Úrskurður yfirskattanefndar
- Tekjur erlendis
- Tvísköttunarsamningur
Úrskurður nr. 177/2012
Gjaldár 2010
Lög nr. 90/2003, 1. gr. 1. mgr. Auglýsing nr. 11/1997, um Norðurlandasamning til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, 15. gr.
Kærandi, sem var búsettur hér á landi, starfaði á vegum íslensks fyrirtækis í Noregi á árinu 2009. Yfirskattanefnd taldi að skattleggja bæri launatekjur kæranda vegna vinnu hans í Noregi fyrir hinn íslenska vinnuveitanda hér á landi, enda var talið að skilyrði fyrir skattlagningarrétti heimaríkis í tvísköttunarsamningi milli Norðurlandanna væru uppfyllt í tilviki kæranda.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 12. apríl 2011, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að samkvæmt upplýsingum frá norskum skattyfirvöldum hefði kærandi starfað í Noregi á árinu 2009 á vegum X hf. og fengið greidd laun að fjárhæð 53.866 norskar krónur. Hefði komið í ljós við álagningu opinberra gjalda í Noregi að tekjurnar væru ekki skattskyldar þar, heldur bæri að leggja á þær skatt í búseturíki kæranda eða Íslandi. Staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 12.680 norskar krónur, sem haldið hefði verið eftir af tekjunum, hefði í kjölfarið verið endurgreidd kæranda. Kærandi hefði hins vegar ekki gert grein fyrir þessum tekjum í íslensku skattframtali árið 2010. Tók ríkisskattstjóri fram að í 15. gr. samnings milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun á tekjur á eignir væri kveðið á um skattlagningu fyrir launað starf og samkvæmt 1. mgr. greinarinnar væri það meginreglan að laun, sem aðili heimilisfastur í samningsríki fengi fyrir starf sitt, skyldu einungis skattlögð í því ríki, nema starfið væri leyst af hendi í öðru samningsríki. Ef starfið væri leyst af hendi í öðru samningsríki mætti skattleggja endurgjaldið fyrir starfið þar, en undantekning frá þeirri reglu væri í 2. mgr. þar sem fram kæmi að laun fyrir starf, sem leyst væri af hendi í öðru samningsríki, skyldu einungis skattlögð í búseturíkinu ef a) viðtakandinn dveldi í hinu ríkinu í eitt eða fleiri tímabil, sem samanlögð færu ekki yfir 183 daga á tólf mánaða tímabili sem hæfist eða lyki á umræddu tekjuári, og b) að endurgjaldið væri greitt af eða fyrir hönd vinnuveitenda sem ekki væri heimilisfastur í hinu ríkinu, og c) endurgjaldið væri ekki gjaldfært hjá fastri atvinnustöð eða fastri stöð sem vinnuveitandinn hefði í hinu ríkinu, og d) ekki væri um að ræða útleigu á vinnuafli. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt þeim upplýsingum, sem borist hefðu frá norskum skattyfirvöldum, hefði kærandi starfað fyrir íslenskan vinnuveitanda, X hf., í Noregi frá 21. október til 31. desember 2009, en hinn íslenski vinnuveitandi teldist ekki heimilisfastur í Noregi og ekki hefði annað komið fram en að endurgjaldið hefði verið greitt af X hf. og gjaldfært hjá fyrirtækinu hér á landi. Samkvæmt Þjóðskrá hefði kærandi verið skráður með lögheimili hér á landi allt árið 2009. Samkvæmt þessu bæri að skattleggja tekjurnar hér á landi. Með vísan til framangreinds og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hygðist ríkisskattstjóri endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárið 2010 og hækka tekjuskatts- og útsvarsstofn í skattframtalinu um 1.174.817 kr. eða sem svaraði til 53.866 norskra króna. Miðað væri við meðalkaupgengi norsku krónunnar á tímabilinu október til desember 2009 samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands. Væri kæranda veittur 15 daga frestur til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum, miðað við dagsetningu bréfs ríkisskattstjóra.
Með úrskurði dags. 5. maí 2011, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 2010 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2010 vegna umræddra tekna sem kærandi hefði haft vegna vinnu í Noregi á vegum X hf. á árinu 2009. Vísaði ríkisskattstjóri til boðunarbréfs síns, dags. 12. apríl 2011, og tók fram að engin andmæli hefðu borist frá kæranda innan veitts frests. Rakti ríkisskattstjóri greind ákvæði 15. gr. samnings milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun með sama hætti og í boðunarbréfinu.
II.
Með kæru, dags. 4. ágúst 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. maí 2011, til yfirskattanefndar. Boðaði umboðsmaðurinn að frekari gögn yrðu lögð fram þegar þau bærust honum frá kæranda. Með tölvupósti, dags. 5. október 2011, lagði umboðsmaðurinn fram gögn í málinu. Kemur fram af hálfu umboðsmannsins að kærandi telji að með því að skattleggja þær tekjur, sem hann hafi haft í Noregi hér á landi, sé verið að tvískatta þær, þ.e. skattleggja þær bæði í Noregi og á Íslandi.
III.
Með bréfi, dags. 9. desember 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram þá kröfugerð að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. desember 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Kærandi var skattskyldur hér á landi gjaldárið 2010 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum umræddum vinnulaunum vegna vinnu í Noregi, sem ekki voru skattlögð í því landi. Fyrir liggur að kærandi starfaði á vegum íslensks fyrirtækis, X hf., í Noregi frá 21. október til 31. desember 2009 og samkvæmt gögnum málsins var staðgreiðsluskatti haldið eftir af umræddum vinnulaunum í Noregi, sbr. m.a. gögn sem fylgdu tölvupósti umboðsmanns kæranda hinn 5. október 2011. Í bréfi ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 12. apríl 2011, var vísað til upplýsinga sem borist hefðu frá norskum skattyfirvöldum um greindar tekjur kæranda. Kom fram í bréfi ríkisskattstjóra að afstaða norskra yfirvalda væri sú að tekjurnar bæri að skattleggja hér á landi en ekki í Noregi og að staðgreiðsluskattur að fjárhæð 12.680 norskar krónur, sem haldið hefði verið eftir af tekjunum í Noregi, hefði verið endurgreiddur kæranda.
Samkvæmt 119. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sama skattstofni bæði á Íslandi og erlendis. Ísland er ásamt Noregi aðili að samningi milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sem birtur var sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda, öðlaðist gildi 11. maí 1997 og kom til framkvæmda 1. janúar 1998. Samkvæmt d-lið 3. mgr. 2. gr. samningsins tekur samningurinn að því er Ísland varðar til tekjuskatts og eignarskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga. Í 1. mgr. 15. gr. samningsins kemur fram að með þeim undantekningum sem um ræðir í 16., 18., 19., 20. og 21. gr. skuli starfslaun og annað svipað endurgjald sem aðili heimilisfastur í samningsríki fær fyrir starf sitt, einungis skattlögð í því ríki, nema starfið sé leyst af hendi í öðru samningsríki. Sé starfið leyst af hendi í öðru samningsríki megi skattleggja endurgjaldið fyrir starfið þar. Í 2. mgr. 15. gr. samningsins er mælt fyrir um undantekningar frá ákvæði 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. greinarinnar skal endurgjald, sem aðili heimilisfastur í samningsríki fær fyrir starf sem hann leysir af hendi í öðru samningsríki, einungis skattlagt í fyrrnefnda ríkinu að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem þar eru rakin, þ.e. a) að viðtakandinn dvelji í hinu ríkinu í eitt eða fleiri tímabil, sem samanlögð fara ekki yfir 183 daga á tólf mánaða tímabili sem hefst eða endar á umræddu tekjuári, og b) endurgjaldið er greitt af eða fyrir hönd vinnuveitanda sem ekki er heimilisfastur í hinu ríkinu, og c) endurgjaldið er ekki gjaldfært hjá fastri atvinnustöð eða fastri stöð sem vinnuveitandinn hefur í hinu ríkinu, og d) ekki er um að ræða útleigu á vinnuafli. Í 25. gr. samningsins er mælt fyrir um aðferð til að komast hjá tvísköttun hjá hvoru samningslandanna fyrir sig.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra verður ekki annað séð en að skilyrði þau fyrir skattlagningarrétti heimaríkis, sem rakin eru í 2. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamningsins, séu uppfyllt í tilviki kæranda í máli þessu. Ber því að skattleggja umræddar tekjur kæranda vegna vinnu hans í Noregi fyrir hinn íslenska vinnuveitanda hér á landi. Samkvæmt því og þar sem ekki er að öðru leyti ágreiningur um tilhögun álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2010 samkvæmt hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.
Rétt er að taka fram, vegna athugasemda í kæru kæranda um tvísköttun umræddra tekna hans, að samkvæmt þeim upplýsingum frá norskum skattyfirvöldum sem vísað er til í úrskurði ríkisskattstjóra var skattur, sem haldið var eftir af launum kæranda í Noregi, endurgreiddur honum þar í landi.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.