Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Álag á virðisaukaskatt
- Leiðrétting yfirskattanefndar
- Sératkvæði
Úrskurður nr. 268/1997
Virðisaukaskattur árið 1993
Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. mgr., 27. gr. 6. mgr. Bréf ríkisskattstjóra 6. september 1991 um álag á vangreiddan virðisaukaskatt.
Kærandi bókfærði sölu samkvæmt einum sölureikningi of seint og leiddi það til þess að virðisaukaskattur var vangreiddur á uppgjörstímabilinu janúar–febrúar og ofgreiddur á tímabilinu mars–apríl. Af þessum sökum sætti kærandi álagi á vangreiddan virðisaukaskatt vegna fyrra uppgjörstímabilsins og hafnaði yfirskattanefnd kröfu um niðurfellingu álagsins. Var m.a. vísað til þess hversu seint skattskilin hefðu verið leiðrétt. Þá sætti kærandi álagi vegna síðbúinna skila virðisaukaskatts á tímabilunum september–október og nóvember–desember. Að því er þá álagsbeitingu varðaði taldi yfirskattanefnd að skattstjóra hefði láðst að taka tillit til ofgreiðslunnar vegna mars–apríl tímabilsins. Var þetta leiðrétt með úrskurðinum. Sératkvæði var um þetta atriði.
I.
Með kæru, dags. 7. mars 1995, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra frá 23. febrúar 1995 til yfirskattanefndar og gerir þá kröfu að álag vegna síðbúinnar greiðslu virðisaukaskatts, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem skattstjóri ákvarðaði kæranda hinn 30. september 1994 á grundvelli samanburðarblaða virðisaukaskatts (RSK 10.25 og 10.26), verði fellt niður. Til vara krefst kærandi þess að álag vegna uppgjörstímabilsins janúar–febrúar 1993 verði fellt niður. Kærandi gerir þá grein fyrir vangreiddum virðisaukaskatti vegna þess tímabils að einn reikningur hafi af vangá lagst til hliðar og hafi því verið bókaður of seint á rétt tímabil.
Með bréfi, dags. 22. september 1995, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjanda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Atkvæði meirihluta:
Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er boðið að skattskyldur aðili skuli sæta álagi til viðbótar virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á ef skatturinn er ekki greiddur á tilskildum tíma. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Fyrir liggur að virðisaukaskattur kæranda var vangreiddur uppgjörstímabilið janúar–febrúar 1993 þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Fram er komið í málinu af kæranda hálfu að vangreiðsla hans hafi stafað af þeim mistökum að einn reikningur hafi bókast á rangt tímabil þannig að virðisaukaskattur var vangreiddur á uppgjörstímabilinu janúar–febrúar 1993 en ofgreiddur á uppgjörstímabilinu mars–apríl 1993. Uppgjör virðisaukaskatts skal byggjast á færðu bókhaldi, sbr. 18. gr. laga nr. 50/1988 og m.a. 13. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Ekki verður séð af málsgögnum að kærandi hafi staðið skil á vangreiddum virðisaukaskatti af framangreindum ástæðum fyrr en hann leiddi mismuninn fram á samanburðarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.25) og leiðréttingarskýrslu (RSK 10.26), dags. 21. júní 1994, sem mun hafa fylgt skattframtali kæranda árið 1994. Skal tekið fram í þessu sambandi að skylda til að standa skil á samanburðarblöðum virðisaukaskatts byggist á 5. gr. reglugerðar nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. einnig IX. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 4. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Af lagaskyldu þeirri sem fram kemur í 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 leiðir hins vegar að kæranda bar að standa skil á leiðréttum virðisaukaskattsskýrslum er hann uppgötvaði að fyrri skýrslur voru rangar. Fallast ber á það með skattstjóra að eins og atvikum var háttað þykja ekki komnar fram slíkar málsbætur í tilviki kæranda að fella beri á þeim grundvelli niður álag samkvæmt heimildarákvæðum 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 vegna uppgjörstímabilsins janúar–febrúar 1993. Kröfu kæranda er því hafnað að því leyti. Að því er varðar uppgjörstímabilin september–október og nóvember–desember 1993 hefur skattstjóra láðst að taka tillit til ofgreidds virðisaukaskatts vegna mars–apríl 1993, sbr. starfsreglur ríkisskattstjóra, dags. 6. september 1991. Þykir bera að leiðrétta þetta, en það leiðir til þess að álag umrædd uppgjörstímabil fellur niður.
Atkvæði minnihluta:
Ég er sammála niðurstöðu meirihluta að öðru leyti en hvað varðar álag vegna tímabilanna september–október 1993 og nóvember–desember 1993.
Kærandi greiddi hluta af virðisaukaskatti sem honum bar að greiða vegna greiðslutímabilsins janúar–febrúar 1993 fyrst með virðisaukaskatti vegna síðara greiðslutímabils. Af þessum sökum var honum gert að greiða álag vegna fyrra tímabilsins. Vegna uppbyggingar innheimtukerfis er þetta álag ákvarðað þannig að búin er til skuld á fyrra tímabilinu og samsvarandi inneign á hinu síðara. Sú inneign gengur þegar í stað á móti skuldinni vegna fyrra tímabilsins. Eftir gjalddaga síðara tímabilsins er því ekki um að ræða neina inneign sem gengið getur á móti skuldum vegna enn síðari tímabila. Þvert á móti er þá um að ræða skuld vegna álagsins á fyrsta tímabilinu, enda er aðeins um að ræða tæknilega útfærslu á ákvörðun þess álags án þess að nokkuð hafi verið ofgreitt. Eru því ekki efni til að hagga við ákvörðun skattstjóra um álag vegna greiðslutímabilanna september–október 1993 eða nóvember–desember 1993.