Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kílómetragjald
  • Sekt

Úrskurður nr. 403/2012

Lög nr. 87/2004, 13. gr. 1. og 3. mgr., 19. gr. 4. mgr. (brl. nr. 169/2006, 8. gr.).   Reglugerð nr. 599/2005, 1. gr.  

Ríkisskattstjóri gerði kæranda, sem var einkahlutafélag, sekt vegna brota á reglum um kílómetragjald á þeim grundvelli að eftirvagn félagsins hefði verið heimildarlaust í umferð án þess að vera búinn ökumæli. Ekki var fallist á með kæranda að ríkisskattstjóra hefði borið að beina sektarákvörðuninni að skráðum eiganda þeirrar bifreiðar, sem dró eftirvagninn umrætt sinn, enda var talið að skýra bæri hugtakið ökutæki í lögum nr. 87/2004 í samræmi við skilgreiningu umferðarlaga þar sem eftirvagnar voru taldir með skráningarskyldum ökutækjum. Var kröfu kæranda um niðurfellingu sektar hafnað.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. desember 2011, hefur fyrirsvarsmaður kæranda mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 12. desember 2011, um að gera kæranda sekt að fjárhæð 100.000 kr. samkvæmt 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald- og kílómetragjald, á þeim grundvelli að ökutæki (eftirvagn) kæranda, XX-001, hefði verið heimildarlaust í umferð án þess að vera búið ökumæli. Af hálfu fyrirsvarsmanns kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 15. september 2011, var bifreiðin XX-002 stöðvuð á vegi nr. 1, Hringvegi, nánar tiltekið við Blikdalsá á Kjalarnesi, með eftirvagninn XX-001 sem reyndist vera ökumælislaus og hafði bifreiðin heldur ekki heimild til að draga vagn án ökumælis. Í skýrslunni kom fram að gjaldþyngd eftirvagnsins væri 33.460 kg. Í skýrslunni var einnig haft eftir ökumanni bifreiðarinnar að hann hefði haft samband við ónafngreindan starfsmann umferðareftirlits Vegagerðarinnar gegnum skiptiborð Vegagerðarinnar og ökumanni skyldist að gjaldþyngd væri í lagi eftir viðræður við starfsmanninn.

Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 20. október 2011, með yfirskriftinni ,,Boðun sektar vegna eftirvagns án mælis.“ Í bréfi þessu vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið framangreinda skýrslu frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar vegna eftirvagnsins XX-001. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, sbr. síðari breytingar, þyrfti að greiða kílómetragjald af eftirvögnum sem skráðir væru hér á landi og væru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Einnig vísaði ríkisskattstjóri til 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, þar sem fram kæmi að heimilt væri að skrá ökumæli bifreiðar sem drægi eftirvagn, fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn. Ákvarðaði ökumælirinn þá akstur bifreiðar og eftirvagns og væri ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Ljóst væri að vagninn hefði verið heimildarlaus í umferð án þess að vera búinn ökumæli og hefði bifreiðin ekki haft umrædda heimild til að draga vagn án mælis. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðaði það sektum allt að 100.000 kr. ef ökutæki væri heimildarlaust í umferð án þess að það væri búið ökumæli. Í ljósi framangreinds og með vísan til 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 100.000 kr. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar.

Í bréfi, dags. 1. nóvember 2011, sem undirritað var af ökumanni bifreiðarinnar XX-002, A, var tekið fram að haft hefði verið samband við Vegagerðina til að tryggja að lögum og reglum yrði réttilega framfylgt. Eftir samtalið hefði verið talið í lagi að flytja búnað með umræddum vagni. Um hefði verið að ræða flutning á borbúnaði vestur í Reykhólasveit og eftirvagn í eigu kæranda, XX-001, verið fenginn að láni, enda hefði búnaðurinn verið of þungur fyrir bifreiðina XX-002. Því væri rétt að fallið yrði frá boðaðri sekt.

Með úrskurði, dags. 12. desember 2011, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd, sbr. 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 100.000 kr. Vegna athugasemda A í fyrrnefndu bréfi, dags. 1. nóvember 2011, tók ríkisskattstjóri fram að í 2. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 kæmi skýrt fram að greiða skyldi kílómetragjald af eftirvögnum sem skráðir væru hér á landi og væru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, segði að heimilt væri að skrá ökumæli bifreiðar, sem drægi eftirvagn, fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn. Ákvarðaði ökumælirinn þá akstur bifreiðar og eftirvagns og væri ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Benti ríkisskattstjóri á að í andmælum A kæmi ekki fram, að þegar haft hefði verið samband við Vegagerðina vegna þyngdar tækisins, hefði verið sótt um breytingu á gjaldþyngd ökutækisins XX-002. Samkvæmt álestrarskrá ökumæla hefði bifreiðin verið skráð í ,,einfalda“ gjaldþyngd eða með gjaldþyngd 32.000 kg. Ökutækið hefði ekki verið skráð í ,,tvöfalda“ gjaldþyngd, þ.e. ekki skráð bæði fyrir bifreið og vagn. Í ljósi þessa þættu andmælin ekki gefa tilefni til breytinga á fyrirhugaðri sekt ríkisskattstjóra og hefði embættið því ákvarðað félaginu boðaða sekt að fjárhæð 100.000 kr.

III.

Í kæru fyrirsvarsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 14. desember 2011, hefur verið gefin sú skýring á ferðum bifreiðarinnar XX-002 með eftirvagninn í greint sinn að eigandi og ökumaður bifreiðarinnar, A, hafi fengið eftirvagninn að láni hjá kæranda til eins verkefnis. Gert hafi verið ráð fyrir því að A hefði sömu tilhögun og kærandi, þ.e. að kílómetragjald bæði vegna bifreiðar og vagns reiknaðist á bifreiðina í einu lagi. Bifreiðar kæranda séu allar með gjaldþyngd 44.000 kg. Fyrirsvarsmaður kæranda ber því við honum hafi alltaf skilist að þegar bíll dragi vagn þá sé það bíllinn sem sé ökutækið og þess vegna sé eigandi ökutækis, sem dragi eftirvagn, ábyrgur fyrir því sem gerist. Vísar fyrirsvarsmaður kæranda til „úrskurðar“ ríkisskattstjóra í máli nr. xxxxxx, sem fylgir kærunni. Telur fyrirsvarsmaðurinn að ákvörðun þessi, sem er tilkynning um lok tilgreinds máls kæranda, dags. 5. nóvember 2010, beri með sér greindan skilning á „ábyrgð bíls sem dregur vagn“, eins og þar stendur. Á þessum grundvelli er þess krafist að umrædd sektarákvörðun verði endurskoðuð.

IV.

Með bréfi, dags. 2. mars 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri ákvarðaði kæranda sekt vegna eftirvagnsins XX-001. Farið er fram á að sú sektarákvörðun verði tekin til endurskoðunar þar sem eftirvagninn hafi verið festur aftan í bifreið í eigu annars aðila og gert hafi verið ráð fyrir að kílómetragjald yrði reiknað í einu lagi bæði á bíl og eftirvagn.

Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, er meginreglan sú að öll ökutæki, þ.e. bifreiðar og eftirvagnar, skulu útbúnar ökumælum. Þó er heimilt að skrá ökumæli bifreiðar sem dregur eftirvagn fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn. Ákvarðar ökumælirinn þá akstur bifreiðar og eftirvagns og er ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn, sbr. 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds. Slík heimild er í daglegu tali nefnd tvöfalt gjald. Óumdeilt er að undanþága þessi var ekki nýtt í tilviki kæranda, þ.e. ökumælir bifreiðarinnar var ekki skráður á tvöfalt gjald.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. hvílir gjaldskylda á skráðum eiganda ökutækis, þ.m.t. skráðum eiganda eftirvagns. Þá er skráðum eiganda ökutækis gerð sekt sé ökutækið heimildarlaust í umferð án þess að það sé búið ökumæli, sbr. 6. mgr. 13. gr.

Með vísan til framangreinds er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verður staðfestur.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 9. mars 2012, vísar fyrirsvarsmaður kæranda sérstaklega til 3. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 og telur að félagið beri ekki ábyrgð á greiðslu sektarinnar. Sektinni sem slíkri sé ekki mótmælt, heldur sé því haldið fram að kærandi beri ekki ábyrgð á umræddri ferð. Telur fyrirsvarsmaðurinn að eigandi og ökumaður bifreiðarinnar XX-002, sem dró eftirvagninum í greint sinn, beri ábyrgð á vagninum og þar með greiðslu sektarinnar.

V.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 12. desember 2011, að gera kæranda sekt vegna eftirvagnsins XX-001 að fjárhæð 100.000 kr. eftir ákvæðum 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með áorðuðum breytingum, á þeim grundvelli að eftirvagninn hafi verið heimildarlaus í umferð án þess að vera búinn ökumæli, sbr. skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 15. september 2011, um brot á reglum um kílómetragjald, en skýrsla þessi er meðal gagna málsins. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 þyrfti að greiða kílómetragjald af eftirvögnum sem væru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, kæmi fram að heimilt væri að skrá ökumæli bifreiðar sem drægi eftirvagn fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn og væri þá ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt fyrrgreindri skýrslu hefði bifreiðin XX-002 verið stöðvuð með áðurnefndan eftirvagn, en hann reynst ekki vera með ökumæli og bifreiðin hefði ekki haft umrædda heimild til að draga vagn án mælis. Því þætti ljóst að vagninn hefði verið heimildarlaus í umferð án þess að vera búinn ökumæli.

Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður gagnvart kæranda vegna þess að sektinni hafi verið beint að röngum aðila.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða kílómetragjald af eftirvögnum sem eru skráðir hér á landi og eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, segir að heimilt sé að skrá ökumæli bifreiðar, sem dregur eftirvagn, fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn. Ákvarðar ökumælirinn þá akstur bifreiðar og eftirvagns og er ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Í 9. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 segir að ríkisskattstjóri geti, ef sérstaklega stendur á, veitt undanþágu frá því að ökumælisskyld bifreið eða eftirvagn sé útbúin ökumæli, enda fari ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds fram á annan jafn tryggan hátt. Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum allt að 100.000 kr., m.a. ef ökutæki er heimildarlaust í umferð án þess að það sé búið ökumæli eða ef ökumælir telur ekki.

Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu, dags. 15. september 2011, var bifreiðin XX-002 stöðvuð með eftirvagninn XX-001 á Hringvegi við Blikdalsá á Kjalarnesi, en hann reyndist ekki vera með ökumæli og hafði bifreiðin ekki fyrrgreinda heimild til að draga vagn án mælis. Umræddur eftirvagn, sem er 33.460 kg að gjaldþyngd, er skráður í ökutækjaskrá, sbr. 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, þar sem m.a. er kveðið á um skráningarskyldu eftirvagns bifreiðar eða dráttarvélar sem gerður er fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, að undanskildum þeim eftirvögnum sem taldir eru upp í 3. málsl. 1. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar. Í síðastgreindu ákvæði, sbr. og 1. gr. umræddrar reglugerðar nr. 751/2003, er mælt svo fyrir að ekki þurfi að skrá eftirvagn bifreiðar á beltum eða dráttarvélar sem nær eingöngu er notaður utan opinberra vega. Umræddur eftirvagn er skráður sem eftirvagn IV (04), þ.e. sem eftirvagn með leyfða heildarþyngd meiri en 10.000 kg, sbr. lið 01.54 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja.

Af hálfu kæranda hefur verið gefin sú skýring á ferðum bifreiðarinnar XX-002 með eftirvagninn í greint sinn að eigandi og ökumaður bifreiðarinnar, A, hafi fengið hann að láni hjá kæranda til eins verkefnis. Hafi verið gert ráð fyrir því að A hefði sömu tilhögun og kærandi, þ.e. að kílómetragjald, bæði vegna bifreiðar og vagns, reiknaðist á bifreiðina í einu lagi. Bifreiðar kæranda séu allar með gjaldþyngd 44.000 kg. Fyrirsvarsmaður kæranda ber því við honum hafi alltaf skilist að þegar bíll dragi vagn, þá sé það bíllinn sem teljist ökutækið og þess vegna sé eigandi bifreiðar, sem dragi eftirvagn, ábyrgur fyrir því sem gerist. Vísar fyrirsvarsmaðurinn til „úrskurðar“ ríkisskattstjóra í máli nr. 201002060 44178, sem er meðal gagna málsins, þar sem hann telur koma fram sama skilning á því hver sé ábyrgur í tilvikum sem þessum.

Eins og fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 2. mars 2012, er meginreglan samkvæmt 8. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 sú að ökumælar skuli settir í bifreiðar og eftirvagna á kostnað eigenda. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005 sé þó heimilt að skrá ökumæli bifreiðar, sem dregur eftirvagn, fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn. Ákvarðar ökumælirinn þá akstur bifreiðar og eftirvagns og er ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Fyrir liggur að slíkri skráningu var ekki fyrir að fara í því tilviki, sem hér um ræðir, enda aðstæður með þeim hætti sem í málinu greinir. Kærandi er skráður eigandi umrædds eftirvagns. Í 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er eftirvagn skilgreindur sem „ökutæki, sem hannað er til að vera dregið af öðru ökutæki og aðallega er ætlað til fólks- og vöruflutninga.“ Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er eftirvagn bifreiðar eða dráttarvélar, sem gerður er fyrir meira en 750 kg, skráningarskylt ökutæki með þeirri undantekningu að ekki þarf að skrá eftirvagn bifreiðar á beltum eða dráttarvélar sem nær eingöngu er notaður utan opinberra vega. Í samræmi við þetta er umræddur eftirvagn kæranda, XX-001, skráður í ökutækjaskrá sem Umferðarstofa heldur. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður ekki fallist á það með kæranda að beina beri sektarákvörðun að skráðum eiganda bifreiðarinnar XX-002, enda verði að skilja tilvísun 3. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, sbr. og 6. mgr. 19. gr. sömu laga, til skráðs eiganda ökutækis svo að þar sé átt við bifreiðina en ekki eftirvagninn. Það mælir gegn þessum skilningi að skýra verður hugtakið ökutæki í lögum nr. 87/2004 að þessu leyti í samræmi við skilgreiningu umferðarlaga nr. 50/1987. Afgreiðsla ríkisskattstjóra samkvæmt tilkynningu um lok málsmeðferðar, dags. 5. nóvember 2010, sem fyrirsvarsmaður kæranda vísar til, hefur enga þýðingu í málinu, enda verða engar ályktanir dregnar af þeirri afgreiðslu í þá veru sem haldið er fram af hálfu kæranda. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður að telja að kærandi hafi sem skráður eigandi umrædds eftirvagns verið ábyrgur fyrir því að fyrirmæli laga nr. 87/2004 væru haldin. Er málinu því réttilega beint að kæranda. Tekið skal fram að miðað við þá tilhögun að skrá bifreiðar og eftirvagna í einu lagi, sem kærandi kveðst viðhafa almennt í rekstri sínum, virðist naumast raunhæft að ráðstafa eftirvagni til einskiptis verkefnis hjá öðrum aðila eins og reyndin var í því tilviki sem hér um ræðir.

Eins og fram er komið liggur fyrir að eftirvagninn XX-001 var ekki búinn ökumæli og skráningu samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005 var ekki fyrir að fara. Þá liggur fyrir að ríkisskattstjóri hefur ekki veitt undanþágu samkvæmt 9. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að telja að eftirvagninn XX-001 hafi verið heimildarlaus í umferð hinn 15. september 2011 án þess að vera búinn ökumæli, sbr. 13. gr. laga nr. 87/2004 og reglugerð nr. 599/2005, þannig að sekt varði samkvæmt 4. mgr. 19. gr. greindra laga. Tekið skal fram að í 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 er mælt svo fyrir að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Hafi umráðamaður ökutækis gerst sekur um brot samkvæmt 4. og 5. mgr. sé hann ábyrgur fyrir greiðslu sektarinnar ásamt skráðum eiganda. Í 8. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 segir að gera megi lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Með vísan til alls framangreinds verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja