Úrskurður yfirskattanefndar
- Upphaf skattskyldu lögaðila
Úrskurður nr. 26/2014
Gjaldár 2009
Lög nr. 90/2003, 2. gr. 1. mgr. 1. tölul. Lög nr. 6/2007, 11. gr. 1. mgr. 1. tölul.
Ákvörðun ríkisskattstjóra að leggja opinber gjöld gjaldárið 2009 á einkahlutafélag, sem stofnað var 11. febrúar 2009, var felld niður með vísan til þess að félagið hefði ekki borið skattskyldu umrætt gjaldár vegna tekna á árinu 2008.
I.
Með kæru, dags. 31. júlí 2013, hefur fyrirsvarsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. júlí 2013, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009. Í úrskurði ríkisskattstjóra, kom fram að ríkisskattstjóra hefði borist hinn 13. júní 2013 skattframtal kæranda árið 2009 og væri skattframtalið tekið til úrskurðar samkvæmt 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. heimild þá sem mælt væri fyrir um í 2. mgr. 101. gr. sömu laga. Samkvæmt úrskurðinum var hrein eign kæranda ákvörðuð 500.000 kr. Sú grein var gerð fyrir skattbreytingum í úrskurðinum að á kæranda legðist útvarpsgjald 17.200 kr.
Í kæru til yfirskattanefndar er álagningu útvarpsgjalds mótmælt með vísan til þess að engin starfsemi hafi verið hjá kæranda á árinu 2008 og kennitala ekki fengin fyrr en árið 2009.
II.
Með bréfi, dags. 30. september 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Útvarpsgjald 2009 er lagt á samkvæmt 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., og hvílir gjaldskyldan á þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Kærandi er skráður í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem einkahlutafélag skv. tilkynningu dags. 11. febrúar 2009 um stofnun einkahlutafélags, sem móttekin var hjá ríkisskattstjóra þann 16. febrúar 2009. Félagið er því skattskyldur lögaðili samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og eru forsendur undanþágu frá gjaldskyldu skv. 11. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. ekki til staðar skv. framanskráðu.
Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna fyrir álagningu útvarpsgjalds, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
III.
Kærandi er einkahlutafélag sem var stofnað 11. febrúar 2009 samkvæmt stofngögnum sem bárust hlutafélagaskrá 16. febrúar 2009. Kærandi bar því ekki skattskyldu gjaldárið 2009 vegna tekna á árinu 2008. Stóðst samkvæmt þessu ekki að ríkisskattstjóri legði opinber gjöld á kæranda gjaldárið 2009, hvað sem leið innsendu skattframtali félagsins það ár. Hin kærða álagning gjaldárið 2009 er því felld niður.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009 fellur niður.