Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Innskattur
Úrskurður nr. 187/2013
Virðisaukaskattur 2006-2010
Lög nr. 50/1988, 16. gr.
Ríkisskattstjóri lækkaði áður fenginn innskatt kæranda, sem var einkahlutafélag, á þeim forsendum að virðisaukaskattur af aðkeyptri lögfræðiaðstoð vegna málarekstrar kæranda á hendur sveitarfélagi væri ófrádráttarbær. Málareksturinn tengdist skipulagsbreytingum á athafnasvæði kæranda sem félagið taldi kippa fótum undan verslunarrekstri sínum. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að í skattframkvæmd væri viðurkennt að skráður aðili ætti rétt til innskattsfrádráttar vegna útgjalda til að bæta úr tjóni á eignum til nota í rekstri sínum, að uppfylltum almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts. Þóttu ekki standa rök til annars en að hið sama gilti um frádrátt virðisaukaskatts af aðkeyptri sérfræðiþjónustu vegna hagsmunagæslu í því sambandi og var krafa kæranda því tekin til greina.
I.
Með kæru, dags. 27. apríl 2012, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. janúar 2012, um endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda árin 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010. Var úrskurðurinn kveðinn upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 3. mars, 10. maí, 1. júní og 19. október 2011, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 8. apríl, 12. og 13. maí, 10. ágúst og 2. nóvember 2011. Með úrskurðinum lækkaði ríkisskattstjóri tilfærðan innskatt í virðisaukaskattskilum kæranda um 169.687 kr. árið 2006, 104.962 kr. árið 2007, 156.825 kr. árið 2008, 62.885 kr. árið 2009 og um 235.920 kr. árið 2010 og bætti 10% álagi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við þá hækkun virðisaukaskatts kæranda umrædd ár sem af þessu leiddi að frátöldu árinu 2010. Voru forsendur ríkisskattstjóra í stuttu máli þær að um væri að ræða virðisaukaskatt af aðkeyptri lögfræðiþjónustu vegna málarekstrar kæranda á hendur sveitarfélaginu X sem ekki gæti talist til innskatts af vinnu eða þjónustu sem eingöngu varðaði sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Benti ríkisskattstjóri í því sambandi á að umræddur málarekstur lyti að því að kæranda yrðu dæmdar skaðabætur úr hendi sveitarfélagsins vegna tjóns sem hlotist hefði af skipulagsbreytingum þess á athafnasvæði félagsins á X sem haft hefðu í för með sér að grundvöllur að starfsemi kæranda, þ.e. rekstri matvöruverslunar, hefði hrunið með öllu. Þar sem megintilgangur málsóknarinnar væri þannig að krefja sveitarfélagið X um skaðabætur vegna meints fjárhagstjóns kæranda yrði ekki talið að virðisaukaskattur af lögfræðikostnaði félagsins félli undir ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi rekið matvörumarkað á X frá stofnun félagsins og hafið byggingu húsnæðis undir starfsemina á árinu 1980. Á árinu 2002 hafi bæjaryfirvöld á X ráðist í ýmsar skipulagsbreytingar á athafnasvæði félagsins í miðbæ X. Þær breytingar hafi verið þess eðlis að aðgengi að verslunarhúsnæði kæranda hafi spillst og húsnæðið í raun einangrast frá verslunar- og þjónustubyggingum sem risið hafi í nágrenninu. Afleiðing þessa hafi verið sú að stoðum hafi verið kippt undan rekstri matvörumarkaðarins og hafi honum verið hætt í mars 2009 til þess að forðast frekara tjón. Í kjölfar þess hafi kærandi haft með höndum smávægilega verktakastarfsemi og efnissölu henni tengda. Á árinu 2006 hafi kærandi lagt í baráttu við sveitarfélagið X í því skyni að fá hlut félagsins réttan, skipulag lagfært og tjón félagsins vegna nefndra skipulagsbreytinga bætt. Af þeim sökum hafi verulegur lögfræðikostnaður fallið til hjá kæranda á árunum 2006-2010 vegna aðkeyptrar þjónustu B lögmannsstofu. Það sé mat stjórnenda kæranda að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í þann kostnað vegna hagsmuna félagsins gagnvart bæjaryfirvöldum á X. Kærandi hafi alla tíð haft með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi og umræddur kostnaður félagsins sé eins og hver annar kostnaður sem lagt sé í til að tryggja áframhaldandi skattskylda starfsemi. Þá sé rétt að benda á að hefðbundnum rekstri félagsins hafi ekki verið endanlega hætt fyrr en í mars 2009 þótt umsvif hafi áður dregist verulega saman vegna þeirra aðstæðna sem breytingar á deiliskipulagi hafi haft í för með sér. Ávinningur kæranda í málarekstri við sveitarfélagið sé fyrst og fremst fólginn í því að skipulag verði lagfært þannig að á ný verði unnt að stunda atvinnurekstur í verslunarhúsnæði félagsins og með betri árangri en núverandi skipulag bjóði upp á. Í niðurlagi kærunnar kemur fram til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar að kostnaður kæranda af rekstri málsins fyrir skattyfirvöldum nemi 138.000 kr. vegna 12 tíma vinnu við málið.
II.
Með bréfi, dags. 15. júní 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. júní 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 4. júlí 2012, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekað kröfur kæranda.
III.
Eins og fram er komið lýtur ágreiningur málsins að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að lækka tilfærðan innskatt í virðisaukaskattsskilum kæranda um 169.687 kr. árið 2006, 104.962 kr. árið 2007, 156.825 kr. árið 2008, 62.885 kr. árið 2009 og um 235.920 kr. árið 2010, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 31. janúar 2012. Þá bætti ríkisskattstjóri 10% álagi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við hækkun virðisaukaskatts kæranda sem af þessu leiddi, þó að frátöldu árinu 2010. Sá innskattur sem um ræðir er samkvæmt reikningum frá B lögmannsstofu vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu á því tímabili sem málið tekur til. Forsendur ríkisskattstjóra voru þær að umræddur kostnaður vegna lögfræðiþjónustu stafaði af málarekstri kæranda á hendur sveitarfélaginu X. Sá málarekstur lyti að meintri skaðabótaskyldu sveitarfélagsins gagnvart kæranda vegna skipulagsbreytinga sem haft hefðu í för með sér að félagið hefði neyðst til að hætta rekstri matvöruverslunar sinnar. Þar sem þeim rekstri væri lokið og megintilgangur málsóknar félagsins á hendur sveitarfélaginu X væri að fá dæmdar skaðabætur úr hendi sveitarfélagsins vegna tjóns af skipulagsbreytingum yrði ekki talið að um væri að ræða virðisaukaskatt af aðkeyptri vinnu eða þjónustu sem eingöngu varðaði sölu kæranda á vöru eða skattskyldri þjónustu, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988.
Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. sömu laga, virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Kemur fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/1988, að eftir því væri t.d. óheimill frádráttur innskatts sem varðar byggingu sem aðeins að hluta sé notuð í skattskyldri starfsemi fyrirtækis. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er ráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Þá eru talin upp í 3. mgr. greinarinnar nokkur tilvik, þar sem ekki er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þar til greindum aðföngum, þar á meðal hlunnindum til eiganda eða starfsmanna. Segir m.a. í athugasemdum með þeirri málsgrein að það leiði þegar af ákvæðum 1. mgr. að frádráttur innskatts á vörum, sem keyptar séu til einkaneyslu eigandans, sé óheimill, og varði slík innkaup ekki sölu skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu.
Samkvæmt samþykktum kæranda, sem fylgdu bréfi umboðsmanns félagsins til ríkisskattstjóra, dags. 8. apríl 2011, er tilgangur félagsins hvers konar verslunarrekstur, verktakastarfsemi, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Liggur fyrir að félagið rak um árabil matvöruverslun í fasteigninni að A-götu á X sem kærandi hafði á leigu vegna starfsemi sinnar. Af hálfu kæranda er komið fram að bæjaryfirvöld á X hafi á árinu 2002 hafið vinnu við skipulagsbreytingar á athafnasvæði kæranda, þ.e. á svokölluðum miðbæjarreit, og munu ýmsar breytingar á deiliskipulagi svæðisins hafa verið samþykktar í bæjarstjórn á árunum 2004 og 2005. Kærandi mótmælti þessum breytingum, sem m.a. fólu í sér byggingu upphækkaðs bílastæðahúss örfáum metrum fyrir framan inngang verslunar félagsins, og taldi þær rýra nýtingarmöguleika fasteignarinnar að A-götu og kippa fótum undan rekstrargrundvelli verslunarinnar. Í ársbyrjun 2006 fór kærandi fram á það við Héraðsdóm ... að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að leggja mat á þá skerðingu á nýtingarmöguleikum fasteignarinnar að A-götu og möguleikum til rekstrar matvöruverslunar í húsnæðinu sem fyrirhugaðar skipulagsbreytingar sveitarfélagsins X hefðu í för með sér, sbr. matsbeiðni, dags. 16. janúar 2006, sem er meðal gagna málsins. Fór kærandi þess m.a. á leit að lagt yrði mat á tjón félagsins sem sveitarsjóði væri skylt að bæta á grundvelli ákvæða 2. mgr. 33. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en í ákvæði þessu var fjallað um ákvörðun bóta vegna skipulagsaðgerða, sbr. nú 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna, dags. 26. apríl 2006, sem fyrir liggur í málinu, var komist að þeirri niðurstöðu að hafið væri yfir allan vafa að kostir verslunar að A-götu hefðu rýrnað verulega við þær breytingar sem gerðar hefðu verið á skipulagi „miðbæjarreits“, svo sem nánar var rakið. Þá var talið að nýtingarmöguleikar kæranda á húsnæðinu að A-götu hefðu rýrnað verulega við breytt deiliskipulag. Í samræmi við þessar niðurstöður og mat matsmanna á markaðsverði fasteignar og reksturs töldu þeir að tjón það, sem sveitarsjóði væri skylt að bæta samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga nr. 73/1997, væri að fjárhæð 30.000.000 kr. vegna niðurfellingar á verslunarrekstri, verðlækkunar á lager við endursölu og verðrýrnun á fasteigninni vegna breyttrar notkunar, sölukostnaðar og vaxtataps í söluferli, svo sem nánar var sundurliðað í matsgerðinni.
Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar lét kærandi af rekstri matvöruverslunar í A-götu í mars 2009 og hefur frá því haft með höndum smávægilega verktakastarfsemi og efnissölu. Af hálfu ríkisskattstjóra er og komið fram að skattskyld velta kæranda dróst verulega saman á árunum 2006 til 2009, sbr. yfirlit í hinum kærða úrskurði, en jókst á ný á árinu 2010. Eins og fram er komið er kærandi ekki eigandi fasteignarinnar A-götu, þótt félagið hafi staðið að byggingu húsnæðisins eftir því sem greint er frá í kæru. Hvað sem því líður verður að leggja til grundvallar að málarekstur kæranda á hendur sveitarfélaginu X hafi alfarið tengst þeirri starfsemi sem kærandi hafði áður með höndum í greindri fasteign, þ.e. rekstri verslunar, svo og er ágreiningslaust í málinu að lögfræðikostnaður sem um ræðir sé að öllu leyti til kominn vegna þessa málarekstrar kæranda. Viðurkennt er í skattframkvæmd að skráður aðili hafi rétt til innskattsfrádráttar vegna útgjalda til að bæta úr tjóni á eignum til nota í rekstri sínum, að uppfylltum almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts, sbr. umfjöllun á bls. 132 í Handbók um virðisaukaskatt, útg. 1998, þar sem m.a. kemur fram að frádráttarréttur tjónþola sé óháður því hvort hann beri tjón sitt sjálfur eða fái það bætt að hluta eða öllu leyti af tjónvaldi eða tryggingafélagi. Ekki standa rök til annars en að hið sama gildi um frádrátt virðisaukaskatts af aðkeyptri sérfræðiþjónustu vegna hagsmunagæslu í þessu sambandi.
Samkvæmt framansögðu er fallist á það með kæranda að telja beri umræddan lögfræðikostnað félagsins til innkaupa sem eingöngu varða virðisaukaskattsskylda starfsemi þess, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Fær ekki breytt þeirri niðurstöðu, eins og atvikum er háttað, þótt breytingar hafi orðið á starfsemi kæranda á árinu 2009 þegar verslunarrekstur í húsnæðinu lagðist af, enda hefur ekki verið dregið í efa að félagið hafi eftir sem áður með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Er krafa kæranda því tekin til greina.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað félagsins vegna meðferðar málsins, en í kæru er greint frá fjárhæð slíks kostnaðar. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði og með hliðsjón af því að engin gögn liggja fyrir um kostnað kæranda af málinu þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 70.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 70.000 kr.