Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyldusvið
  • Skipasmíði og skipaviðgerðir

Úrskurður nr. 107/2014

Virðisaukaskattur 2012 og 2013

Lög nr. 50/1988, 12. gr. 1. mgr. 7. tölul.  

Í úrskurði yfirskattanefndar var því hafnað að undanþáguákvæði varðandi skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinnu við skip og fastan útbúnað þeirra tæki til sölu kæranda á efni til skipasmíði, enda var talið að skilja yrði undanþáguákvæðið svo að það tæki eingöngu til vörusölu sem ætti sér stað í sambandi við þargreinda vinnu- og þjónustu sem seljandi innti af hendi vegna skips.

I.

Með kæru, dags. 26. ágúst 2013, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 27. maí 2013, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts uppgjörstímabilin september-október 2012 og janúar-febrúar 2013. Að því er varðaði fyrrnefnda uppgjörstímabilið fól úrskurður ríkisskattstjóra í sér afgreiðslu á beiðni kæranda (skatterindi) samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um endurákvörðun virðisaukaskatts á grundvelli innsendrar virðisaukaskattsskýrslu, dags. 15. maí 2013, í stað áætlaðs virðisaukaskatts samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Vegna síðarnefnda uppgjörstímabilsins var um að ræða kæruúrskurð ríkisskattstjóra samkvæmt 29. gr. laga nr. 50/1988 vegna kæru í formi innsendrar virðisaukaskattsskýrslu, dags. 15. maí 2013, í framhaldi af áætlun ríkisskattstjóra á virðisaukaskatti kæranda.

Með greindum úrskurði, sem kveðin var upp í framhaldi af bréfaskiptum ríkisskattstjóra og kæranda, svo sem nánar greinir í úrskurðinum, féllst ríkisskattstjóri á að ákvarða virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilin september-október 2012 og janúar-febrúar 2013 í samræmi við framlagðar virðisaukaskattsskýrslur, dags. 15. maí 2013. Álagður virðisaukaskattur varð samkvæmt úrskurðinum 1.045.725 kr. uppgjörstímabilið september-október 2012 og 132.907 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2013 sem var hækkun um 686.025 kr. fyrra tímabilið en lækkun um 76.774 kr. síðara tímabilið frá því sem ríkisskattstjóri hafði áætlað. Með vísan til heimildar í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 féll ríkisskattstjóri frá beitingu álags á hækkun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið september-október 2012, en hins vegar ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda sérstakt gjald 5.000 kr. hvort uppgjörstímabil samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988. Í úrskurðinum vék ríkisskattstjóri að sjónarmiðum kæranda, sem fram höfðu komið við meðferð málsins, þess efnis að telja bæri sölu á efni til skipasmíða til undanþeginnar veltu með því að skipasmíðar væru undanþegnar virðisaukaskatti samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Af þessu tilefni tók ríkisskattstjóri fram að ekki væri fallist á að sala á efni, sem ekki væri afhent ásamt sölu á vinnu við skipasmíði eða skipaviðgerðir, gæti talist undanþegin virðisaukaskatti. Efnissala af þessu tagi væri virðisaukaskattsskyld samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðis 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna ætti undanþága samkvæmt ákvæðinu aðeins við sölu eða veltu þess aðila sem stundaði skipasmíði eða skipaviðgerðir.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að ágreiningur sé við ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts við sölu á efni til skipasmíða. X ehf., sem hafi skip í smíðum, hafi keypt efni til skipasmíðanna af kæranda, en ríkisskattstjóri fallist ekki á að kæranda hafi verið heimilt að telja hið selda undanþegið skattskyldri veltu sinni, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Að áliti kæranda leiði það af orðalagi greinds ákvæðis að öll sala aðfanga til skipasmíða, bæði efni og vinna, sé undanþegin skattskyldri veltu á sama hátt og öll vinna við skipaviðgerðir sé talin undanþegin skattskyldri veltu ásamt sölu þess efnis sem viðkomandi verktaki leggi til.

II.

Með bréfi, dags. 14. október 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram þá kröfugerð að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. október 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Mál þetta snýst um það hvort kæranda hafi verið heimilt í virðisaukaskattsskilum sínum tiltekin uppgjörstímabil árin 2012 og 2013 að halda tilgreindum viðskiptum, þ.e. sölu á efni til skipasmíði, sbr. fyrirliggjandi sölureikninga kæranda á hendur X ehf., utan skattsskyldrar veltu á grundvelli 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Í ákvæði þessu er mælt svo fyrir að til skattskyldrar veltu teljist ekki skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða einkaloftfara.

Skilja verður undanþáguákvæði 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 eftir orðan þess svo að ákvæðið taki eingöngu til vörusölu sem á sér stað í sambandi við þargreinda vinnu eða þjónustu sem seljandi innir af hendi vegna skips eða loftfars. Af hálfu kæranda var ekki um að ræða sölu á skipasmíði eða viðgerðarþjónustu við skip til X ehf. og eru skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt þessu ákvæði því ekki fyrir hendi í tilviki kæranda. Kröfu kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja