Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Frádráttur vegna greiddrar húsaleigu

Úrskurður nr. 245/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 2. tölul., 30. gr. 3. mgr. (brl. 57/1994, 1. gr.).  

Fallist var á rétt kæranda til að draga frá húsaleigutekjum sínum greidda húsaleigu erlendis þar sem hann dvaldi tímabundið með fjölskyldu sinni.

I.

Málavextir eru þeir að í athugasemdakafla skattframtals kæranda 1995 kom fram að hann dveldi tímabundið í Ástralíu og greiddi skatta og skyldur af launatekjum þarlendis. Á skattframtalinu var ekki gerð grein fyrir neinum tekjum en til eignar var talin fasteign. Með bréfi, dags. 25. júlí 1995, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hækkað tekjur hans um 137.484 kr., sem væri 2,7% af fasteignamati fasteignar kæranda miðað við heilt ár, sbr. 2. mgr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. og 116. gr. laga nr. 75/1981 og leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals. Kærandi mótmælti framangreindri álagningu með kæru, dags. 10. ágúst 1995, og lagði fram rekstraryfirlit vegna útleigu húseignar sinnar. Þar komu fram leigutekjur að fjárhæð 260.000 kr. Til frádráttar færði kærandi greidda húsaleigu í Ástralíu að jafnvirði 407.680 kr. Þá kom fram hjá kæranda að ef skattstjóri féllist ekki á frádrátt vegna leigugreiðslna erlendis þá væri til vara óskað eftir frádrætti 80% leigutekna og yrði hagnaður þá 52.000 kr. Kærunni fylgdi staðfesting á greiddri leigu frá leigusala í Ástralíu. Með kæruúrskurði, dags. 9. febrúar 1996, synjaði skattstjóri aðalkröfu kæranda á þeim forsendum að húsaleiga erlendis heimilaðist ekki til frádráttar leigutekjum. Hins vegar féllst skattstjóri á varakröfu kæranda.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 1. mars 1996. Þar kemur fram að kærandi búi tímabundið erlendis. Gerir hann kröfu um að heimilað verði að færa leigugjöld til frádráttar leigutekjum.

Með bréfi, dags. 4. október 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Fallist er á kröfu kæranda enda er ekki að finna, hvorki í 3. mgr. 30. gr. l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, né annars staðar í umræddum lögum, þá takmörkun er skattstjóri gerir á rétti kæranda til þess að nýta sér reglur framangreinds ákvæðis um leigu á móti leigu."

II.

Ágreiningsefni máls þessa varðar eingöngu skattlagningu á leigutekjum kæranda. Í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 57/1994, segir að hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði, án þess að það teljist vera atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, þá sé honum heimilt, í stað beins kostnaðar samkvæmt 2. mgr. framangreinds lagaákvæðis, að draga frá þeim tekjum húsaleigugjöld af íbúðarhúsnæði til eigin nota. Frádráttur þessi leyfist eingöngu til frádráttar leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er tímabundið til útleigu. Húsnæði það sem kærandi hafði leigutekjur af er eina húsnæðið í eigu kæranda og er hann og fjölskylda hans skráð þar til heimilis. Hefur hann staðhæft að um tímabundna dvöl í Ástralíu sé að ræða. Með vísan til þess, sbr. einnig það sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja