréttarins á því tímamarki, er ljóst að álitamál getur verið hvernig fara skuli með sölurétt hérlendis, miðað við fyrrgreindar lagalegar aðstæður hér á landi.

Eins og áður greinir keypti X ehf. hinn 12. mars 2004 hlutabréf í Z hf. samtals að nafnverði 230.775.521 kr. annars vegar af Y ehf. að nafnverði 144.418.200 kr. og hins vegar af 13 aðilum, þar á meðal 12 hluthöfum í X ehf., að nafnverði 86.357.321 kr. Í tengslum við hlutafjárkaup þessi voru umræddir samningar um sölurétt, dags. 11. mars 2004, gerðir á milli X ehf. og Z hf. Varðaði annar samningurinn sölurétt á því hlutafé samtals að nafnverði 216.414.286 kr., sem stóð á bak við lánsfjármögnun T-banka hf., en hinn samningurinn sölurétt á því hlutafé samtals að nafnverði 14.361.235 kr. sem var vegna eigin fjármögnunar hluthafa í X ehf. Samtals tók sölurétturinn því til hlutafjár að nafnverði 230.775.521 kr. eða alls þess hlutafjár í Z hf. sem X ehf. keypti hinn 12. mars 2004. Fram er komið að viðbótarkaupum á hlutafé í Z hf. að nafnverði 24.438.428 kr. fylgdi ekki söluréttur. Út á hlutafjárkaupin hinn 12. mars 2004, að því er tók til hlutafjár að nafnverði 216.414.286 kr., veitti T-banki hf. X ehf. lán að fjárhæð 1.522.512.565 kr., meðal annars gegn tryggingu í söluréttinum, auk þess sem bankinn veitti félaginu lán að fjárhæð 204.000.000 kr. vegna hlutafjárkaupanna í ágústmánuði 2004 án tryggingar í sölurétti. Skattstjóri taldi að umræddir söluréttarsamningar fælu í sér starfstengd hlunnindi hluthafa X ehf., er allir væru starfsmenn Z hf. eða dótturfélaga þess, er fælu í sér fjárhagslegan ávinning. Því bæri að skattleggja ávinninginn á umræddum lagagrundvelli. Í málinu er deilt um ýmis atriði varðandi aðdraganda að þeim ráðstöfunum sem í málinu greinir, þar á meðal frumkvæði og aðkomu að þeirri fjárfestingu í hlutabréfum í Z hf. sem fram fór á vegum X ehf. Þykir ekki ástæða til að fjölyrða um þetta. Tekið skal þó fram að ekki er ástæða til að draga í efa þær skýringar kæranda að með stofnun X ehf. hafi hópur stjórnenda Z hf. tekið sig saman í því skyni að ná yfirráðum eða a.m.k. umtalsverðum áhrifum í félaginu og að því leyti til verið í stöðu fjárfesta. Hvað sem því líður þykir deginum ljósara að sá söluréttur, sem Z hf. veittu X ehf., hefði ekki komið til nema vegna starfssambands hluthafa X ehf. við Z hf. og breytir engu um það þótt tryggingaráðstöfun söluréttarins hafi ráðið úrslitum um það lán sem T-banki hf. veitti sem engin ástæða er til að vefengja eða sölurétturinn að öðru leyti verið forsenda þeirra ráðstafana og viðskipta sem í málinu greinir, sbr. m.a. viðbárur um hagsmuni Y ehf.

Þrátt fyrir vöntun á sérstökum réttarreglum um skattlagningu starfstengds söluréttar orðar skattstjóri slíka reglu í úrskurði sínum með svofelldum hætti: „Fjárhagslegur ávinningur söluréttarins er munur á söluréttargengi og markaðsgengi á þeim degi þegar hlutabréfin eru seld. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort markaðsgengi er hærra eða lægra en söluréttargengið og hvort verið sé að selja hlutabréfin á grundvelli söluréttarins eða áður en sölurétturinn er nýttur. Í öllu falli getur starfsmaðurinn hvenær sem er gengið út úr viðskiptunum áður en sölurétturinn verður virkur án þess að verða fyrir fjárhagslegum skaða.“ Þá kemur fram af hálfu skattstjóra að fyrir liggi bæði gangverð hlutabréfanna þegar viðskiptin fóru fram, þ.e. gengið 14,2 við sölu X ehf. á hlutabréfunum, og söluréttargengið, þ.e. 7, sem skráð væri í söluréttarsamningunum. Því væri „mismunurinn á söluréttargengi og gangverði bréfanna“ tekjur sem skattleggja bæri samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en ekki samkvæmt C-lið laga þessara. Á öðrum stað í úrskurði skattstjóra kemur fram að sem skattskyld hlunnindi beri að skattleggja „hagnað vegna sölu á hlutabréfum í Z hf.“. Ennfremur kemur fram í úrskurðinum að sú fjárhæð, sem skattstjóri skattleggi sem skattskyld hlunnindi kæranda vegna umrædds söluréttarsamnings „afmarkast af hagnaði af sölu hlutabréfa [kæranda] í X ehf. til X ehf. þann 13. apríl 2005“ með þeim rökum að með því móti hefði félagið verið að „dreifa hagnaðinum til hluthafa vegna sölunnar á hlutabréfunum í Z hf.“ Í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, dags. 12. mars 2010, er ekkert vikið að þessum útfærslum skattstjóra svo sem telja verður að ærið tilefni hafi verið til.

Eins og fram er komið seldi X ehf. alla hlutafjáreign sína í Z hf. samtals að nafnverði 255.213.949 kr. í marsmánuði 2005 fyrir 3.624.038.076 kr. og gerði upp söluhagnað vegna viðskiptanna er nam 1.770.579.000 kr. samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2005 svo sem nánar greinir hér að framan. Söluréttur fylgdi hlutafé samtals að nafnvirði 230.775.521 kr. Miðað við forsendur skattstjóra og framangreinda reglu, sem hann taldi eiga við, verður að ætla að rökrétt hefði verið að reikna meint skattskyld launahlunnindi kæranda miðað við hlutdeild hans (eignarhlutdeild í X ehf.) í þeim söluhagnaði, reiknuðum sem mismun á greindu söluréttargengi (7,0) og markaðsgengi (14,2), sem svaraði til hlutfalls þess hlutafjár, sem söluréttur fylgdi, af heildarhlutafjáreigninni er seld var. Ekki er ljóst hvort skattstjóri hefur haft slíka uppgjörsreglu í huga eða horft til uppgjörs söluhagnaðar samkvæmt skatt- og reikningsskilum X ehf., sbr. framangreinda tilvísun skattstjóra til skattlagningar hagnaðar af sölu hlutabréfanna sem launahlunninda, enda greip hann til allt annarrar uppgjörsaðferðar. Fólst hún í því að skattstjóri skattlagði sem launahlunnindi hjá kæranda vegna sölu X ehf. á hlutabréfunum í Z hf. hagnað kæranda vegna sölu hans á hlutabréfunum í X ehf. hinn 13. apríl 2005 sem tilgreindur var í yfirliti yfir kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09), að teknu tilliti til leiðréttingar með hinum kærða úrskurði þar sem boðuð fjárhæð er lækkuð sem næmi „hlutfalli [kæranda]“ af láni T-banka hf. að fjárhæð 204.000.000 kr. til X ehf. sem veitt var í ágúst 2004 til hlutafjárkaupa í Z hf., enda hefði engin sölutrygging verið fyrir því láni. Enda þótt einsýnt sé að uppsafnaður hagnaður vegna sölu X ehf. á hlutabréfunum í Z hf. hafi skilað sér að verulegu leyti til hluthafa X ehf., þar á meðal kæranda, með kaupum X ehf. á eigin hlutafé, verður ekki séð að neitt rökrænt samhengi sé á milli afmörkunar skattstjóra á fjárhæð hinna meintu launahlunninda og forsendna skattstjóra sem fyrr getur. Sama er að segja um greinda leiðréttingu skattstjóra til lækkunar vegna þess hluta hins selda hlutafjár sem ekki naut söluréttar þar sem tekið var mið af fjárhæð hins seinna láns T-banka ehf. til X ehf. Samkvæmt þessu voru verulegir annmarkar á ákvörðun skattstjóra á fjárhæð hinna meintu skattskyldu launahlunninda kæranda vegna söluréttar og ekkert samhengi milli aðferðar skattstjóra og þeirrar reglu sem hann taldi gilda í þessum efnum og kvaðst byggja á. Þá verður að finna að því að skattstjóri skuli ekki hafa tekið afstöðu til skattalegrar meðferðar X ehf. vegna umræddra viðskipta, sbr. athugasemdir í andmælabréfi, dags. 31. október 2008, en hliðstæðar athugasemdir eru í kæru til yfirskattanefndar. Þar kemur m.a. fram að afstaða skattstjóra til stöðu X ehf. vegna umræddra viðskipta sé óljós og svo virðist sem hvorttveggja sé gert, að horfa fram hjá félaginu og skattleggja það vegna viðskiptanna. Að þessu leyti var annmarki á rökstuðningi skattstjóra, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tekið skal fram varðandi lagaforsendur að þótt fallast megi á að veiting söluréttar til starfsmanns geti falið í sér skattskyld hlunnindi, sbr. að framan, verður naumast séð, miðað við núverandi lagaaðstöðu, að skattgilding hlunninda af þessu tagi geti komið til álita nema við veitingu söluréttar eða þegar nýting hans leiðir til að starfsmanni hlotnast verðmæti sem hann ella hefði ekki fengið. Hvorugu þessu er til að dreifa í tilviki kæranda, enda fór engin skattlagning fram við veitingu söluréttar og hin sölutryggðu hlutabréf voru seld við hærra verði en nam söluréttargengi. Að svo vöxnu máli verður ekki talið að lagaforsendur hafi verið fyrir hinni kærðu skattlagningu.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er aðalkrafa kæranda tekin til greina.

Umboðsmenn kæranda hafa gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með hliðsjón af framlögðum um kostnað kæranda af málinu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 150.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkrafa kæranda í máli þessu er tekin til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 150.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja