Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Frádráttur vegna greiddrar leigu
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 68/2014

Gjaldár 2012

Lög nr. 90/2003, 30. gr. 3. mgr.  

Í máli þessu kom fram að kærendur hefðu ákveðið að leigja íbúð sína út á árinu 2011 þar sem hún hefði verið orðin of lítil fyrir fjölskylduna og taka sjálf á leigu stærra húsnæði. Þá lá fyrir að kærendur seldu íbúðina á árinu 2012. Yfirskattanefnd taldi vafalaust að íbúðarhúsnæði gæti ekki talist ætlað til eigin nota í skilningi skattalaga ef eigandi þess ráðgerði ekki að taka það til eigin nota að nýju í framhaldi af útleigu þess. Var kröfu kærenda um frádrátt greiddrar húsaleigu frá tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis hafnað.

I.

Með kæru, dags. 23. apríl 2013, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 14. nóvember 2012, vegna álagningar opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2012, sbr. og úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 4. mars 2013, þar sem embættið hafnaði beiðni kærenda um endurupptöku málsins. Er kæruefnið sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kærendum um frádrátt greiddrar húsaleigu frá húsaleigutekjum í skattframtali árið 2012, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. mars 2013, að kærendur hefðu leigt út íbúð að M á árinu 2011 og tekjur af útleigunni numið 540.000 kr. Á sama ári hefðu kærendur leigt íbúð að N. Ríkisskattstjóri benti á að það væri skilyrði fyrir frádrætti húsaleigugjalda á móti leigutekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis að útleiga eigin íbúðarhúsnæðis væri tímabundin, sbr. ákvæði 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 og athugasemdir með ákvæðinu í frumvarpi er varð að lögum nr. 57/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Leigusamningur kærenda vegna íbúðar að götu N væri ótímabundinn og af hálfu kærenda væri komið fram, sbr. bréf til ríkisskattstjóra, dags. 29. janúar 2013, að þau hefðu tekið íbúðina á leigu þar sem íbúðin að götu M hefði verið orðin of lítil fyrir fjölskylduna. Sú íbúð hefði síðan verið seld í mars 2012. Að fengnum þeim upplýsingum væri það álit ríkisskattstjóra að íbúðin gæti ekki talist hafa verið í tímabundinni útleigu í skilningi 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, enda yrði ráðið af skýringum kærenda að ekki hefði verið ætlunin að flytja aftur í íbúðina. Yrði því að hafna beiðni kærenda um frádrátt greiddrar leigu frá leigutekjum.

Í kæru umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar er þess krafist að kærendum verði veittur frádráttur vegna greiddrar leigu í skattframtali sínu árið 2012 þannig að skattlagning húsaleigutekna vegna útleigu M falli niður. Í kærunni kemur fram að svo virðist sem ríkisskattstjóri hafi byggt á því að húsaleigusamningur um íbúðina við M sé ótímabundinn. Það sé rangt þar sem leigutímabilið sé tilgreint frá 1. apríl 2011 til 1. apríl 2012. Um sé að ræða litla risíbúð á 4. hæð sem henti ágætlega barnlausu pari, en síður barnafólki. Kærendur hafi eignast dóttur 26. júlí 2009 og í kjölfar þess tekið á leigu stærri íbúð að N. Þau hafi gert ráð fyrir því að fá að draga greidda leigu vegna N frá húsaleigutekjum af M. Af málsatvikum öllum sé ljóst að þeim beri ekki að greiða skatt af umræddum húsaleigutekjum og sé slík skattlagning bersýnilega ósanngjörn. Leigan af íbúðinni við N sé mun hærri en leigutekjur af íbúðinni við M. Með vísan til 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 sé þess því krafist að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Með bréfi, dags. 10. júní 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. júní 2013, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 29. júní 2013, hefur umboðsmaður kærenda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram að kröfur og rök kærenda séu ítrekuð, einkum með tilliti til þess að húsaleigusamningur vegna M hafi verið tímabundinn en ekki ótímabundinn eins og ríkisskattstjóri hafi byggt á. Þá sé þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði eftir mati yfirskattanefndar.

III.

Húsaleigutekjur eru skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um frádrátt frá tekjum manna utan atvinnurekstrar er fjallað í 30. gr. laga nr. 90/2003. Í 3. mgr. þeirra lagagreinar kemur fram að hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði, án þess að það teljist vera atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, er honum heimilt að draga frá þeim tekjum húsaleigugjöld af íbúðarhúsnæði til eigin nota. Er tekið fram að frádráttur þessi leyfist eingöngu til frádráttar leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er tímabundið til útleigu.

Umrætt frádráttarákvæði í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 var tekið upp í lög um tekjuskatt með 1. gr. laga nr. 57/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 57/1994, var ekki gert ráð fyrir því að frádráttarheimildin tæki eingöngu til tímabundinnar útleigu á eigin íbúðarhúsnæði, eins og bent var á í athugasemdum með frumvarpinu. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gerði hins vegar breytingar á frumvarpinu í það horf, sem að lögum varð, og þrengdi heimildina þannig að hún varð bundin við frádrátt frá leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er tímabundið til útleigu.

Af hálfu kærenda er komið fram í málinu, sbr. bréf þeirra til ríkisskattstjóra, dags. 29. janúar 2013, og kæru til yfirskattanefndar, að þau hafi ákveðið að leigja íbúð sína að M út á árinu 2011 þar sem íbúðin hafi verið orðin of lítil fyrir fjölskylduna og taka sjálf á leigu stærra húsnæði við N. Liggur og fyrir að kærendur seldu íbúðina við M á árinu 2012. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að kærendur hafi ekki ráðgert að taka húsnæðið við M til íbúðar að nýju í kjölfar útleigu þess. Telja verður vafalaust að íbúðarhúsnæði getur ekki talist ætlað til eigin nota í skilningi 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 ef eigandi þess ráðgerir ekki að taka það til eigin nota að nýju í framhaldi af útleigu þess. Bæði orðalag ákvæðisins og lögskýringargögn þykja styðja þá túlkun. Að þessu virtu verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu. Tekið skal fram, vegna sjónarmiða í kæru til yfirskattanefndar og bréfi til nefndarinnar, dags. 29. júní 2013, að ekki getur skipt neinu máli þótt íbúðin að M hafi verið leigð út tímabundið til eins árs, eins og fram kemur í fyrirliggjandi húsaleigusamningi, dags. 1. apríl 2011, þar sem byggja verður á því að kærendur hafi ekki ráðgert frekari íbúðarnot af húsnæðinu, sbr. hér að framan.

Samkvæmt framangreindum úrslitum málsins verður að hafna kröfu kærenda um að þeim verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja