Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu
  • Metanbifreið

Úrskurður nr. 32/2014

Bifreiðagjald 2013

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður ((brl. nr. 37/2000, 4. gr., sbr. brl. nr. 156/2010, 11. gr.).  

Kærendur voru eigendur tveggja bifreiða og var metan aðalorkugjafi annarrar bifreiðarinnar sem jafnframt var þyngri en hin bifreið kærenda. Hafði bifreiðagjald verið fellt niður af metanbifreiðinni á grundvelli undanþágu kærenda frá slíku gjaldi vegna umönnunargreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærendur kröfðust þess að undanþágan tæki til hinnar bifreiðarinnar, enda bæri hún hærra bifreiðagjald en metanbifreiðin. Yfirskattanefnd taldi að ekki yrði litið framhjá því að orðalag laga væri ótvírætt um niðurfellingu bifreiðagjalds af þyngstu bifreið við þær aðstæður að rétthafi undanþágu ætti fleiri en eina bifreið. Var kröfu kærenda hafnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik með þeim hætti að af hálfu kæranda, B, var leitað til ríkisskattstjóra með umsókn, dags. 3. júlí 2013, er barst embættinu hinn 8. s.m., og farið fram á að bifreiðagjald af bifreiðinni XX001 yrði fellt niður, enda nyti kærandi umönnunargreiðslna með barni sínu, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, um breyting á þeim lögum. Erindinu fylgdi yfirlýsing frá Tryggingastofnun ríkisins um umönnunargreiðslu til kæranda.

Með úrskurði, dags. 19. júlí 2013, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir því að erindi kæranda varðaði niðurfellingu bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar XX001 fyrir 2. gjaldtímabil 2013 og til ársins 2017. Tók ríkisskattstjóri fram að við skoðun á málinu hefði komið í ljós að bifreiðagjald að fjárhæð 5.255 kr. fyrir 2. gjaldtímabil 2013 hefði verið fellt niður af bifreiðinni XX002 sem einnig væri í eigu fjölskyldu kæranda (maka). Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, tæki réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds einungis til einnar bifreiðar. Í lagaákvæði þessu væri tekið fram að ef sá, sem rétt ætti á niðurfellingu bifreiðagjalds, ætti fleiri en eina bifreið skyldi bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem væri þyngst. Þar sem þegar væri búið að fella niður bifreiðagjald af þeirri bifreið kæranda sem þyngst væri, þ.e. bifreiðinni XX002, væri engin heimild til að fella niður bifreiðagjald af öðrum ökutækjum í eigu kæranda.

II.

Með kæru, dags. 26. júlí 2013, hafa kærendur skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. júlí 2013, til yfirskattanefndar. Krefjast kærendur þess að úrskurði ríkisskattstjóra verði hnekkt og bifreiðagjald af bifreiðinni XX001 verði fellt niður. Í kærunni benda kærendur á að þau hafi nýlega eignast bifreiðina XX001. Hafi kærendur talið að þau þyrftu að sækja aftur um niðurfellingu bifreiðagjalds í ljósi þessara bifreiðaskipta og þess að sonur kærenda hafi fengið nýtt umönnunarmat sem gilti frá júlí 2013 til ársins 2017. Kærendur benda á að bifreiðin XX002 sé metanbifreið og beri því lægsta mögulegt bifreiðagjald eða 5.255 kr. Bifreiðagjald vegna XX001 sé hins vegar 15.559 kr. Munur á þyngd þessara bifreiða sé 200 kg. Líklegt sé að ákvæði laga um bifreiðagjald, sem mæli fyrir um undanþágu vegna þeirrar bifreiðar sem vegi þyngst, eigi sér þá skýringu að sú bifreið beri alla jafna hæsta bifreiðagjaldið. Markmið undanþágunnar sé væntanlega að hún gagnist fjölskyldum barna, sem þurfi mikla umönnun, sem best með því að fella niður bifreiðagjald af ökutækinu sem beri hærra gjaldið. Í ljósi þess að XX002 sé ekið á innlendu vistvænu eldsneyti, sem losi lágmarks koltvíoxíð, sé þess krafist að að bifreiðagjald verði frekar felld niður af XX001 sem beri hærra bifreiðagjald og sé þyngri í rekstri fyrir fjölskylduna.

III.

Með bréfi, dags. 23. september 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ákvæði um undanþágu frá gjaldskyldu bifreiðagjalds í a-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, gefa til kynna að fella skuli niður bifreiðagjald, hjá þeim sem eiga fleiri en eina bifreið og rétt eiga á niðurfellingu, af þeirri bifreið sem er þyngst. Undanþága frá bifreiðagjaldi vegna bifreiða sem knúnar eru metan, sem fram kemur í f-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 39/1988, kom fram í 11. gr. laga nr. 156/2010. Í 9. gr. þess frumvarps til laga sem varð að lögum nr. 156/2010 er að finna ákvæðið sem er í 11. gr. laga nr. 156/2010. Í athugasemdum með 9. gr. frumvarpsins er ekki að sjá að ætlun löggjafans hafi verið að víkja skyldi frá þeirri aðferð til að undanþiggja bifreiðagjald sem lýst er í a-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 39/1988 ef bifreið væri knúin metan.

Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. júlí 2013, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Eins og að framan greinir leitaði kærandi, B, til ríkisskattstjóra hinn 8. júlí 2013 með beiðni um undanþágu frá gjaldskyldu til bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar XX001, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum. Samkvæmt ákvæði þessa stafliðar greinarinnar eru bifreiðar í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins undanþegnar bifreiðagjaldi. Sama rétt eiga foreldrar langveikra og fjölfatlaðra barna sem vistuð eru utan heimilis ef réttur til umönnunargreiðslna héldist óskertur væri barnið heima. Tekið er fram í 6. málslið stafliðarins að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds af bifreiðum í eigu þeirra sem fái umönnunargreiðslur vegna örorku barna nái til einnar bifreiðar og sé bundinn því skilyrði að skráður eigandi bifreiðar samkvæmt ökutækjaskrá fari með forsjá barnsins. Þá er kveðið á um það í 7. málslið stafliðarins að ef sá, sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds, eigi fleiri en eina bifreið skuli bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem sé þyngst. Með hinum kærða úrskurði, dags. 19. júlí 2013, synjaði ríkisskattstjóri fyrrgreindri beiðni kæranda á þeim grundvelli að bifreiðagjalds vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember 2013 hefði þegar verið fellt niður vegna annarrar bifreiðar í eigu fjölskyldu kæranda, þ.e. bifreiðarinnar XX002 sem skráð var í eigu kæranda, A. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds tæki aðeins til einnar bifreiðar og þá þeirrar sem þyngst væri.

Ákvæði um umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Kærendur eru hjón sem eru samvistum og verður að ganga út frá því að umönnunargreiðslur vegna barns þeirra hafi verið inntar af hendi til kærenda beggja sem framfærenda barnsins. Samkvæmt þessu verður að telja að ríkisskattstjóra hafi verið rétt að líta til sameiginlegrar bifreiðaeignar kærenda við ákvörðun um undanþágu frá bifreiðagjaldi.

Álykta má að með reglunni í 7. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um að undanþága bifreiðagjalds eigi við þá bifreið sem sé þyngst, þegar svo hagar til að rétthafi undanþágu á fleiri en eina bifreið, hafi verið stefnt að því að fella niður hæsta gjaldið við þessar aðstæður. Verður í þessu sambandi að hafa í huga þá tilhögun varðandi ákvörðun bifreiðagjalds, sem var við líði fyrir gildistöku laga nr. 156/2010, að miða gjald þetta alfarið við þyngd bifreiðar. Með lögum nr. 156/2010 varð sú breyting á löggjöf um bifreiðagjald að í stað þess að miða skyldi við þyngd ökutækis er nú í meginatriðum litið til skráðrar losunar koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Jafnframt var með greindum breytingalögum kveðið á um sérstakt frávik frá reglum um ákvörðun bifreiðagjalds þegar í hlut eiga ökutæki sem nota metan sem aðalorkugjafa, sbr. nú f-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, án þess þó að bifreiðagjald væri fellt með öllu niður af slíkum ökutækjum. Engin breyting var gerð samhliða þessum breytingum á fyrrgreindu ákvæði í 7. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Þrátt fyrir það sem álykta má um tilgang reglu, sem þar kemur fram, verður ekki fram hjá því litið að orðalag ákvæðisins er ótvírætt um niðurfellingu bifreiðagjalds af þyngstu bifreiðinni við þær aðstæður sem þar greinir.

Samkvæmt framansögðu fær krafa kærenda ekki samþýðst beinu orðalagi undanþáguákvæðis a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Því verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja