Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Úrvinnslugjald

Úrskurður nr. 23/2014

Bifreiðagjald og úrvinnslugjald 2013

Lög nr. 39/1988, 2. gr. (brl. nr. 156/2010, 10. gr.), 4. gr.   Lög nr. 162/2002, 5. gr.  

Kröfum kæranda um niðurfellingu eða lækkun bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds vegna bifreiðar hans, sem byggðust á því að bifreið kæranda væri mun minna ekið en bifreiðum almennt af sömu tegund, var hafnað. Var m.a. bent á að ekkert kæmi fram í lögum um að notkun ökutækis hefði þýðingu um ákvörðun bifreiðagjalds og engin heimild væri til þess að fella niður eða lækka úrvinnslugjald vegna slíkra aðstæðna.

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 5. mars 2013, er synjun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 22. janúar 2013, að fella niður álagt bifreiðagjald og úrvinnslugjald vegna bifreiðar kæranda XX-000 af gerðinni Nissan King Cab gjaldtímabilið janúar-júní 2013. Byggði ríkisskattstjóri á því að ekki væri lagaheimild til þess að taka tillit til þess við álagningu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, og úrvinnslugjalds samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, að bifreið væri lítið notuð.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að bifreið kæranda hafi aðeins verið notuð heima við í snattferðir, m.a. við flutninga, auk þess sem farnar hafi verið nokkrar ferðir árlega í sumarbústað kæranda í sama tilgangi. Samkvæmt skoðunarvottorðum hafi bifreiðinni verið ekið 3.675 km tímabilið 2009-2010, 3.552 km tímabilið 2010-2011 og 1.949 km tímabilið 2011-2012. Ekki sé fyrirsjáanlegt að notkun verði meiri næstu árin. Ríkisskattstjóri hafi talið að tilvik kæranda félli ekki undir ákvæði 4. gr. laga nr. 39/1988. Af þessu tilefni bendir kærandi á að samkvæmt umræddum lögum sé bifreiðagjald miðað við skráða losun koltvísýrings ökutækis sem mæld sé í grömmum á hvern ekinn kílómetra, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, en kærandi hafi sýnt fram á litla notkun bifreiðarinnar. Sé bifreiðinni ekið mun minna en nemi meðalnotkun bifreiða af þessari tegund, en þeim sé ekið um 15 til 20 þúsund kílómetra á ári.

II.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu í málinu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. maí 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 16. maí 2013, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum nr. 39/1988. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna, svo sem sú lagagrein orðast eftir breytingu samkvæmt 10. gr. laga nr. 156/2010, miðast bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili við skráða losun koltvísýrings (CO2) viðkomandi ökutækis. Er skráð losun „mæld í grömmum á hvern ekinn kílómetra“. Þetta orðalag ákvæðisins hefur gefið kæranda tilefni til þeirrar ályktunar að fjöldi ekinna kílómetra ökutækis hafi áhrif á fjárhæð kílómetragjalds á gjaldtímabili. Á þeim grundvelli krefst kærandi lækkunar bifreiðagjalds vegna bifreiðar sinnar, enda sé henni mun minna ekið en bifreiðum almennt af sömu tegund. Ekki verður fallist á framangreinda túlkun kæranda á orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 39/1988 sem felur ekki annað í sér en orðan mælieiningarinnar g CO2/km. Í lögum nr. 39/1988 kemur ekkert fram um það að notkun ökutækis hafi þýðingu um ákvörðun bifreiðagjalds, að því frátöldu sem leiðir af undanþáguákvæðum 4. gr. laganna, en óumdeilt er að þau ákvæði eigi ekki við í tilviki kæranda. Í ökutækjaskrá kemur fram að CO2 losun bifreiðarinnar XX-000 sé óþekkt. Var hið kærða bifreiðagjald því ákvarðað samkvæmt reiknireglu 3. mgr. 2. gr. laga nr. 39/1988. Hefur kærandi út af fyrir sig ekki gert athugasemdir við þann útreikning.

Um álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki er fjallað í 5. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal skráður eigandi gjaldskylds ökutækis á hverju gjaldtímabili greiða úrvinnslugjald að fjárhæð 350 kr. fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Gjaldið skal innheimt með bifreiðagjaldi og fer um greiðsluskyldu, gjalddaga, eindaga, álagningu, innheimtu gjaldsins og kæruheimild samkvæmt lögum um bifreiðagjald. Engin heimild er til þess samkvæmt lögum þessum að fella niður eða lækka úrvinnslugjald á ökutæki vegna þeirra aðstæðna sem greint er frá í kæru.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja