Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Yfirtaka á leiðréttingarskyldu vegna innskatts
  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 148/2014

Virðisaukaskattur 2008

Lög nr. 50/1988, 16. gr. 2. mgr., 27. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 12. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr.  

Ríkisskattstjóri lækkaði áður fenginn innskatt kæranda, sem var hlutafélag, af kostnaði við byggingu fasteignar vegna þeirra breytinga á forsendum fyrir frádráttarrétti innskatts að fasteignin hafði verið seld Byggðastofnun. Kærandi taldi að jafna mætti sölunni til nauðungarsölu í skilningi reglugerðar um innskatt þannig að skylda til leiðréttingar hefði fallið niður, enda hefði verið um að ræða „þvingaða sölu“ vegna fjárhagserfiðleika kæranda. Yfirskattanefnd rakti aðdraganda að eigendaskiptum að fasteigninni og taldi ekki séð að afsal eignarinnar til Byggðastofnunar hefði verið með þeim hætti í óþökk kæranda sem byggt var á í kæru. Þá þætti ekki unnt að túlka ákvæði um nauðungarsölu í reglugerð um innskatt svo rúmt að það tæki til viðskipta við þær aðstæður sem um var að ræða. Var aðalkröfu kæranda hafnað, en eftir öllum atvikum þótti rétt að taka kröfu um niðurfellingu álags til greina.

I.

Með kæru, dags. 14. mars 2013, sbr. greinargerð fyrir kæruatriðum, dags. 27. mars 2013, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattsstjóra, dags. 17. desember 2012, um endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið september-október 2008. Með úrskurði sínum hækkaði ríkisskattstjóri álagðan virðisaukaskatt kæranda, þ.e. lækkaði innskatt, umrætt uppgjörstímabil um 7.683.527 kr. vegna leiðréttingar innskatts af varanlegum rekstrarfjármunum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Er um að ræða breytingar sem ríkisskattstjóri taldi leiða af afsali kæranda á fasteigninni M til Byggðastofnunar. Ríkisskattstjóri bætti 10% álagi við hækkun virðisaukaskatts, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að álag verði fellt niður. Loks er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt kaupsamningi, dags. ... september 2008, seldi kærandi fasteign sína að M til Byggðastofnunar. Fram kom í samningnum að umsamið kaupverð væri að fullu greitt með yfirtöku kaupanda á eigin veðskuldum sem verði afmáðar af eigninni í kjölfar eigendaskiptanna. Á fasteigninni hvíldi leiðréttingarskylda vegna innskatts í skilningi ákvæða 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og er óumdeilt að leiðréttingarfjárhæð hafi numið 7.683.526 kr. miðað við september 2008.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 8. janúar 2010, var óskað eftir skýringum og gögnum varðandi uppgjör virðisaukaskatts (innskatts) vegna sölu kæranda á tilteknum fasteignum á árinu 2008, þar á meðal M, sem gerð væri grein fyrir í eignaskrá meðfylgjandi skattframtali kæranda árið 2009. Skyldi m.a. gerð grein fyrir fjárhæð leiðréttingarskylds virðisaukaskatts vegna seldra eigna og hvort kaupendur hefðu yfirtekið leiðréttingarkvöð. Í svarbréfi kæranda, dags. 14. júní 2010, sem sent var ríkisskattstjóra í framhaldi af tölvupóstsamskiptum aðila, var gerð grein fyrir sölu M til Byggðastofnunar haustið 2008 vegna fjárhagserfiðleika kæranda. Hefðu aðgerðir í þessu sambandi verið nánast hliðstæðar því að um gjaldþrot kæranda hefði verið að ræða. Af hálfu kæranda hefði verið leitað eftir því við Byggðastofnun að stofnunin yfirtæki leiðréttingarkvöð sem fylgdi fasteigninni, en því hefði verið hafnað. Hins vegar hefði Byggðastofnun staðfest við kæranda að atvik við innlausn stofnunarinnar á M upp í áhvílandi verðskuldir hefðu verið fyllilega sambærileg því þegar eign væri seld nauðungarsölu eða ráðstafað samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991, um nauðungarsölu. Væri það afstaða Byggðastofnunar, sem kærandi væri sammála, að á þessum grundvelli hefði leiðréttingarskylda innskatts vegna eigendaskipta að M fallið niður með stoð í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Í framhaldi af frekari bréfaskiptum, sbr. m.a. bréf ríkisskattstjóra, dags. 17. maí 2011, boðaði ríkisskattstjóri kæranda með bréfi, dags. 31. júlí 2012, endurákvörðun á virðisaukaskatti félagsins fyrir árið 2008. Ríkisskattstjóri tók fram að umbeðin sundurliðun innskatts vegna byggingar M hefði ekki verið lögð fram af hálfu kæranda. Því væri gengið út frá fjárhæðum í ársreikningum kæranda um framkvæmdir hvers árs og til einföldunar miðað við september ár hvert við útreikning bæði verðbóta og niðurfærslu. Á þessum grundvelli væri fyrirhugað að hækka virðisaukaskatt kæranda um 12.567.568 kr. vegna bakfærðs innskatts af framkvæmdum við M, auk álags samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988.

Með bréfum, dags. 31. ágúst 2012 og 1. október 2012, reifaði umboðsmaður kæranda þá lausn á málinu við embætti ríkisskattstjóra að kærandi keypti umrædda eign aftur af Byggðastofnun og tæki eignina alla til virðisaukaskattsskyldrar notkunar, m.a. útleigu með frjálsri skráningu. Bréfum kæranda fylgdu ýmis gögn vegna málsins, þar á meðal kaupsamningur og afsal, dags. ... september 2008, afrit af bréfaskiptum við Byggðastofnun vegna málsins og útreikningur á eftirstöðvum leiðréttingarkvaðar innskatts vegna M sem þar voru taldar nema 7.308.976 kr.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 17. desember 2012, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, þó þannig að leiðréttingarfjárhæð var ákveðin 7.683.527 kr. með vísan til gagna „frá þjónustuaðila fyrirtækisins“, dags. 5. desember 2012, um innskattsfrádrátt vegna byggingar fasteignarinnar M. Ríkisskattstjóri tók fram að möguleg endurkaup kæranda á eigninni þættu ekki geta breytt niðurstöðu málsins.

III.

Samkvæmt greinargerð umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 27. mars 2013, er krafa kæranda byggð á því að afsal kæranda á fasteigninni M til Byggðastofnunar í september 2008 falli undir ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Því eigi ekki að koma til leiðréttingarskyldu virðisaukaskatts vegna þessarar ráðstöfunar fasteignarinnar. Er rakið í greinargerðinni að á árunum 2002-2004 hafi kærandi fært virðisaukaskatt til innskatts vegna byggingar greindrar fasteignar. Við yfirtöku Byggðastofnunar á fasteigninni hafi orðið breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts, sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Í þágildandi 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar hafi komið fram að leiðréttingarskylda virðisaukaskatts félli niður þegar eign væri seld nauðungarsölu. Samkvæmt breytingu á þessu ákvæði samkvæmt reglugerð nr. 863/2009 gildi hið sama þegar eign sé ráðstafað samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Við gerð kaupsamnings um M á árinu 2008 hafi það verið skilningur kæranda og Byggðastofnunar að jafna mætti viðskiptunum til nauðungarsölu til veðhafa eignarinnar, enda hafi Byggðastofnun yfirtekið fasteignina og samhliða afmáð áhvílandi veðskuldir kæranda. Þannig hafi kærandi og Byggðastofnun gengið út frá því að leiðréttingarskylda virðisaukaskatts félli niður við viðskiptin og hafi samningsaðilar því ekki gengið frá formlegri yfirtöku Byggðastofnunar á leiðréttingarskyldu. Ríkisskattstjóri hafi ekki vefengt þennan skilning kæranda og Byggðastofnunar, en aðeins tekið fram í bréfi, dags. 17. maí 2011, að varhugavert væri að fella ráðstafanir samningsaðila undir 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugarðar nr. 192/1993.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 37/2009 hafi verið felldur úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra sem hefði talið að kaupandi fasteignar hefði ekki heimild til yfirtöku á leiðréttingarskyldu þar sem hann hefði ekki verið skráður í grunnskrá virðisaukaskatts þegar kaupin áttu sér stað. Í úrskurði sínum hafi yfirskattanefnd bent á að bæði seljandi og kaupandi í umræddum viðskiptum hefðu litið svo á að ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 tækja til viðskiptanna og yrði ekki séð að skattstjóri hefði vefengt það. Af þessum orðum yfirskattanefndar verði ráðið að viðhorf samningsaðila til málsatvika geti skipt máli, jafnvel þótt fornlegar kröfur reglugerðarákvæðis séu ekki endilega uppfylltar. Það hafi ávallt verið skilningur kæranda og Byggðastofnunar að vegna eðlis viðskipta aðila hafi yfirtaka stofnunarinnar á fasteigninni leitt til þess að leiðréttingarskylda félli niður.

Gera verði ráð fyrir því að við setningu reglna um framkvæmd leiðréttingar á frádrætti vegna innskatts, sbr. nú reglugerð nr. 192/1993, hafi ráðherra leitast við að gæta jafnræðis meðal skattaðila, þannig að þegar kröfuhafi leysi til sín fasteign falli leiðréttingarskylda virðisaukaskatts niður, óháð því hvaða leið kröfuhafi kjósi að fara við að þá aðgerð. Að mati kæranda undirstriki breytingar á 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993 með reglugerð nr. 863/2009 enn frekar að vilji hafi staðið til þess að tryggja að leiðréttingarskylda félli niður þegar fasteign væri ráðstafað vegna fjárhagserfiðleika eiganda hennar. Í slíkum tilvikum hafi eigandi fasteignar litla sem enda stjórn á ferlinu, veðhafi leysi til sín fasteignina á verði sem hann einn ákveði og sé síðan frjálst að ráðstafa eigninni hvort sem sé til virðisaukaskattsskylds aðila eða aðila sem sé undanþeginn virðisaukaskatti. Þegar litið sé til tilgangs með 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993 verði vart annað séð en að ákvæðið gildi um viðskipti kæranda og Byggðastofnunar þrátt fyrir að fasteign kæranda hafi ekki formlega verið seld nauðungarsölu.

Til stuðnings varakröfu um niðurfellingu álags er vísað til 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að áhvílandi leiðréttingarskylda virðisaukaskatts félli niður við það að veðhafi leysti eignina til sín. Enginn ásetningur hafi verið hjá kæranda að komast hjá leiðréttingu innskatts.

IV.

Með bréfi, dags. 24. júní 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram kröfugerð í málinu. Ríkisskattstjóri tekur fram að samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, falli leiðréttingarskylda niður þegar eign sé seld nauðungarsölu eða ráðstafað samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991, um nauðungarsölu. Síðari hluti töluliðarins hafi öðlast gildi 22. október 2009, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 863/2009, og geti því aðeins komið til skoðunar hvort unnt sé að leggja yfirtöku Byggðastofnunar á fasteigninni M að jöfnu við nauðungarsölu. Í skattframkvæmd hafi verið litið svo á að með nauðungarsölu í þessum skilningi sé átt við ráðstöfun fasteignar samkvæmt lögum nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Óumdeilt sé að eigninni hafi ekki verið ráðstafað samkvæmt þeim lögum. Líta beri á 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1992 sem undanþáguákvæði og telji ríkisskattstjóri það af og frá að unnt sé að fallast á málatilbúnað kæranda. Ákveðnar lagareglur gildi um þau tilvik sem nefnd séu í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. og hefði framkvæmdavaldinu verið í lófa lagið að útvíkka ákvæðið enn frekar ef vilji hefði staðið til þess að færa aðilum meira sjálfdæmi um það hvenær leiðréttingarskyldan teljist niður fallin. Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 37/2009 er tekið fram í kröfugerð ríkisskattstjóra að í úrskurðinum hafi verið byggt á því að í kaupsamningi milli aðila kæmi fram að kaupandi yfirtæki að fullu leiðréttingarskyldu innskatts vegna fasteigna. Í tilviki kæranda liggi hins vegar alveg skýrt fyrir að ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993 teljist ekki vera uppfyllt. Jafnframt er kröfu kæranda um niðurfellingu álags mótmælt í kröfugerð ríkisskattstjóra. Ráða megi af skatt- og úrskurðaframkvæmd að álag verði helst fellt niður þegar um réttmætan ágreining sé að ræða eða þegar utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik hafi hamlað skilum í tíma. Almennt hafi ekki verið fallist á niðurfellingu álags vegna lögvillu gjaldanda. Sé þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. júní 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2013, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekað kröfur kæranda.

V.

Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun hækkaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilið september-október 2008 um 7.683.526 kr. vegna lækkunar innskatts, nánar tiltekið vegna leiðréttingar fengins innskatts vegna nýbyggingar fasteignarinnar M. Samkvæmt því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði ákvarðaði ríkisskattstjóri framangreinda leiðréttingarfjárhæð í samræmi við upplýsingar kæranda um frádrátt innskatts vegna umræddra framkvæmda. Tekið skal fram að gögn, sem ríkisskattstjóri vísaði til í þessu sambandi, eru ekki meðal gagna málsins fyrir yfirskattanefnd. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda álag á hækkun virðisaukaskatts samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að fjárhæð 768.353 kr. Forsendur ríkisskattstjóra fyrir þessari breytingu voru þær að kærandi hefði notið innskattsfrádráttar vegna nýbyggingar umræddrar fasteignar á árunum 2002, 2003 og 2004. Sala kæranda á fasteigninni til Byggðastofnunar hinn ... september 2008 hefði hins vegar haft í för með sér breytingu á forsendum fyrir frádrætti innskatts og bæri því að leiðrétta innskatt kæranda vegna skattskyldrar starfsemi félagsins samkvæmt tilgreindum ákvæðum 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, enda hefði kaupandi fasteignarinnar ekki yfirtekið leiðréttingarskyldu vegna eftirstöðva leiðréttingartímabils.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Fyrir þessari kröfu eru færð þau rök að í raun sé um að ræða sölu fasteignar gegn vilja kæranda þótt ekki hafi verið farið eftir formlegum skilyrðum laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Í ljósi þess að um þvingaða sölu hafi verið að ræða hafi kærandi og Byggðastofnun gengið út frá því að ekki væri þörf á yfirtöku leiðréttingarskyldu, enda félli ráðstöfunin undir 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Þá er gerð varakrafa um niðurfellingu álags á hækkun virðisaukaskatts. Í kærunni eru ekki gerðar athugasemdir við tölulegar niðurstöður ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 er fjármálaráðherra heimilt að setja reglur um leiðréttingu á frádrætti vegna innskatts þegar breyting verður á notkun varanlegra rekstrarfjármuna, þar á meðal fasteigna, sem hefur í för með sér breytingu á frádráttarrétti. Á þeim tíma sem málið varðar gat leiðréttingin tekið til allt að fimm ára frá því að fjármunanna var aflað, en varðandi fasteignir gat leiðréttingin þó tekið til allt að tíu ára. Frá og með 1. júlí 2006 gat leiðrétting vegna fasteigna þó tekið til allt að tuttugu ára, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 45/2006, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Í IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, sem sett hefur verið með stoð í 2. mgr. 16. gr., sbr. 49. gr. laga nr. 50/1988, er kveðið á um leiðréttingu innskatts af varanlegum rekstrarfjármunum. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar skal skattskyldur aðili leiðrétta (bakfæra) innskatt vegna skattskyldrar starfsemi sinnar verði breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts vegna öflunar tiltekinna varanlegra rekstrarfjármuna, þar á meðal fasteigna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar segir að það teljist „breyting á forsendum fyrir frádrætti á innskatti þegar skattaðili naut fulls frádráttarréttar eða frádráttar að hluta þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið, en eignin er síðar seld, leigð eða tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber enginn frádráttarréttur eða minni frádráttarréttur“. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. fellur leiðréttingarskylda niður við tilteknar aðstæður, þar á meðal þegar eign er seld nauðungarsölu eða ráðstafað samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sbr. 2. tölulið málsgreinarinnar. Í 14. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um leiðréttingartímabil og útreikning leiðréttingarfjárhæðar. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. skal leiðréttingarfjárhæð færð á innskattsreikning á því tímabili þegar leiðrétting skal eiga sér stað. Í 15. gr. reglugerðarinnar kemur fram að kaupandi fasteignar getur yfirtekið leiðréttingarskyldu vegna eftirstöðva tímabils samkvæmt 14. gr. að því leyti sem hann hefur rétt til frádráttar innskatts vegna viðkomandi eignar, þar á meðal þegar eignaryfirfærsla á fasteign, vélum eða öðrum rekstrarfjármunum stendur í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, og fellur þá leiðréttingarskylda seljanda niður að sama skapi. Tilkynna skal skattstjóra (nú ríkisskattstjóra) um yfirtöku leiðréttingarskyldu og skal tilkynning vera í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, sbr. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993.

Samkvæmt framansögðu verður að telja að sala skattskylds aðila á fasteignum eða lausafjármunum, sem hann hefur notað við skattskyldan rekstur sinn, valdi því að eignir þessar geti ekki eftir eignayfirfærsluna talist varða sölu hans á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. orðalag í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, enda verður að líta svo á að við sölu skattskylds aðila á eignum af því tagi sem að framan greinir verði breyting á notkun þeirra í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. nánar umfjöllun um hliðstætt sakarefni í úrskurði yfirskattanefndar nr. 396/2005 sem birtur er á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is). Út af fyrir sig er ekki dregið í efa af hálfu kæranda að með sölu félagsins á umræddri fasteign að M, sem félagið hafði notað við virðisaukaskattsskylda starfsemi sína, teljist hafa orðið breyting á notkun fasteignarinnar sem hafi í för með sér breytingu á frádráttarrétti kæranda samkvæmt þeim reglum sem raktar eru hér að framan. Hins vegar telur kærandi að líta megi svo á að skylda til leiðréttingar innskatts hafi fallið niður á grundvelli ákvæðisins í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Vísar kærandi til þess að um „þvingaða sölu“ á eigninni hafi verið að ræða sem jafna megi til nauðungarsölu í skilningi greinds ákvæðis.

Aðdragandi að umræddum eigendaskiptum á M er m.a. rakinn í bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 2012. Þar kemur fram að á árinu 2008 hafi eigið fé kæranda verið uppurið og stefnt í gjaldþrot félagsins. Hafi þá verið gengið í fjárhagslega endurskipulagningu á rekstri félagsins, m.a. með aðkomu Byggðastofnunar, sem hafi yfirtekið umrædda fasteign félagsins. Þess er getið í bréfinu að bæði hafi Byggðastofnun gert þá kröfu að hlutafé í kæranda yrði aukið samhliða yfirtöku stofnunarinnar á greindri fasteign og sumir hluthafar í kæranda gert það að skilyrði fyrir þátttöku í hlutafjáraukningu að Byggðastofnun yfirtæki eignina. Verður samkvæmt þessu ekki séð að afsal fasteignarinnar til Byggðastofnunar hafi verið með þeim hætti í óþökk kæranda sem byggt er á í kæru. Tekið skal fram að samkvæmt ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2008 man hagnaður af sölu eignarinnar 27.235.582 kr.

Ekki þykir fara á milli mála að með „nauðungarsölu“ í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993 er vísað til úrræðis samkvæmt lögum nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Auk nauðungarsölu tekur reglugerðarákvæðið eftir breytingu með 1. gr. reglugerðar nr. 863/2009 einnig til þess þegar eign er ráðstafað samkvæmt 4. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Breyting þessi var hins vegar ekki komin til sögu í september 2008. Umrætt ákvæði í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993 þykir bera að virða sem sérreglu þess efnis að það teljist ekki breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts þegar eign er seld nauðungarsölu þannig að gerðarþoli við nauðungarsölu, þ.e. eigandi eignar sem nauðungarsalan tekur til, sé ekki skyldur til að leiðrétta innskatt af því tilefni. Ljóst er að ekki fór fram nauðungarsala samkvæmt lögum nr. 90/1991 við þau eigendaskipti á M sem í málinu greinir. Þykir ekki unnt að túlka fyrrgreint ákvæði svo rúmt að það taki til viðskipta við þær aðstæður sem kærandi hefur gert grein fyrir. Samkvæmt því verður að hafna aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Lagaskilyrði voru til beitingar álags eftir ákvæðum 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 í máli þessu. Eftir öllum atvikum þykir rétt að taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til greina, sbr. heimild í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en gert grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 40.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda í máli þessu er hafnað. Álag fellur niður. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 40.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja