Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag vegna síðbúinna framtalsskila
Úrskurður nr. 248/2010
Gjaldár 2009
Lög nr. 90/2003, 108. gr. 1. og 3. mgr.
Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila, en fyrir lá að veikindi og síðar andlát sérkunnáttumanns, sem hafði með höndum gerð og skil skattframtals kæranda, höfðu valdið þeim töfum sem urðu á framtalsskilum kæranda.
I.
Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2009. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2009 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að viðbættu álagi samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 2009 hinn 23. nóvember 2009. Með kæruúrskurði, dags. 19. janúar 2010, tók ríkisskattstjóri skattframtalið til afgreiðslu sem skattkæru samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 136/2009, um breyting á lögum nr. 90/2003 og fleiri lögum
Í kæruúrskurði sínum féllst ríkisskattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda árið 2009 óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009 í stað áætlaðra skattstofna, en að viðbættu 15% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri tók fram að ekki hefði verið sýnt fram á að 3. mgr. lagagreinarinnar ætti við í tilviki kæranda og framtalsskilin væru það síðbúin að ekki stæðu efni til annars en að beita álagi. Til stuðnings ákvörðun sinni um álagsbeitingu vísaði ríkisskattstjóri jafnframt til þess að skattframtölum kæranda árin 2007 og 2008 hefði verið skilað það seint að þurft hefði að áætla skattstofna. Ríkisskattstjóri tók fram að tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2009 yrði 4.288.990 kr. að meðtöldu álagi að fjárhæð 559.433 kr.
II.
Með kæru, dags. 18. febrúar 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. janúar 2010, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að álag það sem ríkisskattstjóri bætti við skattstofn kæranda gjaldárið 2009 verði fellt niður. Vísar umboðsmaðurinn til 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, enda verði kæranda ekki kennt um að skattframtalinu var ekki skilað á réttum tíma. Umboðsmaðurinn gerir þá grein fyrir málavöxtum að af hálfu kæranda, sem er einkahlutafélag, hafi bókhaldi félagsins verið skilað í tæka tíð til þess sérkunnáttumanns sem annast hafi gerð og skil skattframtals kæranda. Sérkunnáttumaðurinn hafi strítt við erfið veikindi og andast hinn 4. ágúst 2009. Fyrirsvarsmanni kæranda hafi ekki verið kunnugt um þessar aðstæður fyrr en við fréttir af andlátinu. Af hálfu dánarbús sérkunnáttumannsins hafi verið hlutast til um að annar tilgreindur sérkunnáttumaður tæki við óloknum málum hins látna og lyki skattframtalsgerð, enda þótt sá maður hafi verið störfum hlaðinn. Kveðst umboðsmaðurinn hafa haft af því spurnir að fengist hafi „óformlega“ aukinn skilafrestur. Samkvæmt framangreindu hafi óviðráðanleg atvik valdið því að skattframtali kæranda árið 2009 var ekki skilað til skattstjóra innan framtalsfrests og sé augljóslega um „force majeure“ tilvik að tefla. Skilyrðum framangreindrar 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 sé því fullnægt til að fella megi niður álag. Tekur umboðsmaðurinn fram að lokum að það yrði frekar sorglegt ef kærandi þyrfti að krefjast bóta úr dánarbúi hins látna sérkunnáttumanns.
III.
Með bréfi, dags. 16. apríl 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu ríkisskattstjóra með vísan til forsendna, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. apríl 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins.
Með bréfi, dags. 14. maí 2010, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Þar kemur fram staðfesting starfsmanns á þeirri endurskoðunarstofu, þar sem hinn látni sérkunnáttumaður starfaði, að atvik voru með þeim hætti sem lýst er í kæru til yfirskattanefndar.
IV.
Í 1. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að skattstjóri, nú ríkisskattstjóri, sbr. 32. gr. laga nr. 136/2009, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum og öðrum lögum, megi bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests. Berist framtal, sem álagning verði byggð á, eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu skattstjóra sé lokið, megi þó aðeins bæta 0,5% álagi á skattstofna fyrir hvern dag sem skil hafi dregist fram yfir frestinn, þó ekki hærra álagi en 10%, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 108. gr. laganna. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er boðið að fella skuli niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.
Óumdeilt er að skattframtal kæranda árið 2009 barst skattstjóra ekki fyrr en hinn 23. nóvember 2009. Var almennri álagningu á lögaðila gjaldárið 2008 þá lokið, sbr. auglýsingu, dags. 30. október 2009, um álagningu opinberra gjalda á lögaðila gjaldárið 2009. Kærufresti skyldi ljúka hinn 30. nóvember 2009 og barst skattframtalið því í kærufresti til skattstjóra. Ríkisskattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og lagði það óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 2009, að viðbættu greindu álagi, sbr. kæruúrskurð embættisins, dags. 19. janúar 2010. Samkvæmt langri skatt- og úrskurðaframkvæmd varðandi álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila hefur skipt máli hvort um ítrekuð síðbúin framtalsskil er að ræða. Ríkisskattstjóri taldi ekki efni til annars en beita heimildarákvæði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 í tilviki kæranda, enda hefði ekki verið sýnt fram á að ákvæði 3. mgr. lagagreinar þessarar ætti við þannig að fella bæri álag niður. Þá rökstuddi ríkisskattstjóri álagsbeitinguna með vísan til síðbúinna framtalsskila kæranda árin 2007 og 2008, sbr. fyrrgreinda skatt- og úrskurðaframkvæmd. Að þessu leyti var rökstuðningur ríkisskattstjóra í samræmi við greinda skatt- og úrskurðaframkvæmd. Fram er komið að veikindi og síðar andlát þess sérkunnáttumanns, sem hafði með höndum gerð og skil skattframtals kæranda, hafi valdið þeim töfum sem urðu á framtalsskilum kæranda árið 2009 svo sem nánar er lýst. Almennt er litið svo á samkvæmt úrskurðaframkvæmd að framteljendur geti ekki losnað undan ábyrgð sinni á því að skattframtal berist skattstjóra á réttum tíma með því að fela öðrum gerð þess og skil. Með vísan til skýringa kæranda í kæru á ástæðum þess að framtalsskilin drógust þykja allt að einu ekki efni til annars en að fallast á kröfu kæranda og fella hið kærða álag niður, sbr. m.a. til hliðsjónar úrskurð ríkisskattanefndar nr. 830/1991 sem birtur er á bls. 442 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna uppkveðinna úrskurða á árunum 1990, 1991 og 1992.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.