Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vextir
  • Afleiðusamningar
  • Álag

Úrskurður nr. 522/2012

Gjaldár 2007 og 2008

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 3. tölul., 108. gr. 2. mgr.  

Með úrskurði um endurákvörðun færði ríkisskattstjóri kærendum til skattskyldra tekna í skattframtölum þeirra vanframtaldar vaxtatekjur vegna afleiðuviðskipta á árunum 2006 og 2007. Kröfu kærenda um niðurfellingu 25% álags vegna þeirra breytinga var hafnað.

I.

Með kæru, dags. 22. ágúst 2011, hefur umboðsmaður kærenda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. ágúst 2011, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárin 2007 og 2008. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri til skattskyldra tekna í skattframtölum kærenda árin 2007 og 2008 vanframtaldar vaxtatekjur vegna afleiðuviðskipta kæranda, A, við Z-banka hf. (nú Z banki hf.) að fjárhæð 4.984.535 kr. tekjuárið 2006 og að fjárhæð 6.025.627 kr. tekjuárið 2007, sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 4. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 66. gr. sömu laga. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við þá hækkun skattstofna kærenda sem af þessum breytingum leiddi. Nam fjárhæð álagsins 1.246.134 kr. gjaldárið 2007 og 1.506.407 kr. gjaldárið 2008. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum og tölvupóstsamskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, A, dags. 18. apríl 2011, og svarbréf A í tölvupósti, dags. 26. apríl 2011, tölvupóst ríkisskattstjóra til A, dags. 8. júní 2011, og bréf umboðsmanns kærenda, dags. 23 júní 2011, boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 20. júlí 2011, og svarbréf umboðsmanns kærenda, dags. 26. júlí 2011. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að um væri að ræða vanframtaldar skattskyldar fjármagnstekjur vegna afleiðuviðskipta á árunum 2006 og 2007, en kærendur hefðu enga grein gert fyrir umræddum viðskiptum við Z-banka hf. í skattframtölum árin 2007 og 2008. Af hálfu kærenda voru ekki gerðar athugasemdir við umræddar tekjufærslur, en álagsbeitingu var hins vegar mótmælt.

Ríkisskattstjóri tók fram varðandi álagsbeitingu þar sem um vantaldar tekjur væri að ræða þættu ekki standa rök til annars en að beita 25% álagi á hækkun skattstofna á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því ákvæði væri heimilt að bæta 25% álagi við vantalda skattstofna væru annmarkar á framtali, sbr. 96. gr. laganna, eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Hefði athygli kærenda verið vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laganna skyldi falla frá beitingu álags ef skattaðilar færðu rök að því að þeim yrði ekki kennt um annmarka á framtali eða óviðráðanleg atvik hefðu hamlað því að þeir bættu úr þeim annmörkum eða leiðréttu einstaka liði þess. Með bréfi, dags. 26. júlí 2011, hefði umboðsmaður kærenda mótmælt fyrirhugaðri álagsbeitingu og gert þá kröfu að ríkisskattstjóri félli frá því að bæta 25% álagi við fyrirhugaða hækkun á stofni fjármagnstekjuskatts með vísan til 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Kærendur hefðu talið fram afleiðuviðskipti vegna ársins 2006 eftir bestu vitund, en ekki hefði legið fyrir yfirlit vegna umræddra viðskipta á árinu 2007. Enginn ásetningur hefði verið uppi um að standa ekki skil á greiðslu skatts og hefðu kærendur staðið í þeirri trú að Z banki hf. hefði tekið staðgreiðslu af hagnaði vegna umræddra viðskipta.

Í kæru umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 22. ágúst 2011, er þess krafist að 25% álag verði fellt niður. Í kærunni er vísað til þess að kærendur hafi talið fram í skattframtali árið 2007 afleiðuviðskipti við X banka hf., en þar sem þau hafi ekki haft upplýsingar um afleiðuviðskipti við Z banka hf. hafi láðst að telja þau fram í skattframtölum árin 2006 og 2007. Kærendur hafi því talið fram afleiðuviðskipti vegna tekna ársins 2006 eftir bestu vitund. Í kjölfar fyrirspurnar ríkisskattstjóra hafi kærendur sent fyrirspurn til Z banka hf. og fengið þau svör að engri staðgreiðslu hefði verið haldið eftir af hagnaði vegna umræddra viðskipta, en kærendur hefðu ekki haft neinar upplýsingar frá Z banka hf. við gerð skattframtalanna. Enginn ásetningur hafi verið uppi um að standa ekki skil á greiðslu skatta og komast hjá skattgreiðslum til ríkissjóðs vegna umræddra afleiðuviðskipta. Hafi verið um að ræða mistök við framtalsgerð. Þau hafi staðið í þeirri trú að Z banki hf. hefði tekið staðgreiðslu af hagnaði vegna þeirra. Að framangreindu virtu séu þess farið á leit við yfirskattanefnd að álagsbeiting ríkisskattstjóra verði felld úr gildi á grundvelli 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

II.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. nóvember 2011, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 6. desember 2011, hafa kærendur gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu kemur fram að kærendur hafi notið þjónustu virtrar endurskoðendastofu undanfarin ár til að tryggja að skattframtöl þeirra séu samkvæmt lögum og reglum. Það hafi reynst kærendum vel og hafi þau treyst endurskoðendastofunni í þeim efnum fram að þessu. Nú þurfi kærendur hins vegar að sæta álagi vegna vantalinna afleiðuviðskipta við Z banka hf. Bankinn hafi hins vegar ekki sent þeim yfirlit og þeim hafi ekki verið kunnugt um að bankinn hefði ekki haldið eftir fjármagnstekjuskatti fyrr en fyrirspurn hafi komið frá skattyfirvöldum. Hafi kærendur ekki varað sig á þessu og hafi þau treyst endurskoðendum sínum mun betur í þessum efnum en sjálfum sér. Þyki þeim miður af hafa lent í þessu, en þetta hafi ekki verið gert með vilja, heldur verið mistök sem þau séu ósátt með gagnvart endurskoðendastofu sinni. Þyki kærendum því harkalegt að þurfa að bera álag vegna þessa.

III.

Kæra í máli þessu lýtur einungis að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. ágúst 2011, að bæta 25% álagi við hækkun skattstofna kærenda gjaldárin 2007 og 2008, þ.e. stofn til fjármagnstekjuskatts, sem leiddi af breytingum hans vegna vanframtalinna vaxtatekna vegna afleiðuviðskipta, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eru breytingar ríkisskattstjóra að öðru leyti ágreiningslausar og koma ekki til umfjöllunar. Er krafa kærenda um niðurfellingu álags studd þeim rökum að um mistök við framtalsgerð hafi verið að ræða sem séu í raun á ábyrgð endurskoðendastofu þeirrar sem annaðist um framtalsgerð fyrir kærendur umrædd ár, svo sem nánar greinir í köflum I og II hér að framan.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði í framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Af hálfu kærenda hefur við meðferð málsins verið lögð áhersla á að þeim verði ekki kennt um greinda annmarka á skattframtölum árin 2007 og 2008 þar sem þau hafi ekki sjálf annast framtalsgerðina. Af þessu tilefni skal tekið fram að leggja verður til grundvallar að framteljendur geti almennt ekki losnað undan ábyrgð sinni á annmörkum og skilum skattframtals með því að fela öðrum gerð þess og skil. Að því athuguðu og þegar litið er til þeirra annmarka, sem voru á skattframtölum kærenda umrædd ár, þar sem engin grein var gerð fyrir verulegum vaxtatekjum vegna afleiðuviðskipta, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kærenda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kærenda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kærenda um niðurfellingu álags því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda um niðurfellingu álags er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja