Úrskurður yfirskattanefndar

  • Olíugjald
  • Sekt
  • Sönnun

Úrskurður nr. 409/2012

Lög nr. 87/2004, 4. gr. 3. mgr., 18. gr., 19. gr. 5. mgr. (brl. nr. 169/2006, 8. gr.).   Lög nr. 37/1993, 10. gr.  

Ríkisskattstjóri gerði kæranda sekt vegna brota á reglum um olíugjald á þeim grundvelli að eftirlitsmenn hefðu staðið kæranda að því á eldsneytisstöð að dæla litaðri olíu á bifreið sína í heimildarleysi. Hefði kærandi horfið af vettvangi í flýti er hann varð eftirlitsmanna var. Kærandi neitaði því að hafa dælt olíu á bifreiðina og hélt því fram að olíunni hefði verið dælt á brúsa í þágu þriðja aðila sem notað hefði olíuna á vinnutæki. Yfirskattanefnd taldi ósannað gegn mótmælum kæranda að hann hefði brotið gegn reglum um olíugjald og var sektarákvörðun ríkisskattstjóra því felld niður.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 5. desember 2011, hefur umboðsmaður kæranda mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2011, um að gera kæranda, sem eiganda ökutækisins XX-001, sekt að fjárhæð 166.575 kr. samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að notkun litaðrar olíu á ökutækið hefði verið andstæð lögum nr. 87/2004. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að ríkisskattstjóri sendi kæranda sem eiganda bifreiðarinnar XX-001 bréf, dags. 10. nóvember 2010, með yfirskriftinni ,,Fyrirspurn vegna skýrslu um brot á reglum um olíugjald.“ Vísaði ríkisskattstjóri til þess að hann hefði móttekið skýrslu frá 8. júní 2010 frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins XX-001. Í bréfinu var tekið fram að samkvæmt 4. gr. laga nr. 87/2004 væri kveðið svo á um að óheimilt væri að nota litaða (gjaldfrjálsa) olíu á skráningarskyld ökutæki með tilgreindum undantekningum, þar á meðal ökutæki sem ætluð væru til sérstakra nota samkvæmt nánari skilgreiningu. Í reglugerð nr. 274/2006, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds og um greiðslu sérstaks kílómetragjalds, væri tæmandi talið hvaða ökutæki féllu undir sérstök not. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt umræddri skýrslu hefði gjaldfrjálsri olíu verið dælt á ökutækið á eldsneytisstöð Orkunnar við Reykjanesbraut í Kópavogi. Í athugasemdum í skýrslunni kæmi meðal annars fram að þegar ökumaður hefði orðið eftirlitsmannanna var hefði hann í miklum flýti brunað af vettvangi, áður en eftirlistmennirnir hefðu náð tali af honum. Óskaði ríkisskattstjóri eftir afstöðu kæranda til umræddrar skýrslu og skýringum hans á því hvers vegna gjaldfrjálsri litaðri olíu hefði verið dælt á ökutækið. Var kæranda veittur 10 daga frestur til að svara, miðað við dagsetningu bréfsins. Svar barst ríkisskattstjóra með tölvupósti hinn 23. nóvember 2010 þar sem kom fram að kærandi hefði ekki dælt olíunni á ökutækið heldur í brúsa. Hefði það verið gert í greiðaskyni fyrir félaga kæranda sem stæði fyrir rekstri vinnuvéla og hefði verið í vandræðum á greindum tíma svo sem kærandi lýsti nánar. Gæti maður þessi staðfest að kærandi hefði keypt litaða olíu fyrir hann. Þá gat kærandi þess að ekkert mál væri að koma hvenær sem væri og „taka sýni úr bílnum“ væri þess óskað. Kærandi kvaðst ekki hafa orðið var við að neinn hafi viljað stöðva hann. Í ljósi mótmæla og skýringa kæranda leitaði ríkisskattstjóri til Vegagerðarinnar með tölvupósti hinn 20. apríl 2011 í því skyni að kanna afstöðu þeirra eftirlitsmanna, sem að skýrslunni stóðu, til svara og skýringa kæranda. Í svari annars eftirlitsmannsins, dags. 26. apríl 2011, kom fram að það gæti ekki með nokkru móti staðist að kærandi hefði verið að dæla á brúsa inn um hliðarhurð á ökutækinu. Jafnframt kom fram að útilokað væri að kærandi hefði ekki tekið eftir eftirlitsmönnunum, enda hefði hann ekið upp á kant við olíudælur til að komast framhjá eftirlitsbifreiðinni sem lagt hefði verið fyrir framan bifreið kæranda.

Næst gerðist það í málinu að ríkisskattstjóri sendi kæranda bréf, dags. 22. júlí 2011, með yfirskriftinni ,,Boðun sektar vegna brots á reglum um olíugjald.” Vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið skýrslu, dags. 8 júní 2010, frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins XX-001 sem væri 2.800 kg að heildarþyngd. Fram kæmi í skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar að gjaldfrjálsri litaðri olíu hefði verið dælt á umrætt ökutæki XX-001 á eldsneytisstöð Orkunnar við Reykjanesbraut í Kópavogi í greint sinn. Þá kæmi fram í skýrslunni að þegar ökumaður hefði orðið var við eftirlitsmennina hefði hann ekið á brott í miklum flýti og þeir ekki náð að hafa tal af honum. Ríkisskattstjóri rakti fyrrgreind bréfaskipti í boðunarbréfi sínu, þar á meðal skýringar kæranda þess efnis að hann hefði rekið erindi í greiðaskyni fyrir félaga sinn og dælt umræddri olíu á brúsa. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir þeim skýringum sem eftirlitsmaður Vegagerðarinnar hefði gefið, sbr. það sem að framan greinir. Kvað ríkisskattstjóri það vera mat sitt að hvorki væru forsendur til að vefengja framburð eftirlitsmannsins né umrædda skýrslu um brot á reglum um olíugjald. Ríkisskattstjóri tók fram að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 4. tölul. (sic) 1. mgr. og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðaði það sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og næmi sekt 200.000 kr. ef heildarþyngd ökutækis væri 3.500 kg eða þar undir. Tók ríkisskattstjóri ákvæði 5. mgr. 19. gr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 orðrétt upp í bréfinu. Í ljósi þessa og með vísan til 3. mgr. 4. gr., 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 166.575 kr. Gerði ríkisskattstjóri tölulega grein fyrir sektarfjárhæð er reiknaðist 83,29% af fullri sektarfjárhæð 200.000 kr., sbr. eignarhaldstíma og ákvæði 2. málsl. 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 um hlutfallslega lækkun sektarfjárhæðar.

Andmæli kæranda bárust með tölvupósti hinn 27. september 2011. Vísaði kærandi til skýringa sinna frá 23. nóvember 2010 og ítrekaði þær. Gæti umræddur félagi hans, sem væri fyrrverandi vinnuveitandi kæranda, staðfest framkomnar skýringar. Kvaðst kærandi ekki hafa orðið var við neina bifreið og hefði enginn reynt að stöðva hann eða hafa tal af honum. Stæði til boða sem áður að tekið yrði sýni úr eldsneytistanki bifreiðar kæranda. Krafðist kærandi þess að sektin yrði afturkölluð vegna rangra ásakana. Kvað kærandi ríkisskattstjóra þurfa að rannsaka málið betur og skoða þau gögn sem eftirlitsmennirnir byggðu niðurstöðu sína á.

Með úrskurði, dags. 15. nóvember 2011, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 166.575 kr. Rakti ríkisskattstjóri bréfaskipti í málinu og ítrekaði röksemdir sínar fyrir sektarákvörðun. Vegna athugasemda og andmæla kæranda í tölvupósti frá 27. september 2011 tók ríkisskattstjóri fram að það væri mat embættisins að hvorki væru forsendur til þess að vefengja framburð eftirlitsmanns Vegagerðarinnar né skýrslu um brot á reglum um olíugjald, en þar kæmi fram að litaðri olíu hefði verið dælt á ökutækið XX-001 sem hefði verið í eigu kæranda hinn 8. júní 2010. Þá gerði ríkisskattstjóri sem áður grein fyrir útreikningi sektarfjárhæðar. Full sekt (án lækkunar) næmi 200.000 kr. Fjöldi daga frá upphafi eignarhalds til brots eða frá 9. október 2008 til 8. júní 2010 væri 608 dagar. Hlutfall sektar miðað við sl. tvö ár, þ.e. 608/730 dagar (að lágmarki 50%), væri 83,29%. Ákvörðuð sektarfjárhæð næmi því 166.575 kr.

III.

Með kæru, dags. 5. desember 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2011, til yfirskattanefndar. Þess er krafist að umræddur úrskurður verði felldur úr gildi og sektin látin falla niður. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Umboðsmaður kæranda tekur fram í kærunni að rétt sé og óumdeilt að kærandi hafi keypt litaða olíu, um það bil 20 lítra, á eldsneytisstöð Orkunnar við Reykjanesbraut í Kópavogi hinn 8. júní 2010 og hafi ekkert óeðlilegt verið við þau kaup. Kærandi hafi greitt fyrirfram fyrir þann lítrafjölda, sem hann hugðist kaupa, og síðan dælt olíunni á brúsa sem hafi verið inni í bifreiðinni, en bifreið þessi, af gerðinni Toyota Hiace, hafi verið með rennihurð á hliðinni. Að því loknu hafi kærandi ekið í skyndingu í burtu, enda orðinn of seinn til vinnu og þurft að skila brúsanum til félaga síns. Kærandi staðhæfi að hann hafi ekki orðið var við eftirlitsmenn Vegagerðarinnar og rangt sé, sem fram komi í framburði þeirra, að þeir hafi beðið hann um að doka við. Kærandi vísi því á bug að hann hafi dælt olíu á bifreiðina XX-001. Því til staðfestingar sé vísað til svars kæranda frá 23. nóvember 2010, þar sem kærandi hafi bent á að umræddur félagi hans gæti staðfest kaupin á olíunni og jafnframt boðið að sýni yrðu tekin úr tanki bifreiðar kæranda. Þrátt fyrir þetta hafi engin rannsókn farið fram eða óskað eftir staðfestingu. Umboðsmaður kæranda tekur fram að þegar boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 22. júlí 2011, barst, sem svarað var með tölvupósti hinn 27. september 2011, hafi verið erfitt um sönnun, enda langt um liðið frá því að ætlað brot átti að hafa verið framið og áhrif litaðrar olíu, hefði hún verið sett á bifreiðina, ekki lengur verið finnanleg. Hins vegar hefði sönnun verið til staðar ef sýnið hefði verið tekið í nóvember 2010, þegar kærandi bauðst til þess. Kærandi mótmæli því að hann þurfi að bera hallann af því að engin sýnataka fór fram. Jafnframt mótmæli kærandi því að staðhæfingar eftirlitsaðila á vegum ríkisskattstjóra vegi þyngra en framburður hans. Kærandi telji að ríkisskattstjóri eða Vegagerðin hefðu átt að láta fara fram rannsókn á málinu, meðan það var hægt, ef vilji var til að staðreyna málið.

IV.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. febrúar 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 4. mars 2012, er vísað til fyrri athugasemda og áður framkominn rökstuðningur og kröfur ítrekaðar.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun sektar vegna meintrar notkunar á litaðri gjaldfrjálsri olíu á ökutækið XX-001, sem er af gerðinni Toyota Hiace 2WD Turbo og er sendibifreið samkvæmt skilgreiningu reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja. Óumdeilt er að ökutæki þetta uppfyllir ekki skilyrði laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, um notkun á litaðri gjaldfrjálsri olíu. Samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 8. júní 2010, komu þeir að kæranda, eiganda ökutækisins, þar sem hann var að dæla litaðri olíu á bifreiðina á eldsneytisstöð Orkunnar við Reykjanesbraut í Kópavogi. Kemur fram í skýrslunni að bifreiðinni hafi verið ekið í burtu eftir töku eldsneytis og að ökumaður hefði ekki stöðvað bifreiðina. Fyrir liggur að hvorki í greint sinn né í kjölfarið fór fram sýnataka úr eldsneytistanki bifreiðarinnar. Þá kemur fram í athugasemdum í skýrslunni að þegar ökumaður hafi orðið eftirlitsmannanna var hafi hann ekið af stað í miklum flýti áður en þeir náðu tali af honum. Eftirlitsmenn hefðu tekið myndir af dælu eftir að ökumaður hvarf af vettvangi. Skýrslunni fylgir ljósrit myndar af dælu þar sem lítrafjöldi er tilgreindur 17,84 lítrar. Með hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra var kæranda gert að greiða 166.575 kr. í sekt og miðaðist sektin við að þyngd ökutækisins hefði verið 2.800 kg, sbr. og nánar um ákvörðun sektarfjárhæðar, þar á meðal með tilliti til lækkunar samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, í II. kafla hér að framan. Óumdeilt er að um litaða gjaldfrjálsa olíu var að ræða. Hins vegar er því staðfastlega mótmælt af hálfu kæranda að hann hafi dælt olíunni á umrædda bifreið, heldur hafi hann dælt olíunni á brúsa í greiðaskyni við félaga sinn og fyrrum vinnuveitanda sem nýtti olíu til gjaldfrjálsra nota á vinnutæki. Að auki er af hálfu kæranda fundið að rannsókn málsins. Hafi ríkisskattstjóri og Vegagerðin látið undir höfuð leggjast að rannsaka málið á viðhlítandi hátt og er sérstaklega bent á að hvorki hafi verið aflað staðfestingar umrædds félaga kæranda né séð til þess að sýnataka færi fram, enda þótt kærandi hafi strax þegar málið kom upp bent á það og boðist til að greiða fyrir því. Kveðst kærandi ekki eiga að bera hallan af slíkum rannsóknarannmörkum. Sé með öllu ósannað að hann hafi framið það brot, sem honum sé gefið að sök, og beri því að fella sektina niður.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2004, eins og ákvæðið hljóðaði á greindum tíma, sbr. síðar breytingar með 18. gr. laga nr. 164/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012, skal greiða í ríkissjóð vörugjald af gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að gjaldskyldum aðilum samkvæmt 3. gr. sömu laga sé heimilt að selja eða afhenda olíu samkvæmt 1. gr. án innheimtu olíugjalds í tilgreindum tilvikum sem talin eru upp í einstökum töluliðum málsgreinarinnar. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds samkvæmt 2.-9. tölul. 1. mgr. sé að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr. laganna. Litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst sé í 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og ræðst sektarfjárhæð af heildarþyngd ökutækis, svo sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Sé heildarþyngd ökutækis 0 til 3.500 kg skal fjárhæð sektar nema 200.000 kr., nú 300.000 kr., sbr. breytingu með 3. gr. laga nr. 63/2010 er tók gildi 1. október 2010. Sektarfjárhæðina skal lækka hlutfallslega þegar fyrir liggur að ekki hafi verið unnt að nota litaða olíu á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr., á tveggja ára tímabili, talið frá þeim tíma er brot liggur fyrir. Sektarfjárhæð skal að hámarki lækkuð um helming. Við sérstakar aðstæður er heimilt að lækka eða fella niður sekt samkvæmt ákvæðinu, sbr. niðurlag 5. mgr. 19. gr. laganna. Í 6. mgr. 19. gr. kemur fram að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans.

Í 18. gr. laga nr. 87/2004 er kveðið á um eftirlit. Þar kemur fram, sbr. 1. mgr., að ríkisskattstjóri annist eftirlit með því að ekki sé notuð lituð olía á skráningarskyld ökutæki og að skráning þeirra og búnaður sé í samræmi við fyrirmæli laganna. Jafnframt annist ríkisskattstjóri eftirlit með því að gjaldskyld ökutæki, skráning þeirra og búnaður, svo og skráning ökumanna á akstri, sé í samræmi við fyrirmæli laga þessara, reglur um ökumæla og skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá. Fram kemur að ráðherra sé heimilt að fela Vegagerðinni framkvæmd tiltekinna þátta eftirlitsins. Hefur það verið gert, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 627/2005, um ákvörðun kílómetragjalds og skyldur ökumanna, og 1. gr. reglugerðar nr. 628/2005, um eftirlit með notkun á litaðri gas- og dísilolíu. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004 er eftirlitsmönnum heimilt að stöðva ökutæki til að gera þær athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna hvort lituð olía hafi verið notuð á skráningarskylt ökutæki andstætt ákvæði 3. mgr. 4. gr. laganna, þar á meðal að skoða eldsneytisgeymi og vél ökutækis. Eftirlitsmönnum er ennfremur heimilt að taka sýni úr eldsneytisgeymi ökutækis. Þá er þeim einnig heimilt að taka sýni úr birgðageymum, að beiðni ríkisskattstjóra. Jafnframt er eftirlitsmönnum heimilt að stöðva ökutæki og gera þær athuganir á því sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna að ökutæki, mælabúnaður þess og skráning ökumanns á akstri sé í samræmi við skráningu ökutækisins í álestrarskrá ökumæla. Tekið er fram að ökumanni sé skylt að stöðva ökutæki óski eftirlitsmaður þess og heimila eftirlitsmanni að gera nauðsynlegar athuganir til að staðreyna hvort lituð olía hafi verið notuð á ökutækið. Í fyrrgreindum reglugerðum nr. 627/2005 og nr. 628/2005 eru hliðstæðar eftirlitsheimildir og um getur í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, má ljóst vera að við eftirlit með notkun litaðrar olíu er áríðandi að sýnataka fari fram svo að unnt sé að staðreyna með tryggilegum hætti hvort brot gegn ákvæðum laga nr. 87/2004 hafi verið framið, enda verði mál ekki upplýst á annan tryggilegan hátt. Í tilviki kæranda stendur svo á að engin sýnataka fór fram og kærandi hefur neitað því þráfaldlega að hafa dælt umræddri olíu 17,84 lítrum, sem ágreiningslaust er að var lituð, á bifreiðina XX-001. Hafi hann dælt olíunni á brúsa í þágu þriðja aðila sem notaði litaða olíu á vinnutæki. Skilja verður umrædda skýrslu eftirlitsmanna, dags. 8. júní 2010, sbr. og skýringar annars eftirlitsmannsins, B, sem liggja fyrir í málinu, sbr. tölvupóst frá 26. apríl 2011, svo að eftirlitsmennirnir hafi talið að vitnisburður þeirra nægði til sönnunar á broti og við brotthvarf kæranda af vettvangi létu þeir við það sitja að taka myndir af dælu. Sú dæling er út af fyrir sig ágreiningslaus og hefur myndatakan því enga sérstaka þýðingu í málinu. Gegn staðhæfingu eftirlitsmannanna standa eindregin mótmæli kæranda. Verður að leysa úr málinu eins og það liggur fyrir samkvæmt framansögðu.

Óumdeilt er að kærandi var staðinn að dælingu á litaðri olíu á vettvangi hinn 8. júní 2010. Þá er ágreiningslaust að kærandi hefði brotið gegn 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 hefði olían ratað á umrædda bifreið XX-001. Kæranda og eftirlitsmönnum ber saman um það að kærandi hafi ekið í skyndingu af vettvangi, en greinir á um ástæður þess. Kveðst kærandi hafa verið á hraðferð, en eftirlitsmennirnir telja að kærandi hafi lagt á flótta þegar hann varð þeirra var. Þegar svo stendur á sem í máli þessu hlýtur meginatriðið að vera að sýnataka fari fram, eins og fyrr greinir. Miðað við þær víðtæku eftirlitsheimildir, sem mælt er fyrir um í 18. gr. laga nr. 87/2004, sbr. og reglugerð nr. 628/2005, verður ekki séð að neitt hafi verið því til fyrirstöðu að eftirlitsmennirnir fylgdu aðgerð sinni strax eftir, hefðu upp á kæranda og sæju til þess að sýnataka færi fram með þeim úrræðum sem atvik og aðstæður kröfðust. Það var ekki gert og er helst að sjá að umræddri eftirlitsaðgerð hafi verið hætt áður en henni var fulllokið. Samkvæmt þessu verður að telja að verulegur annmarki hafi verið á rannsókn málsins að þessu leyti, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var sá ágalli á rannsókn málsins af hendi ríkisskattstjóra að hann gekkst ekki fyrir því að afla upplýsinga og staðfestingar frá þeim aðila, sem kærandi kvaðst hafa rekið erindi fyrir, sem tilefni var til og kærandi hafði þegar bent á í svari sínu, dags. 23. nóvember 2010. Samkvæmt hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2011, sbr. og boðunarbréf, dags. 22. júlí 2011, er hin umdeilda sektarákvörðun einvörðungu byggð á umræddri skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og fyrrgreindum framburði annars þeirra. Á þeim grundvelli taldi ríkisskattstjóri sannað að litaðri gjaldfrjálsri olíu hefði hinn 8. júní 2010 verið dælt á ökutækið XX-001 í eigu kæranda. Samkvæmt framansögðu verður að telja að stoðum sé kippt undan þessari ályktun ríkisskattstjóra. Samkvæmt því og gegn mótmælum kæranda verður að telja ósannað að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök. Ber því að fella hina kærðu sektarákvörðun úr gildi og taka kröfu kæranda til greina.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa hvorki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins né með öðrum hætti gerð grein fyrir slíkum kostnaði, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 40.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld niður. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 40.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja