Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Starfsmannakostnaður
  • Bifreiðakostnaður
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 217/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 52. gr. 1. tölul. (brl. nr. 147/1994, 5. gr., sbr. brl. nr. 101/1995), 52. gr. 5. tölul. (brl. nr. 97/1988, 4. gr.), 99. gr. 1. mgr.  

Í málinu var deilt um fatakostnað, kostnað vegna árshátíðar og jólagjafa, kaffi- og matarkostnað og bifreiðakostnað til frádráttar í skattskilum kæranda (hlutafélag sem hafði með höndum löndunarþjónustu). Yfirskattanefnd féllst á gjaldfærslu flotvinnusamfestings, enda væri hann í eigu félagsins sjálfs og ætlaður til notkunar við tiltekið starf, án tillits til þess hver innti það af hendi í hvert skipti. Kærandi þótti ekki hafa gert þá grein fyrir notkun fóðraðra stígvéla og loðfóðraðra samfestinga að fallast mætti á gjaldfærslu þeirra. Fallist var á frádrátt kostnaðar vegna árshátíðar og jólagjafa til starfsfólks. Síðarnefndur liður var áætlaður til frádráttar miðað við fjölda starfsmanna og með hliðsjón af verðmæti tækifærisgjafa almennt. Þá var áætlun skattstjóra á frádráttarbærum kostnaði vegna kaffiveitinga á vinnustað staðfest. Talið var að skattstjóri hefði ekki rökstutt nægilega niðurstöðu sína um lækkun bifreiðakostnaðar. Sá þáttur í úrskurði skattstjóra var því felldur úr gildi.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda, sem rekur löndunarþjónustu, var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1995. Við álagningu opinberra gjalda það ár sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda 1995 var móttekið hjá skattstjóra þann 26. september 1995, en áður hafði álagningin verið kærð með kæru sem móttekin var hjá skattstjóra þann 28. ágúst 1995, sbr. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 8. nóvember 1995, en kæran er ekki meðal gagna málsins.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 1995, óskaði skattstjóri eftir nánari upplýsingum ásamt afritum af fylgiskjölum, vegna fjögurra gjaldaliða samkvæmt rekstarreikningi kæranda. Með kæruúrskurði, dags. 28. nóvember 1995, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár, í stað áætlunar áður, en að gerðum eftirtöldum breytingum:

1. …

2. Fatakostnaður.

Kærandi færði til gjalda í rekstrarreikningi útgjöld að fjárhæð 200.884 kr. vegna kaupa á fatnaði. Af þeirri fjárhæð féllst skattstjóri ekki á frádráttarbærni 42.705 kr., þar sem hann taldi að um væri að ræða fatnað sem ekki teldist hlífðarfatnaður.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram af hálfu kæranda að umræddur fatnaður tilheyri ekki ákveðnum starfsmönnum, heldur hafi þeir jafnan aðgang að honum eftir því sem á þurfi að halda, og sé alfarið í eigu kæranda.

3. Árshátíð.

Kærandi hafði gjaldfært 182.624 kr. sem árshátíðarkostnað í rekstrarreikningi sínum. Skattstjóri tók fram varðandi þennan lið að samkvæmt ódagsettu svarbréfi kæranda við fyrirspurn skattstjóra, dags. 8. nóvember 1995, hefði bæði verið um að ræða útgjöld vegna árshátíðar og jólagjafa til starfsmanna. Með hliðsjón af útgefnum launamiðum taldi skattstjóri að miða mætti við að hjá kæranda hefðu starfað átta ársmenn og því væri hæfilegt að fallast á 80.000 kr. vegna þessara kostnaðarliða eða 10.000 kr. á hvern mann.

Af hálfu kæranda er þessu mótmælt. Á það er bent að kærandi hafi sent launamiða fyrir tuttugu og þrjá menn. Hjá kæranda starfi menn í hlutastörfum og oft þurfi að kalla til aukamannskap. Þessum mönnum sé, ásamt fastráðnum starfsmönnum, boðið til árshátíðar og þeim sé sendur konfektkassi um jólin. Er því farið fram á að ekki verði hreyft við umræddum útgjaldalið.

4. Kaffi- og matarkostnaður.

Gjaldfærður kaffi- og matarkostnaður nam samkvæmt rekstrarreikningi kæranda 185.997 kr. Af þeirri fjárhæð féllst skattstjóri á að 128.000 kr. væri frádráttarbær rekstrarkostnaður, og miðaði þá við að kostnaður á hvert ársverk næmi 16.000 kr.

Af hálfu kæranda er þessu mati skattstjóra á fjölda ársverka mótmælt og þess krafist að öll umrædd útgjöld verði færð til frádráttar.

5. Bifreiðakostnaður.

Gjaldfærður bifreiðakostnaður nam samkvæmt rekstrarreikningi kæranda 542.992 kr. Skattstjóri féllst ekki á að þar væri um að ræða frádráttarbæran kostnað, sbr. 5. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981. Forsendur skattstjóra voru þær að samkvæmt úrskurði hans, dags. 17. október 1995, vegna fyrri skattframtala, hefði þessi gjaldaliður verið felldur niður á grundvelli þess hvernig notkun bifreiða hefði verið háttað. Ekki væri hægt að sjá að notkunin hefði breyst og því væri ekki fallist á frádráttarbærni þessara útgjalda.

Af hálfu kæranda er þessari niðurstöðu skattstjóra harðlega mótmælt. Bifreiðar í eigu kæranda hafi verið keyptar í þeim tilgangi að nota þær fyrst og fremst í þágu rekstrarins til ýmissa útréttinga og snúninga eins og almennt gerist í fyrirtækjum. Til vara er gerð sú krafa, ef gjaldfærslu bifreiðakostnaðar verði hafnað að miklu eða öllu leyti, að tillit verði tekið til hagnaðar af sölu bifreiða þannig að nettófjárhæð bifreiðakostnaðar verði 371.021 kr.

Með bréfi, dags. 10. maí 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri gerir þá kröfu að liðir 1–3 í úrskurði skattstjóra (fatakostnaður, árshátíðarkostnaður og kaffi- og matarkostnaður) verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra.

Varðandi lið 4, bifreiðakostnað í úrskurði skattstjóra þá telur ríkisskattstjóri að fella verði þennan hluta úrskurðar skattstjóra úr gildi þar sem réttrar málsmeðferðar var ekki gætt. En skattstjóri minntist ekkert á þennan kostnað fyrr en í úrskurði sínum og gætti þannig ekki ákvæða 1. sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og kom þannig jafnframt í veg fyrir að kærandi gætti andmælaréttar síns."

II.

Um fatakostnað:

Samkvæmt úrskurði skattstjóra, dags. 28. nóvember 1995, féllst hann ekki á frádráttarbærni útgjalda vegna kaupa á einum fóðruðum stígvélum, tveimur loðfóðruðum samfestingum og einum flotvinnusamfestingi samtals að fjárhæð 42.705 kr. Af hálfu kæranda hefur komið fram að umræddur fatnaður sé í eigu hans og starfsmenn noti hann til skiptis eftir þeim verkum sem þeir vinna hverju sinni, t.d. sé flotvinnusamfestingurinn lánaður þeim starfsmanni sem þrífi bátadekkin, en við þá vinnu geti verið hætta á að falla fyrir borð. Að virtum skýringum kæranda þykir mega fallast á gjaldfærslu útgjalda vegna umrædds flotvinnusamfestings, að fjárhæð 18.713 kr., og er þá einkum litið til þess sem upplýst hefur verið um notkun hans og þess að hann er alfarið í eigu kæranda. Að öðru leyti þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að honum beri frekari gjaldfærsla vegna fatnaðar en skattstjóri hefur þegar fallist á, enda hafa ekki komið fram neinar sérstakar skýringar á notkun þess fatnaðar sem enn er ágreiningur um.

Um árshátíðarkostnað:

Eins og fram hefur komið nam gjaldfærður kostnaður vegna árshátíðar kæranda 182.624 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru þ.m.t. útgjöld vegna jólagjafa starfsmanna að fjárhæð 97.854 kr. og nam kostnaður vegna árshátíðar því 84.770 kr. Af hálfu kæranda hefur útreikningi skattstjóra á frádráttarbærum hluta þessara útgjalda verið mótmælt, þar sem starfsmenn séu í raun fleiri en skattstjóri miðaði við. Kærandi hefur í þessu sambandi bent á að hann hafi greitt 23 mönnum laun á árinu 1994. Við athugun á launauppgjöf kæranda sést að þar er um mjög misjafnar fjárhæðir að ræða. Þótt ekki þyki áætlun skattstjóra á fjölda ársverka hjá kæranda um skör fram, sbr. það sem fram kemur í umfjöllun um kaffi- og matarkostnað á eftir, þykir mega fallast á það með kæranda að við mat á frádráttarbærni þeirra útgjalda sem hér er um rætt, megi líta til þess að hann hefur í þjónustu sinni „aukamenn" sem kallaðir eru til á álagstímum, enda hefur komið fram að einhverjum þeirra séu gefnar jólagjafir og þeim boðið að taka þátt í árshátíð kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var hluti gjaldfærðs árshátíðarkostnaðar vegna kaupa á 14 aðgöngumiðum að hófi sem haldið var á sjómannadaginn 1994. Með hliðsjón af þessu þykir mega miða við að sá fjöldi starfsmanna hafi tekið þátt í árshátíðinni. Að svo vöxnu er fallist á gjaldfærslu kostnaðar vegna árshátíðar að fjárhæð 84.770 kr.

Víkur þá að jólagjöfum til starfsmanna. Um frádrátt þess kostnaðar fer eftir 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. tölul. 52. gr. laganna, svo sem það ákvæði orðast eftir breytingu með lögum nr. 147/1994 og 101/1995. Samkvæmt svarbréfi kæranda við fyrirspurnarbréfi skattstjóra var fastráðnum starfsmönnum gefin áfengisflaska og jólasteik, en lausráðnum starfsmönnum var gefinn konfektkassi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru keyptar áfengisflöskur fyrir 28.160 kr. og kjöt fyrir 15.064 kr. Að virtu niðurlagsákvæði 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981, sbr. fyrrnefnd breytingalög, þykir mega miða við að frádráttarbær hluti þessa kostnaðar hafi numið 35.000 kr. og er þá miðað við að fastráðnir starfsmenn hafi verið sjö. Að öðru leyti var um að ræða kaup á 25 konfektkössum að fjárhæð 54.220 kr. Miðað við það sem fram er komið um fjölda starfsmanna, og með hliðsjón af þeim skýringum kæranda að einungis hafi verið um að ræða gjafir til þeirra en ekki annarra, verður ekki fallist á frádráttarbærni allra útgjaldanna. Þykir mega miða við sama fjölda starfsmanna og vegna árshátíðar eða samtals 14. Er því fallist á að frádráttarbær hluti síðastnefndu útgjaldanna nemi 15.000 kr. Samtals verður þessi kæruliður tekinn til greina með 54.770 kr. til viðbótar því sem skattstjóri hafði áætlað. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Um kaffi- og matarkostnað:

Við breytingu sína á þessum gjaldalið miðaði skattstjóri við að hjá kæranda störfuðu átta menn allt árið. Þessu hefur kærandi mótmælt þar sem um sé að ræða mun fleiri starfsmenn þegar allt sé til tekið. Samkvæmt innsendum launamiðum greiddi kærandi 23 mönnum laun á árinu 1994, samtals að fjárhæð 13.077.883 kr., þar af voru 11.718.560 kr. vegna sjö manna en 1.359.323 kr. vegna 16 manna. Að þessu virtu þykir mega fallast á áætlun skattstjóra á fjölda ársverka, en telja verður að það sé nothæf viðmiðun vegna þess kostnaðar sem hér er um rætt, enda fellur hann almennt til jafnt yfir allt árið. Með hliðsjón af þessu og því að almennt verður að telja að frádráttarbærni kostnaðar vegna kaffiveitinga á vinnustað séu einhver takmörk sett þykir mega una við áætlun skattstjóra, enda sýnist hún kæranda ekki óhagstæð.

Um bifreiðakostnað:

Það skal tekið fram vegna athugasemda í kröfugerð ríkisskattstjóra að skattframtal kæranda barst skattstjóra í kjölfar kæru sem lögð var fram í kærufresti vegna álagningar opinberra gjalda 1995. Skattstjóri var því ekki bundinn við fyrirspurnar- og tilkynningarákvæði 96. gr. laga nr. 75/1981 og verður ákvörðunum hans því ekki hnekkt af þeirri ástæðu að nefndra ákvæða hafi ekki verið gætt, svo sem ríkisskattstjóri gerir kröfu um. Samkvæmt almennum ákvæðum stjórnsýslulaga bar skattstjóra hins vegar að gæta þess að málið væri nægilega vel upplýst. Þá bar honum að rökstyðja úrlausn sína.

Samkvæmt efnahagsreikningi kæranda færir hann til eignar bifreiðina X, sem hann hafði fest kaup á á árinu 1994. Ekki hefur skattstjóri hróflað við eignfærslu þessari né heldur þeim færslum sem gerðar voru vegna sölu á bifreiðinni Y. Forsendur skattstjóra fyrir því að gjaldfærður bifreiðakostnaður teldist ekki frádráttarbær voru þær að samkvæmt úrskurði skattstjóra, dags. 17. október 1995, vegna fyrri skattframtala kæranda, hefðu forráðamenn kæranda haft bifreiðar hans til fullra umráða endurgjaldslaust, án þess að þeim hafi verið talin til tekna bifreiðahlunnindi. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til 5. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981. Fram kom og hjá skattstjóra að ekki yrði séð að breyting hefði orðið á notkun bifreiða kæranda og því væri gjaldfærsla umræddra útgjalda felld niður. Ekki skýrði skattstjóri þó nánar hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu að notkunin væri óbreytt frá því sem hann taldi hana hafa verið á fyrri árum, en telja verður að hún hafi ekki verið óumbreytanleg. Samkvæmt framansögðu þykir skattstjóri ekki hafa skotið nægum stoðum undir ákvörðun sína að því er þetta kæruatriði varðar. Er hér jafnframt litið til niðurstöðu yfirskattanefndar varðandi bifreiðakostnað í úrskurði nr. 214/1997 í máli kæranda vegna fyrri ára. Umrædd ákvörðun er því felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja