Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Lífeyrisgreiðslur

Úrskurður nr. 67/2013

Gjaldár 2011

Lög nr. 90/2003, 1. gr. 1. mgr.   Auglýsing nr. 8/2008, um tvísköttunarsamning við Bandaríkin, 17. gr., 18. gr.  

Kærandi, sem var búsettur hér á landi og bar hér ótakmarkaða skattskyldu, fékk greiddan lífeyri frá Bandaríkjunum. Talið var að skattleggja bæri lífeyristekjurnar hér á landi, enda var ekki um að ræða greiðslur samkvæmt almannatryggingalöggjöf eða svipaðri löggjöf í Bandaríkjunum.

I.

Helstu málavextir eru þeir að í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 1. desember 2011, og svarbréf kæranda, dags. 21. sama mánaðar, og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 9. janúar 2012, og svarbréf kæranda, dags. sama dag, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2011 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 22. febrúar 2012, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í reit 319 í skattframtali hans árið 2011 erlendar lífeyristekjur að fjárhæð 66.462 bandaríkjadalir eða 8.091.828 kr. miðað við meðalkaupgengi bandaríkjadals á árinu 2010. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða lífeyrisgreiðslur frá Social Security í Bandaríkjunum að fjárhæð 19.560 bandaríkjadalir eða 2.381.453 kr. sem skattlagðar væru í Bandaríkjunum, sbr. 2. mgr. 17. gr. í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. auglýsingu nr. 8, 17. desember 2008 í C-deild Stjórnartíðinda. Þá væri einnig um að ræða lífeyrisgreiðslur frá Board of Pensions of the Evangelical Lutheran Church in America að fjárhæð 46.902 bandaríkjadalir eða 5.710.375 kr. Benti ríkisskattstjóri á að þar sem um væri að ræða lífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóði, sem ekki væru vegna fyrri starfa í þágu ríkis eða sveitarfélags, bæri að skattleggja umræddar tekjur á Íslandi en ekki í Bandaríkjunum, sbr. 1. mgr. 17. gr. fyrrnefnds tvísköttunarsamnings þar sem fram kæmi að eftirlaun og annað svipað endurgjald, sem greidd væru aðila heimilisföstum í samningsríki vegna fyrri starfa hans, skyldu einungis skattlögð í því ríki. Væri um að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 sem ekki féllu undir neinar undanþágur í 28. gr. sömu laga. Vegna lífeyristekna kæranda frá Social Security, sem skattleggja bæri í Bandaríkjunum, skyldi lausn undan tvísköttun tryggð með því að heimila frádrátt erlends skatts hér á landi, sbr. c-lið 3. mgr. 22. gr. tvísköttunarsamningsins. Í niðurlagi úrskurðar síns gerði ríkisskattstjóri grein fyrir skattstofnum við álagningu opinberra gjalda kæranda og maka hans gjaldárið 2011. Kom þar fram að tekjuskattsstofn kæranda var ákvarðaður sem tekjur hér á landi að viðbættum fyrrgreindum lífeyristekjum frá Bandaríkjunum, þ.e. tekjuskattsstofn 8.584.238 kr. Álagður tekjuskattur og útsvar ákvarðaðist síðan í sama hlutfalli af reiknuðum tekjuskatti og útsvari og nam hlutfalli tekna hér á landi og tekna frá Board of Pensions of the Evangelical Lutheran Church in America af tekjuskattsstofni kæranda eða 72,25%.

Með kæru, dags. 18. apríl 2012, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og kæranda ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði eftir mati yfirskattanefndar. Í kærunni eru áréttaðar þær skýringar sem fram komu af hálfu kæranda við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra, sbr. m.a. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 9. janúar 2012. Kærandi hafi alla tíð talið tekjur sínar frá Board of Pensions of the Evangelical Lutheran Church in America fram til skatts í Bandaríkjunum. Um sé að ræða sérstakan eftirlaunasjóð, sem byggður sé á frjálsum framlögum félagsmanna sem þegar hafi verið skattlögð í Bandaríkjunum. Úttektir úr sjóðnum séu því ekki skattskyldar í Bandaríkjunum. Umrædd úttekt kæranda tengist því ekki á neinn hátt vinnuframlagi hans, eins og ríkisskattstjóri hafi byggt á. Telji kærandi að ákvæði 18. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Bandaríkjanna eigi við um tekjurnar, miðað við eðli þeirra, og verði þær því ekki skattlagðar hér. Þar sem tekjurnar séu ekki skattlagðar í Bandaríkjunum sé afar íþyngjandi fyrir kæranda að njóta ekki sömu réttinda hér á landi.

II.

Með bréfi, dags. 8. júní 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. júní 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Kærandi í máli þessu er heimilisfastur hér á landi og ber hér ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum umræddum lífeyristekjum frá Bandaríkjunum. Við álagningu á kæranda bar hins vegar að gæta ákvæða tvísköttunarsamnings við Bandaríkin, sbr. auglýsingu nr. 8/2008 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt a-lið 3. mgr. 2. gr. samningsins tekur samningurinn að því er Ísland varðar til tekjuskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga. Í 1. mgr. 17. gr. samningsins kemur fram að með þeim undantekningum sem um ræðir í 2. mgr. 18. gr. (opinber þjónusta) skuli eftirlaun og annað svipað endurgjald, sem greidd eru aðila heimilisföstum í samningsríki vegna fyrri starfa hans, einungis skattlögð í því ríki. Þá kemur fram í 2. mgr. 17. gr. samningsins að greiðslur, sem samningsríki innir af hendi samkvæmt almannatryggingalöggjöf eða svipaðri löggjöf sinni til aðila sem er heimilisfastur í hinu samningsríkinu eða til bandarísks ríkisborgara skuli, sem fyrirvara um ákvæði 1. mgr., einungis skattlagðar í fyrrnefnda ríkinu. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 18. gr. tvísköttunarsamningsins skulu eftirlaun, sem eru greidd af eða úr sjóðum stofnuðum af samningsríki eða sjálfsstjórnarhéraði eða sveitarstjórn þess til manns fyrir störf hans í þjónustu þess ríkis eða sjálfsstjórnarhéraðs eða sveitarstjórnar (önnur en greiðslur sem ákvæði 2. mgr. 17. gr. (eftirlaun, almannatryggingar og lífeyrisgreiðslur) gildir um), einungis skattlögð í því ríki. Slík eftirlaun skulu þó einungis skattlögð í hinu samningsríkinu ef maðurinn er heimilisfastur þar og er jafnframt ríkisborgari þess ríkis, sbr. b-lið 2. mgr. 18. gr. Í 22. gr. samningsins er mælt fyrir um aðferð til að komast hjá tvísköttun hjá hvoru samningslandanna fyrir sig.

Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. apríl 2012, lýtur efnislegur ágreiningur málsins einvörðungu að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að skattleggja beri lífeyristekjur kæranda frá Board of Pensions of the Evangelical Lutheran Church in America að fjárhæð 5.710.375 kr. hér á landi. Verður því að líta svo á að engar athugasemdir séu gerðar af hálfu kæranda við þann þátt úrskurðar ríkisskattstjóra sem laut að meðferð greiðslna frá almannatryggingum („Social security“) að fjárhæð 2.381.453 kr. í skattskilum kæranda gjaldárið 2011, en eins og áður greinir lagði ríkisskattstjóri til grundvallar að skattlagningarréttur vegna þeirra greiðslna væri í Bandaríkjunum, sbr. 2. mgr. 17. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, og að greiðslurnar yrðu því ekki skattlagðar hér á landi. Við álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2011 samkvæmt úrskurðinum var þó tekið tillit til tekna þessara með þeim hætti sem rakið er í úrskurðinum, sbr. ákvæði c-liðar 3. mgr. 22. gr. tvísköttunarsamningsins sem þar er vísað til. Nánar tiltekið voru umræddar tekjur taldar með í skattstofni, en íslenskur skattur, þ.e. tekjuskattur og útsvar, lækkaður sem svaraði hlutfalli teknanna í skattstofni sem reiknaðist 27,75%.

Af hálfu kæranda er komið fram í málinu, sbr. m.a. bréf umboðsmanns hans til ríkisskattstjóra, dags. 9. janúar 2012, að Board of Pensions of the Evangelical Lutheran Church in America sé sérstakur eftirlaunasjóður sem byggður sé á frjálsum framlögum félagsmanna. Er tekið fram í kæru til yfirskattanefndar að úttekt kæranda úr sjóði þessum á árinu 2010 tengist ekki á neinn hátt vinnuframlagi hans. Miðað við þessar skýringar kæranda og gögn málsins að öðru leyti verður ekki annað séð en að umræddar tekjur falli undir meginreglu 1. mgr. 17. gr. tvísköttunarsamnings Íslands við Bandaríkin þannig að skattleggja beri tekjurnar hér á landi, enda er ekki um að ræða greiðslur samkvæmt almannatryggingalöggjöf eða svipaðri löggjöf í Bandaríkjunum, sbr. 2. mgr. 17. gr. samningsins. Vegna tilvísunar kæranda til a-liðar 2. mgr. 18. gr. samningsins í þessu sambandi skal tekið fram að ákvæði þess stafliðar tekur einvörðungu til eftirlauna frá hinu opinbera vegna fyrri starfa í þess þágu, sbr. hér að framan. Verður ekki séð að hinar umdeildu greiðslur frá Board of Pensions of the Evangelical Lutheran Church in America geti fallið þar undir.

Samkvæmt framansögðu og þar sem ekki er að öðru leyti ágreiningur um tilhögun álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2011 samkvæmt hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra er kröfu kæranda í máli þessu hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja