Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Útvarpsgjald

Úrskurður nr. 9/2012

Gjaldár 2010

Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 6/2007, 11. gr. 1. mgr. 1. tölul.  

Útvarpsgjald, sem lagt var á einkahlutafélag, var hvorki talið falla undir frádráttarbæran rekstrarkostnað félagsins né geta talist til annarra frádráttarbærra útgjalda.

I.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. janúar 2011, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2010. Er kæruefnið sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt kæruúrskurði hans, sbr. og tilkynningu, dags. 25. október 2010, að fella niður gjaldfært útvarpsgjald að fjárhæð 17.200 kr. í skattframtali kæranda árið 2010. Ákvörðun sína rökstuddi ríkisskattstjóri með svofelldum hætti í kæruúrskurði:

„Útvarpsgjald sem einstaklingum og lögaðilum er gert að greiða samkvæmt 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., telst ekki vera frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda ekki ætlað til að afla rekstrartekna, tryggja þær eða halda þeim við. Almennt gildir að álagðir skattar samkvæmt lögum nr. 90/2003 og gjöld álögð samkvæmt sérstökum lögum þar um teljast ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður. Er gjaldfærsla því óheimil nema sérstaklega sé kveðið svo á um í viðkomandi lögum. Þannig er t.d. sérstaklega tekið fram í lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, og í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, að álagt gjald samkvæmt lögunum teljist til rekstrarkostnaðar. Ekkert sambærilegt ákvæði er í lögum nr. 6/2007 sem álagning útvarpsgjalds er byggð á né er þess getið í lögum nr. 90/2003 að útvarpsgjald sé frádráttarbært frá tekjum. Útvarpsgjald er skattur sem lagður er á óháð notkun útvarps og sjónvarps og er því ekki afnotagjald. Gjaldið rennur í ríkissjóð og er því t.d. ekki með öllu sambærilegt við sum önnur gjöld sem álögð eru og renna t.d. til félagasamtaka sem starfa í þágu viðkomandi starfsgreina. Samkvæmt þessu telur ríkisskattstjóri að ekki sé heimilt að færa útvarpsgjald til frádráttar á móti rekstrartekjum.“

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að fallist verði á frádráttarbærni útvarpsgjalds. Horfa verði til þess að um áratugaskeið hafi hliðstætt gjald verið við lýði undir heitinu „afnotagjald“ og andlag þess verið notkun þjónustu Ríkisútvarpsins, bæði hjá einstaklingum og félögum. Ekki sé vitað til þess að bornar hafi verið brigður á frádráttarbærni gjaldsins í gegnum tíðina og því sé fráleit túlkun að formbreyting gjaldsins í „nefskatt“ feli í sér að skyndilega breytist eðli gjaldsins í hliðstæðu tekjuskatts og e.t.v. fleiri eftirálagðra skatta.

II.

Með bréfi, dags. 13. maí 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. maí 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Útvarpsgjald, sem lagt var á kæranda samhliða álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2009, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., getur hvorki talist falla undir rekstrarkostnað kæranda á árinu 2009 í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, né telst gjald þetta til annarra frádráttarbærra útgjalda samkvæmt öðrum töluliðum í þeirri lagagrein. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra er kröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja