Úrskurður yfirskattanefndar
- Útvarpsgjald
Úrskurður nr. 100/2010
Gjaldár 2009
Lög nr. 6/2007, 11. gr. 1. mgr. 1. tölul.
Kærendum var ákvarðað gjald vegna Ríkisútvarpsins ohf. (útvarpsgjald) við álagningu opinberra gjalda, enda áttu lögmæltar undanþágur frá gjaldskyldu ekki við í tilviki þeirra.
I.
Með kæru, dags. 21. október 2009, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 29. september 2009, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2009. Er kæruefnið álagning sérstaks gjalds (útvarpsgjalds) samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum, á kærendur umrætt gjaldár. Í kærunni kemur fram að kærendur séu ósáttir við að þeim sé gert að greiða sérstakt gjald að fjárhæð 17.200 kr. vegna Ríkisútvarpsins ohf. Taka kærendur fram að þeir eigi hvorki sjónvarp né útvarp og fylgist einungis með fréttum Stöðvar 2 í fartölvu.
II.
Með bréfi, dags. 18. desember 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Kærandi, A, kveðst í kröfu ekki vera tilbúinn til að greiða kr. 17.700 árlega vegna RUV. Þeir eigi hvorki sjónvarp né útvarp og horfi aðallega á fréttir Stöðvar 2 í fartölvu.
Ákvæði um tekjustofn Ríkisútvarpsins er að finna í 11. grein laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf. Fram kemur í 1. mgr. 11. gr. að tekjur Ríkisútvarpsins ohf. séu m.a. samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggi á samhliða álagningu opinberra gjalda í samræmi við 93. gr. laga nr. 90/2003, og gjaldið renni í ríkissjóð. Gjaldskyldan hvílir á þeim einstaklingum sem eru skattskyldir samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003. Í lokamálslið 1. liðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007 er að finna undanþáguákvæði frá greiðsluskyldu. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða fá það gjald fellt niður samkvæmt 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Í lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., eru ekki aðrar heimildir til niðurfellingar gjaldsins.
Samkvæmt þjóðskrá eru kærendur með lögheimili á Íslandi og eru skattskyldir samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kærendur falla ekki undir undanþáguákvæði laga nr. 6/2007, þar sem þeir skulu samkvæmt álagningu greiða sérstakt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. desember 2009, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.
Með ódagsettu bréfi, sem barst yfirskattanefnd 15. janúar 2010, hafa kærendur gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram að kærendur telji að í lögum nr. 6/2007 ætti að vera undanþága frá greiðslu gjalds í tilviki þeirra sem hvorki ættu sjónvarp né útvarp. Sé um að ræða mannréttindabrot af hálfu stjórnvalda gagnvart varnarlausum einstaklingum. Krefjist kærendur þess að umræddur nefskattur vegna ársins 2009 verði endurgreiddur þeim.
III.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., eins og ákvæði þetta hljóðaði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2009, teljast til tekna Ríkisútvarpsins ohf. tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hvílir gjaldskylda á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 17.200 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, eins og ákvæðið hljóðaði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2009, teljast til tekna Framkvæmdasjóðs aldraðra tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 2. mgr. lagagreinar þessarar kemur fram að undanþegin gjaldinu séu börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn undir tilgreindum mörkum sem taka árlegum breytingum samkvæmt því sem nánar greinir í ákvæðinu, en á tekjuárinu 2008 nam sú fjárhæð 1.143.362 kr. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þó skipta sameiginlegum fjármagnstekjum samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin. Þá skal skattstjóri fella þetta gjald niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi, A, hafi flutt hingað til lands ... á árinu 2001 og fyrir liggur að hann bar ótakmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2009 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Kærandi, B, mun hins vegar hafa flutt hingað til lands á árinu 2008. Með hinum kærða úrskurði hefur skattstjóri miðað við að B bæri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi frá og með 16. mars 2008, sbr. fyrrgreind ákvæði. Við ákvörðun opinberra gjalda B hefur skattstjóri farið eftir 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fjallað er um tekjuskatt manna sem heimilisfastir eru hér á landi hluta úr ári, og lagt til grundvallar útreikningi sínum að dvalartími hans hér á landi á árinu 2008 hafi verið 291 dagur.
Samkvæmt skattframtali kærenda árið 2009 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda, A, 2.849.620 kr. og tekjuskattsstofn kæranda, B, 1.506.999 kr., en sameiginlegar fjármagnstekjur kærenda námu 378.348 kr. Að þessu athuguðu og með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007 bar skattstjóra að ákvarða kæranda umrætt gjald vegna Ríkisútvarpsins ohf., enda áttu undanþágur 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, sem hið fyrrnefnda ákvæði vísar til, ekki við í tilviki kærenda. Samkvæmt þessu er kröfu kærenda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.