Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtatekjur
  • Tekjutímabil
  • Lagaskil

Úrskurður nr. 448/2012

Staðgreiðsla 2011

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 3. tölul., 8. gr. 2. mgr. 2. tölul., 59. gr. 2. mgr., 66. gr. 3. mgr.   Lög nr. 97/1996, ákvæði til bráðabirgða I.  

Með dómi í ársbyrjun 2011 var Landsvirkjun dæmd til að greiða kæranda endurgjald vegna skerðingar vatnsréttinda ásamt vöxtum frá 22. ágúst 2007 til greiðsludags. Fyrir yfirskattanefnd var deilt um staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjunum, en af hálfu kæranda var því haldið fram að skattleggja bæri þann hluta vaxtateknanna, sem fallið hefði til á árunum 2008-2010, í samræmi við þau skatthlutföll fjármagnstekjuskatts sem þá hefðu verið í gildi. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að í dómsmálinu hefði verið ágreiningur um greiðsluskyldu Landsvirkjunar gagnvart kæranda. Af því þótti leiða að vextir af kröfu kæranda gætu ekki talist áfallnir eða áunnir fyrr en krafan sjálf hefði verið viðurkennd með dómnum, hvað sem liði umdæmdu vaxtatímabili. Því hefði borið að haga staðgreiðsluskilum vegna vaxtateknanna í samræmi við gildandi skatthlutfall á þeim tíma þegar niðurstaðan í dómsmálinu lá fyrir og þar með tímamark tekjufærslu. Var kröfum kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að með dómi Héraðsdóms ... 25. janúar 2011 í máli nr. ..., sem höfðað var af kæranda og fleiri aðilum á hendur Landsvirkjun vegna ágreinings um verðmæti vatnsréttinda við Z-á, var Landsvirkjun dæmd til að greiða kæranda og Y-banka hf. sem eigendum bótaréttar vegna skerðingar vatnsréttinda Z-ár fyrir landi jarðarinnar X samtals 2.181.104 kr. að frádreginni innborgun 1.147.294 kr. með tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum, svo sem nánar var rakið í dómsorði. Með bréfi ... lögmannsstofu til kæranda, dags. 28. febrúar 2011, var greint frá því að við uppgjör á greiðslu Landsvirkjunar í kjölfar dómsins yrði m.a. að huga að staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts. Kom fram að skattyfirvöld litu svo á að standa bæri skil á 20% fjármagnstekjuskatti af vöxtum og dráttarvöxtum af greiðslunni þrátt fyrir að um væri að ræða dæmda vexti vegna tímabils frá árinu 2007. Í bréfinu kom fram að afdregin staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af greiðslu Landsvirkjunar til kæranda að fjárhæð 1.097.997 kr. yrði því 92.323 kr. sem lögmannsstofunni bæri að inna af hendi sem skilaskyldum aðila, sbr. lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 9. mars 2011, mótmælti kærandi fyrrgreindum afdrætti fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 92.323 kr. af greiðslu Landsvirkjunar til hans á árinu 2011. Krafðist kærandi þess að einvörðungu yrði haldið eftir staðgreiðslu skatts að fjárhæð 62.803 kr. og að honum yrði endurgreiddur mismunur, þ.e. ofgreidd staðgreiðsla, að fjárhæð 29.521 kr. Í bréfinu kom fram að krafa kæranda byggði á því að miða bæri staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af vöxtum við skatthlutfall fjármagnstekjuskatts sem gilt hefði á þeim tíma þegar vextirnir hefðu fallið til, þ.e. 10% skatthlutfall vegna tímabilsins 22. ágúst 2007 til 1. júlí 2009, 15% skatthlutfall vegna tímabilsins 1. júlí til 31. desember 2009, 18% skatthlutfall vegna ársins 2010 og 20% skatthlutfall vegna tímabilsins frá 1. janúar 2011 til greiðsludags. Í bréfinu kom fram að um væri að ræða kæru á staðgreiðslu vegna ágreinings milli skattskylds og skilaskylds aðila, þ.e. kæranda og lögmannsstofu, sbr. kæruheimild í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 94/1996. Þá var í bréfinu vikið að lögum nr. 97/1996 og bent á að við upptöku fjármagnstekjuskatts með greindum lögum hefði verið tekið upp bráðabirgðaákvæði, þ.e. ákvæði til bráðabirgða I, þess efnis að vextir af bréfum og kröfum sem gefin hefðu verið út eða stofnað hefði verið til fyrir 1. janúar 1997 teldust ekki til skattskyldra vaxtatekna að því leyti sem vextirnir hefðu verið áfallnir 1. janúar 1997. Ekki hefði þannig verið heimilt að skattleggja áfallna vexti sem fallið hefðu til fyrir gildistöku laganna, sbr. bann 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, við afturvirkni skattalaga. Við hækkun fjármagnstekjuskatts úr 10% í 15% á árinu 2009 hefði löggjafinn í raun verið í sömu stöðu og við upptöku fjármagnstekjuskatts á árinu 1996. Bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 94/1996, sbr. lög nr. 70/2009, væri alveg sambærilegt bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 97/1996 og ætlað að tryggja að skattlagning yrði ekki afturvirk. Í ákvæðinu væri rætt um það hvenær fjármagnstekjur féllu til en ekki hvenær þær teldust greiðslukræfar. Lykilatriði í máli kæranda væri að krafa hans hefði stofnast á árinu 2007 og þá verið gjaldkræf, enda væri viðurkennt að krafan ætti að bera dráttarvexti frá þeim tíma. Ekki gæti staðist að miða bæri skatthlutfall við lög á þeim tíma þegar krafa væri raunverulega greidd, þ.e. 23. febrúar 2011 í tilviki kæranda. Túlkun 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 í þessu sambandi vægi tæpast þungt andspænis stjórnarskrárákvæðum og meginreglum um lagaskil. Jafnvel þótt fallist yrði á að greindar vaxtatekjur kæranda væru óvissar í einhverjum skilningi bæri að hafa í huga það eðli vaxta að falla til á ákveðnum tímabilum. Atvik á hverju tímabili réðu fjárhæð vaxta og þar af leiðandi skattstofni. Óhugsandi væri að tilviljunarkennd atvik, svo sem hvenær skuldari kysi að greiða gjaldfallna skuld, gætu ráðið skattskyldu.

Með kæruúrskurði, dags. 13. apríl 2011, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða um skattskyldu vaxta í 3. tölul. C-liðar 7. gr. og 8. gr. laga nr. 90/2003 og benti á að meginreglan væri sú að vextir teldust til skattskyldra tekna þegar þeir væru greiddir eða greiðslukræfir, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laganna. Áfallnir en ógreiddir vextir teldust því ekki til skattskyldra tekna. Þá yrði að líta svo á að umræddar vaxtatekjur kæranda frá Landsvirkjun hefðu verið óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 þar til þær hefðu verið greiddar á árinu 2011. Þá vék ríkisskattstjóri að bráðabirgðaákvæðum I og III í lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og tók fram að ákvæði þessi hefðu engin áhrif á skattskyldu áfallinna en óinnleystra vaxtatekna þar sem slíkar tekjur hefðu ekki talist skattskyldar á árinu 2009. Helguðust ákvæði þessi enda af sérstakri 5% tekjuskattsviðbót á fjármagnstekjur frá 1. júlí 2009. Umrædd bráðabirgðaákvæði yrði að skýra til samræmis þannig að þau hefðu eðli máls samkvæmt ekki tekið til skattskyldu og staðgreiðslu af öðrum fjármagnstekjum en þeim sem fallið hefðu til og verið greiddar eða greiðslukræfar á árinu 2009. Hjá mönnum utan atvinnurekstrar yrði skattlagning fjármagnstekna ekki framkvæmd miðað við annað tímamark en það þegar tekjurnar væru greiddar eða yrðu greiðslukræfar og réðist skattlagning teknanna af því skatthlutfalli sem þá væri í gildi. Væri það því niðurstaða ríkisskattstjóra að af fjármagnstekjum sem væru greiddar eða greiðslukræfar á árinu 2011 bæri að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts miðað við 20% skatthlutfall. Kröfum kæranda væri því hafnað.

II.

Með kæru, dags. 29. apríl 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. apríl 2011, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurði ríkisskattstjóra verði hrundið og að fallist verið á að miða staðgreiðslu skatts af vaxtatekjum kæranda frá Landsvirkjun við 10% skatthlutfall vegna tímabilsins 22. ágúst 2007 til 1. júlí 2009, 15% skatthlutfall vegna tímabilsins 1. júlí til 31. desember 2009, 18% skatthlutfall vegna ársins 2010 og 20% skatthlutfall vegna tímabilsins frá 1. janúar 2011 til greiðsludags. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í kærunni eru áréttuð þau rök og sjónarmið sem fram komu í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 9. mars 2011. Er m.a. bent á að lagaskilareglur vegna upptöku skatts á fjármagnstekjur á árinu 1996 miði tímamark skattskyldu við það atvik hvenær vextir falli til, en ekki hvenær þeir séu greiddir eða greiðslukræfir. Í raun megi jafna atvikum í máli kæranda við þá aðstöðu að skattur á launatekjur yrði hækkaður í miðjum mánuði og hækkunin látin taka til launa fyrir allan mánuðinn. Enginn eðlismunur sé á aðstöðunni, þ.e. tekjur verði til á tilteknu tímabili, annars vegar vegna vinnuframlags og hins vegar vegna umlíðan skuldar, og skattalög geri ráð fyrir því að skattgreiðslur séu inntar af hendi eftir að tímabilið sé liðið. Að mati kæranda felist ágreiningsefni málsins einkum í því að af hálfu ríkisskattstjóra sé ekki gerður greinarmunur á því annars vegar hvenær tekjur skuli teljast til skattskyldra tekna samkvæmt reglum skattalaga og hins vegar að um skattskyldu fari eftir gildandi skattalögum á þeim tíma þegar tekjur falla til. Hafa beri í huga að fjármagnstekjur vegna vanskilakrafna séu iðulega greiddar löngu eftir að vextir falla til, en það hafi ekki þá þýðingu að heimilt sé að skattleggja slíkar tekjur án tillits til þess skatthlutfalls sem í gildi hafi verið á viðkomandi tímabili. Að mati kæranda megi í þessu sambandi líta til sjónarmiða sem fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands frá 28. maí 2003 í máli nr. 499/2002 þar sem reynt hefði á afturvirkni skattalaga. Í máli kæranda sé raunar um að ræða augljósari afturvirkni. Þá verði ekki séð að bannákvæði 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar geri neinn greinarmun á upptöku nýs skatts, sbr. lög nr. 97/1996, eða hækkun skatthlutfalls, sbr. lög nr. 70/2009, með tilliti til lagaskila. Áfallnir vextir verði ekki skattlagðir hafi heimild fyrir skattlagningu ekki verið fyrir hendi þegar vextirnir féllu til. Í niðurlagi kæru kæranda er farið fram á að mál kæranda verði flutt munnlega fyrir yfirskattanefnd, sbr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

III.

Með bréfi, dags. 30. september 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Málið varðar skatthlutfall fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum sem kæranda voru dæmdar í héraðsdómsmálinu nr. ... þann 25. janúar 2011.

Umboðsmaður kæranda gerir kröfu um „að rétt staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts vegna kröfu kæranda miði við hlutfall fjármagnstekjuskatts sem í gildi voru þegar vextir féllu til á kröfuna, þ.e. 10% til 1. júlí 2009, 15% þar eftir til ársloka 2009, 18 % árið 2010 og 20% árið 2011 fram til greiðsludags“.

Í málinu er deilt um afdrátt staðgreiðslu tekjuskatts af vöxtum sem kæranda voru dæmdir með dómi héraðsdóms ... þann 25. janúar 2011 í málinu nr. ...

Samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. lög nr. 164/2010, skal tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar vera 20% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljast í þessu sambandi tekjur skv. 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Með 1. gr. laga nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var skatthlutfall fjármangstekna einstaklinga utan rekstrar hækkað úr 18% í 20%. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga segir „Ákvæðið gerir ráð fyrir að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar hækki úr 18% í 20% vegna tekna sem falla til frá og með 1. janúar 2011. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við álagningu á árinu 2012.“

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 er fjallað um einstakar tegundir krafna og inneigna. Þar segir: „Til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr., af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljast vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir [feitl. hér] og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Til tekna í þessu sambandi telst enn fremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum. Ákvörðun tekna skal vera þannig:

1. Vextir af reikningum í innlánsstofnunum skulu teljast til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar á reikningi. Þó skulu vextir af reikningum þar sem höfuðstóll og vextir eru bundnir til lengri tíma en 36 mánaða ekki teljast til tekna fyrr en þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.

2. Vextir af kröfu skulu teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.“ [feitl. hér]

...

Í kæru vísar umboðsmaður m.a. til bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 90/2003 og lög nr. 94/1996, sem sett voru með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Umrædd bráðabirgðaákvæði giltu skv. orðalagi sínu eingöngu um fjármagnstekjur sem komu til skattlagningar (voru greiddar eða urðu greiðslukræfar) á tímabilinu 1. júní (sic) til 31. desember 2009. Umræddum bráðabirgðaákvæðum var þannig ætlað að taka til fjármagnstekna sem til féllu og komu til skattlagningar á tilteknu afmörkuðu tímabili.

Benda má á í þessu sambandi að með 6. gr. laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, voru gerðar eftirfarandi breytingar á 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:

„a. Á eftir 7. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum, sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr., skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Ákvæði þetta gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í heimilisfestarríki sínu. Ákvæðið á ekki við kveði tvísköttunarsamningur sem Ísland hefur gert við erlent ríki á um að ekki skuli haldið eftir afdráttarskatti af vöxtum. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Í 29. gr. sömu laga kemur eftirfarandi fram:

„Ákvæði 6. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda vegna vaxta sem gjaldfalla og verða greiðslukræfir frá og með 1. september 2009 eða síðar. Hafi hluti vaxta áunnist fyrir gildistöku laganna eru þeir hvorki skattskyldir né staðgreiðsluskyldir.“

Samkvæmt framansögðu skal við ákvörðun á tímamarki skattskyldu vaxtatekna miða við að vextir hafi verið greiddir eða séu greiðslukræfir, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Við setningu 6. gr. laga nr. 70/2009, sem breytti 3. gr. laga nr. 90/2003, þurfti því að taka sérstaklega fram að ákvæðið tæki eingöngu til vaxta sem áunnust eftir gildistöku laganna, þ.e. 1. september 2009, sbr. 29. gr. laganna. Að öðrum kosti hefði meginreglan um skattlagningu við greiðslu vaxtanna eða þegar þeir urðu greiðslukræfir gilt. Framangreind lagaskilaregla á einungis við um vexti greidda erlendum aðilum skv. 8. tölul. 3. gr.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. október 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 5. október 2011, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 21. júní 2012, var hafnað beiðni kæranda um munnlegan flutning máls þessa fyrir nefndinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Með bréfi, dags. 25. júní 2012, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir kostnaði kæranda vegna málsins.

IV.

Eins og fram er komið höfðuðu kærandi og fleiri aðilar mál á hendur Landsvirkjun á árinu 2008 vegna ágreinings um verðmæti vatnsréttinda í eigu stefnenda við Z-á. Með dómi Héraðsdóms ... 25. janúar 2011 var Landsvirkjun dæmd til að greiða kæranda og Y-banka ehf. sem eigendum bótaréttar vegna skerðingar vatnsréttinda Z-ár fyrir landi jarðarinnar X samtals 2.181.104 kr. að frádreginni innborgun með tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum, þ.e. nánar tiltekið almennum vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. ágúst 2007 til og með 21. október 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá og með 22. október 2007 til greiðsludags, eins og fram kom í dómsorði. Samkvæmt gögnum málsins innti Landsvirkjun af hendi greiðslu til kæranda á grundvelli dómsins þann 23. febrúar 2011 að fjárhæð samtals 1.097.998 kr. og kemur fram í kæru til yfirskattanefndar að þar af hafi vextir og dráttarvextir numið 461.617 kr. Lögmannsstofa, sem tók við greiðslunni fyrir hönd kæranda, stóð skil á 20% tekjuskatti að fjárhæð 92.323 kr. af greindum vaxtatekjum til ríkissjóðs, sbr. lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum. Um réttmæti þess afdráttar er deilt í málinu. Telur kærandi að þar sem umræddar vaxtatekjur hafi fallið til á tímabilinu frá 22. febrúar 2008 til 23. febrúar 2011 hafi ekki staðist að miða staðgreiðsluhlutfall vegna teknanna í heild við 20% skatthlutfall fjármagnstekjuskatts, þ.e. skatthlutfall sem gilt hafi frá og með 1. janúar 2011, sbr. lög nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Telur kærandi að skattleggja beri umræddar vaxtatekjur í samræmi við þau skatthlutföll sem í gildi voru á fyrrgreindu tímabili, þ.e. með 10% skatthlutfalli vegna tímabilsins frá 22. febrúar 2008 til 30. júní 2009, 15% skatthlutfalli vegna tímabilsins frá 1. júlí til 31. desember 2009, 18% skatthlutfalli vegna tímabilsins frá 1. janúar til 31. desember 2010 og með 20% skatthlutfalli vegna tímabilsins frá 1. janúar 2011 til greiðsludags 23. febrúar 2011. Í fylgiskjali með kæru til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir útreikningi fjármagnstekjuskatts miðað við greindar forsendur og lýtur krafa kæranda að því að staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af vöxtunum lækki úr 92.323 kr. í 62.803 kr.

Af hálfu ríkisskattstjóra er framangreindum skilningi kæranda hafnað. Er litið svo á í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra að vexti beri að skattleggja í samræmi við lög á þeim tíma þegar vextirnir eru greiddir skattaðila eða teljast greiðslukræfir, enda miðist skattskylda vaxtatekna við það tímamark, sbr. ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 59. gr. sömu laga. Hinar umdeildu vaxtatekjur kæranda hafi verið óvissar tekjur í skilningi síðastnefnds ákvæðis áður en dómur héraðsdóms í máli hans á hendur Landsvirkjun var kveðinn upp í janúar 2011. Þá fyrst hafi vaxtatekjurnar orðið greiðslukræfar og beri því að skattleggja tekjurnar í heild sinni eftir þeim reglum sem þá giltu, þ.e. með 20% skatthlutfalli samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 164/2010.

Samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. laganna, til skattskyldra tekna. Í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr. sömu greinar, af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljist vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Til tekna í þessu sambandi teljist ennfremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum. Um ákvörðun tekna í einstökum tilvikum er nánar fjallað í sjö töluliðum í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Kemur fram í 2. tölul. málsgreinarinnar að vextir af kröfu skuli teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.

Meginregla laga nr. 90/2003 um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum kemur fram í 2. mgr. 59. gr. laganna og er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“ Meginregla þessi, kröfustofnunarregla, var upphaflega lögfest með 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/1935, um tekjuskatt og eignarskatt, og hefur æ síðan verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um nýmæli þetta sagði svo í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 6/1935, en grein þessi varð 7. gr. laganna (Alþt. 1934, A-deild, bls. 101–102): „Að lokum er bætt við greinina því nýmæli, að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefur myndast krafa á hendur öðrum, þótt ógreitt sé. Er það í samræmi við framtalsvenju manna almennt, en auðveldara er til samanburðar og yfirlits fyrir skattanefndir, að sem flestir fylgi sömu framtalsreglu að þessu leyti.“

Með dómi Héraðsdóms ... 25. janúar 2011 í máli kæranda o.fl. á hendur Landsvirkjun var leyst úr ágreiningi aðila um verðmæti vatnsréttinda við Z-á. Var Landsvirkjun dæmd til að greiða kæranda endurgjald fyrir nýtingu vatnsréttindanna í samræmi við niðurstöðu sérstakrar matsnefndar, sem aðilar höfðu með samningi sín á milli falið að meta verðmæti réttindanna, að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum, svo sem fyrr greinir. Verður því að fallast á með ríkisskattstjóra að hinar umdeildu vaxtatekjur kæranda komi til skattlagningar í skattframtali árið 2012 vegna tekjuársins 2011 þar sem um óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 sé að ræða sem ekki urðu greiðslukræfar fyrr en við uppkvaðningu dóms héraðsdóms í janúar 2011, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Hið sama gildir um endurgjald það sem kæranda var dæmt. Verður raunar ekki séð að ágreiningur sé um þetta í málinu. Ljóst er að í dómsmálinu var ágreiningur um greiðsluskyldu Landsvirkjunar gagnvart kæranda og öðrum stefnendum málsins. Það þykir leiða af þessu að vextir af kröfu kæranda geta ekki talist áfallnir eða áunnir fyrr en krafan sjálf var viðurkennd með fyrrgreindum dómi, hvað sem líður umdæmdu vaxtatímabili. Verður því ekki talið að lagasjónarmið að baki bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 97/1996 og ákvæðum til bráðabirgða I og III í lögum nr. 70/2009, sem kærandi hefur vísað til, hafi þýðingu í málinu. Að þessu athuguðu verður að telja að haga beri staðgreiðsluskilum vegna greindra tekna kæranda í samræmi við gildandi skatthlutfall á þeim tíma þegar niðurstaðan í dómsmáli kæranda lá fyrir og þar með tímamark tekjufærslu, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim málsúrslitum verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja