Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattframtal, ófullnægjandi
- Yfirfæranlegt rekstrartap
Úrskurður nr. 199/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 95. gr. 2. mgr., 96. gr. 1. mgr.
Skattstjóri taldi ýmis atriði ársreiknings, sem fylgdi skattframtali kæranda, vera ófullnægjandi og felldi af þeim sökum niður yfirfæranlegt rekstrartap. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda um að ónotuð rekstrartöp fyrri ára yrðu látin standa óhögguð. Yrði að fara með þennan frádráttarlið á sama hátt og aðra þætti skattskila sem þannig væru úr garði gerð að álagning yrði ekki á þeim byggð. Því yrði ekki fallist á þennan frádráttarlið án tengsla við skattskilin að öðru leyti.
I.
Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1995 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Samkvæmt áritun skattstjóra á skattframtal kærenda barst það honum 27. september 1995 í framhaldi af kæru, dags. 25. ágúst 1995. Með kæruúrskurði, dags. 5. desember 1995, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu að gerðri þeirri breytingu að hann hafnaði innsendum ársreikningi og felldi niður yfirfæranlegt rekstrartap. Voru forsendur skattstjóra þær að innsendur ársreikningur vegna rekstrar ljósmyndastofu væri alls ófullnægjandi og ekki í samræmi við lög. Til marks um það tók skattstjóri fram að án skýringa væru engar birgðir eignfærðar, en vörukaup hefðu numið 635.384 kr., án skýringa hefðu heildartekjur af rekstri numið 779.988 kr. en rekstrarkostnaður 2.199.436 kr., rekstrartap ársins hefði numið 1.396.950 kr. og að meðtöldu uppsöfnuðu tapi fyrri ára næmi heildartap 5.652.605 kr. án þess að séð yrði að það kæmi fram í skuldastöðu kærenda eða rekstrarins. Ekki yrði séð af framtölum kærenda, sbr. heildartekjur, greiðslur af húsnæðisöflunarlánum og eignastöðu, að þeim hefði á liðnum árum verið kleift að leggja rekstrinum til bókfærð framlög. Skuldir rekstrar hefðu aukist milli ára úr 1.222.722 kr. í 1.879.348 kr. en fjármagnsgjöld hefðu án skýringa hækkað úr 77.172 kr. á árinu 1993 í 495.551 kr. á árinu 1994.
Kærendur hafa skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 2. janúar 1996, og mótmælt útstrikun skattstjóra á rekstrartöpum fyrri ára. Samkvæmt bréfi, dags. 16. mars 1996, telja kærendur að vörubirgðir í árslok 1994 hafi verið 386.400 kr., sem sé kostnaðarverð 7.500 myndspjalda, en það séu eftirstöðvar 8.000 spjalda sem þau hafi látið gera, en þau hafi reynst illseljanleg. Önnur vörukaup væru gerð eftir því sem verkefni féllu til svo ekki sé um aðrar vörubirgðir að ræða. Varðandi hækkun fjármagnsgjalda taka kærendur fram að á árinu 1994 hafi lánum verið skuldbreytt og m.a. hafi fjármagnkostnaður af einu skuldbreyttu láni frá Iðnlánasjóði numið 204.734 kr.
Með bréfi dags. 1. nóvember 1996 hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð í málinu:
„Í kærunni mótmæla kærendur niðurfellingu skattstjóra á yfirfæranlegu rekstrartapi. Upplýsa þau m.a. um ástæður þess að engar vörubirgðir voru taldar til eignar á efnahagsreikningi. Af kærunni verður eigi annað ráðið en að kærendur vilji að umræddar vörubirgðir verði færðar til eignar á efnahagsreikningi. Ríkisskattstjóri telur í ljósi framkominna upplýsinga að kærendur hefðu átt að leggja fram nýjan ársreikning, þar sem um töluverðar breytingar er að ræða frá fyrri reikningi. Ekki aðeins breytast heildareignir á efnahagsreikningi, heldur einnig kostnaðarverð seldra vara á rekstrarreikningi og óráðstafað eigið fé.
Í kæruúrskurði skattstjóra segir m.a.:
„Tap ársins 1994 nemur kr. 1.396.950 og heildar uppsafnað tap með fyrri árum nemur kr. 5.652.605. Ekki verður séð að þetta endurspeglist á nokkurn hátt, hvorki í skuldastöðu rekstrar, né eigna- og skuldastöðu á persónuframtali. Samkvæmt framtölum síðustu 3ja ára borgar kærandi með sér í rekstrinum hundruð þúsunda á hverju ári. Sé litið til heildartekna hjóna á framtali, greiðslubyrði vegna húsnæðislána og eigna/skuldastöðu á framtali þá fær slíkt vart staðist."
Þessar röksemdir skattstjóra hafa ekki verið hraktar í kærunni til yfirskattanefndar.
Með vísan til framangreindra athugasemda gerir ríkisskattstjóri þær kröfur að úrskurður skattstjóra verði staðfestur."
II.
Skattframtal kærenda árið 1995 barst skattstjóra sem rökstuðningur með kæru vegna álagningar opinberra gjalda það ár. Skattstjóri var ekki bundinn við fyrirspurnar- og tilkynningarákvæði 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við úrlausn kærunnar. Við úrlausn sína bar skattstjóra hins vegar að gæta almennra málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar að því leyti sem ekki er sérstaklega á um þau atriði kveðið í skattalögum.
Með kæruúrskurði sínum, dags. 5. desember 1995, féllst skattstjóri á að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1995 á skattframtali kærenda það ár að öðru leyti en því að hann hafnaði ársreikningi kærenda fyrir árið 1994 sem fylgdi skattframtalinu. Ákvörðun skattstjóra leiddi meðal annars til þess að niður voru felld ónotuð rekstrartöp frá fyrri árum, sem samkvæmt samanburðarblaði með skattframtali kærenda árið 1995 námu framreiknuð 4.255.655 kr. og ekki var fallist á rekstrartap ársins, en það nam 1.396.950 kr.
Krafa kærenda í kæru til yfirskattanefndar virðist fyrst og fremst varða hin niðurfelldu rekstrartöp frá fyrri árum. Um þetta atriði skal tekið fram að gera verður ráð fyrir því að skattstjóri hafi talið kærendur hafa gert fullnægjandi grein fyrir umræddum töpum frá fyrri árum í skattskilum sínum þegar þau mynduðust, sbr. orðalag 7. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Allt að einu verður að líta svo á að með þennan frádráttarlið sé farið á sama hátt og aðra þætti skattskila sem þannig eru úr garði gerð að álagning verði ekki á þeim byggð. Verður því ekki fallist á þennan frádráttarlið án tengsla við skattskilin að öðru leyti.
Til stuðnings ákvörðun sinni byggði skattstjóri í fyrsta lagi á því að engar birgðir væru tilgreindar í ársreikningnum þrátt fyrir vörukaup á árinu. Skýringar kærenda þykir verða að skilja svo að þau hafi talið umrædd myndspjöld vera óseljanleg og vörubirgðir því ekki færðar til eignar í árslok, sbr. niðurlag 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981. Út af fyrir sig þykir ekki ástæða til að draga þessa skýringu í efa.
Í öðru lagi þótti skattstjóra hækkun vaxtagjalda óeðlileg samanborið við skuldaaukningu. Kærendur hafa af þessu tilefni gert grein fyrir því að lánum hafi verið skuldbreytt og í því sambandi sérstaklega vikið að uppgreiðslu láns frá Iðnlánasjóði. Er komið fram að vaxtagjöld vegna þess láns hafi numið 204.732 kr. Ekki hafa kærendur hins vegar gert grein fyrir vaxtagjöldum að öðru leyti, en umrædd fjárhæð skýrir ein sér ekki verulega hækkun þessa gjaldaliðar milli ára.
Í þriðja lagi tók skattstjóri fram til stuðnings ákvörðun sinni að tekjur af rekstri kærenda hefðu aðeins numið um þriðjungi gjalda, þ.e. tekjur verið 779.988 kr. en gjöld numið 2.199.436 kr. Taka verður undir það með skattstjóra að þessi rekstrarniðurstaða gefur tilefni til sérstakra skýringa af hálfu kærenda, enda tortryggilegt að tekjur af atvinnurekstri séu svo verulega lægri en kostnaður við öflun þeirra, ekki síst þegar litið er til skattskila kærenda undanfarin ár. Þrátt fyrir þetta hafa kærendur ekkert vikið að þessu atriði eða gert grein fyrir fjármögnun hallarekstrar.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að skattskil kærenda eins og þau eru úr garði gerð þarfnist nánari skýringa af þeirra hálfu. Af hálfu kærenda þykja ekki hafa komið fram þær skýringar að unnt sé að taka kröfu þeirra til greina. Að svo vöxnu er kærunni vísað frá.