Úrskurður yfirskattanefndar
- Tekjutímabil
- Breytt reikningsár
Úrskurður nr. 533/2012
Lög nr. 90/2003, 59. gr. 1. mgr.
Kærandi, sem rak fataverslun, var hvorki talinn hafa sýnt fram á að venjulegt rekstrarár hjá öðrum aðilum, sem stunduðu sambærilega starfsemi, væri annað en almanaksárið né að kærandi hefði í reynd miðað reikningsár sitt við annað tímabil. Var kröfu kæranda um að félaginu yrði heimilað að miða skattár sitt við annað tímabil en almanaksárið hafnað.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 27. desember 2011, fór kærandi fram á að ríkisskattstjóri veitti félaginu heimild til að miða skattár þess við annað tímabil en almanaksárið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bréfinu kom fram að á hluthafafundi í kæranda þann 27. desember 2011 hefði verið ákveðið að óska eftir heimild ríkisskattstjóra til að miða reikningsár félagsins við tímabilið frá 1. febrúar til 31. janúar í stað almanaksársins. Ástæða þess væri sú að í kjölfar jólavertíðar hjá kæranda tækju við útsölur sem jafnan stæðu yfir til loka janúarmánaðar. Eðlilegt væri að gera upp rekstur kæranda í framhaldi af útsölulokum til þess að fá rétta mynd af rekstrarniðurstöðu á ársgrundvelli. Í byrjun febrúar hæfist í raun nýtt tímabil með innkaupum á vorvörum. Þá yrði að telja að rekstrarárið frá 1. febrúar til 31. janúar væri venjulegt rekstrarár í þeirri atvinnugrein sem félagið starfaði í, sbr. orðalag 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003. Bréfinu fylgdi fundargerð hluthafafundar í kæranda, dags. 27. desember 2011, og samþykktir félagsins, dags. sama dag.
Með bréfi, dags. 18. janúar 2012, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda. Í bréfinu vísaði ríkisskattstjóri til 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að samkvæmt ákvæði þessu væri það almenn regla að tekjuskatt skyldi miða við tekjur næsta almanaksár á undan skattákvörðun. Ríkisskattstjóri gæti þó veitt félagi heimild til að miða tekjuskatt við það rekstrarár sem félagið ákvarðaði í samræmi við 4. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Með ákvarðandi bréfi nr. 3/2004 hefði ríkisskattstjóri sett verklagsreglur um heimild til að miða tekjuskatt félaga við annað reikningsár en almanaksárið, framtalsskil slíkra félaga og álagningu opinberra gjalda á þau svo og um samsköttun samstæðna. Kæmi fram í þessum reglum að ríkisskattstjóri gæti veitt félagi heimild til að miða tekjuskatt við það rekstrarár sem félagið ákvarðaði í samræmi við 4. gr. laga nr. 3/2006. Samkvæmt ákvæðinu skyldi reikningsár félaga vera 12 mánuðir og yrði því aðeins breytt eftir að félag hefði hafið starfsemi að sérstakar aðstæður gæfu tilefni til þess. Um gæti verið að ræða aðlögun reikningsárs að reikningsári samstæðu sem félagið væri að ganga í eða úr eða breytingu á rekstrarlegum þáttum sem gerðu mögulegt að breyta reikningsári. Ekki skyldi vikið frá þeirri meginreglu að álagning skatta væri miðuð við almanaksárið nema til þess stæðu skýr rök og verulegir hagsmunir skattaðila. Sá sem hygðist taka upp eða breyta reikningsári sínu skyldi rökstyðja óskir sínar þess efnis og sýna fram á þá hagsmuni sem hann hefði af því fyrirkomulagi. Skyldi ríkisskattstjóri leggja mat á ósk um breytt reikningsár og fallast á beiðni ef eitthvert eftirfarandi þriggja atriða væri til staðar. Í fyrsta lagi ef félagið væri að mestu leyti starfandi í atvinnugrein þar sem venjulegt rekstrarár væri ekki almanaksárið og annað tímabil væri eðlilegt og algengt að nota til uppgjörs á rekstri. Sem dæmi mætti nefna fiskveiðar þar sem miðað væri við fiskveiðiárið eða skólarekstur þar sem miðað væri við skólaárið. Ekki nægði í þessu efni að til staðar væru venjulegar árstíðasveiflur, t.d. í verslun eða þjónustustarfsemi, svo sem ferðamennsku. Í öðru lagi ef óskað hefði verið samsköttunar með móðurfélagi sem þegar hefði fengið samþykkt annað reikningsár en almanaksárið og önnur skilyrði samsköttunar væru uppfyllt. Í þriðja lagi ef félagið væri í nánum fjárhags- og eignatengslum við annan aðila, innlendan eða erlendan, sem hefði reikningsár sem viki frá almanaksárinu og verulegir hagsmunir tengdust því eða fjárhagslegt uppgjör aðilanna færi saman. Ekki yrði séð að neitt framangreindra atriða ætti við í tilviki kæranda. Skráður tilgangur kæranda væri samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár „rekstur verslana, innflutningur, heildsala, smásala, rekstur fasteigna, bifreiðakaup og -sala, verðbréfa- og lánastarfsemi og öll nauðsynleg starfsemi því tengd“. Ekki hefði verið sýnt fram á að rekstur kæranda væri í nokkru frábrugðinn rekstri annarra fyrirtækja í svipaðri starfsemi og verslunarrekstri, sem lyti sambærilegum lögmálum, svo sem árstíðasveiflu í sölu, og sem hefði grundvallað uppgjör viðskipta sinna og skattskil sín við almanaksárið. Ekki yrði séð af fyrirliggjandi gögnum að óskað hefði verið samsköttunar með móðurfélagi með annað reikningsár en almanaksárið eða að önnur skilyrði samsköttunar væru uppfyllt. Þá hefðu ekki verið færð fyrir því fullgild rök að félagið væri í nánum fjárhags- og eignatengslum við annan aðila með reikningsár annað en almanaksárið og að verulegir hagsmunir tengdust því að fjárhagslegt uppgjör aðilanna færi saman. Erindinu væri því synjað.
II.
Með kæru, dags. 13. febrúar 2012, hefur kærandi skotið ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 18. janúar 2012, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kæranda verði heimilað að miða skattár félagsins við tímabilið frá 1. febrúar til 31. janúar í stað almanaksársins, í fyrsta skipti frá og með 1. febrúar 2011. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að til umbeðinnar breytingar standi skýr rök og verulegir hagsmunir kæranda sé tekið tillit til starfsemi hans, þ.e. rekstur fataverslunar. Er vísað til ákvæðis um breytingar á reikningsári félaga í 4. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og bent á að í tilviki kæranda séu fyrir hendi sérstakar aðstæður í skilningi umræddrar lagagreinar. Þá kemur fram að kærandi búi ekki yfir upplýsingum um hvort aðrar fataverslanir miði reikningsár sitt við annað tímabil en almanaksárið. Víða erlendis sé rekstrartímabil fataverslana þó frá 1. febrúar til loka janúarmánaðar þar sem rekstrarárið sé talið enda eftir jólavertíð og útsölur í janúar. Ljóst sé því að litið sé á tímabilið 1. febrúar til 31. janúar sem venjulegt rekstrarár að því er varðar starfsemi sem sé sambærileg starfsemi kæranda. Með vísan til þessa og almennra raka megi halda því fram að kærandi uppfylli skilyrði 4. gr. laga nr. 3/2006 og 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 til að hafa annað reikningsár en almanaksárið. Að mati kæranda mæli viðskiptalegar forsendur, töluverðir hagsmunir og skýr rök með því að félaginu verði heimilað að miða reikningsár sitt við tímabilið frá 1. febrúar til 31. janúar. Annars vegar gefi tímabilið við útsölulok gleggri mynd af rekstri kæranda og hins vegar sé hagræði af því að vörutalning fari fram við útsölulok þegar vörulager sé í lágmarki í stað talningar á útsölutímabili þegar álag sé í hámarki. Því sé sú krafa gerð að yfirskattanefnd ógildi úrskurð ríkisskattstjóra og veiti kæranda heimild til að miða rekstrarár sitt við umbeðið tímabil.
III.
Með bréfi, dags. 13. apríl 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. apríl 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Samkvæmt 9. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, skal greina í samþykktum einkahlutafélags hvert reikningsár þess sé. Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 7. gr. laga nr. 48/2005, um breyting á þeim, og 4. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, sbr. 2. gr. laga nr. 171/2007, um breyting á þeim, kemur fram að reikningsár skuli vera 12 mánuðir og miðast við mánaðamót. Hefst nýtt reikningsár daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Þá kemur fram að ef breyta á reikningsári frá því, sem ákveðið hefur verið í öndverðu, þurfa sérstakar aðstæður að gefa tilefni til þess og skal breytingin ákveðin í samþykktum félags og rökstudd í skýringum með fyrsta ársreikningi eftir hana.
Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, skal miða tekjuskatt við tekjur næsta almanaksár á undan skattákvörðun, nema annað sé venjulegt rekstrarár í atvinnugrein aðila eða hann sýnir, þegar hann telur fram, að hann hafi annað reikningsár. Getur ríkisskattstjóri þá veitt honum heimild til að hafa það reikningsár í stað almanaksársins. Ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.
Fram er komið að kærandi hefur með höndum hefðbundinn verslunarrekstur, þ.e. rekstur fataverslunar. Af hálfu kæranda hefur verið bent á að félagið hafi hagsmuni af því að miða reikningsár sitt við tímabilið frá 1. febrúar til 31. janúar í stað almanaksársins, m.a. vegna árstíðabundinnar sveiflu í sölu, svo sem rökstutt er í kæru umboðsmanna félagsins til yfirskattanefndar. Hvað sem því líður hefur hvorki verið sýnt fram á að venjulegt rekstrarár hjá öðrum aðilum, sem stunda sambærilega starfsemi og kærandi, sé annað en almanaksárið né að kærandi hafi í reynd miðað reikningsár sitt við annað tímabil. Þegar af þessum ástæðum verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Má í þessu sambandi vísa til sjónarmiða í dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. janúar 2011 í máli nr. 212/2010 (Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. gegn íslenska ríkinu). Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður jafnframt að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.