Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurupptaka máls
- Málskostnaður
Úrskurður nr. 126/2014
Gjaldár 2009
Lög nr. 37/1993, 24. gr. Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)
Með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis frá 21. ágúst 2013 í máli nr. 7182/2012 var fallist á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 394/2010 í máli kærenda að því er snerti ákvörðun málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði. Var fjárhæð málskostnaðar hækkuð frá fyrri ákvörðun á grundvelli framlagðra reikninga.
I.
Með bréfi, dags. 9. október 2013, hefur umboðsmaður kærenda farið fram á, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að úrskurður yfirskattanefndar nr. 394/2010, sem kveðinn var upp hinn 29. desember 2010, í máli kærenda vegna álagningar opinberra gjalda þeirra gjaldárið 2009, verði endurupptekinn að því er tekur til ákvörðunar málskostnaðar til handa kærendum til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
II.
Með greindum úrskurði nr. 394/2010 var ómerkt sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt tilkynningu hans, dags. 29. júlí 2009, sem hann staðfesti með kæruúrskurði, dags. 22. október 2009, að færa kærendum til skattskyldra tekna í skattframtali þeirra árið 2009 hagnað að fjárhæð 28.171.812 kr. vegna sölu íbúðarhúsnæðis að M á árinu 2008. Byggði skattstjóri breytingu sína á því að þar sem heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis í eigu kærenda á söludegi umrædds íbúðarhúsnæðis við M hefði verið umfram stærðarmörk samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, bæri að skipta söluhagnaði húsnæðisins til skattlagningar í sama hlutfalli og væri milli rúmmáls íbúðarhúsnæðis í eigu kærenda umfram 1.200 rúmmetra á söludegi M og heildarrúmmáls þess húsnæðis, sbr. 5. mgr. 17. gr. greindra laga, svo sem nánar var rakið. Með kæru, dags. 15. janúar 2010, skutu kærendur greindum kæruúrskurði skattstjóra, dags. 22. október 2009, til yfirskattanefndar. Með úrskurði sínum nr. 394/2010 ómerkti yfirskattanefnd breytingu skattstjóra og tók aðalkröfu kærenda í málinu, sem byggð var á því að málsmeðferð skattstjóra hefði verið áfátt, til greina á þeim grundvelli. Tekið var fram í úrskurðinum að með honum væri engin afstaða tekin til efnisatriða málsins.
Í málinu var þess krafist af hálfu kærenda, sbr. greinda kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 2010, að þeim yrði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að álitum, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, og að tekið yrði tillit til kostnaðar kærenda vegna meðferðar málsins á skattstjórastigi og fyrir yfirskattanefnd. Vegna þeirrar kröfu var tekið fram í úrskurði yfirskattanefndar nr. 394/2010 að ekki hefðu verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað kærenda vegna meðferðar málsins, en þess krafist í kærunni að málskostnaður yrði ákvarðaður að álitum. Með hliðsjón af því og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu slíks kostnaðar úr ríkissjóði þætti málskostnaður kærenda hæfilega ákveðinn 50.000 kr.
Kærendur undu ekki ákvörðun yfirskattanefndar um málskostnað samkvæmt úrskurði nefndarinnar nr. 394/2010 og með bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 1. febrúar 2011, var þess farið á leit, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að úrskurður yfirskattanefndar nr. 394/2010 í máli kærenda yrði endurupptekinn að því er tók til ákvörðunar málskostnaðar. Með bréfinu fylgdi útprentun með yfirliti yfir tímafjölda sem þáverandi umboðsmaður kærenda lagði í málið fyrir hönd kærenda. Fram kom í beiðninni að miðað við tilgreint tímagjald næmi heildarkostnaður vegna kæru til yfirskattanefndar 211.781 kr. og kostnaður vegna vinnu við meðferð málsins hjá skattstjóra 84.713 kr. Þá kom fram að það hlyti að teljast óeðlilegt að kærendur bæru kostnað af málsvörn vegna málarekstrar skattyfirvalda sem sætti ómerkingu. Með hliðsjón af nýjum gögnum væri þess farið á leit að yfirskattanefnd endurskoðaði ákvörðun sína um málskostnað og féllist á að kærendum yrði greiddur sá kostnaður sem þau hefðu orðið fyrir vegna málsins, enda væri ljóst að ákvörðun um málskostnað í úrskurði nr. 394/2010 hefði byggst á ófullnægjandi gögnum. Þá kom fram að féllist yfirskattanefnd ekki á endurupptöku yrði málskostnaðarákvörðun rökstudd svo sem nánar greindi.
Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 17 frá 1. febrúar 2012 var beiðni umboðsmanns kærenda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar nr. 394/2010, að því er varðaði ákvörðun um málskostnað, hafnað. Var vísað til þess að það bæri undir skattaðila að sýna fram á að hann hefði borið kostnað vegna meðferðar máls. Eins og kæmi fram í úrskurði yfirskattanefndar nr. 394/2010 hefðu hvorki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað kærenda vegna meðferðar máls þeirra né gerð með öðrum hætti nein grein fyrir kostnaðinum, svo sem með vinnuyfirlitum, upplýsingum um tímagjald o.þ.h. Af hálfu umboðsmanns kærenda hefði verið lagt í vald yfirskattanefndar að ákveða málskostnað að álitum sem gert hefði verið með greindum úrskurði og fjárhæð málskostnaðar ákvörðuð 50.000 kr. Með umræddri beiðni, dags. 1. febrúar 2011, um endurupptöku úrskurðar nr. 394/2010 hefði umboðsmaður kærenda horfið frá framsetningu kröfu sinnar varðandi ákvörðun málskostnaðar og krefðist þess að kostnaðurinn yrði ákvarðaður miðað við tilteknar forsendur, þ.e. tilgreindan tímafjölda og tímagjald. Ekki væru neinir reikningar lagðir fram. Samkvæmt þessu fæli beiðnin í sér breytta kröfugerð varðandi málskostnað og byggðist á upplýsingum og forsendum sem umboðsmanni kærenda hefði verið í lófa lagið að koma að þegar í kæru, dags. 15. janúar 2010. Með vísan til þessa og þar sem hvorki ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né aðrar réttarreglur þættu leiða til þess að endurupptaka bæri mál kærenda með tilliti til málskostnaðar og ekki þætti að öðru leyti fram komið tilefni til endurupptöku væri beiðni kærenda synjað.
Kærendur sættu sig ekki við synjun yfirskattanefndar í úrskurði nr. 17/2012 um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar nr. 394/2010 með tilliti til málskostnaðar. Hinn 28. september 2012 leitaði þáverandi umboðsmaður kærenda til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurðinum. Málið hlaut málsnúmerið 7182/2012. Settur umboðsmaður Alþingis lagði fram álit sitt í málinu. Er álitið dagsett 21. ágúst 2013. Niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis í umræddu áliti varð að synjun yfirskattanefndar með úrskurði nr. 17/2012 um endurupptöku úrskurðar úrskurðar nefndarinnar nr. 394/2010 með tilliti til málskostnaðar hefði ekki verið í samræmi við lög svo sem nánar var rakið. Taldi umboðsmaður að skort hefði á að yfirskattanefnd legði sérstakt mat á hvort hvort þær upplýsingar, sem þá lágu fyrir, hefðu varpað nýju og fyllra ljósi á þann kostnað sem kærendur kynnu að hafa orðið fyrir vegna málarekstrarins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá segir svo m.a. í áliti umboðsmanns:
„Í skýringum yfirskattanefndar kemur fram að nefndin hafi í framkvæmd sinni ekki gert skýlausa kröfu um að reikningar eða viðlíka upplýsingar væru lagðar fram sem sönnun þess að málsaðili hafi orðið fyrir kostnaði vegna reksturs máls. Yfirskattanefnd hafi því ekki í framkvæmd óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 4. mgr. 6. gr. nr. 30/1992, þrátt fyrir að löggjafinn hafi ætlast til þess að krafa um málskostnað væri rökstudd með ítarlegum hætti. Ég tel ekki ástæðu til að taka afstöðu hér til lögmætis þeirrar framkvæmdar. Yfirskattanefnd getur þó ekki með vísan til hennar litið alfarið framhjá nýjum upplýsingum um málskostnað fyrir nefndinni sem geta verið til þess fallnar til að varpa ljósi á að fyrri niðurstaða nefndarinnar hafi verið reist á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Hafi yfirskattanefnd talið þörf á að tiltekin gögn eða upplýsingar lægju fyrir áður en hún úrskurðaði um málskostnað kærenda bar henni í samræmi við áðurnefnd ákvæði laga nr. 30/1992 og 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga að leiðbeina aðilum um það og óska eftir upplýsingum frá þeim.
Að virtu framangreindu tel ég að hvorki upphafleg framsetning kröfu kærenda né það hvort þeim hafi verið í lófa lagið að koma að frekari upplýsingum þegar í stjórnsýslukærunni hafi haft þýðingu að lögum fyrir það álitaefni hvort efnisskilyrðum 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga væri fullnægt, enda gerðu kærendur í þessu máli sannanlega kröfu í kæru um málskostnaður (sic) yrði ákvarðaður þeim til handa. Að fenginni beiðni kærenda um endurupptöku fyrri úrskurðar um þann þátt bar yfirskattanefnd því að minnsta kosti að leggja efnislegt mat á það hvort fram væru komnar nýjar upplýsingar sem gætu haft verulega þýðingu fyrir úrlausn á þeim þætti málsins. Það er því álit mitt að úrskurður yfirskattanefndar nr. 17/2012 hafi ekki verið í samræmi við lög. Með þessari niðurstöðu hef ég ekki tekið neina afstöðu til efnislegrar niðurstöðu í máli þessu.“
Í lok álits síns beindi settur umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til yfirskattanefndar að hún tæki mál kærenda til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni um það frá þeim, og hagaði þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem gerð hefði verið grein fyrir í álitinu. Jafnframt væru það tilmæli umboðsmanns að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu við meðferð sambærilegra mála hjá yfirskattanefnd.
III.
Með beiðni umboðsmanns kærenda, dags. 9. október 2013, fylgdu ýmis gögn, auk greindra úrskurða yfirskattanefndar nr. 394/2010 og nr. 17/2012 í máli kærenda og álits setts umboðsmanns Alþingis, dags. 21. ágúst 2013, í málinu nr. 7182/2012. Er þar um að ræða afrit málskostnaðarreikninga nr. 80604, 80094, 77893, 76258, 75404, 74266, 72656 og 70331 svo og tímaskýrslu. Fjárhæð umræddra átta reikninga nemur samtals 213.451 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti. Ennfremur yfirlit málskostnaðarreikninga og yfirlit yfir óreikningsfærð viðskipti vegna vinnu við endurupptöku að fjárhæð 65.888 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti. Reikningur nr. 97308 vegna þeirrar vinnu, ásamt vinnuskýrslu, hefur borist. Tilgreindur málskostnaður nemur því samtals 279.339 kr. samkvæmt fyrrgreindum níu reikningum, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Í beiðni umboðsmanns kærenda um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 394/2010 að því er tekur til ákvörðunar málskostnaðar er forsaga málsins og gangur þess rakinn, þar á meðal meðferð og afdrif málsins hjá settum umboðsmanni Alþingis og niðurstaða hans samkvæmt greindu áliti, dags. 21. ágúst 2013. Síðan segir svo í beiðninni:
„Með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram komu í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7182/2012, er þess farið á leit að úrskurður yfirskattanefndar nr. 394/2010 í máli A og B verði endurupptekinn að því er varðar ákvörðun um málskostnað. Er gerð krafa um að þeim verði ákvarðaður málskostnaður að fullu í samræmi við framlögð gögn, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, vegna meðferðar málsins í heild sinni fyrir yfirskattanefnd, enda ekki með nokkru móti um að ræða óhóflegan kostnað miðað við umfang málsins og ósanngjarnt að kærendur bæru þann kostnað sjálfir. Ber í þessu sambandi að taka tillit til alls þess kostnaðar sem kærendur hafa orðið fyrir við það að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum, þ.m.t. kostnaðar vegna endurupptökubeiðni þessarar og kostnaðar sem kærendur urðu fyrir við það að leita álits umboðsmanns Alþingis, enda um að ræða kostnað sem rekja má beint til ólögmætrar synjunar á endurupptöku máls kærenda, sbr. fyrrgreint álit umboðsmanns Alþingis. Komi til þess að málskostnaðarákvörðun yfirskattanefndar í kjölfar endurupptöku málsins byggi að einhverju leyti á mati er þess farið á leit að nefndin greini frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið í rökstuðningnum, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“
IV.
Eins og fram er komið hafnaði yfirskattanefnd með úrskurði sínum nr. 17/2012, sem kveðinn var upp hinn 1. febrúar 2012, beiðni umboðsmanns kærenda, dags. 1. febrúar 2011, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 394/2010 að því er varðaði ákvörðun málskostnaðar í síðargreinda úrskurðinum. Í máli þessu er greindri synjun yfirskattanefndar samkvæmt úrskurði nefndarinnar nr. 17/2012 um endurupptöku síðargreinda úrskurðarins nr. 394/2010 mótmælt, enda sé hún ólögmæt og í þeim efnum einkum borið við niðurstöðu setts umboðsmanns Alþingis í áliti, dags. 21. ágúst 2013, vegna kvörtunar kærenda frá 28. september 2012.
Í upphafi niðurstöðu sinnar varðandi málskostnað í úrskurði nr. 17/2012 gerði yfirskattanefnd grein fyrir lagagrundvelli ákvarðana um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði til skattaðila í kærumálum samkvæmt lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 2. mgr. 8. gr. lagagreinar þessarar, eins og greininni var breytt með 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, en með með síðastgreindu ákvæði hefði verið lögfest að yfirskattanefnd gæti úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Ákvæði þetta væri svohljóðandi:
„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.“
Þá kom fram að í bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. janúar 2010, þar sem móttaka kæru kærenda, dags. 15. janúar 2010, hefði verið staðfest, hafi kærendum jafnframt verið kynnt umrætt ákvæði. Í kærunni, sem undirrituð væri af sama sérkunnáttumanni og borið hefði fram greinda beiðni um endurupptöku úrskurðar nr. 394/2010, hefði krafa um að kærendum yrði úrskurðaður málskostnaður verið orðuð með þeim hætti að kærendum yrði „ákvarðaður málskostnaður að fullu“, sbr. greint ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/1998, og óskað eftir „að yfirskattanefnd ákvarði þann kostnað að álitum“. Ennfremur hefði komið fram í kærunni „að tekið yrði tillit til kostnaðar [kærenda] af málarekstri bæði á skattstjórastigi og fyrir yfirskattanefnd“.
Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 17/2012 kom síðan fram að það bæri undir skattaðila að sýna fram á að hann hafi borið kostnað vegna meðferðar máls. Samkvæmt framansögðu og eins og fram kæmi í úrskurði yfirskattanefndar nr. 394/2010 hefðu hvorki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað kærenda vegna meðferðar umrædds máls þeirra né gerð með öðrum hætti nein grein fyrir kostnaðinum svo sem með vinnuyfirlitum, upplýsingum um tímagjald o.þ.h. Af hálfu umboðsmanns kærenda hefði í kærunni verið lagt í vald yfirskattanefndar að ákveða málskostnað að álitum sem gert hefði verið með greindum úrskurði og fjárhæð málskostnaðar ákvörðuð 50.000 kr. Í beiðni sinni, dags. 1. febrúar 2011, um endurupptöku úrskurðarins hefði umboðsmaðurinn horfið frá framsetningu kröfu sinnar varðandi ákvörðun málskostnaðar og krafist þess að kostnaðurinn yrði ákvarðaður miðað við tilteknar forsendur, þ.e. tilgreindan tímafjölda og tímagjald. Engir reikningar hefðu verið lagðir fram. Samkvæmt þessu hefði beiðnin falið í sér breytta kröfugerð varðandi málskostnað sem byggðist á upplýsingum og forsendum sem umboðsmanni kærenda hefði verið í lófa lagið að koma að þegar í kæru, dags. 15. janúar 2010.
Í lok niðurstöðu yfirskattanefndar í úrskurði nr. 17/2012 kom fram að með vísan til þess, sem hér hefði verið rakið, og þar sem hvorki ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né aðrar réttarreglur þættu leiða til þess að endurupptaka bæri mál kærenda með tilliti til málskostnaðar og ekki þætti að öðru leyti fram komið tilefni til endurupptöku væri beiðni kærenda synjað.
Hér að framan í II. kafla eru meginforsendur umboðsmanns Alþingis í áliti hans, dags. 21. ágúst 2013, í máli kærenda tilgreindar orðrétt. Áður kemur fram í álitinu að ekki verði annað ráðið af synjun yfirskattanefndar í úrskurði nefndarinnar nr. 17/2012 um endurupptöku hins fyrri úrskurðar nr. 394/2010 „... en að á hafi skort að nefndin legði sérstakt mat á hvort þær upplýsingar sem þá lágu fyrir hefðu varpað nýju og fyllra ljósi á þann kostnað sem kærendur kynnu að hafa orðið fyrir vegna málarekstrarins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga“, eins og þar segir. Í áliti umboðsmanns, sbr. tilvitnun hér að framan, er vísað til skýringa yfirskattanefndar, sbr. bréf formanns nefndarinnar, dags. 15. janúar 2013, varðandi þá framkvæmd nefndarinnar að gera ekki skýlausa kröfu um framlagningu reikninga fyrir málskostnaði og því hafi nefndin ekki í framkvæmd óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 4. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, þrátt fyrir að löggjafinn hafi ætlast til þess að krafa um málskostnað væri rökstudd með ítarlegum hætti. Kemur fram að umboðsmaður taki ekki afstöðu til lögmætis þeirrar framkvæmdar. Síðan er ítrekað að yfirskattanefnd geti þó ekki, með vísan til hennar, litið alfarið framhjá nýjum upplýsingum um málskostnað fyrir nefndinni sem gætu verið fallnar til þess að varpa ljósi á að fyrri niðurstaða hefði verið reist á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Þá kemur fram að hefði yfirskattanefnd talið þörf á að tiltekin gögn og upplýsingar lægju fyrir áður en nefndin úrskurðaði um málskostnað kærenda hefði henni í samræmi við áðurnefnd ákvæði laga nr. 30/1992 og 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga borið að leiðbeina aðilum um það og óska eftir upplýsingum frá þeim. Þá er klykkt út með því að hvorki upphafleg framsetning kröfu kærenda né það hvort þeim hafi verið í lófa lagið að koma að frekari upplýsingum þegar í stjórnsýslukærunni hafi haft þýðingu að lögum fyrir það álitaefni hvort efnisskilyrðum 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga væri fullnægt.
Í bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 2013, til umboðsmanns Alþingis kom fram að almennt yrði að telja að skattaðila bæri að sýna óyggjandi fram á að hann hefði orðið fyrir kostnaði vegna málarekstrar í skattamálum, en það yrði naumast gert nema með framlagningu reikninga. Í úrskurðaframkvæmd nefndarinnar hefði ekki verið farið svo strangt í sakirnar og málskostnaður úrskurðaður án þess að reikningar eða aðrar viðlíka upplýsingar um málskostnað hefðu legið fyrir, enda mætti þá ganga út frá því sem vísu að skattaðili hefði borið kostnað vegna málarekstrarins. Í áliti sínu kveðst umboðsmaður ekki telja ástæðu til að taka afstöðu til lögmætis þessarar framkvæmdar nefndarinnar. Verður að skilja þetta svo að umboðsmaður telji hana a.m.k. ekki ólögmæta, enda verður að ætla að hann greindi frá því ef svo væri. Hins vegar verður að telja ljóst að það sé skoðun umboðsmanns að á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku máls, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. þeirra laga, geti skattaðili komið að nýjum upplýsingum og gögnum um málskostnað, sem yfirskattanefnd beri að leggja efnislegt mat á, þótt viðkomandi máli sé lokið og án tillits til þess hvernig málskostnaðarkrafa var upphaflega lögð fyrir, svo sem við á í tilviki kærenda, þó að því áskildu að krafa um málskostnað hafi komið fram í kæru, sbr. fyrirmæli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992. Ekki kemur fram í álitinu að nein sérstök tímamörk gildi í þessum efnum, að undanteknum ákvæðum 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með hliðsjón af því, sem fram kemur í greindu áliti umboðsmanns Alþingis, dags. 21. ágúst 2013, í máli nr. 7182/2012, vegna kvörtunar kærenda frá 28. september 2012, og með vísan til beiðni kærenda, dags. 9. október 2013, ásamt framlögðum gögnum, er úrskurður yfirskattanefndar nr. 394/2010 í máli kærenda endurupptekinn að því er tekur til ákvörðunar málskostnaðar kærenda til greiðslu úr ríkissjóði.
Eins og fram er komið nemur umkrafinn málskostnaður kærenda vegna máls þess, sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 394/2010, auk kostnaðar við endurupptökubeiðnir þess úrskurðar, samtals 279.340 kr. (sic) með virðisaukaskatti. Kostnaðurinn er samkvæmt framlögðum reikningum að öllu leyti samtals 279.339 kr., en reikningar lágu ekki fyrir áður, hvorki við upphaflega meðferð málsins, sem lauk með úrskurði nr. 394/2010 né fyrri beiðni um endurupptöku þess úrskurðar sem synjað var með úrskurði nr. 17/2012. Ekki þykja efni til annars, eins og hér stendur á, en að taka kostnað þennan til greina að fullu. Ákvarðast málskostnaður kærenda til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt úrskurði nr. 394/2010 því 279.339 kr. í stað 50.000 kr. Málskostnaðarfjárhæð hækkar því um 229.339 kr. frá fyrri ákvörðun.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á endurupptöku úrskurður yfirskattanefndar nr. 394/2010 að því er tekur til málskostnaðar. Ákvarðast málskostnaður samtals 279.339 kr. Málskostnaður hækkar því um 229.339 kr. frá fyrri ákvörðun.