Úrskurður yfirskattanefndar

  • Olíugjald
  • Sekt

Úrskurður nr. 386/2012

Ríkisskattstjóri gerði kæranda, sem var einkahlutafélag, sekt vegna brota á reglum um olíugjald þar sem í ljós kom við sýnatöku úr eldsneytisgeymi vörubifreiðar í eigu kæranda í ágúst 2010 að lituð olía var notuð á bifreiðina. Kærandi hélt því fram að ekki væri um brot að ræða þar sem vörubifreiðin hefði ekki verið í notkun, enda hefði bifreiðin verið ónothæf vegna bilana. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram af því tilefni að bifreiðin hefði verið skráð í ökutækjaskrá á umræddum tíma og hvorki verið afskráð né skráð tímabundið úr notkun. Voru ekki talin skilyrði til niðurfellingar eða lækkunar sektar og var kröfu kæranda þar að lútandi hafnað.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, mótt. 28. febrúar 2011, hefur fyrirsvarsmaður kæranda mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 1. desember 2010, að gera kæranda sekt að fjárhæð 500.000 kr. samkvæmt 5. mgr., sbr. 6. og 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að notkun litaðrar gjaldfrjálsrar olíu á ökutæki kæranda, skráningarnúmer X, hafi verið andstæð lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður og fésektin endurgreidd með dráttarvöxtum.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 5. ágúst 2010, kom í ljós við sýnatöku úr eldsneytisgeymi ökutækisins X, sem er Ford pallbifreið (Ford F250 Crew Cab), árgerð 2000, skráð í ökutækisflokk sem Vörubifreið I (N2), að lituð olía hefði verið notuð á ökutækið. Í skýrslu eftirlitsmanna kemur fram að tvö sýni voru tekin úr tanki bifreiðarinnar á jörðinni C. Í skýrslunni er ökumaður ekki tilgreindur, en fyrirsvarsmaður kæranda, B, undirritar skýrsluna sem ökumaður og eru athugasemdir hans skráðar í skýrslunni. Í athugasemdunum kemur fram að umrædd bifreið hafi ekki verið í notkun í vegakerfi ríkisins og eingöngu verið notuð við bústörf. Hafi olían lengi verið á bifreiðinni. Þá er þess getið að fyrirsvarmaðurinn geri ekki athugasemdir við störf eftirlitsmannanna aðrar en þær að hann efist um „heimild til að koma heim að bæjum til að taka sýni úr kyrrstæðum bifreiðum“, eins og þar segir.

Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 4. nóvember 2010, með yfirskriftinni „Boðun sektar vegna brots á reglum um olíugjald“. Í bréfinu vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið skýrslu, dags. 5. ágúst 2010, frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins X er væri 3.991 kg að heildarþyngd. Kom fram að sýni hefðu verið tekin úr eldsneytistanki bifreiðarinnar og sjónræn niðurstaða gefið til kynna að um litaða olíu væri að ræða. Í kjölfarið hefði olíusýni verið sent til Efnagreiningar Keldnaholti til athugunar og samkvæmt skýrslu þess aðila, dags. 24. september 2010, hefði hlutfall litarefnis í olíunni verið 80,4%, en færi hlutfall litarefnis í ólitaðri olíu yfir 3% teldist olía lituð, sbr. 4. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 283/2005, um litun á gas- og díselolíu. Fylgdu umræddar skýrslur eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og Efnagreiningar bréfi ríkisskattstjóra. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, varðaði það sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og næmi sekt 500.000 kr. ef heildarþyngd ökutækis væri á bilinu 3.501-10.000 kg. Tók ríkisskattstjóri ákvæði 3. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 orðrétt upp í bréfinu. Í ljósi framangreinds og með vísan til 3. mgr. 4. gr., 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 500.000 kr. Var kæranda veittur 15 daga frestur í bréfinu til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar. Boðaðri sektarákvörðun ríkisskattstjóra var ekki mótmælt af hálfu kæranda.

Með úrskurði, dags. 1. desember 2010, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 500.000 kr. vegna ökutækisins X, sbr. greind ákvæði laga nr. 87/2004 sem ríkisskattstjóri vísaði til sem áður. Þá rakti ríkisskattstjóri sem áður málavexti og ítrekaði röksemdir sínar, sbr. boðunarbréf, dags. 4. nóvember 2010.

III.

Í ódagsettri kæru fyrirsvarsmanns kæranda til yfirskattanefndar, sem móttekin var hinn 28. febrúar 2011, er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og fésektin verði „endurgreidd með dráttarvöxtum“. Í kærunni er tekið fram að eftirlitsmenn Vegagerðarinnar hafi tekið olíusýni úr bifreiðinni X á einkajörð kæranda án samþykkis fyrirsvarsmanns félagsins. Olían hafi reynst vera með litarefni að þeirra sögn. Eins og fram komi í skýrslu fyrirsvarsmannsins á vettvangi hafi nefnd bifreið aldrei verið notuð í vegakerfi ríkisins. Farið hafi verið með umrædda bifreið í aðalskoðun hinn 9. mars 2009 og hafi hún þá reynst varhugaverð í umferð og hafi frestur til endurskoðunar verið veittur til 30. apríl 2009. Ekki sé enn búið að lagfæra bifreiðina vegna skorts á varahlutum og sé bifreiðin því óökuhæf með tilliti til öryggis annarra í umferðinni. Bifreiðin hafi því staðið á einkajörð kæranda, en til að fyrirbyggja skemmdir hafi hún verið gangsett öðru hverju og þá með litaðri olíu. Fram kemur að fyrirsvarsmaðurinn efist um að embætti ríkisskattstjóra sé heimilt að beita fésektum þegar kærufrestur sé ekki liðinn.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. maí 2011, bárust viðbótargögn í máli kæranda. Í bréfinu rekur umboðsmaðurinn málsatvik og tekur fram í fyrsta lagi að bifreiðin X hafi ekki verið í neinni notkun þegar starfsmenn Vegagerðarinnar hafi borið að garði. Bifreiðinni hafi verið lagt eins og áður segi í útskoti á hlaði C vegna þess að hún hafi verið ónothæf til aksturs. Um enga notkun hafi verið að ræða á bifreiðinni og sé því mótmælt sem ósönnuðu og röngu að bifreiðin hafi verið í notkun. Af þeim sökum eigi ekki að beita viðurlagaákvæðum laga nr. 87/2004 í tilviki kæranda. Í öðru lagi sé ljóst að engin ásetningur sé til staðar eða lögbrot og sé því mótmælt að bifreiðin hafi verið notuð með hinni lituðu olíu sem sett hafi verið á til gangsetningar hennar til varnar vélarskemmdum. Í þriðja lagi telur umboðsmaðurinn að tilvik kæranda falli fullkomlega undir 8. tölul. 4. gr. laga nr. 87/2004, enda þótt ekki hafi verið um neina notkun á bifreiðinni að tefla í umrætt sinn. Í fjórða lagi telur umboðsmaðurinn að líta beri til þess hver sé tilgangur með aðgreiningu notkunar litaðrar olíu og ólitaðrar. Ólituð olía sé eins og kunnugt sé nýtt á bifreiðar sem hagnýti sér þjóðvegi landsins. Af ólitaðri olíu gangi hluti afraksturs ríkissjóðs til Vegasjóðs. Sé það gert í þeim tilgangi að nýta það fé til endurbóta og viðhalds þjóðvega í landinu. Bifreiðin X hafi aldrei verið hagnýtt með þeim hætti með annarri olíu en ólitaðri olíu. Í skýrslu Vegagerðarinnar sé haft eftir framkvæmdastjóra kæranda að hann mótmæli því að Vegagerðin hafi heimildir til þess að fara inn á einkalóð í því skyni að skoða tæki, sem ekki séu í notkun, og beita viðurlögum laga nr. 87/2004. Sé þeirri aðgerð mótmælt sérstaklega sem tilhæfulausri og ólögmætri. Að lokum sé sérstaklega mótmælt þeim framgangi ríkisskattstjóra að gera kröfu um sekt á hendur kæranda, sem reist sé á úrskurði ríkisskattstjóra sjálfs, en úrskurðurinn sé kæranlegur og verði að telja óviðurkvæmilegt og rangt að knýja fram með innheimtuaðgerðum greiðslu á umræddum viðurlögum, áður en málið hafi hlotið endanlega afgreiðslu stjórnvalds, þ.e. yfirskattanefndar. Í ljósi framangreinds sé gerð sú krafa að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og kæranda endurgreidd inngreiðsla vegna máls þessa.

IV.

Með bréfi, dags. 8. apríl 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Þá hefur ríkisskattstjóri með bréfi, dags. 1. júlí 2011, lagt fram svofellda framhaldskröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda í tilefni af greinargerð umboðsmanns kæranda, dags. 6. maí 2011:

„Í kæru kæranda er í fyrsta lagi haldið fram að bifreiðin hafi ekki verið í neinni notkun þegar starfsmenn Vegagerðarinnar bar að garði og „af þeim sökum eigi ekki að beita ákvæðum viðurlaga í l. nr. 87/2004 í þessu tilviki.“

Umboðsmaður kæranda heldur því fram í fyrsta lagi að bifreiðin hafi ekki verið í neinni notkun þegar starfsmenn Vegagerðarinnar bar að garði enda hafi bifreiðin verið ónothæf til aksturs. Af þessu tilefni skal tekið fram að hugtakið notkun hefur í skilningi laga nr. 87/2004 ekki verið skýrt svo þröngri skýringu í skattframkvæmd. Þannig hefur það verið talið duga til sakfellingar að tekið sé sýni úr birgðageymum, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Þá hefur verið talið fullnægjandi að sýni sé tekið úr eldsneytistönkum bifreiða á eldsneytisstöðum olíufélaganna enda þótt bifreiðum hafi ekkert verið ekið eftir áfyllingu. Þá hefur kærandi ekki lagt fram neinar sönnur á það að ökutækið hafi verið óökuhæft og hafa skráningarnúmer bifreiðarinnar ekki verið í innlögn frá því að bifreiðin var tekin í notkun.

Í öðru lagi er því haldið fram að enginn ásetningur hafi verið til staðar. Því er til að svara að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en dráttarvélar, námuökutæki, beltabifreiðar, bifreiðar í eigu björgunarsveita og ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota. Í 5. mgr. 19. gr. laganna segir að sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki varði það sektum og fer sektin eftir heildarþyngd ökutækisins. Í 6. mgr. sömu greinar segir síðan að skráðum eiganda ökutækis sé gerð sekt óháð því hvort að brot sé rakið til saknæmrar háttsemi hans eður ei.

Í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 169/2006, segir svo:

„Einnig er lögð til hlutlæg ábyrgð skráðs eiganda ökutækis vegna brota sem tilgreind eru í þessari grein. Ökumaður kann að vera annar en umráðamaður þess eða skráður eigandi. Er fyrirséð að í sumum tilvikum þar sem svo háttar til sé nánast ómögulegt að upplýsa um hver þeirra hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þótt ljóst sé að brot hafi verið framið. Er því lagt til að skráður eigandi ökutækisins beri refsiábyrgð án tillits til þess hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans.“

Í þriðja lagi er því haldið fram að 8. tölul. 4. gr. eigi við í tilviki kæranda. Af þessu tilefni skal tekið fram að það ákvæði á eingöngu við um þau ökutæki sem þar eru tilgreind. Því er ekki haldið fram að bifreið kæranda sé skráð sem beltabifreið eða námuökutæki og því á tilvitnað ákvæði ekki við í tilviki kæranda.

Loks kemur fram í kæru að telja verði „óviðurkvæmilegt og rangt að knýja fram með innheimtuaðgerðum greiðslu á umræddum viðurlögum, áður en að málið hefur hlotið endanlega afgreiðslu stjórnvalds (yfirskattanefndar)“. Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þá frestar kæra til yfirskattanefndar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Að framangreindu virtu ítrekar ríkisskattstjóri áður fram komna kröfugerð, dags. 8. apríl 2011.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. júlí 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram ný gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2011, sem barst yfirskattanefnd hinn 22. júlí 2011, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu tekur umboðsmaðurinn fram að úrslit málsins og úrlausn yfirskattanefndar hljóti að taka mið af því hvort brotið hafi verið framið og notkun átt sér stað o.s.frv. Ágreiningslaust sé að bifreiðin hafi ekki verið í notkun þegar athugun fór fram. Ennfremur hafi bifreiðin verið ónothæf til aksturs og staðið ónothæf á geymslustað á jörðinni C. Að því er varðar þá málsástæðu ríkisskattstjóra að hugtakið notkun í skilningi laga nr. 87/2004 hafi ekki verið skýrt svo þröngri skýringu í skattframkvæmd tekur umboðsmaðurinn fram að notkun vélknúins ökutækis sé skilgreind í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 21/1914. Þá hafi Hæstiréttur Íslands skorið úr um notkunarhugtak bifreiða, meðal annars á þá lund að skilyrði fyrir bótaskyldu sé að bifreið hafi verið í notkun í skilningi umferðarlaga sem vélknúið ökutæki þegar atburðir áttu sér stað. Í máli þessu hátti svo til að umrædd bifreið hafi verið óökufær í engri notkun á geymslusvæði í einkaeign. Augaleið gefi að túlkun ríkisskattstjóra á notkunarhugtakinu sé einfaldlega röng, enda sé engin lagalegur grundvöllur eða rökstuðningur fyrir lögskýringu embættisins um hugtakið notkun.

Þá kemur fram í bréfi umboðsmannsins að í öðru lagi sé fjallað um hvort lögbrot hafi átt sér stað og hvort umrædd bifreið hafi verið notuð með hinni lituðu olíu. Í lögum nr. 87/2004 sé ávallt gert ráð fyrir því að beitt sé takmörkunum með þeim hætti að lituð olía verði ekki notuð á vélknúin ökutæki nema í þeim tilvikum sem greini í lögum nr. 87/2004. Í tilviki kæranda hafi bifreiðin verið með ólitaðri olíu, þegar hún var í notkun, en vegna þess að bifreiðin hafi staðið ónotuð um langt skeið hafi verið nauðsynlegt að setja á hana olíu til þess að ræsa vélina og forða henni frá skemmdum. Nærtækast hafi verið að setja á vélina þá olíu sem notuð sé á dráttarvélar búsins og sé til á staðnum, enda fráleitt að verið sé að hagnýta þá olíu til notkunar á bifreiðinni sem slíkri. Rétt sé að geta þess að kærandi hafi aldrei hagnýtt litaða olíu á vélknúin ökutæki í umferð. Svo virðist sem ríkisskattstjóri hafi ekki fengið upplýsingar um óökufærni bifreiðarinnar, en lagt sé fram skoðunarvottorð ökutækisins þar sem fram komi að dagsetning skoðunarskyldu hafi verið 9. mars 2009. Þá hafi verið veittur frestur til endurskoðunar til 9. apríl (sic) sama ár, en bifreiðin hafi þá reynst óökufær og hafi ekki verið skoðuð frá þeim tíma. Hafi hún staðið án notkunar, sem áður segi, á geymslustæði á jörðinni C. Í bréfinu er vísað til meðfylgjandi ljósrits af skoðunarvottorði, en jafnframt tekið fram að unnt sé að leita staðfestingar annarra aðila á því hvort bifreiðin hafi verið hagnýtt og notuð í skilningi tilvitnaðra laga.

Umboðsmaður kæranda tekur fram í bréfinu að í kröfugerð ríkisskattstjóra sé vísað til athugasemda með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 169/2006, og hafi embættið uppi vangaveltur um hvor beri ábyrgð, umráðamaður eða ökumaður, þegar erfitt reynist að upplýsa hvor hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, enda þótt ljóst sé að brot hafi verið framið. Í tilviki kæranda eigi þessi tilvitnun engan veginn við, en fyrir liggi að ökumaður og eigandi komu hvergi að máli einfaldlega vegna þess að ekkert brot var framið.

Þá vísar umboðsmaður kæranda til þess að í bréfi sínu, dags. 6. maí 2011, hafi hann talið að horfa mætti með lögjöfnun til 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 þar sem hugsanlegt væri að breyta bifreiðinni úr því að vera vélknúið ökutæki yfir í það að verða vél sem nýta mætti til búreksturs. Slíkt hafi þó ekki verið gert í tilviki kæranda.

Loks ítrekar umboðsmaður kæranda mótmæli sín samkvæmt bréfi, dags. 6. maí 2011, við framgöngu ríkisskattstjóra, sem taki sjálfur ákvörðun um hvort sök sé til staðar, ákveði sekt og knýi á um innheimtu sektar. Ljóst sé að meðalhófs sé ekki gætt hér og eigi áður fram komin sjónarmið kæranda við að öllu leyti.

Með vísan til framangreindra raka og sjónarmiða er áréttuð krafa kæranda um að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 1. desember 2010, verði felldur úr gildi.

Með bréfi, dags. 21. október 2011, hefur ríkisskattstjóri lagt fram á ný framhaldskröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda. Kemur þar fram að kröfugerð embættisins frá 8. apríl 2011 sé ítrekuð þar sem ekki verði séð að nein ný gögn eða málsástæður komi fram í bréfi kæranda, dags. 20. júlí 2011.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. október 2011, var kæranda sent ljósrit af framhaldskröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag. Kæran varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 1. desember 2010, að gera kæranda sekt að fjárhæð 500.000 kr. eftir ákvæðum 5. mgr., sbr. 6. og 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með áorðnum breytingum, fyrir að hafa notað litaða olíu á ökutækið X, sbr. skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 5. ágúst 2010, um brot á reglum um olíugjald, og skýrslu Efnagreiningar Keldnaholti, dags. 24. september 2010, vegna athugunar á litarefni í olíu, en skýrslur þessar eru meðal gagna málsins. Eins og fram er komið er umrætt ökutæki vörubifreið samkvæmt flokkun í ökutækisflokk, nánar tiltekið Vörubifreið I (N2): Vörubifreið með leyfða heildarþyngd 12.000 kg eða minna, sbr. skilgreiningu reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, sbr. reglugerð nr. 822/2004 um það efni.

Eins og fram er komið, sbr. greinda skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, voru sýni tekin úr eldsneytistanki umræddrar bifreiðar á jörðinni C hinn 5. ágúst 2010 og reyndist lituð olía vera á ökutækinu. Er það raunar óumdeilt. Hins vegar er því borið við af hálfu kæranda að ekkert brot á lögum nr. 87/2004 hafi verið framið með því að bifreiðin hafi ekki verið í notkun þegar sýnatakan fór fram í hlaðvarpanum á C, enda bifreiðin ónothæf og óökuhæf vegna bilana, sbr. framlagt skoðunarvottorð frá 9. mars 2009 og önnur gögn og lýsingar á ástandi ökutækisins. Bifreiðin hafi þannig ekki verið notuð í vegakerfi ríkisins. Hafi þannig ekki verið uppfyllt skilyrði um notkun sem telja verði að felist í lögum nr. 87/2004. Þá er því borið við að saknæmisskilyrði séu ekki uppfyllt, enda ljóst að enginn ásetningur hafi verið til staðar eða lögbrot. Að auki er fundið að vinnubrögðum eftirlitsmanna Vegagerðarinnar svo og málsmeðferð ríkisskattstjóra. Hafi eftirlitsmennirnir enga heimild haft til að fara inn á „einkalóð í því skyni að skoða tæki, sem ekki eru í notkun og beita viðurlögum, laga nr. 87/2004“, eins og segir í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. maí 2011. Um hafi verið að ræða tilhæfulausa og ólögmæta aðgerð. Þá er af hálfu kæranda því teflt fram að beita megi ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 í tilviki kæranda með lögjöfnun. Loks er því borið við að ríkisskattstjóri hafi ekki gætt meðalhófs og ranglega knúið í gegn innheimtu á fésekt áður en málið hafi hlotið endanlega afgreiðslu yfirskattanefndar.

Síðastgreinda athugasemd kæranda verður að skilja svo að þar sem sektarákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði embættisins, dags. 1. desember 2010, samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 hafi verið kærð til yfirskattanefndar samkvæmt kæruheimild í sömu málsgrein umræddrar lagagreinar hafi borið að fresta réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Eins og fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, dags. 1. júlí 2011, er svo mælt fyrir um í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 9. tölul. 36. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kæra til yfirskattanefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Með vísan til þessa á þessi athugasemd umboðsmanns kæranda ekki við rök að styðjast.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2004, eins og ákvæðið hljóðaði á greindum tíma, sbr. síðar breytingar með 18. gr. laga nr. 164/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012, skal greiða í ríkissjóð vörugjald af gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að gjaldskyldum aðilum samkvæmt 3. gr. sömu laga sé heimilt að selja eða afhenda olíu samkvæmt 1. gr. án innheimtu olíugjalds í tilgreindum tilvikum sem talin eru upp í einstökum töluliðum málsgreinarinnar. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds samkvæmt 2.-9. tölul. 1. mgr. sé að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr. laganna. Litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst sé í 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og ræðst sektarfjárhæð af heildarþyngd ökutækis, svo sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Sé heildarþyngd ökutækis 3.501 til 10.000 kg skal fjárhæð sektar nema 500.000 kr., nú 750.000 kr., sbr. breytingu með 3. gr. laga nr. 63/2010 er tók gildi 1. október 2010. Sektarfjárhæðina skal lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Sektarfjárhæð skal að hámarki lækkuð um helming. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu, sbr. niðurlag 5. mgr. 19. gr. laganna. Í 6. mgr. 19. gr. kemur fram að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. greinarinnar óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Hafi umráðamaður ökutækis gerst sekur um brot samkvæmt 4. og 5. mgr. sé hann ábyrgur fyrir greiðslu sektarinnar ásamt skráðum eiganda. Í 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 segir að gera megi lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Eins og fram er komið verður að telja óumdeilt að við sýnatöku þá, sem fór fram hinn 5. ágúst 2010, hafi komið í ljós að lituð olía var í eldsneytisgeymi ökutækis kæranda, sbr. niðurstöðu Efnagreiningar Keldnaholti, dags. 24. september 2010, um hlutfall litarefnis í olíunni. Umrætt ökutæki var skráð í ökutækjaskrá og á skráningarmerkjum á greindum tíma, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með áorðnum breytingum. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 önnur en dráttarvélar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. lagagreinar þessarar. Ljóst er og óumdeilt að greindar undantekningar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 eiga ekki við í tilviki kæranda og því óþarft að fjalla frekar um þær.

Þrátt fyrir þær aðstæður, sem hér hefur verið lýst, telur kærandi að ekki hafi verið brotið gegn fyrirmælum laga nr. 87/2004 þar sem engri notkun á umræddu ökutæki hafi verið fyrir að fara á greindum tíma, enda hafi það verið óökuhæft vegna bilana svo sem nánar er lýst. Svo sem áður greinir er einkum vísað til upplýsinga um ástand ökutækisins í skoðunarvottorði, dags. 9. mars 2009, sem liggur fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarvottorðinu er fundið að sex atriðum, þ.e. þokuljósum, lekamengun, hjólhlífum, stýrisendum, spindlum og tengibúnaði. Féllu tvö fyrstu aðfinnsluefnin undir lagfæringu (1) og hin síðari fjögur undir endurskoðun (2) og varð niðurstaða skoðunarinnar endurskoðun og frestur gefinn til 30. apríl 2009. Samkvæmt þessu stóð skoðunin út af fyrir sig ekki í vegi fyrir því að ökutækið væri notað. Af hálfu kæranda hefur ekkert frekar komið fram um ástand ökutækisins í einstökum atriðum eftir skoðunina, en því almennt borið við að það hafi ekki verið lagfært og skoðun hafi ekki enn farið fram. Ökutækið hafi áfram verið óökuhæft og einungis gangsett stöku sinnum til að koma í veg fyrir vélarskemmdir. Varðandi það hvers vegna lituð olía hafi verið sett á ökutækið hefur sú skýring ein verið gefin að nærtækast hafi verið að grípa til þeirrar olíu sem verið hafi á staðnum til notkunar á dráttarvélar, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 20. júlí 2011. Í 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, er mælt svo fyrir að áður en bifreið, bifhjól, torfærutæki eða dráttarvél er tekin í notkun skuli ökutækið skráð og skráningarmerki sett á það. Eins og áður greinir var umrætt ökutæki á greindum tíma skráð í ökutækjaskrá, sem Umferðarstofa heldur, sbr. XV. kafla laga nr. 50/1987 og II. kafla reglugerðar nr. 751/2003. Var ökutækið hvorki afskráð samkvæmt 9. gr. umræddrar reglugerðar né skráð tímabundið úr notkun að ósk eiganda samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar, þ.e. með afhendingu skráningarmerkja eða áletrun Umferðarstofu um notkunarbann. Að því virtu, sem hér hefur verið rakið, verður að telja að brotið hafi verið gegn fyrirmælum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 með því að nota litaða olíu á ökutæki kæranda, enda verður ekki talið að 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 geti átt við í tilviki kæranda hvorki samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins né fyrir lögjöfnun frá því, eins og varpað hefur verið fram af hálfu umboðsmanns kæranda. Að því marki, sem því er borið við að saknæmisskilyrði séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda, skal vísað til 6. og 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, sem raktar eru efnislega hér að framan, þar sem m.a. kemur fram að saknæm háttsemi er ekki áskilin svo að sekt verði gerð svo sem nánar greinir. Samkvæmt þessu voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, með áorðnum breytingum, sbr. 6. og 8. mgr. sömu lagagreinar, í tilviki kæranda. Eins og fram er komið er því borið við af hálfu kæranda að eftirlitsmenn Vegagerðarinnar hafi í heimildarleysi verið á bæjarhlaðinu (einkalóð) á C til að skoða tæki og beita viðurlögum laga nr. 87/2004 og sé þessu háttalagi mótmælt sem „tilhæfulausri aðgerð og ólögmætri“, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 6. maí 2011. Ekki kemur nánar fram af hálfu kæranda á hverju þessar aðfinnslur eru byggðar og þá sérstaklega með tilliti til valdheimilda til eftirlits sem mælt er fyrir um í 18. gr. laga nr. 87/2004. Þá kemur ekki fram hvaða afleiðingar kærandi telur að þetta eigi að hafa fyrir málsúrslit. Því er ekki beinlínis haldið fram af hálfu kæranda að fyrir vikið sé sýnatakan markleysa, en óumdeilt er að hún fór fram og niðurstöður eru ágreiningslausar. Að svo vöxnu máli verður ekki talið að þessar athugasemdir fái breytt neinu um niðurstöðu málsins.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu, enda verður ekki talið að nein skilyrði séu til niðurfellingar eða lækkunar sektar vegna sérstakra aðstæðna, sbr. niðurlagsákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja