Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila

Úrskurður nr. 417/2012

Gjaldár 2011

Lög nr. 90/2003, 108. gr. 1. og 3. mgr.  

Kærandi krafðist þess að álag vegna síðbúinna framtalsskila, sem bætt var við stofn til fjármagnstekjuskatts, yrði fellt niður þar sem staðgreiðslu hefði verið skilað af greindum tekjum. Var fallist á þá kröfu.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2011 og sætti kærandi af þeim sökum áætlun af hálfu ríkisskattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2011, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattframtal kæranda barst ríkisskattstjóra hinn 7. júlí 2011 samkvæmt gögnum málsins eða að framtalsfresti liðnum, en áður en almennri álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2011 var lokið. Tók ríkisskattstjóri skattframtalið til afgreiðslu sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003.

Með kæruúrskurði, dags. 1. september 2011, féllst ríkisskattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda árið 2011 óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2011 í stað áætlaðra skattstofna, en að viðbættu álagi á skattstofna, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Til stuðnings álagsbeitingu vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi hefði sætt áætlun skattstofna gjaldárin 2008, 2009 og 2010 þar sem skattframtöl kæranda árin 2008, 2009 og 2010 hefðu borist að liðnum framtalsfresti, sbr. tilgreiningu ríkisskattstjóra í úrskurðinum á skiladögum skattframtalanna umrædd ár. Ríkisskattstjóri tók fram að ekki hefði verið sýnt fram á að aðstæður hefðu verið með þeim hætti sem greindi í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella bæri álagið niður. Tók ríkisskattstjóri fram að álag væri ákvarðað 10% á skattstofna, þ.m.t. þann hluta stofns til tekjuskatts og útsvars sem ríkisskattstjóri ákvarðaði umfram 95% af þeim tekjum sem staðgreiðslu hefði verið skilað af, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 1991, sem birt hefði verið í 71. tölublaði Lögbirtingablaðsins 12. júní 1991. Ríkisskattstjóri tók fram að álagsfjárhæð á tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda yrði 36.796 kr., 601.852 kr. á stofn til fjármagnstekjuskatts og 9.249.150 kr. á stofn til auðlegðarskatts.

II.

Með kæru, dags. 25. nóvember 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 1. september 2011. Lýtur kæran einungis að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að beita álagi á stofn til fjármagnstekjuskatts kæranda gjaldárið 2011. Í kærunni er þess krafist að álag að fjárhæð 601.852 kr. á stofn til fjármagnstekjuskatts verði fellt niður. Samkvæmt skattframtali árið 2011 sé stofn til fjármagnstekjuskatts 6.081.855 kr. og miðað við 18% skattprósentu eigi fjármagnstekjuskattur að nema 1.094.734 kr. Á árinu 2010 hafi kærandi greitt samtals 1.130.703 kr. í fjármagnstekjuskatt eða 35.969 kr. umfram álagðan fjármagnstekjuskatt samkvæmt skattframtali. Svo virðist sem ríkisskattstjóri taki ekkert tillit til þess í úrskurði sínum að allur fjármagnstekjuskattur hafi verið greiddur, enda hvíli skilaskylda skattsins ekki á framteljanda, heldur á þeim sem greiða vexti og arð þar sem ekki sé um aðrar eignatekjur að ræða hjá kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kæranda var ákvarðað álag á fjármagnstekjuskatt þar sem framtali var of seint skilað en þó fyrir álagningu. Kært er álag á fjármagnstekjuskatt.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi skilað á árinu 2011 fjármagnstekjuskatti að fjárhæð 1.094.734 kr. (sic) eða 35.969 kr. umfram álagðan tekjuskatt samkvæmt skattframtali.

Eins og málið liggur fyrir þykir mega fallast á kröfu kæranda.“

IV.

Samkvæmt hinum kærða úrskurði, dags. 1. september 2011, bætti ríkisskattstjóri álagi við skattstofna kæranda gjaldárið 2011vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar á meðal stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts. Álagsfjárhæð á þann stofn nam 601.852 kr. og nam stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts 6.683.707 kr. að meðtöldu umræddu álagi. Samkvæmt þessu nam stofn til skatts þessa 6.081.855 kr. án álags sem svaraði til stofns samkvæmt skattframtali kæranda árið 2011.

Í 1. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 segir að ríkisskattstjóri megi bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests. Þó skuli ríkisskattstjóri taka tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hefur farið fram í staðgreiðslu og skuli ríkisskattstjóri setja nánari reglur um það atriði, sbr. 2. og 3. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Berist framtal, sem álagning verði byggð á, eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu ríkisskattstjóra sé lokið, megi þó aðeins bæta 0,5% álagi á skattstofna fyrir hvern dag sem skil hafi dregist fram yfir frestinn, þó ekki hærra álagi en 10%, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 108. gr. laganna. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er boðið að fella skuli niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Ríkisskattstjóri hefur á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 3. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, sett reglur um beitingu álags á gjaldstofna þegar of seint eða ekki er fram talið, sbr. auglýsingu embættisins nr. 9/1991, dags. 30. maí 1991, sem birtist í 71. tbl. Lögbirtingablaðsins 1991. Þar kemur fram að þegar framtal berst eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu skattstjóra sé lokið, sbr. þágildandi heimild 4. málsl. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, nú hliðstætt ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, megi skattstjóri bæta 0,5% álagi á stofna til tekjuskatts og útsvars umfram 95% af stofni sem staðgreiðslu var skilað af fyrir hvern dag sem skil á framtali dragast fram yfir framtalsfrest, þó ekki hærra álagi en 10%. Segir að þannig útreiknuð fjárhæð teljist réttilega ákvarðað álag á gjaldstofna skv. 1. málslið 1. mgr. 106. gr. tekjuskattslaga.

Óumdeilt er að skattframtal kæranda árið 2011 barst ríkisskattstjóra ekki fyrr en 7. júlí 2011 eða að loknum framtalsfresti, en áður en almennri álagningu opinberra gjalda einstaklinga gjaldárið 2011 var lokið. Eins og fram er komið tók ríkisskattstjóri skattframtalið sem kæru samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og féllst á að byggja álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2011 á skattframtalinu óbreyttu að viðbættu umræddu álagi á skattstofna, þar á meðal fjármagnstekjuskattsstofn, vegna hinna síðbúnu framtalsskila. Samkvæmt langri skatt- og úrskurðaframkvæmd varðandi álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila hefur skipt máli hvort um ítrekuð síðbúin framtalsskil er að ræða. Ríkisskattstjóri taldi ekki efni til annars en að beita heimildarákvæði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 í tilviki kæranda, enda hefði ekki verið sýnt fram á að ákvæði 3. mgr. lagagreinar þessarar ætti við þannig að fella bæri álag niður. Þá rökstuddi ríkisskattstjóri álagsbeitinguna með vísan til síðbúinna framtalsskila kæranda árin 2008, 2009, og 2010, sbr. fyrrgreinda skatt- og úrskurðaframkvæmd. Af hálfu kæranda hafa engar skýringar verið gefnar á ástæðum síðbúinna framtalsskila árið 2011 og verður því ekki talið að hann hafi sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella beri álagið niður af þeim sökum eða að öðru leyti sé tilefni til að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. sömu lagagreinar í tilviki kæranda. Kærandi hefur enda ekki borið sig upp undan álagsbeitingu á fyrrgreindum grundvelli, heldur unir hann álagsbeitingunni að öðru leyti en varðar beitingu álags á stofn til fjármagnstekjuskatts. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2011 nemur sá stofn án álags 6.081.855 kr., að teknu tilliti til frádráttar frítekna að fjárhæð 200.000 kr., þar af arður frá X hf. 6.004.664 kr. Tilgreind staðgreiðsla nam 1.130.703 kr., þar af 1.080.840 kr. vegna umrædds arðs. Er þetta í samræmi við tiltæk álagningargögn. Miðað við fjárhæð álagðs skatts á stofn án álags, sem reiknast 1.094.734 kr., og staðgreiðslu 1.130.703 kr. nemur umframgreiðsla 35.969 kr., eins og bent er á í kæru. Ríkisskattstjóri jók álagi að fjárhæð 601.852 kr. við framangreindan stofn 6.081.855 kr. þannig að stofn til fjármagnstekjuskatts varð með álagi 6.683.707 kr. og álagður fjármagnstekjuskattur 1.203.067 kr. Samkvæmt þessu taldist ógreiddur fjármagnstekjuskattur nema 72.364 kr. Eins og fyrr greinir byggir kærandi á því að staðgreiðslu hafi verið haldið eftir og skilað af öllum fjármagnstekjum hans og ríflega það. Því sé tilefni til niðurfellingar umrædds álags á stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2011. Að því virtu, sem hér hefur verið rakið, og með skírskotun til kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu, sbr. og 2. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, er fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda. Álag á stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2011 að fjárhæð 601.852 kr. fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja