Úrskurður yfirskattanefndar

  • Útvarpsgjald
  • Dánarbú

Úrskurður nr. 82/2013

Gjaldár 2011

Lög nr. 6/2007, 11. gr. 1. mgr. 1. tölul.  

A lést í júlí 2010. Þar sem skattskyldu A lauk við andlát hans fékk ekki staðist að telja hann gjaldskyldan til útvarpsgjalds gjaldárið 2011. Samkvæmt því og þar sem dánarbú voru undanþegin gjaldskyldu til útvarpsgjalds var fallist á kröfu dánarbús A um niðurfellingu útvarpsgjalds gjaldárið 2011.

I.

Með kæru, dags. 16. janúar 2012, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. nóvember 2011, vegna álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2011. Er þess krafist af hálfu kæranda að álagt útvarpsgjald 17.900 kr. verði fellt niður. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að A andaðist ... júlí 2010. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2011 var kæranda ákvarðað útvarpsgjald 17.200 kr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf. Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 23. ágúst 2011, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 23. september 2011, krafðist umboðsmaður kæranda niðurfellingar álagðs útvarpsgjalds á kæranda gjaldárið 2011 á þeim grundvelli að dánarbúum bæri ekki að greiða útvarpsgjald gjaldárið eftir andlátsár.

Með kæruúrskurði, dags. 24. nóvember 2011, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að hin kærða álagning gjaldárið 2011 byggði á því að A hefði borið skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Álagning útvarpsgjalds væri ekki afmörkuð við þá sem bæru ótakmarkaða skattskyldu allt tekjuárið. Í tilviki kæranda ættu ekki við undanþágur samkvæmt lokamálslið 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007 varðandi aldurs- og tekjumörk. Samkvæmt þessu bæri kærandi gjaldskyldu til útvarpsgjalds gjaldárið 2011.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er bent á að útvarpsgjald hafi fyrst verið lagt á við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2009. Á árinu 2008 hafi Ríkisútvarpið hins vegar innheimt afnotagjöld af útvarpsnotendum. Álagningin gjaldárið 2009 hafi þannig ekkert haft með tekjuárið 2008 að gera, enda hefði önnur niðurstaða leitt til þess að gjaldendur hefðu greitt tvöfalt til Ríkisútvarpsins fyrir það ár. Á sama hátt sé ljóst að álagt afnotagjald gjaldárið 2011 sé vegna ársins 2011 en ekki ársins 2010. Dánarbúum beri því ekki að greiða afnotagjald gjaldárið eftir andlátsár.

IV.

Með bréfi, dags. 16. mars 2012, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. mars 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Með bréfi, dags. 28. mars 2012, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram athugasemdir sínar.

V.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með áorðnum breytingum, teljast til tekna Ríkisútvarpsins ohf. tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar (nú ríkisskattstjóri) leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hvílir gjaldskylda á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. gr. sömu laga. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2011 nam útvarpsgjald 17.900 kr. á hvern einstakling og lögaðila, sbr. 21. gr. laga nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, er öðlaðist gildi 1. janúar 2011, sbr. f-lið 29. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru dánarbú sem skipt er hér á landi sjálfstæðir skattaðilar. Við andlát A þann ... júlí 2010 lauk skattskyldu hans, en jafnframt stofnaðist skattskylda dánarbús hans. Skattskyldu dánarbús lýkur við skiptalok. Ekki verður annað ráðið en að dánarbú A hafi verið undir einkaskiptum í árslok 2010. Bar erfingjum því að telja fram fyrir það, sbr. 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, og gera grein fyrir tekjum hins látna til andlátsdags og tekjum dánarbúsins frá þeim degi til loka ársins 2010 ásamt eignum og skuldum 31. desember 2010. Ríkisskattstjóri lagði fyrirliggjandi skattframtal árið 2011, sem var sameiginlegt vegna tekna hins látna í lifanda lífi og tekna og eigna dánarbús hans, til grundvallar álagningu opinberra gjalda á báða skattaðilana. Fram er komið í málinu, sbr. kæruúrskurð ríkisskattstjóra, að hið kærða útvarpsgjald teljist hafa verið lagt á A.

Eins og fyrr segir lauk skattskyldu A við andlát hans þann ... júlí 2010. Að svo vöxnu og með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007 fékk ekki staðist að telja hann gjaldskyldan til útvarpsgjalds gjaldárið 2011. Þá eru dánarbú undanþegin gjaldskyldu til útvarpsgjalds, svo sem fram kemur í greindu lagaákvæði. Krafa kæranda er því tekin til greina.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en gert grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 25.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða álagning útvarpsgjalds gjaldárið 2011 fellur niður. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 25.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja