Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 46/2013

Bifreiðagjald 2012

Lög nr. 39/1988, 4. gr. d-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Bifreið kæranda var skráð tímabundið úr umferð frá 31. janúar 2012 og lét skoðunarstofa kæranda í té þar til gerðan miða til að líma á skráningarmerki bifreiðarinnar. Talið var fortakslaust skilyrði fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds vegna innlagnar skráningarmerkja að skráningarmerki væru afhent skráningaraðila til varðveislu. Voru skilyrði undanþágu frá gjaldskyldu því ekki talin uppfyllt í tilviki kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að með erindi, dags. 10. ágúst 2012, óskaði kærandi eftir niðurfellingu bifreiðagjalds af ökutækinu X frá 31. janúar 2012. Kom fram í erindi kæranda að bifreiðin hefði verið skráð úr umferð hjá Frumherja hf. þann dag og staðið ónotuð síðan.

Með úrskurði, dags. 14. ágúst 2012, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, sem hann tók að nokkru leyti orðrétt upp í úrskurðinum, og benti á að það væri skilyrði fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds vegna innlagnar skráningarmerkja að skráningarmerkin væru afhent skráningaraðila til varðveislu. Í tilviki kæranda hefðu skráningarmerki bifreiðarinnar X ekki verið afhent Frumherja hf. heldur hefði miði verið límdur á merkin sem ígildi innlagnar. Ekki gæti talist til afhendingar í skilningi ákvæðisins að límdur væri miði á skráningarmerki sem staðfesting á innlögn. Því væru ekki forsendur fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds.

II.

Með kæru, dags. 27. ágúst 2012, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 14. sama mánaðar, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi skráð bifreiðina X úr umferð hjá Frumherja hf. þann 31. janúar 2012 og hafi vátryggingar hennar fallið úr gildi frá og með þeim degi. Því hafi komið verulega á óvart að embætti ríkisskattstjóra hafi synjað um niðurfellingu bifreiðagjalds frá sama tíma þrátt fyrir að bifreiðin sé ekki í notkun. Í leiðbeiningum Umferðarstofu sé tekið fram að um ökutæki sem skráð sé úr umferð með miða sé eins ástatt og ökutæki sem sé án skráningarmerkja. Sé því farið fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð.

III.

Með bréfi, dags. 12. október 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Fram kemur í kæru að kærandi hafi skráð bifreiðina X úr umferð hjá Frumherja 31. janúar 2012 og hafi hún ekki verið í notkun síðan. Tryggingafélagið Z hafi fellt niður tryggingu frá sama tíma. Kærandi fer fram á að synjun ríkisskattstjóra á niðurfellingu bifreiðagjalda sé endurskoðuð.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi. Ákvæði um undanþágur frá gjaldskyldu er að finna í 4. gr. laganna og í samræmi við almenn lögskýringarsjónarmið ber að túlka undanþágur þröngt. Samkvæmt d. lið 4. gr. skal fella niður bifreiðagjald þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu og miðast undanþágan við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Samkvæmt 6. gr. laganna fer ríkisskattstjóri með álagningu bifreiðagjalds og aðra framkvæmd laganna, þ.m.t. um niðurfellingu gjaldsins. Framkvæmd reglna um skráningu ökutækja, þ.m.t. um meðferð skráningarmerkja, er í höndum Umferðarstofu.

Það að heimilað skuli vera að setja númer á skráningarmerki í stað innlagnar á merkjunum sjálfum víkur ekki í burtu fortakslausu ákvæði d. liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Þá vill ríkisskattstjóri vísa til þess sem fram kemur í tilvitnuðum leiðbeiningum, þ.e. að ekki sé tryggt að bifreiðagjöld falli niður.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. október 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 24. október 2012, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er tekið fram í bréfi kæranda að miðað við vandaða stjórnsýslu megi ætla að bifreiðagjöld séu aðeins innheimt af ökutækjum sem séu í umferð eða hafi heimild til þess.

IV.

Fram er komið í málinu að Umferðarstofa (skoðunarstofa) féllst á beiðni kæranda um að bifreiðin X yrði skráð tímabundið úr umferð frá 31. janúar 2012 án þess þó að kærandi afhenti stofnuninni eða skoðunarstofu skráningarmerki bifreiðarinnar heldur lét stofnunin (skoðunarstofa) kæranda í té þar til gerðan miða til að líma á skráningarmerki bifreiðarinnar. Samkvæmt ákvæði d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, er það fortakslaust skilyrði fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds vegna innlagnar skráningarmerkja að skráningarmerki séu afhent skráningaraðila til varðveislu. Eru skilyrði undanþágu frá gjaldskyldu samkvæmt greindu ákvæði því ekki uppfyllt í tilviki bifreiðarinnar X, enda verður umrætt undanþáguákvæði ekki skýrt rýmra en felst í beinu orðalagi þess. Með vísan til þess og þar sem lagaheimild er ekki fyrir hendi til þess að fella niður bifreiðagjald á þeim grundvelli einum saman að bifreið hafi ekki verið í notkun um tiltekið tímabil verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja